Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20jafnr%C3%A9ttism%C3%A1la

Mál nr. 20/2020 - Úrskurður

 

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

A

gegn

Reykjavíkurborg

 

Ráðning í starf. Stjórnvald. Kyn. Jöfn meðferð á vinnumarkaði. Aldur. Sönnunarregla. Ekki brot.

A kærði ákvörðun R um að ráða konu sem er yngri en hann í tímabundið starf kennara í grunnskóla á vegum R. Að mati nefndarinnar hafði ekki verið sýnt fram á að kæranda hefði verið mismunað á grundvelli kyns eða aldurs við ráðningu í starfið. Var því ekki fallist á að R hefði gerst brotleg við lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla eða lög nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 4. maí 2021 er tekið fyrir mál nr. 20/2020 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dags. 23. október 2020, kærði A ákvörðun Reykjavíkurborgar um að ráða konu sem er yngri en hann í starf kennara á unglingastigi við Foldaskóla. Af kærunni má ráða að kærandi telji að með ráðningunni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 3. nóvember 2020. Að beiðni kærða var frestur til þess að skila greinargerð framlengdur. Greinargerð kærða barst með bréfi, dags. 8. nóvember 2020, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dags. 9. desember 2020.
  4. Kærunefndinni barst bréf kæranda, dags. 19. desember 2020, með athugasemdum við greinargerð kærða og sem kynnt var kærða með bréfi kærunefndar, dags. 23. desember 2020. Athugasemdir bárust ekki frá kærða. Með tölvubréfi kæranda, dags. 5. janúar 2021, bárust nefndinni frekari athugasemdir.

    MÁLAVEXTIR

  5. Vegna forfalla auglýsti kærði 13. ágúst 2020 laust til umsóknar tímabundið hlutastarf kennara í Foldaskóla í 8. bekk til að kenna lífsleikni/umsjón, ensku og stærðfræði. Í auglýsingunni voru helstu verkefni starfsins og ábyrgð tiltekin sem: „Kennsla nemenda í samráði við skólastjórnendur, aðra kennara og foreldra. Vinna að þróun skólastarfs með stjórnendum og samstarfsfólki. Stuðla að velferð nemenda í samstarfi við foreldra og annað fagfólk. Vinna samkvæmt stefnu skólans og taka þátt í vinnu í teymum með öðru starfsfólki.“ Hæfniskröfur voru skilgreindar sem: „Leyfi til að nota starfsheitið grunnskólakennari. Reynsla og áhugi á að starfa með börnum á grunnskólaaldri. Lipurð í samskiptum og faglegur metnaður. Góð íslenskukunnátta.“
  6. Alls bárust 14 umsóknir um starfið. Að lokinni yfirferð á umsóknargögnum var ákveðið að boða sjö umsækjendur í viðtal og var kærandi þar á meðal. Að viðtölum loknum var ákveðið að bjóða konu starfið sem hún þáði.
  7. Með tölvubréfi, dags. 30. ágúst 2020, óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir ráðningunni. Með bréfi, dags. 7. september 2020, var umbeðinn rökstuðningur veittur.
  8. Þess ber að geta að lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla voru felld úr gildi með nýjum lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna sem tóku gildi 6. janúar 2021 ásamt lögum nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála. Í samræmi við bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 151/2020 féll niður umboð skipaðra nefndarmanna í kærunefnd jafnréttismála og skipaði ráðherra nýja nefndarmenn í nefndina samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar 12. janúar 2021. Þar sem atvik í máli þessu áttu sér stað í tíð eldri laga gilda lög nr. 10/2008 um efnislegan ágreining fyrir nefndinni en um málsmeðferðina fer samkvæmt lögum nr. 151/2020.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  9. Af kæru má ráða að kærandi telji að kærði hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði þar sem kærði hafi ráðið yngri konu en hann í tímabundið hlutastarf vegna forfalla í Foldaskóla. Telur kærandi að hann hafi bæði meiri menntun og meiri reynslu en sú sem var ráðin og hafi því verið ranglega gengið fram hjá honum.
  10. Bendir hann á að næstsíðasta dag auglýsts umsóknarfrests hafi hann farið í starfsviðtal þar sem vel hafi farið á með honum og yfirmönnum Foldaskóla. Stundatafla hafi verið afhent, en tiltekið að formlega yrði að bíða til kvölds næsta dags til að binda ráðninguna fastmælum. Síðla dags eftir að ráðningarferlinu lauk hafi kæranda verið tilkynnt að annar kennari hefði verið ráðinn. Um hafi verið að ræða konu yngri en hann. Bendir kærandi á að samkvæmt Hagstofu Íslands séu 72% skólastjóra konur og það sama eigi við um 77% aðstoðarskólastjóra, 85% deildarstjóra og 83% kennara í grunnskóla. Þannig sé kerfisbundin skekkja að myndast.
  11. Kærandi bendir á að sú sem var ráðin sé með grunnskólakennarapróf frá Kennaraháskóla Íslands, nám í skúlptúr frá Myndlistaskólanum og masterspróf í menningarstjórnun. Að mati kæranda virðist sem hún hafi kennt í samtals 13 ár í grunnskóla, nánast eingöngu á yngsta og miðstigi og að mestu leyti myndmennt eða sambærilegar greinar. Tiltekur hann að heildarháskólanám hennar virðist vera 270 ECTS-einingar að hámarki. Hún hafi talið fleira til, svo sem vinnu við prófayfirferð og vinnu á leikskóla. Til samanburðar sé hann með B.Sc.-próf með tvær aðalgreinar, þ.e. líffræði og sálfræði, en síðari greinin sé undirstaða grunnskólaréttinda hans auk náms við Kennaraháskóla Íslands/Háskóla Íslands. Þá sé hann með prófgráðu í mannauðsstjórnun (Industrial relations/HRM) og MBA í fjármálahagfræði. Þetta nám jafngildi, samkvæmt stöðlum ESB og ENIC/NARIC skrifstofu Háskóla Íslands, 435 ECTS-einingum. Síðan hafi hann tekið kennslufræði við Kennaraháskóla Íslands/Háskóla Íslands svo heildar ECTS einingarnar séu að minnsta kosti 465 en viðmið fyrir doktorsgráðu, Ph.D., sé 450. Hann hafi einnig tekið löggildingu í verðbréfamiðlun sem sé í grunninn ECTS-áfangar úr Háskólanum í Reykjavík en settir saman í pakka fyrir viðskiptaráðuneytið og kenndir við endurmenntun sem gefi engar ECTS. Þá hafi kærandi atvinnuréttindi úr Tækniskólanum/Stýrimannaskólanum fyrir minnstu skip sem ekki sé metið til ECTS svo hann viti til. Að auki hafi hann sótt fjölda annarra námskeiða.
  12. Kærandi vísar til þess að hann eigi langan kennsluferil að baki. Hann hafi kennt fjóra vetur eða hluta úr þeim í unglingadeildum grunnskóla, þ.e. Valhúsaskóla, Vatnsendaskóla, Hólabrekkuskóla og Hvaleyrarskóla. Í tveimur skólunum hafi hann eingöngu kennt líffræði, í einum skólanum bæði líffræði og stærðfræði og í þeim fjórða eingöngu ensku. Bendir hann á að hann hafi verið meðal 1% hæstu á prófi fyrir ensku sem annað mál í TOEFL áður en hann fór í háskólanám til Bandaríkjanna þar sem hann hafi verið í á áttunda ár. Þá sé hann meðlimur í Rithöfundasambandi Íslands en hann hafi þýtt ritverk milli ensku og íslensku. Hann hafi kennt efnafræði, aðallega í Fjölbraut í Breiðholti. Þá hafi kærandi verið lektor á Bifröst og tekið þátt í mótun stefnu skólans en hann hafi kennt fjármál og stærðfræði, þar með talið unglingastærðfræði, í aðfararnámi undirbúningsdeildar. Með fyrrihlutanámi í Lewis and Clark hafi kærandi verið valinn aðstoðarkennari í lífeðlisfræðilegri sálfræði. Í framhaldsnámi hafi kærandi einnig kennt á árunum 1989 til 1991 í tölvuveri. Mest hafi kennslan falist í því að gera samnemendur á aldrinum 18 til 24 ára hæfa til að nota töflureikna og Excel og annað sem hafi lotið að tölum og tölvum.
  13. Mikið sé lagt upp úr reynslu þeirrar sem ráðin hafi verið í grunnskóla án tillits til þess hvert starf hennar hafi verið. Kennslureynsla hennar sé á grunn- og miðstigi grunnskóla, þ.e. 1. til 7. bekkjar, en reynsla kæranda 8. til 10. bekkur og unglingar í framhaldsskóla. Þó sé nefnt að hún hafi kennt ótilgreinda valáfanga á unglingastigi. Jafnvel þótt hún hafi starfað lengur sem grunnskólakennari hafi reynsla hennar ekki verið á því stigi sem auglýst var eftir en þar hafi hann lengri reynslu. Kennslureynsla kæranda sé því meira viðeigandi varðandi aldur nemenda og lúti að ensku og stærðfræði en þeirrar sem var ráðin. Kærandi geti heldur ekki séð neinn mun á lengd kennslureynslu þeirra. Vekur kærandi athygli á því að hann hafi verið beittur órétti allt frá árinu 2008 til loka árs 2018 þegar hann fékk útgefin réttindi sem grunn- og framhaldsskólakennari. Sé til dæmis litið á töflureikna, sem komi hér til álita samanber námsskrá, sé kærandi með 30 ára kennslureynslu. Í Valhúsaskóla þar sem hann hafi kennt fyrsta árið eftir útskrift fyrrihlutanáms á árunum 1984 til 1985 hafi hann verið í Hinu íslenska kennarafélagi og því að öllum líkindum ekki talist leiðbeinandi.
  14. Kærandi líti á sig sem leiðbeinanda í almennum skilningi orðsins, eða mentor, þótt hann hafi full réttindi sem grunnskólakennari og framhaldsskólakennari, í þremur aðskildum greinum, þ.e. náttúrufræði, hagfræði/viðskiptafræði og sálfræði, og hafi verið metinn hæfur til fastráðningar sem lektor. Þekki kærandi því hugtakið leiðsagnarnám sem og menntastefnu kærða.
  15. Kærandi tekur fram að hann geti ekki skilið, í ljósi menntunar og reynslu og stöðu kynjanna meðal starfsmanna í grunnskólanum, hvers vegna honum hafi verið hafnað og að sú sem hafi verið ráðin hafi verið valin. Þessi kynjaskekkja sem nái til fleiri skóla sé ekki aðeins andlega erfið fyrir kæranda heldur hafi hann orðið fyrir verulegu fjárhagslegu tapi sem verði verra þegar honum er ítrekað hafnað fyrir minna menntaða einstaklinga sem ýti undir kynjaskekkju. Að bera saman u.þ.b. 270 ECTS-einingar á móti 465 ECTS-einingum sé afar lýsandi, menningarstjórnun á móti fjármálahagfræði, auk þess sem ekkert komi á móti kennslureynslu hans í ensku á unglingastigi og viðurkenningu hans sem þýðanda milli ensku og íslensku. Þá hafi hann rekið Evrópuskrifstofu og tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi árum saman og skrifað skýrslur á ensku. Kærandi hafi komið að skipulagningu fjölmargra viðfangsefna, þar með talið nýsköpun og námsgagnaframleiðslu. Hann hafi meðal annars hlotið háan styrk frá ESB til að vinna að hugmyndum sínum um að kenna málfræði, bæði íslenska málfræði og málfræði annarra tungumála, með myndrænni framsetningu.
  16. Að auki telur kærandi að viðtal sem skólinn tók við konuna hafi verið ýtarlegra en við hann og villandi. Sé það sláandi að t.d. í umræðu um skólastefnu hafi kærandi komið mun verr út þrátt fyrir að hafa haft sálfræði sem aðalgrein í háskóla, bæði fyrrihlutanám og masterspróf og sem lúti að mannauðsmálum.
  17. Bendir kærandi á að taka verði tillit til jafnréttislaga því að bæði sé kærandi orðinn sextugur og kynjaskekkja sé mjög mikil í grunnskólum landsins og fari vaxandi. Sem dæmi bendir kærandi á að 20. desember 2020 hafi 23 af 26 umsjónarkennurum skólans verið kvenkyns. Það sé eindregin skoðun kæranda að hann sé að minnsta kosti jafnhæfur þeirri konu sem ráðin hafi verið.

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

  18. Kærði tekur fram að fjölga hafi þurft bekkjardeildum í 8. bekk í ágúst 2020 vegna ófyrirséðrar fjölgunar í nemendahópnum. Af þessu hafi leitt að kennslustundum hafi fjölgað auk þess sem tryggja hafi þurft umsjón fyrir einn bekk til viðbótar. Ráðist hafi verið í skipulagsbreytingar til að mæta þessum breytingum en ljóst hafi verið að ráða þyrfti nýjan kennara til að sinna kennslu 15 kennslustunda hjá 8. bekk, nánar tiltekið fimm kennslustundum í stærðfræði, átta kennslustundum í ensku og tveimur kennslustundum í lífsleikni. Viðkomandi kennari hafi einnig þurft að sinna veigamiklu hlutverki umsjónar með einum af 8. bekkjum skólans en hlutverk umsjónarkennara sé nokkuð afmarkað í lögum og starfsáætlun skólans. Til að mæta framangreindri þörf hafi verið auglýst laust til umsóknar starf kennara í 58% stöðuhlutfall tímabundið út skólaárið.
  19. Bendir kærði á að í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla sé kveðið á um að hlutverk umsjónarkennara sé að fylgjast náið með námi nemenda sinna og þroska, leiðbeina þeim í námi og starfi, aðstoða og ráðleggja þeim um persónuleg mál og stuðla þannig að því að efla samstarf heimila og skóla. Þá séu í starfsáætlun skólans tiltekin nánari atriði sem umsjónarkennara beri að sinna. Telur kærði þessi atriði upp en þau eru: Leitast við að vera í góðu sambandi við nemendur og foreldra þeirra. Vera trúnaðarmaður sem nemendur geta leitað til með vandamál sem snúa að náminu, skólanum og öðru. Vera talsmaður nemenda við stjórnendur, aðra kennara, starfsmenn og nemendaverndarráð. Leitast við að skapa góðan bekkjaranda, réttlátar vinnu- og umgengnisreglur og hvetjandi námsumhverfi. Fylgjast með skólasókn og grípa til aðgerða gerist þess þörf. Skipuleggja viðtöl við foreldra á foreldradögum og hafa tiltækar upplýsingar frá öðrum kennurum. Hafa umsjón með undirbúningi og framkvæmd bekkjarkvölda, vettvangsferða og annarra viðburða í bekkjarstarfinu í samstarfi við annað starfsfólk skólans og foreldra eftir því sem við á hverju sinni. Annast skýrslugerð, einkunnafærslur og afhendingu einkunna og kynna nemendum skólareglur og ræða þær.
  20. Í starfsáætluninni komi einnig fram að í skólanum sé unnið í anda leiðsagnarnáms og að það standi til að halda því áfram. Áhersla hafi verið lögð á fjölbreyttar kennsluaðferðir og námsmat. Þá sé menntastefna Reykjavíkurborgar höfð að leiðarljósi auk Aðalnámskrár grunnskóla.
  21. Því sé hafnað að með ákvörðun um að ráða konuna hafi verið farið í bága við ákvæði laga nr. 10/2008 eða laga nr. 86/2018. Hún hafi verið sá umsækjandi sem best hafi þótt uppfylla þau skilyrði sem gerð hafi verið krafa um í starfsauglýsingu og hún hafi því verið metin hæfust umsækjenda. Rökstuðningur til stuðnings þeirri niðurstöðu hafi þegar verið veittur í bréfi skólastjóra kærða frá 7. september 2020. Þar komi fram að hún hafi lokið MA í menningarstjórnun árið 2018 og B.Ed. í grunnskólakennslu árið 2004. Að auki hafi hún lokið námi í skúlptúr við Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árinu 1995. Hún hafi verið mjög dugleg að nýta tækifæri til símenntunar meðfram starfi sínu á sviði samskipta, kennslufræða, tungumála, stjórnunar og sjálfsþekkingar. Á þessu ári hafi hún sótt námskeið í jákvæðri sálfræði, verkefnastjórnun, áætlanagerð og árangursríkum samskiptum hjá Endurmenntun Háskóla Íslands og nýlega hafi hún lokið námskeiði í fjármálalæsi.
  22. Þá hafi hún fjölbreytta starfsreynslu. Hafi hún starfað sem grunnskólakennari í 13 ár og tekið virkan þátt í umbóta- og þróunarverkefnum þar sem hún hefur starfað. Hafi hún kennt á öllum stigum grunnskóla, sinnt umsjón í 2.-7. bekk, kennt kjarnagreinar, þar með talið stærðfræði og ensku, valgreinar á unglingastigi og listnám í öllum aldurshópum auk þess að hafa stýrt stærðfræðikeppni fyrir grunnskólanemendur. Í viðtali hafi hún sýnt afburðaþekkingu á leiðsagnarnámi, en skólinn hefur unnið að þróun á því, auk þess að vera vel kunn menntastefnu Reykjavíkurborgar sem unnið er við að innleiða í skólanum. Þá sýndi hún fram á mjög góða þekkingu á skólastarfi, þekkingu á Mentor-kerfinu auk þess að hafa verið leiðandi í þróun námsmats og tekið þátt í skólaþróun.
  23. Eftir skoðun á öllum umsóknum, framlögðum gögnum og viðtölum við umsækjendur þótti hún uppfylla best þau skilyrði sem gerð var krafa um í auglýsingu um starfið. Ferill hennar hafi sýnt að hún hafi mikla og fjölbreytta reynslu úr grunnskóla, áhuga, metnað og þekkingu á áherslum skólans. Því megi gera ráð fyrir að reynsla hennar, menntun og þekking muni nýtast vel í starfi hennar sem kennari við Foldaskóla.
  24. Kærandi byggi á því að hann hafi verið hæfari umsækjandi en sú sem ráðin hafi verið þar sem hann búi yfir meiri menntun og reynslu en hún. Að teknu tilliti til þessa sé tilefni til að fjalla nánar um þessa einstöku matsþætti, þ.e. menntun og reynslu umsækjenda, en tekið sé fram að við mat á einstökum menntunar- og hæfniskröfum samkvæmt starfsauglýsingu hafi verið tekið mið af eðli og inntaki þess starfs sem um ræði.
  25. Hvað menntun hafi varðað hafi í starfsauglýsingu verið óskað eftir kennara sem gæti kennt lífsleikni/umsjón, ensku og stærðfræði í 8. bekk. Þá hafi verið gerð krafa um leyfi til að nota starfsheitið grunnskólakennari og góða íslenskukunnáttu.
  26. Kærandi og sú sem ráðin var hafi bæði leyfi til að nota starfsheitið grunnskólakennari og hafi þau bæði uppfyllt menntunarkröfur samkvæmt auglýsingu.
  27. Kærandi hafi haft leyfi til að nota starfsheitið grunnskólakennari frá 26. nóvember 2018. Þá hafi hann lokið framhaldsmenntun úr háskóla á sviði fjármálahagfræði, atvinnutengsla, sálfræði og líffræði. Við matið hafi verið talið að þessi framhaldsmenntun kæranda gæti nýst í umræddu starfi með hliðsjón af þeim verkefnum og námsgreinum sem fælust í því. Hliðsjón hafi þó verið höfð af því að menntun kæranda gæti ef til vill ekki nýst að fullu í hinu umrædda starfi enda fæli það í sér kennslu á tiltölulega einfaldari stærðfræði og ensku.
  28. Sú sem ráðin var hafi B.Ed.-gráðu í grunnskólakennarafræðum sem og leyfisbréf sem grunnskólakennari. Hún hafi einnig lokið meistaranámi í menningarstjórnun og tekið þar meðal annars áfanga í áætlanagerð og verkefnastjórnun og hagnýtum fjármálum fyrir stjórnendur. Þá hafi hún nýlega tekið námskeið, meðal annars í jákvæðri sálfræði, verkefnastjórnun, áætlanagerð og árangursríkum samskiptum sem og námskeiðið „Fjármálavit“ sem fjalli um kennslu í fjármálalæsi í grunnskólum. Við matið hafi verið talið að þessi framhaldsmenntun gæti nýst vel í umræddu starfi með hliðsjón af þeim verkefnum og námsgreinum sem fælust í því.
  29. Sú sem ráðin var hafi verið talin uppfylla betur menntunarkröfur vegna starfsins en kærandi. Sú niðurstaða hafi verið byggð á því að hún hafði B.Ed.-gráðu í grunnskólakennarafræðum, og þar með sérhæfingu í að kenna nemendum á grunnskólaaldri, og að auki meistaragráðu sem nýttist í starfi grunnskólakennara.
  30. Í starfsauglýsingu hafi verið gerð krafa um reynslu og áhuga á að starfa með börnum á grunnskólaaldri. Kærandi hafi starfað sem leiðbeinandi í grunnskóla í eitt og hálft ár og í sjö mánuði sem kennari við grunnskóla, auk afleysinga. Auk þess hafi hann um sex ára reynslu af kennslu í framhaldsskóla og háskóla. Sú sem ráðin hafi verið hafi starfað sem kennari við grunnskóla í 13 ár og sem leiðbeinandi í grunnskóla í eitt ár. Hún hafi kennt á öllum aldursstigum grunnskóla, þar af nokkur ár sem umsjónarkennari. Auk þess hafi hún verið leiðbeinandi í leikskóla í tvö ár. Til viðbótar við framangreint höfðu bæði kærandi og sú sem ráðin var fjölbreytta reynslu af öðrum störfum sem gætu að einhverju leyti nýst í umræddu starfi en þeirri reynslu hafi verið gefið minna vægi þar sem hún hafi ekki verið eins tengd hinu umrædda starfi og ekki talin ástæða til að fjalla nánar um önnur störf þeirra frekar.
  31. Í samræmi við áherslu í auglýsingu hafði reynsla af störfum með börnum á grunnskólaaldri aukið vægi þegar mat hafði verið lagt á reynslu aðila. Sú tilhögun sé jafnframt í samræmi við það mat veitingarvaldshafans að jafnvel þótt reynsla af kennslu á öðrum skólastigum sé af hinu góða og til þess fallin að nýtast í starfi verði hún ekki lögð að jöfnu við reynslu af kennslu á grunnskólastigi. Í samræmi við starfslýsingu hafi reynslu umsækjenda af umsjón einnig verið gefið nokkurt vægi. Umsjón feli í sér fjölbreytt verkefni sem ekki felist í annars konar kennslu, sbr. það sem fram kom að framan um kröfur til umsjónarkennara við skólann.
  32. Sú sem ráðin var hafi verið talin búa yfir reynslu sem félli betur að gerðum hæfniskröfum og starfslýsingu en reynsla kæranda. Við það mat hafi vegið þungt 13 ára starfsreynsla hennar sem grunnskólakennari og reynsla af umsjónarkennslu.
  33. Aðrar hæfniskröfur sem hafi verið sérstaklega tilgreindar í auglýsingu hafi verið lipurð í samskiptum, faglegur metnaður og góð íslenskukunnátta. Hafi bæði kærandi og sú sem ráðin hafi verið þótt uppfylla þessi hæfnisskilyrði.
  34. Í starfsauglýsingu hafi sérstaklega verið vísað til þess að meðal helstu verkefna og ábyrgðar væri að vinna að þróun skólastarfs með stjórnendum og samstarfsfólki, sem og að vinna samkvæmt stefnu skólans og taka þátt í vinnu í teymum með öðru starfsfólki. Að teknu tilliti til þessa hafi umsækjendur í viðtali verið spurðir út í þekkingu á Aðalnámskrá grunnskóla og menntastefnu Reykjavíkurborgar og þekkingu á leiðsagnarnámi.
  35. Bent var á að kærandi hefði þekkingu á aðalnámskrá en ekki á menntastefnu Reykjavíkurborgar. Þá hefði kærandi ekki þekkt hugtakið leiðsagnarnám. Sú sem ráðin var hafi þekkt vel aðalnámskrá og menntastefnu Reykjavíkurborgar. Þar sem hún hafi verið starfandi grunnskólakennari frá því að núgildandi Aðalnámskrá grunnskóla hafi tekið gildi mætti ætla að hún hefði tekið þátt í innleiðingu hennar í skólastarfinu með samstarfsfólki. Þá hefði hún einnig verið kunn leiðsagnarnámi og hefði unnið að innleiðingu þess í fyrra starfi.
  36. Að loknu heildarmati á umsækjendum hafi sú sem ráðin hafi verið verið talin uppfylla best þær menntunar- og hæfniskröfur sem gerðar hafi verið í auglýsingu. Hafi hún verið talin standa framar kæranda bæði hvað varðaði menntun og reynslu auk annarra þátta.
  37. Samkvæmt framansögðu hafi ákvörðun um ráðningu verið tekin á grundvelli málefnalegra sjónarmiða. Hæfasti umsækjandinn hafi verið ráðinn og ólögmæt sjónarmið, svo sem kyn eða aldur umsækjenda, hafi ekki haft þýðingu við mat á umsækjendum um starfið.

    NIÐURSTAÐA

  38. Mál þetta snýst um það hvort kærði hafi annars vegar brotið gegn 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. núgildandi 19. gr. laga nr. 150/2020, og hins vegar gegn 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði, með ráðningu konu sem er yngri en kærandi í tímabundið hlutastarf í Foldaskóla, sem er grunnskóli á vegum kærða.
  39. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008 er markmið laganna að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Í 2. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði kemur fram að markmið laganna sé að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr. laganna, þ.e. kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, meðal annars hvað varðar aðgengi að störfum, þar með talið við ráðningar.
  40. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, þ.e. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði. Tekið er fram að lögin gildi meðal annars um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint eftir því sem mælt er fyrir um í lögum um jafnréttismál, sbr. 1. gr. laganna, og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði þeirra laga hafi verið brotin.
  41. Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 er tekið fram að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Samkvæmt sönnunarreglu í 4. mgr. 26. gr. kemur það í hlut umsækjanda sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns. Takist sú sönnun ber atvinnurekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kyn hafi haft áhrif á ráðningu í starfið sem um ræðir í málinu hjá kærða.
  42. Í matsreglu 5. mgr. 26. gr. laganna er tekið fram að við mat á því hvort ákvæði 4. mgr. 26. gr. hafi verið brotið skuli taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Árétta ber að framangreint verður ekki talið fela í sér sjálfstæða heimild fyrir nefndina til að byggja á öðrum sjónarmiðum en kærði hefur sjálfur lagt til grundvallar og ekki heldur heimild til að endurmeta innbyrðis vægi þessara sjónarmiða með sjálfstæðum hætti, svo lengi sem þau voru málefnaleg og innan þess svigrúms sem kærði hefur, sbr. til hliðsjónar athugasemdir við 19. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 150/2020. Þá fellur það ekki undir valdsvið kærunefndarinnar að endurskoða mat kærða á því hvaða umsækjandi fellur best að þeim sjónarmiðum sem lögð var áhersla á við ráðninguna nema draga megi þá ályktun af gögnum málsins að matið hafi ekki verið forsvaranlegt.
  43. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 86/2018 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli þeirra þátta sem taldir eru í 1. mgr. 1. gr. laganna. Samkvæmt sönnunarreglu í 15. gr. laganna kemur það í hlut umsækjanda um starf sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli aldurs. Takist sú sönnun ber atvinnurekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en aldur hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Er því um sams konar sönnunarreglu að ræða og í framangreindri 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Samkvæmt því er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að aldur hafi haft áhrif á ráðningu í starfið sem um ræðir í máli þessu. Þá takmarkast endurskoðun kærunefndar af sambærilegum þáttum og þegar um kyn er að ræða, sbr. það sem áður er nefnt.
  44. Í auglýsingunni um starfið kom fram að um væri að ræða tímabundið hlutastarf kennara í 8. bekk grunnskóla þar sem kennslugreinar væru lífsleikni/umsjón, enska og stærðfræði. Helstu verkefni starfsins og ábyrgð væru kennsla nemenda í samráði við skólastjórnendur, aðra kennara og foreldra, vinna að þróun skólastarfs með stjórnendum og samstarfsfólki, stuðla að velferð nemenda í samstarfi við foreldra og annað fagfólk, vinna samkvæmt stefnu skólans og taka þátt í vinnu í teymum með öðru starfsfólki. Þá voru hæfniskröfur skilgreindar sem leyfi til að nota starfsheitið grunnskólakennari, reynsla og áhugi á að starfa með börnum á grunnskólaaldri, lipurð í samskiptum, faglegur metnaður og góð íslenskukunnátta.
  45. Í málinu liggur fyrir að um hafi verið að ræða 58% stöðuhlutfall sem fólst í 15 kennslustundum, þ.e. fimm kennslustundum í stærðfræði, átta í ensku og tveimur í lífsleikni, auk umsjónar með einum 8. bekk skólans. Þá liggur fyrir að kæranda og þeirri sem fékk starfið hafi báðum verið boðið í viðtal ásamt fimm öðrum umsækjendum. Í kjölfar viðtala var það niðurstaða kærða að sú sem var ráðin hafi að loknu heildarmati verið metin hæfust umsækjenda þar sem hún hafi best þótt uppfylla þau skilyrði sem gerð var krafa um í auglýsingunni. Hafi hún því verið talin standa framar kæranda bæði hvað varðaði menntun og reynslu auk annarra þátta.
  46. Af kæru má ráða að kærandi telji að samanburður á menntun hans og þeirrar sem var ráðin leiði líkur að því að honum hafi verið mismunað við ráðninguna enda hafi hann mun lengra háskólanám að baki. Fyrir liggur að báðir umsækjendurnir uppfylltu að mati kærða menntunarkröfur samkvæmt auglýsingu. Hins vegar taldi kærði að B.Ed.-gráða í grunnskólakennarafræðum og framhaldsmenntun þeirrar sem var ráðin hafi fallið betur að þörfum kærða en B.Sc.-próf kæranda í líffræði og sálfræði, próf í mannauðsstjórnun, MBA-gráða í fjármálahagfræði og nám í kennslufræði. Að mati kærunefndar er þetta mat kærða málefnalegt og innan þess svigrúms sem kærði hafði við ráðninguna.
  47. Kærði hefur gert grein fyrir því að sú hæfniskrafa sem hafi vegið þyngst af matsþáttunum hafi verið þekking og reynsla af kennslu í grunnskóla og þá einkum reynsla af umsjónarkennslu. Kærunefndin bendir á að þar sem ekki er mælt fyrir um þessa þætti í lögum er það kærða að ákveða kröfur þessar í ljósi þeirra þarfa sem hann telur nauðsynlegar til starfrækslu þeirra verkefna sem um ræðir með hagsmuni skólans að leiðarljósi. Að mati kærunefndar verður ekki séð að niðurstaða kærða að þessu leyti hafi verið ómálefnaleg.
  48. Af gögnum málsins má ráða að það sem réð vali á þeirri sem fékk starfið hafi verið umtalsverð reynsla sem kennari á öllum stigum grunnskóla í 13 ár auk reynslu af umsjónarkennslu. Þá hafi hún þekkt vel aðalnámskrá og menntastefnu Reykjavíkurborgar auk þess að vera kunnug leiðsagnarnámi og hafa unnið að innleiðingu þess í fyrra starfi. Að mati kærunefndar verður ekki betur séð en að mat kærða hafi að þessu leyti verið forsvaranlegt og málefnalegt.
  49. Með vísan til alls framangreinds verður að mati kærunefndar ekki betur séð en að mat kærða á þeim sjónarmiðum sem hann lagði til grundvallar við val á hæfasta umsækjandanum hafi verið málefnalegt og forsvaranlegt og innan þess svigrúms sem hann hafði. Telur kærunefnd að hæfnismatið, eins og það birtist í gögnum málsins, leiði hvorki líkur að því að við ráðninguna hafi kæranda verið mismunað á grundvelli kyns né aldurs, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 og 15. gr. laga nr. 86/2018, eða að gögn málsins að öðru leyti, þar á meðal frásögn kæranda af samskiptum sínum við kærða, bendi til þess að meðferð málsins hafi farið gegn lögum nr. 10/2008 og lögum nr. 86/2018.
  50. Með vísan til framangreinds verður talið að hvorki hafi verið sýnt fram á að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns við ráðningu í tímabundið hlutastarf kennara né á grundvelli aldurs. Samkvæmt því verður hvorki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 10/2008 né lög nr. 86/2018.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Reykjavíkurborg, braut ekki gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla eða lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði við ráðningu í tímabundið hlutastarf kennara við Foldaskóla.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Anna Tryggvadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum