Mál nr. 12/2024-Álit
ÁLIT
KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA
í máli nr. 12/2024
Hundahald: Leyfi.
I. Málsmeðferð kærunefndar
Með álitsbeiðni, dags. 22. janúar 2024, beindi A í umboði eiganda íbúðarinnar B, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við Húsfélagið C, hér eftir nefnt gagnaðili.
Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 13. janúar 2024, og athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 14. febrúar 2024, lagðar fyrir nefndina.
Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 12. desember 2024.
II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Um er að ræða fjöleignarhúsið D í E. Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar í D en gagnaðili er húsfélagið.
Kærunefnd telur kröfur álitsbeiðanda vera:
I. Að viðurkennt verði að stjórn gagnaðila beri að sýna fram á tilskilin leyfi eigenda fyrir hundahaldi í húsinu.
II. Að viðurkennt verði að stjórninni beri að ganga á eftir því að þeir sem haldi hunda með ólögmætum hætti verði gert að fjarlægja þá.
Í álitsbeiðni segir að stjórn gagnaðila hafa látið undir höfuð leggjast að sækjast eftir lögbundnum leyfum hundaeigenda vegna hundahalds þeirra. Í húsinu séu þegar fjórir hundar í leyfisleysi og séu þeir álitsbeiðanda og fleirum til ama og geti leitt til heilsutjóns vegna ofnæmis. Þeim sé sleppt lausum utandyra og geri þarfir sínar á sameiginlegri lóð. Stjórn gagnaðila hafi hunsað ábendingar og áskoranir umboðsmanns álitsbeiðanda á Facebook síðu gagnaðila og ekki orðið við beiðni hans um umræðu og atkvæðagreiðslu um málið á húsfundi.
Gagnaðili kveður að búið sé að fylla út leyfisbeiðni fyrir hundunum í húsi C þar sem íbúð álitsbeiðanda sé. Leyfisbeiðnin hafi tafist þar sem erfitt hafi verið að ná í alla íbúa/eigendur sökum þess að ekki hafi verið flutt inn í allar íbúðirnar og einhverjar þeirrar séu leiguíbúðir. Hluti af hundaeigendum hafi verið fluttir inn fyrstir og meðal annars keypt íbúðirnar með fyrirvara um að hundar væru leyfðir í húsinu. Dýr séu í um fjórðung íbúða. Þá ráði stjórn gagnaðila hvaða mál séu tekin fyrir á húsfundum með þeirri undantekningu að 25% félagsmanna geti krafist þess að sérstakur húsfundur verði haldinn um ákveðið málefni. Húsfundur hafi verið haldinn í janúar um málefni sem stjórnin hafi talið mikilvægust og önnur mál verið látin standa út af borðinu til að taka fyrir síðar.
III. Forsendur
Á grundvelli 3. mgr. 33. gr. e. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús skal eigandi afla samþykkis annarra eigenda og fá leyfi fyrir dýri samkvæmt reglum viðkomandi sveitarfélags, þar sem það á við, áður en dýrið kemur í húsið. Eigandi skal láta húsfélagi í té ljósrit af leyfinu.
Með hliðsjón af framangreindu ákvæði er það á ábyrgð eiganda dýra að afla tilskilinna leyfa og í ljósi þess að það er ábyrgð eigenda að láta húsfélagi í té ljósrit af leyfum verður fallist á kröfu álitsbeiðanda í lið I að því leyti að stjórn gagnaðila fyrir hönd húsfélagsins beri að upplýsa hvaða tilkynningar það hafi móttekið hér um, sbr. 6. mgr. 69. gr. laga um fjöleignarhús.
Í 4. mgr. 59. gr. laga um fjöleignarhús er kveðið á um að vilji eigandi fá mál tekið fyrir og til atkvæðagreiðslu á aðalfundi skuli hann greina stjórn frá því skriflega og/eða rafrænt með þeim fyrirvara að unnt sé að geta þeirra í fundarboði. Vegna þess sem kemur fram í málatilbúnaði aðila bendir kærunefnd á að á grundvelli þessa ákvæðis ber stjórn gagnaðila að verða við beiðni eiganda um að dýrahald tiltekinna eigenda í fjöleignarhúsinu verði tekið til umfjöllunar og eftir atvikum atkvæðagreiðslu á aðalfundi. Það fellur ekki undir hlutverk stjórnar að ganga á eftir því að þeir sem haldi hunda með ólögmætum hætti verði gert að fjarlægja þá líkt og álitsbeiðandi gerir kröfu um. Brjóti eigandi ítrekað gegn reglum um dýrahald í húsinu getur húsfélag aftur á móti tekið ákvörðun á húsfundi um að eigandanum verði gert skylt að fjarlægja dýr úr húsinu, sbr. m.a. 4. mgr. 33. gr. g. Um slíka ákvarðanatöku gildir D liður 41. gr. laga um fjöleignarhús. Þar til húsfundur hefur tekið slíka ákvörðun og falið stjórn að framkvæma hana hvílir engin frumkvæðisskylda á henni. Þess utan liggja ekki fyrir gögn í málinu sem staðfesta það að ólögmætt hundahald eigi sér stað í húsinu. Að framangreindu virtu er kröfu álitsbeiðanda í lið II hafnað.
Álit nefndarinnar hindrar ekki aðila í að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti, sbr. 6. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús.
IV. Niðurstaða
Það er álit kærunefndar að gagnaðila beri að veita álitsbeiðanda upplýsingar um hvaða eigendur hafi látið gagnaðila í té afrit af leyfi sveitarfélagsins fyrir hundi viðkomandi.
Það er álit kærunefndar að hafna beri kröfum álitsbeiðanda að öðru leyti.
Reykjavík, 12. desember 2024
Auður Björg Jónsdóttir
Sigurlaug Helga Pétursdóttir Eyþór Rafn Þórhallsson