Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir%20um%20sj%C3%A1var%C3%BAtveg%20og%20fiskeldi

Ákvörðun Byggðastofnunar um að hafna umsókn um úthlutun aflamarks samkvæmt 10. gr. a laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru sem barst ráðuneytinu með bréfi 8. apríl 2020, frá [A], lögmanni f.h. [B] ehf., þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun stjórnar Byggðastofnunar, dags. 17. desember 2019, um að  hafna umsókn kæranda um úthlutun aflamarks á Bakkafirði í Langanesbyggð samkvæmt 10. gr. a í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Stjórnsýslukæran er byggð á 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en rökstuðningur stjórnar Byggðastofnunar barst kæranda 10. janúar 2020 og hófst kærufrestur þá, sbr. 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kröfur kæranda

Kærandi gerir tilteknar kröfur en í kröfugerð segir að þess sé krafist að ákvörðun stjórnar Byggðastofnunar, dags. 17. desember 2019, um úthlutun aflamarks á Bakkafirði, verði felld úr gildi jafnframt sem að stofnuninni verði gert að ganga til samninga við kæranda, [B] ehf. um úthlutun aflamarks (byggðakvóta) á Bakkafirði.

Málsatvik

Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 6. september 2019, sem birt var í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 7. september 2019, auglýsti stjórn Byggðastofnunar eftir umsóknum um úthlutun aflaheimilda, allt að 150 þorskígildistonnum, á Bakkafirði í Langanesbyggð samkvæmt 10. gr. a í lögum nr. 116/2006 en einnig var auglýsingin birt á heimasíðu Byggðastofnunar. Umsóknarfrestur var til kl. 12:00 fimmtudaginn 26. september 2019.

Kærandi sótti um úthlutun aflaheimilda með umsókn til Byggðastofnunar, dags. 26. september 2019. Í umsókninni kemur fram m.a. að gengið sé út frá því að kærandi framleiði flattan saltfisk úr þorski og ufsa, hausar verði fésaðir í salt. Ýsa sé flökuð og lausfryst. Þorskhrogn séu lausfryst á vorin. Grásleppuhrogn séu söltuð hjá félaginu. Kærandi hafi fengið til samstarfs fiskvinnslu á staðnum í framleiðslu léttsaltaðra þorskflaka fyrir markaði í suður Evrópu. Samstarfið verði í framleiðslu og afurðasölu frá kæranda. Fiskvinnslan sé meðeigandi að spænsku framleiðslu- og sölufélagi sem staðsett sé í Barcelona og áframvinni íslenskan fisk til sölu og dreifingar í veitingahús og stórmarkaði á Spáni. Fiskvinnslan muni einnig koma að verkefninu með öflun hráefnis af viðskiptabátum félagsins sem starfað hafi með félaginu um árabil. Leitað verði eftir frekara samstarfi við eigendur báta innan sveitarfélagsins og/eða utan þess og verði þeim boðið til samstarfs á þeim grundvelli og greitt verði verð fyrir afla sem miðist við hráefnisverð Verðlagsstofu skiptaverðs auk mótframlags aflaheimilda sem komi frá verkefninu. Þannig muni samstarf ganga út frá að hægt verði að uppfylla verkefnið og um leið að til verði öflugri vinnustaður. Í dag starfi hjá kæranda um 9 manns, 7 karlar og 2 konur, einnig sé 1,5 staða í stjórnun og bókhaldi. Með auknum veiðiheimildum verði að bæta við starfsfólki til starfa í vinnslunni. Gengið sé út frá því að ráðið verði í 6 til 7 nýjar stöður í vinnslu hjá félaginu. Á sumrin sé ætlunin að ráða skólafólk í vinnu eftir því sem þurfi. Félagið hafi nýtt eldri úthlutun til að koma á auknum stöðugleika í rekstrinum þannig að horfa megi til framtíðar. Úthlutun til verkefnisins muni auka enn frekar starfsöryggi starfsfólks hjá félaginu. Félagið hafi vaxið mikið síðastliðin 4 ár eða sem nemi um 64% í afurðum og hafi fjárfest umtalsvert í vélum og tækjum til að skapa ásættanlega afkomu. Verkefnið hafi stuðlað að festu í hráefnisöflun og betri nýtingu á tækjum og búnaði sem ýti undir meiri hagkvæmni sem hafi verið nauðsynlegar aðgerðir til að draga úr óvissu um framtíðina. Við lok verkefnisins sé gengið út frá því að þjónusta í byggðarlaginu, skóli, leikskóli og þjónustumiðstöð með vísi að verslun verði eins og lagt hafi verið upp með. Ætla megi að þjónusta við ferðamenn eða aðra atvinnustarfsemi eflist með verkefnum þessum. Verkefnið hafi þegar haft jákvæð áhrif á samfélagið á Bakkafirði en þar sé atvinnuöryggi og afkoma fólks tryggð. Kærandi starfræki skrifstofu þar sem allt bókhald, laun og útgáfa reikninga fari fram. Allir iðnaðarmenn sem kærandi versli við komi frá Vopnafirði eða Þórshöfn. Endurskoðun ársreiknings sé á Egilsstöðum. Félagið leiti leiða til að versla við aðila í nærumhverfi til að tryggja þátttöku aðila í hinu brothætta samfélagi. Félagið hafi starfað í útgerð á Bakkafirði frá árinu 1981 og í fiskvinnslu frá 1999 og hafi verið í góðu samstarfi um úthlutun sértæka byggðakvótans.

Einnig bárust Byggðastofnun umsóknir frá 5 öðrum aðilum um verkefnið.

Stjórn Byggðastofnunar samþykkti þann 17. desember 2019 að hafna umsókn kæranda en að ganga til samninga við annan tiltekinn aðila og samstarfsaðila og var ákvörðunin tilkynnt kæranda með tölvubréfi, dags. sama dag. Þar segir m.a. að á fundi stjórnar hafi verið ákveðið að ganga til samninga um aflamark Byggðastofnunar á Bakkafirði við umrædda umsækjendur. Það sé mat Byggðastofnunar að þannig nýtist aflamarkið best og stuðli að mestri atvinnuuppbyggingu og stöðugleika á Bakkafirði og vinnusóknarsvæðinu í heild. Einnig kom þar fram að samkvæmt 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé umsækjanda heimilt að krefjast þess að Byggðastofnun rökstyðji ákvörðun sína. Beiðni um rökstuðning fyrir ákvörðun skuli bera fram innan 14 daga frá því að aðila var tilkynnt ákvörðunin og skuli Byggðastofnun svara henni innan 14 daga frá því að hún barst. Þá kom þar fram að samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 væri umsækjanda heimilt að kæra ákvörðun Byggðastofnunar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Kærufrestur sé þrír mánuðir eftir að ákvörðunin hafi verið kynnt umsækjanda eða þrír mánuðir frá því að rökstuðningur samkvæmt 21. gr. hafi verið tilkynntur honum, hafi slíks rökstuðnings verið krafist.

Með tölvubréfi, dags. 9. janúar 2020, óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni.

Með bréfi, dags. 10. janúar 2020, svaraði Byggðastofnun beiðni kæranda um rökstuðning. Þar sagði m.a. að auglýst hafi verið eftir umsóknum um aflamark Byggðastofnunar á Bakkafirði í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 7. september 2019 og á heimasíðu stofnunarinnar 6. september 2019. Alls hafi borist 6 umsóknir um aflamarkið. Eftir matsferli innan Byggðastofnunar hafi tillaga um afgreiðslu umsókna verið send Langanesbyggð til umsagnar og ákvörðun verið tekin á fundi stjórnar Byggðastofnunar 17. desember 2019 og kynnt umsækjendum með tölvubréfi sama dag. Aflamark Byggðastofnunar byggi á 10. gr. a laga nr. 116/2006 og reglugerð nr. 643/2016. Í lagagreininni segi m.a. að Byggðastofnun hafi til ráðstöfunar aflaheimildir sem ráðherra ákvarðar samkvæmt heimild í 5. mgr. 8. gr. laganna til að styðja byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Byggðastofnun geti gert samninga við fiskvinnslur eða útgerðarfélög til allt að 6 ára í senn. Byggðastofnun skuli hafa samráð við sveitarstjórn viðkomandi sveitarfélags áður en samningur sé undirritaður. Í 2. gr. reglugerðar nr. 643/2016 komi fram að við mat umsókna frá einstökum byggðarlögum skuli byggt á eftirfarandi atriðum: Trúverðugum áformum um útgerð, vinnslu sjávarafurða eða aðra starfsemi. Fjölda heilsársstarfa fyrir karla og konur sem skapast eða verður viðhaldið. Sem bestri nýtingu þeirra aflaheimilda sem fyrir eru í byggðarlaginu. Öflugri starfsemi til lengri tíma sem dregur sem mest úr óvissu um framtíðina. Jákvæðum áhrifum á atvinnulíf og samfélag. Traustri rekstrarsögu forsvarsmanna umsækjenda. Að umsóknarfresti liðnum hafi umsækjendum verið boðið að skýra umsóknir sínar nánar eftir því sem ástæða hafi verið til og þeir óskuðu. Stjórn Byggðastofnunar hafi tekið ákvörðun á fundi sínum þann 17. desember 2019, eftir að Langanesbyggð hafði fjallað um málið eins og fyrir sé mælt um í 6. gr. reglugerðarinnar. Byggðastofnun hafi metið allar umsóknirnar út frá áðurnefndum mælikvörðum þar sem styrkleikar og veikleikar allra umsækjenda í hverjum þætti hafi verið metnir sérstaklega og niðurstaða matsins ráðið tillögu til stjórnar stofnunarinnar. Það hafi verið mat Byggðastofnunar að umsókn tiltekins aðila og samstarfsaðila væri best til þess fallin að ná fram þeim markmiðum sem að hafi verið stefnt með úthlutuninni. Sú umsókn væri trúverðugust og líklegust til að skila flestum heilsárstörfum í byggðarlaginu Bakkafirði. Verkefnið styrki útgerð sem fyrir sé á staðnum og auki líkur á aukinni starfsemi, m.a. í fiskvinnsluhúsnæði á staðnum. Einnig hafi verið litið til traustrar rekstrarsögu umsækjenda og fyrirsvarsmanna þeirra og þá ekki síst reynslu af rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi um árabil. Það hafi verið eindregin niðurstaða stjórnar Byggðastofnunar að ganga til samninga við tiltekið félag og samstarfsaðila þess. Það sé mat Byggðastofnunar að þannig nýtist aflamarkið best og stuðli að mestri atvinnuuppbyggingu og stöðugleika á Bakkafirði. Þá kom þar fram að ákvörðunina megi kæra til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og að kærufrestur væri þrír mánuðir frá dagsetningu bréfsins skv. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Með stjórnsýslukæru sem barst ráðuneytinu 8. apríl 2020, kærði [A], lögmaður f.h. [B] ehf. til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins ákvörðun stjórnar Byggðastofnunar, dags. 17. desember 2019, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun aflamarks á Bakkafirði í Langanesbyggð samkvæmt 10. gr. a í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

Í stjórnsýslukærunni segir m.a. að kærandi telji að það félag sem fékk úthlutun aflamarks og samstarfsaðilar þess hafi ekki uppfyllt skilyrði samkvæmt 1.-6. lið í 2. gr. reglugerðar nr. 643/2016, jafnframt sem kærandi telji sig standa framar á öllum sviðum þáttanna. Lögvarðir hagsmunir kæranda séu þeir að félagið hafi verið einn af umsækjendum um byggðakvóta á Bakkafirði sem fékk ekki úthlutunina en félagið sé með stærstu fiskvinnsluna á staðnum og geri þaðan út tiltekinn bát og séu því miklir hagsmunir í húfi fyrir áframhaldandi rekstur. Einnig sé atvinna fiskvinnslufólksins á vegum félagsins á Bakkafirði í hættu þar sem félagið verði af þeim aflaheimildum og tekjum sem hafi verið í boði samkvæmt verkefninu. Í byrjun desember 2019 hafi [C] ehf. keypt allt hlutafé í kæranda þar sem hafi verið breytt um stjórn og eigandi félagsins hafi komið inn í stjórnina í stað fyrri eigenda. Ástæða kaupanna hafi m.a. verið sú að styrkja starfsemi félagsins og atvinnustarfsemina á Bakkafirði og hleypa lífi í bæjarfélagið. Höfuðstöðvar félagsins og stærstur hluti starfseminnar sé á Húsavík, þar sem sé bátaútgerð, saltfiskvinnsla og fiskþurrkun. Félagið líti á hlutverk sitt í samfélaginu út frá víðum grunni, ekki aðeins sem vinnuveitanda og mikilvægan hlekk í atvinnulífi, heldur einnig sem hluta af samfélagi á breiðari grundvelli. Fyrirtækið taki þátt í ýmsum verkefnum í heimabyggð, svo sem íþrótta- og æskulýðsstarfi og fleiri samfélagsbætandi verkefnum. Fyrirtækið hafi m.a. hlotið nafnbótina „Framúrskarandi fyrirtæki“ hjá Creditinfo sem eingöngu fyrirtæki hljóti sem hafi staðist kröfur styrk- og stöðugleikamats Creditinfo. Þá hafi fyrirtækið fengið tækifæri á vegum Byggðastofnunar til uppbyggingar á fiskvinnslu og annarri starfsemi á Raufarhöfn sem hafi tekist framúrskarandi vel og sé eitt best heppnaða verkefni Byggðastofnunar. Af því hafi leitt að forsvarsmenn félagsins hafi talið að Byggðastofnun hefði bæði reynslu af samstarfi við félagið í gegnum verkefnið á Raufarhöfn undanfarin ár en einhver önnur sjónarmið virðist hafa ráðið ferðinni. Kærandi telji að umsókn sín hafi betur uppfyllt þau skilyrði sem sett hafi verið auk þess sem félagið hafi áformað að leggja fram talsverðar aflaheimildir og hafi því Byggðastofnun átt að ganga til samstarfs við kæranda en ekki annan aðila og samstarfsaðila. Um sé að ræða stöndugt fyrirtæki kæranda sem hafi verið með gott bakland í eiganda sínum á Húsavík Ekki sé æskilegt fyrir atvinnulíf á Bakkafirði að dreifa kröftum til verkefna Byggðastofnunar á marga smáa aðila. Einnig búi eigandi félagsins yfir aflaheimildum sem geri félaginu auðvelt að standa við skuldbindingar tengdar núverandi verkefni Byggðastofnunar á Bakkafirði. Kærandi telji að umsókn hans sé trúverðugri en umsókn þess aðila sem fékk úthlutun aflamarksins og samstarfsaðila. Í umsóknum kæranda og þess aðila sem fékk úthlutun aflamarksins hafi í báðum tilvikum verið sótt um allt að 150 þorskígildistonn. Einnig hafi komið fram í umsóknunum að umsækjendur myndu leggja fram á hverju ári 150 þorskígildistonn sem mótframlag inn í verkefnið. Bátur kæranda sem gerður sé út frá Bakkafirði hafi fengið úthlutað 151.983 þorskígildistonnum í aflamark fiskveiðiárið 2019/2020 en auk þess hafi félagið stuðning aflaheimilda frá eiganda sínum. Umræddur aðili sem fékk úthlutað aflamarki búi ekki yfir aflaheimildum sem mótframlagi þar sem félagið eigi ekki bát svo vitað sé. Einn samstarfsaðili félagsins hafi ekki yfir að ráða aflamarki sem mótframlagi og eigi ekki bát svo vitað sé. Þriðji samstarfsaðili þess eigi bát sem hafi ekki fengið úthlutað aflamarki fiskveiðiárið 2019/2020. Eigandi félagsins sé tiltekinn aðili en eiginkona hans sé stjórnarmaður félagsins. Hún sé skráð ásamt tilteknum öðrum aðila sem eigandi annars félags sem eigi tiltekinn bát sem engum aflaheimildum hafi verið úthlutað til fiskveiðiárið 2019/2020 samkvæmt yfirliti Fiskistofu. Fjórði samstarfsaðili félagsins eigi tiltekinn bát sem engar aflaheimildir séu skráðar á. Fimmti samstarfsaðilinn eigi tiltekna 2 báta. Við upphaf fiskveiðiársins 2019/2020 hafi skráðar aflaheimildir á öðrum bátanna verið minni en 30.000 þorskígildiskíló en engar á hinum bátnum. Umræddur aðili og samstarfsaðilar hafi samtals yfir að ráða tæplega 30 tonnum sem mótframlagi við 150 tonna verkefni Byggðastofnunar á ári. Þá komi ekki fram í umsókn þessara aðila hvernig þeir ætli að útvega 150 þorskígildistonn sem mótframlag og virðist Byggðastofnun ekki hafa uppfyllt rannsóknarskyldu sína að þessu leyti samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ennfremur telji kærandi að samanburður umsókna hefði átt að vera kæranda í hag samkvæmt skilyrðum auglýsingar um aflamarkið og reglugerðar nr. 643/2016. Hjá umræddum aðila og samstarfsaðilum komi fram að útgerðin sé með 6 báta sem séu þó ekki tilgreindir en einungis einn af þeim hafi fengið úthlutað aflamarki fiskveiðiárið 2019/2020. Á umsóknareyðublaði segi að bátarnir komi til með að landa á Bakkafirði sem virðist þó ekki vera alveg víst. Þá sé ekki að sjá hvernig umræddur aðili og samstarfsaðilar fari í samstarf við fleiri útgerðaraðila og fyrirtæki á staðnum þar sem þau séu ekki fyrir hendi. Að öðru leyti sé mjög óljóst hvernig lýsing á áætlaðri vinnslu þessara aðila verði og hvernig samstarfinu verði háttað en aðilarnir séu 5 og 2 af þeim ekki skráðir fyrir bát eða aflaheimildum. Hins vegar komi skýrlega fram hjá kæranda hvað hann geri og framleiði og að félagið hafi einnig fengið til samstarfs við sig [C] ehf. á Húsavík þar sem séu miklir möguleikar í sölu fiskafurða. Þá komi þar fram að [C] ehf. muni einnig koma að verkefninu með öflun hráefnis af viðskiptabátum sínum og að leitað verði eftir frekara samstarfi við eigendur báta innan og utan sveitarfélagsins. Samkvæmt framangreindu sé mikill munur á verklýsingu þessa liðar milli aðila og ekki saman að jafna þar sem verklýsing hjá þeim sem fékk úthlutun aflamarksins segi ekki neitt um það sem spurt sé um og sé ógagnsæ. Séu áform umrædds aðila og félags um útgerð, vinnslu sjávarafurða eða aðra starfsemi því ótrúverðug en áform kæranda að sama skapi trúverðug. Umfjöllun um störf sem gert sé ráð fyrir að skapist/verði viðhaldið og ef um ný störf sé að ræða séu rétt 3 línur í umsókn umrædds aðila þar sem fram komi að ef til úthlutunar komi muni félagið viðhalda þeim störfum sem fyrir hendi séu sem séu um 10 störf á ársgrundvelli án þess að þau séu nánar tilgreind. Kærandi dragi í efa að þessi fjöldi starfa sé fyrir hendi hjá umræddum aðila og samstarfsaðilum en kærandi sé með mun stærri fiskvinnslu þar sem starfi 9 manns við fiskvinnslu, 7 karlar og 2 konur. Í umsókn umrædds aðila komi ekki fram kynjahlutföll og virðast tölur starfsmanna í fiskvinnslunni vera á reiki auk þess sem óljóst sé hver styrking hinna afleiddu starfa yrðu. Sé því þessi liður í umsókn umrædds aðila ótrúverðugur. Umfjöllun umrædds aðila um hvernig úthlutun verkefnisins geti stuðlað að uppbyggingu og stöðugleika í sjávarútvegi á staðnum á verkefnistímanum og hvernig verkefnið geti dregið úr óvissu um framtíðina, hvernig umsækjandi sjái fyrir sér stöðuna eftir að verkefnistíma lýkur og hverjar séu líkur á sjálfbærni verkefnisins sé fátækleg og yfirborðskennd og segi ekki neitt nema að úthlutunin muni styrkja þá útgerð sem fyrir sé og fjölbreytta nýtingu húsakosts. Um annað sé lítið fjallað nema að umsækjendur sjái fyrir sér bjartari framtíð og telji sjálfbærni verkefnisins nokkuð tryggða. Hjá kæranda komi hins vegar fram að fyrra verkefni Byggðastofnunar á staðnum sem hafi fallið í hlut kæranda hafi gjörbreytt rekstri kæranda og úthlutun nú til verkefnisins muni auka enn frekar starfsöryggi starfsfólks hjá félaginu. Jafnframt komi fram að félagið hafi vaxið mikið síðustu ár og fjárfest í tækjum og búnaði sem ýti undir meiri hagkvæmni og ásættanlega afkomu. Þá sé hjá kæranda farið yfir hvernig staðan yrði við lok verkefnisins. Sé því langt í frá að í umsókn þess aðila sem fékk úthlutun sé gerð grein fyrir hversu öflug starfsemin geti orðið til lengri tíma sem dragi úr óvissu um framtíðina sem varði m.a. hráefnisöflun, kaup á tækjum og búnaði, hagkvæmni og fleira og hvernig úthlutunin geti haft jákvæð áhrif á atvinnulíf og samfélagið á staðnum. Það hafi kærandi hafi hins vegar gert og þar með uppfyllt skilyrði reglugerðar nr. 643/2016 að þessu leyti. Við samanburð umsókna að þessu leyti sé stór munur á sem sýni m.a. að sá aðili sem fékk úthlutun aflamarksins og samstarfsaðilar hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar voru og jafnframt ekki uppfyllt kröfu um lýsingu á traustri rekstrarsögu forsvarsmanna umsækjenda en sumir þeirra hafi selt allan kvóta sinn frá Bakkafirði. Hins vegar hafi umsókn kæranda uppfyllt að öllu leyti kröfur samkvæmt auglýsingu um úthlutun aflamarksins. Rökstuðningur Byggðastofnunar fyrir úthlutun í bréfi til kæranda, dags. 10. janúar 2020, fái ekki staðist, þar sem hann byggi á óútskýrðu mati á því að umsókn þess aðila sem fékk úthlutun og samstarfsaðila sé best til þess fallin að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt með úthlutuninni. Í ákvörðun Byggðastofnunar komi fram að umsókn þess aðila sem fékk úthlutun og samstarfsaðila sé trúverðugust og líklegust til að skila flestum heilsársstörfum í byggðarlaginu Bakkafirði. Sé þessi rökstuðningur fjarri öllu sanni m.a. með vísan til þess hvernig staðan sé í dag á Bakkafirði. Umsókn kæranda sé hins vegar mun trúverðugri þar sem skilgreint sé og lýst skilmerkilega öllu því sem óskað sé eftir í umsókninni. Einnig sé sá rökstuðningur Byggðastofnunar haldlaus að verkefnið muni styrkja þær útgerðir sem fyrir séu á staðnum en kærandi sé með fiskvinnsluhúsnæði á staðnum. Það liggi ljóst fyrir að kærandi sé miklu betur í stakk búinn til að takast á við aukna úthlutun þar sem hann hafi þegar fjárfest í tækjum og búnaði með hagkvæmni í huga en þetta skipti miklu máli. Þá byggi Byggðastofnun á því að hafa litið til traustrar rekstrarsögu umsækjenda og fyrirsvarsmanna þeirra og þá ekki síst reynslu af rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi um árabil. Þessi lýsing eigi ekki síður við um kæranda og fyrirsvarsmenn félagsins, bæði nýjan forsvarsmann eiganda kæranda á Húsavík, þar sem um 100 manns starfi og séu samlegðaráhrifin því mikil og góð en auk þess sé félagið sterkt fjárhagslega með góða rekstrarsögu. Með vísan til framangreinds telji kærandi að Byggðastofnun hafi mismunað kæranda við afgreiðslu umsóknar félagsins, að rökstuðningur stofnunarinnar hafi litla sem enga stoð í raunveruleikanum um mun á þessum tveimur umsækjendum, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. og jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að ákvörðunin sé ólögmæt og byggð á ómálefnalegum sjónarmiðum.

Eftirtalin gögn fylgdu stjórnsýslukærunni: 1) Auglýsing um úthlutun. 2) Umsókn kæranda. 3) Umsókn aðila sem fékk úthlutað aflamarkinu og samstarfsaðila. 4) Bréf Byggðastofnunar, dags. 17. desember 2019, um úthlutun fyrir Bakkafjörð. 5) Rökstuðningur ákvörðunar Byggðastofnunar, dags. 10. janúar 2020. 6) Tölvupóstsamskipti. 7) Yfirlit Fiskistofu vegna 6 tiltekinna báta. 9) Vottorð Hlutafélagaskrár vegna tiltekins félags. 10) Vottorð Hlutafélagaskrár vegna kæranda.11) Vottorð Hlutafélagaskrár vegna [C] ehf. 12) Hlutahafafundur í kæranda. 13) Tilkynningar um breytingu á stjórn kæranda.

Með tölvubréfi, dags. 4. maí 2020, óskaði ráðuneytið eftir umsögn stjórnar Byggðastofnunar um stjórnsýslukæruna, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem stjórn Byggðastofnunar kynni að hafa um málið.

Með bréfi, dags. 11. maí 2020, barst ráðuneytinu umsögn stjórnar Byggðastofnunar. Þar segir m.a. að aflamarki Byggðastofnunar hafi verið úthlutað á grundvelli 10. gr. a laga nr. 116/2006 og reglugerðar nr. 643/2016, með síðari breytingum. Alls hafi borist 6 umsóknir um 150 tonna aflamark vegna Bakkafjarðar sem auglýst hafi verið 6. september 2019. Að loknu umsóknarferli hafi verið haft samband við alla umsækjendur og þeim boðið að koma að viðbótarupplýsingum ef þeir álitu það nauðsynlegt og skýra einstök atriði umsókna sinna betur. Málið hafi þannig verið rannsakað vandlega og umsækjendum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og upplýsingum fram á síðasta dag. Sjónarmiðum um að skilyrði 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi ekki verið uppfyllt sé hafnað. Aflamarksnefnd Byggðastofnunar hafi tekið málið fyrir á fundi sínum 14. október 2019 og gert tillögu til stjórnar um að ganga til samninga við umræddan aðila og samstarfsaðila. Tillagan hafi verið send sveitarstjórn Langanesbyggðar til umsagnar líkt og gert sé ráð fyrir í reglugerð nr. 643/2016 með bréfi, dags. 23. október 2019. Jákvæð umsögn sveitarfélagsins hafi verið samþykkt á fundi sveitarstjórnar 21. nóvember 2019 og send Byggðastofnun með tölvubréfi, dags. 4. desember sama ár. Tillaga aflamarksnefndar hafi verið staðfest á fundi stjórnar Byggðastofnunar 17. desember 2019. Stjórn Byggðastofnunar hafi metið það svo að kærandi og aðrir umsækjendur væru hæfir til að veiða og vinna það aflamark sem laust var til umsóknar en að það hafi hefði mest áhrif til aukinnar atvinnuuppbyggingar á Bakkafirði að úthluta því til umrædds aðila og samstarfsaðila sem séu allir útgerðaraðilar og myndu landa á Bakkafirði. Með þessu yrði fleiri traustum stoðum skotið undir atvinnulíf í þorpinu og það eflt til framtíðar og reynslan sýni að það hafi jákvæð áhrif á byggðafestu í byggðarlagi. Í umsóknarferlinu hafi ekki komið fram upplýsingar um kaup [C] ehf. á kæranda, þrátt fyrir að umsækjendum hafi öllum verið gefinn kostur á að koma að athugasemdum og upplýsingum varðandi umsókn sína í umsóknarferlinu. [C] ehf. hafi verið tilgreint sem samstarfsaðili í umsókn kæranda en ekki sem framtíðareigandi félagsins og áform um sameiningu til aukinnar vinnslu á Bakkafirði voru ekki ljós af umsókn. Stjórn Byggðastofnunar hafi vitað af kaupunum, sem hafi gerst eftir fund aflamarksnefndar stofnunarinnar en fyrir stjórnarfund, en upplýsingar um það hafi ekki komið frá kæranda sjálfum né samstarfsaðila félagsins og kærandi hafi ekki séð ástæðu til að upplýsa Byggðastofnun um breyttar áherslur í rekstri sínum vegna breytts eignarhalds. Kærandi sé ásamt tilteknum aðila og Byggðastofnun aðili að samningi um aukna byggðafestu á Bakkafirði, dags. 31. ágúst 2018, um nýtingu 250 þorskígildistonna af aflamarki Byggðastofnunar. Samkvæmt samningnum hafi samningsaðilar skuldbundið sig til þess að vinna að minnsta kosti 480 tonn af bolfiski ár hvert á staðnum, auk grásleppu og þorskhrogna. Það hafi ekki gengið eftir, unnin hafi verið 366 tonn og sú staðreynd að kærandi hafi ekki náð að vinna upp í samning sem hann sé aðili að hafi óneitanlega einnig haft áhrif á mat stofnunarinnar á því að úthluta félaginu ekki auknu aflamarki með hinni kærðu ákvörðun. Í kæru séu færð rök fyrir því að mat stjórnar Byggðastofnunar hefði átt að vera með öðrum hætti og hefði átt að leiða til annarrar niðurstöðu en raunin varð. Byggðastofnun hafi byggt mat sitt á umsóknum á þeim upplýsingum sem voru fyrirliggjandi við töku ákvörðunar og samkvæmt þeim hafi það verið hagstæðast fyrir uppbyggingu byggðar og atvinnulífs á Bakkafirði að ganga til samninga við umræddan aðila og samstarfsaðila og ekki verði séð að því mati hafi verið hnekkt. Úthlutun samkvæmt samningi um nýtingu aflamarksins hafi þegar farið fram og eftir nýafstaðna grásleppuvertíð sé atvinnulíf í byggðarlaginu í blóma og vanti fólk á staðinn til vinnu. Ekki verði annað séð en að markmið um atvinnuuppbyggingu á Bakkafirði séu að ganga eftir.

Eftirtalin gögn fylgdu umsögn Byggðastofnunar, dags. 11. maí 2020: 1) Samningur um aukna byggðafestu á Bakkafirði. 2) Fundargerð stjórnar Byggðastofnunar, dags. 17. desember 2019. 3) Fundargerð aflamarksnefndar Byggðastofnunar, dags. 4. október 2019. 4) Tölvubréf frá sveitarstjóra Langanesbyggðar, dags. 4. desember 2019. 5) Tölvubréf frá kæranda, dags. 16. september 2019. 6) Svör við fyrirspurnum Byggðastofnunar, dags. 16. september 2019.

Með tölvubréfi, dags. 25. maí 2020, sendi ráðuneytið [A], lögmanni f.h. [B] ehf. ljósrit af umsögn Byggðastofnunar, dags. 11. maí 2020 og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir við umsögnina og senda ráðuneytinu frekari gögn.

Með bréfi, dags. 26. júní 2020, bárust ráðuneytinu athugasemdir frá [A], lögmanni f.h. [B] ehf. Þar kemur fram að kærandi hafni því að stjórn Byggðastofnunar hafi uppfyllt rannsóknarskyldu sína í málinu. Af umsögn Byggðastofnunar verði ráðið að engar frekari upplýsingar hafi komið frá þeim sem fengu úthlutun en í umsókn þeirra hafi margt verið óljóst eins og fram komi í stjórnsýslukæru og ógagnsæið mikið jafnframt sem Byggðastofnun sjálf hafi ekki aflað upplýsinga um aðila, m.a. ekki um að einungis einn af þeim aðilum sem upphaflega sóttu um eigi bát með aflaheimildum. Tillaga aflamarksnefndar Byggðastofnunar um að ganga til samninga við umræddan aðila og samstarfsaðila hafi verið staðfest á fundi stjórnar Byggðastofnunar 17. desember 2019. Stjórn Byggðastofnunar hafi metið það svo að kærandi og aðrir umsækjendur væru hæfir til að veiða og vinna það aflamark sem laust hafi verið til umsóknar en að það hefði mest áhrif til aukinnar atvinnuuppbyggingar á Bakkafirði að úthluta því til tiltekins aðila og samstarfsaðila sem væru allir útgerðaraðilar og myndu landa á Bakkafirði en 3 af þeim 7 samstarfsaðilum sem sóttu um hafi ekki átt báta, aðrir hafi átt báta með engum aflaheimildum og einn samstarfsaðili hafi átt bát með aflaheimildum þannig að frekari rannsókn hefði átt að fara fram. Byggðastofnun hafi talið að með ákvörðun sinni væri fleiri traustum stoðum yrði skotið undir atvinnulíf í byggðarlaginu, það eflt til framtíðar og reynslan sýni að hún hafi haft jákvæð áhrif á byggðafestu í byggðarlaginu. Kærandi telji þennan rökstuðning ekki standast miðað við þær forsendur sem lágu fyrir. Það breyti í því sambandi engu þótt ekki hafi komið fram í umsóknarferlinu um kaup [C] ehf. á kæranda þrátt fyrir að umsækjendum hafi öllum verið gefinn kostur á að koma að athugasemdum og upplýsingum varðandi umsókn sína í umsóknarferlinu en ástæðan fyrir því hafi verið sú að kaupin höfðu ekki farið og fóru ekki fram fyrr en í byrjun desember 2019. Í umsókn kæranda hafi hins vegar komið fram að [C] ehf. væri samstarfsaðili sem væri mun sterkari aðili en hinir 7 til samans sem allir voru samstarfsaðilar. Byggðastofnun hefði átt að rannsaka þetta betur og komast að raun um hvernig samstarfi þessara aðila yrði háttað þar sem [C] ehf. sé mjög sterkt útgerðarfélag og með það sem samstarfsaðila væri umsókn kæranda að öllu leyti sterkari en umsókn umrædds aðila og samstarfsaðila til lengri eða skemmri tíma. Þá hefði reynslan sýnt það bæði á Húsavík og á Raufarhöfn að um væri að ræða félag sem hægt væri að treysta á varðandi stoðir samfélagsins, vinnu, vinnslu og aflabrögð. Trúverðug áform þess aðila sem fékk úthlutun og samstarfsaðila um útgerð séu ekki fyrir hendi enda óljóst hvernig þau verði mótuð til framtíðar. Í umsögn Byggðastofnunar komi fram að samkvæmt samningi hafi samningsaðilar skuldbundið sig til þess að vinna að minnsta kosti 480 tonn af bolfiski ár hvert á staðnum, auk grásleppu og þorskhrogna. Það hafi ekki gengið eftir, unnin hafi verið 366 tonn en sú staðreynd að kærandi hafi ekki náð að vinna upp í samning sem hann var þegar aðili að hafi haft áhrif á mat stofnunarinnar um úthlutun aflamarksins. Þessu hafi kærandi verið búinn að svara í greinargerð til Byggðastofnunar, dags. 16. september 2019, en auk þess hafi veður haft áhrif á veiði og mannahald verið erfitt á svo fámennum stað. Engar athugasemdir hafi komið frá Byggðastofnun vegna þessa.

Eftirtalin gögn fylgdu framangreindu bréfi lögmanns kæranda til ráðuneytisins: Tölvubréf, dags. 26. júní 2020.

 

Rökstuðningur

I.  Um úthlutun aflamarks Byggðastofnunar gildir ákvæði 10. gr. a laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sem er svohljóðandi:

 

„Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar aflaheimildir sem ráðherra ákvarðar samkvæmt heimild í 5. mgr. 8. gr. til að styðja byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Byggðastofnun getur gert samninga við fiskvinnslur eða útgerðarfélög til allt að sex ára í senn. Byggðastofnun skal hafa samráð við sveitarstjórn viðkomandi sveitarfélags áður en samningur er undirritaður. Aflaheimildir skulu vera í þorski, ýsu, steinbít, ufsa, löngu, keilu og gullkarfa í hlutfalli við leyfðan heildarafla af þessum tegundum. Aflaheimildir þessar miðast við þorskígildi og skulu þær dregnar frá með sama hætti og greinir í 3. mgr. 8. gr. laganna, sbr. 5. mgr. sömu greinar. Ráðherra er heimilt, að fengnum tillögum Byggðastofnunar, að setja nánari ákvæði um framkvæmd þessa ákvæðis í reglugerð, svo sem efni samnings, skilyrði og tímalengd.“

        

Framangreint ákvæði var lögfest með lögum nr. 72/2016 en samkvæmt því er gert ráð fyrir að ráðherra ákvarði magn aflaheimildanna af því aflamarki sem dregið er frá heildaraflamarki samkvæmt 3. mgr., sbr. 5. mgr. 8. gr. laganna.

Ráðherra hefur sett reglugerð samkvæmt heimild í framangreindu ákvæði sem er reglugerð nr. 643/2016, um ráðstöfun og meðferð aflaheimilda samkvæmt 10. gr. a laga nr. 116/2006. Þar segir m.a. að Byggðastofnun hafi til ráðstöfunar aflaheimildir, sem ráðherra ákvarði samkvæmt heimild í 5. mgr. 8. gr. laga nr. 116/2006, til að styðja byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi, sbr. 10. gr. a laga nr. 116/2006. Val á byggðarlögum sem komi til álita skuli byggja á tilteknum þáttum, þ.e. að byggðarlag sé í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi, íbúar byggðarlags séu færri en 400, íbúum hafi fækkað sl. 10 ár, akstursfjarlægð frá byggðakjarna sem telji meira en 1.000 íbúa sé a.m.k. 20 km., byggðakjarninn tilheyri vinnusóknarsvæði sem telji færri en 10.000 íbúa, hlutfall starfa við veiðar og vinnslu í sjávarbyggðinni sé a.m.k. 20% allra starfa og að aflamark Byggðastofnunar skipti verulegu máli fyrir framtíð byggðarlagsins að mati stjórnar Byggðastofnunar. Einnig kemur þar fram að stjórn Byggðastofnunar taki ákvörðun um endanlegt val byggðarlaga á grundvelli greiningar á stöðu byggðarlaga og innkominna umsókna um samstarf. Í 2. gr. eru ákvæði um skiptingu aflamarks en þar kemur fram að skipting þess aflamarks sem kemur í hlut byggðarlags samkvæmt reglugerðinni skuli fara fram á grundvelli samninga Byggðastofnunar, fiskvinnslu og útgerðaraðila. Við mat umsókna frá einstökum byggðarlögum verði byggt á mati á trúverðugum áformum um útgerð, vinnslu sjávarafurða eða aðra starfsemi, fjölda heilsársstarfa fyrir karla og konur sem skapist eða verði viðhaldið, sem bestri nýtingu þeirra aflaheimilda sem fyrir séu í byggðarlaginu, öflugri starfsemi til lengri tíma sem dragi sem mest úr óvissu um framtíðina, jákvæðum áhrifum á atvinnulíf og samfélag og traustri rekstrarsögu forsvarsmanna umsækjenda. Þá kemur þar fram að Byggðastofnun ákveði tímalengd samninga um nýtingu aflaheimilda samkvæmt reglunum sem skuli þó ekki vera lengri en til 6 ára.

 

II. Byggðastofnun hefur tiltekið magn aflaheimilda til ráðstöfunar fiskveiðiárið 2019/2020 samkvæmt 10. gr. a laga nr. 116/2006 og ljóst er að ekki var unnt að úthluta aflaheimildum samkvæmt öllum umsóknum sem bárust stjórn stofnunarinnar.

Í 1. og 2. gr. reglugerðar nr. 643/2016 sem fjalla um val á byggðarlögum og skiptingu aflamarks milli fiskiskipa í einstökum byggðarlögum sem úthlutað er til koma fram tiltekin atriði sem byggt er á við val á byggðarlögum og mat á umsóknum frá einstökum útgerðaraðilum. Umrædd ákvæði eru matskennd og veita að mati ráðuneytisins stjórn Byggðastofnunar ákveðið svigrúm til ákvörðunar um úthlutun aflaheimilda.

Þegar litið er til framanritaðs verður að telja að hlutverk ráðuneytisins við endurskoðun á hinni kærðu ákvörðun stjórnar Byggðastofnunar sem tekin var á fundi stjórnar stofnunarinnar 17. desember 2019 í máli þessu takmarkist við úrlausn um hvort gætt hafi verið laga og stjórnvaldsreglna við ákvörðunina en ekki að leggja efnislegt mat á einstakar umsóknir.

 

III. Eins og gerð er grein fyrir í umfjöllun um málsatvik hér að framan ákvað stjórn Byggðastofnunar á fundi þann 17. desember 2019 að úthluta öllu aflamarki sem stofnunin hafði til ráðstöfunar á Bakkafirði í Langanesbyggð samkvæmt 10. gr. a laga nr. 116/2006 til tiltekins félags og ganga til samninga um nýtingu aflamarksins við félagið og samstarfsaðila þess. Í fundargerð stjórnar Byggðastofnunar (479. fundar) er vísað til þess að fyrir liggi minnisblað með niðurstöðum aflamarksnefndar, umsóknir og umsagnir viðkomandi sveitarfélags. Lagt var til að forstjóra yrði falið að ganga til samninga við tiltekið félag og samstarfsaðila vegna 150 þorskígildistonna til næstu 6 fiskveiðiára á grundvelli umsóknar félagsins. Jafnframt ákvað stjórn Byggðastofnunar að hafna umsókn kæranda.

Ákvörðun Byggðastofnunar um að hafna umsókn kæranda og að ganga til samninga við tiltekna aðra umsækjendur um úthlutun aflamarksins var byggð á því að Byggðastofnun hafi metið allar umsóknir út frá þeim mælikvörðum sem koma fram í 2. gr. reglugerðar nr. 643/2016 þar sem styrkleikar og veikleikar allra umsækjenda í hverjum þætti hafi verið metnir sérstaklega og að niðurstaða matsins hafi ráðið tillögu til stjórnar stofnunarinnar. Það hafi verið mat Byggðastofnunar að umsókn þess félags sem fékk úthlutun og samstarfsaðila væri best til þess fallin að ná fram þeim markmiðum sem að væri stefnt með úthlutuninni. Sú umsókn væri trúverðugust og líklegust til að skila flestum heilsársstörfum í byggðarlaginu Bakkafirði auk þess að efla vinnusóknarsvæðið í heild. Litið hafi verið til traustrar rekstrarsögu umsækjenda og fyrirsvarsmanna þeirra og þá ekki síst reynslu af rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi á Vestfjörðum um árabil. Það hafi verið mat Byggðastofnunar að þannig nýtist aflamarkið best og stuðli að sem mestri atvinnuuppbyggingu og stöðugleika á Bakkafirði og vinnusóknarsvæðinu í heild.

 

IV. Við ákvörðun um úthlutun aflamarks samkvæmt þeim lögum og stjórnvaldsreglum sem gilda um það efni er litið til þeirra skilyrða sem verður að uppfylla. Þar reynir á hverjar eru skyldur stjórnvalds við töku ákvörðunar um úthlutun aflamarksins.

Þegar ákvörðun sem í máli þessu greinir var tekin voru í gildi lög og reglugerð um úthlutun aflamarksins. Eins og ákvæðum laganna og reglugerðarinnar er háttað verður að telja að það sé komið undir mati veitingarvaldshafans, í þessu tilviki stjórnar Byggðastofnunar, að leggja mat á umsóknir. Það mat er bundið af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og öðrum meginreglum stjórnsýsluréttar, skráðum og óskráðum, þ.m.t. rannsóknarreglunni, jafnræðisreglunni og meðalhófsreglunni og einnig um að ákvörðun sé byggð á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum.

Það verður að játa Byggðastofnun ákveðið svigrúm við mat á umsóknum um úthlutun aflamarksins þó að því tilskildu að við ákvörðun stofnunarinnar verða allar reglur stjórnsýsluréttarins, bæði skráðar og óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttarins, að vera í heiðri hafðar.

Ákvæði 2. gr. reglugerðar nr. 643/2016 og einnig auglýsing um úthlutun aflamarksins, dags. 6. september 2019, segir til um hver voru skilyrðin í því tilviki sem hér um ræðir en ákvæðið er matskennt. Byggðastofnun er ætlað að setja sjálf reglur um mat stofnunarinnar á þeim þáttum sem hafa áhrif á niðurstöðu. Mat stjórnar Byggðastofnunar á þessum atriðum er ekki kæranlegt til ráðuneytisins heldur aðeins málsmeðferðin, þ.m.t. hvort matið sé byggt á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum.

Af fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum í þessu máli verður ekki annað séð en að stjórn Byggðastofnunar hafi við úthlutun aflamarksins hagað undirbúningi og ákvörðun í samræmi við þau sjónarmið sem gerð er grein fyrir hér að framan. Ákvörðun um úthlutun var byggð á mati stjórnar Byggðastofnunar á fyrirliggjandi umsóknum sem grundvallaðar voru á auglýsingu um úthlutun aflamarksins, þeim skilyrðum sem þar voru tilgreind og ákvæðum laga og stjórnvaldsreglna sem gilda um úthlutunina. Framangreind sjónarmið voru lögð til grundvallar og tekin ákvörðun á grundvelli þeirra byggð á mati stjórnar Byggðastofnunar og fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum.

 

V. Stjórn Byggðastofnunar tók hina kærðu ákvörðun í máli þessu að undangenginni tiltekinni málsmeðferð sem byggð var á ákvæðum 10. gr. a laga nr. 116/2006 og reglugerðar nr. 643/2016. Auglýst var eftir umsóknum um aflamark og í auglýsingunni var gerð grein fyrir þeim skilyrðum sem yrði að uppfylla til að fá úthlutun aflamarks en umrædd skilyrði voru byggð á 2. gr. reglugerðar nr. 643/2016. Stjórn Byggðastofnunar tók ákvörðun um úthlutun aflamarksins á grundvelli mats á umsóknum og þeim atriðum sem komu fram í auglýsingu um úthlutun aflamarksins, dags. 6. september 2019. Að umsóknarfresti liðnum var fundað með umsækjendum og þeim boðið að skýra umsóknir sínar eftir því sem þeir óskuðu. Eftir matsferli innan Byggðastofnunar var tillaga að afgreiðslu umsókna send Langanesbyggð til umsagnar. Stjórn Byggðastofnunar fjallaði um málið á tveimur fundum og tók ákvörðun á fundi sínum þann 17. desember 2019, eftir að sveitarstjórn Langanesbyggðar hafði fjallað um málið eins og mælt er fyrir um í 6. gr. reglugerðar nr. 643/2016.

Ekki verður annað séð af framangreindu en að stjórn Byggðastofnunar hafi við meðferð málsins gætt að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Einnig er það mat ráðuneytisins að þau sjónarmið sem ráðið hafa vali Byggðastofnunar á milli umsækjenda hafi ekki falið í sér mismunun í skilningi 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í því sambandi verður að játa Byggðastofnun ákveðið svigrúm til mats við slíkt val á grundvelli þeirra viðmiða og sjónarmiða sem búa að baki úthlutun. Á sama hátt verður að játa Byggðastofnun ákveðið svigrúm við val á milli umsækjenda með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og þeim markmiðum sem búa að baki ákvörðun.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun stjórnar Byggðastofnunar í máli þessu.

Einnig er þegar af þeirri ástæðu hafnað kröfum kæranda um að ráðuneytið leggi fyrir stjórn Byggðastofnunar að hefja samninga við kæranda á grundvelli umsóknar félagsins.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Byggðastofnunar sem tekin var af stjórn stofnunarinnar 17. desember 2019 um að hafna umsókn [B] ehf. um úthlutun aflamarks samkvæmt 10. gr. a laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum