Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir%20um%20matv%C3%A6li%20og%20landb%C3%BAna%C3%B0

Nýliðunarstuðningur, Matvælastofnun, hjúskaparstaða

Stjórnsýslukæra

Með erindi, dags. 13. desember 2018, kærðu [A] og [B], hér eftir nefnd kærendur, ákvörðun Matvælastofnunar frá 13. september 2018 um úthlutun nýliðunarstuðnings fyrir árið 2018.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og barst erindi kærenda innan kærufrests.

Kröfur

Þess er krafist að við ákvörðun um úthlutun nýliðunarstuðnings verði styrkleikar beggja kærenda lagðir til viðmiðunar umsóknarinnar en ekki einungis þess aðila sem hlýtur hærri heildareinkunn samkvæmt mati Matvælastofnunar. Til vara er þess krafist að kærendur fái heimild til þess að sækja um nýliðunarstuðning í sitthvoru lagi þrátt fyrir að vera í hjónabandi.

Málsatvik

Kærendur lögðu fram ódagsetta umsókn til Matvælastofnunar um nýliðunarstuðning fyrir árið 2018 vegna reksturs á kúabúinu [C]. Umsókninni fylgdi greinargerð og upplýsingar um fjárfestingar og stöðu kærenda, þ.m.t. starfsreynslu og menntun.

Hinn 13. september 2018 birti Matvælastofnun þá ákvörðun sína að kærendur uppfylltu skilyrði fyrir úthlutun styrksins og voru kærendur upplýstir um niðurstöðu stigagjafar sem lögð var til grundvallar nýliðunarstuðningi. Við afgreiðslu umsóknarinnar hlutu kærendur 19 stig hvor og var sá stigafjöldi því lagður til grundvallar, samkvæmt vinnureglum 2.0., dags. 18. apríl 2018. Kærendum var í kjölfarið úthlutað 1.482.880 kr. vegna ársins 2018 en kærendum var úthlutað 1.570.681 kr. vegna ársins 2017. Í kjölfarið sendu kærendur andmælabréf til Matvælastofnunar þar sem gerðar voru ýmsar athugasemdir við feril málsins og ákvörðunina stofnunarinnar. Með bréfi, dags. 13. desember 2018, var ákvörðunin kærð til ráðuneytisins. Hinn 17. desember 2018 óskaði ráðuneytið eftir umsögn Matvælastofnunar vegna málsins og veitti frest til 18. janúar 2019. Umsögn stofnunarinnar barst ráðuneytinu 19. febrúar 2019. Í kjölfarið var kærendum gefinn kostur á andmælum vegna umsagnarinnar og bárust andmæli 15. mars 2019.

Sjónarmið kærenda

Kærendur vísa til þess að með því að flokka hjón eða sambúðarfólk sem einstaklinga við mat á úthlutun nýliðunarstuðnings er einstaklingum sem standa að búrekstri mismunað á grundvelli hjúskaparstöðu. Að mati kærenda fari það gegn markmiðum samnings á milli ríkis og Bændasamtaka Íslands um að efla íslenskan landbúnað auk þess sem það gangi þvert á reglugerð nr. 1180/2017, um almennan stuðning við landbúnað. Telja kærendur að hvorki sé heimild í lögum né reglugerðum fyrir framangreindri mismunun.

Kærendur vísa til þess að hjón sem standa saman að búrekstri fái ekki að sækja um nýliðunarstuðning í sitthvoru lagi enda hafi Matvælastofnun ekki gefið kærendum tækifæri til annars en að sækja um sameiginlega. Í ljósi þess telja kærendur eðlilegt að styrkleikar þeirra séu lagðir saman og metnir sameiginlega. Kærendur hafi fengið þær upplýsingar frá Matvælastofnun að óþarft væri að sækja um nýliðunarstuðning í sitthvoru lagi þar sem kærendur væru í hjónabandi en umsóknir þeirra yrðu metnar saman samkvæmt vinnureglum stofnunarinnar. Að mati kæranda hafi þeirri reglu ekki verið fylgt við vinnslu umsóknarinnar. Í því sambandi vísuðu kærendur til þess að hjón eða sambúðarfólk væru ekki í öllum tilvikum metin sem einstaklingar við stigagjöf þar sem í sumum tilvikum væri hlutdeild beggja einstaklinga í hjónabandi eða sambúð lögð saman. Slíkt sé einnig í ósamræmi við 19. gr. reglugerðar nr. 1180/2017, um almennan stuðning við landbúnað, sbr. 16. gr. sömu reglugerðar. Hvergi komi fram í reglugerðinni að hjón eða einstaklingar í óvígðri sambúð sé unnt að flokka sem einstaklinga. Auk framangreinds telja kærendur að með því að mismuna hjónum eða sambúðarfólki með því að flokka þau sem einstaklinga án þess að fyrir liggi reglugerðarheimild sé brotið í bága við ákvæði b-liðar 51. gr. búvörulaga, nr. 98/1993.

Telja kærendur að ekki verði annað ráðið af reglugerð nr. 1180/2017 en að einstaklingar eigi rétt á nýliðunarstuðningi enda hljóti það að vera öflugra teymi sem telur tvo aðila en einn sem hefur búrekstur. Kveða kærendur systkini eða vini sem taka við búrekstri eiga möguleika á tvöfalt hærri styrk.

Ákvæði 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1180/2017 vísi til hjóna og einstaklinga í óvígðri sambúð sem taki af allan vafa um að hjón séu tveir einstaklingar líkt og sambúðarfólk. Með vísan til þess sé ekki unnt að setja tvo einstaklinga í hjónabandi undir sömu umsókn án þess að það teljist þeim til tekna í umsóknarferlinu.

Kærendur vísa til þess að fyrirkomulag stigagjafar Matvælastofnunar hafi leitt til þess að kærendur fengu sameiginlega metin 19 stig en hefðu styrkleikar þeirra verið lagðir saman hefðu þau verið metin með 23 stig. Starfsreynsla, kynjamunur og hærra menntunarstig séu allt jákvæðir þættir í búrekstri og nýtist báðum einstaklingum sem standa að honum. Auk þess bentu kærendur á að sá annmarki væri á stigagjöfinni að hámarksstigafjöldinn væri í raun 29 stig en ekki 30 stig líkt og tekið er fram í vinnureglum um forgangsröðun nýliðunarumsóknar. 

Sjónarmið Matvælastofnunnar

Af hálfu Matvælastofnunar kemur fram að í X. kafla búvörulaga, nr. 99/1993 sé fjallað um starfsskilyrði nautgriparæktar á árunum 2017-2026. Markmið kaflans sé meðal annars að auðvelda nýliðun og nauðsynleg kynslóðaskipti sem tryggi að stuðningur ríkisins nýtist starfandi bændum á hverjum tíma, sbr. b. liður 51. gr. laganna. Samkvæmt 55. gr. laganna greiði íslenska ríkið framlög til nautgriparæktar í samræmi við samning samkvæmt 30. gr. laganna en í ákvæðinu sé tekið fram að einungis einn framleiðandi skuli vera skráður handhafi greiðsla á hverju lögbýli. Þó sé einstaklingum í hjúskap eða óvígðri sambúð á hverju lögbýli heimilt að skrá tvo framleiðendur sem handhafa greiðslna. Þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila sé að ræða með aðskilinn búrekstur geti hver og einn þeirra verið handhafi greiðslna. Í samræmi við 30. gr. búvörulaga, nr. 99/1993 hafi verið gerðir samningar á milli íslenska ríkisins og Bændasamtaka Íslands, m.a. rammasamningur um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins og framlög sem ekki falla undir samninga um starfsskilyrði garðyrkju, nautgriparæktar og sauðfjárræktar á árunum 2017-2026. Samkvæmt 1. gr. samningsins sé meginmarkmið hans að efla íslenskan landbúnað og skapa greininni sem fjölbreyttust sóknarfæri. Samningnum sé ætlað að skapa landbúnaðinum ramma til að auka verðmætasköpun og nýta sem best tækifærin sem felast í sveitum landsins í þágu bænda, neytenda og samfélagsins. Sú uppbygging þurfi að fara fram á grundvelli sérstöðu, sjálfbærni og fjölbreytni. Í því skyni séu í samningnum ný verkefni sem ætlað er að treysta stoðir landbúnaðarins og ýta undir framþróun og nýsköpun. Markmið samningsins sé þannig m.a. að auðvelda nýliðun, þannig að nauðsynleg kynslóðaskipti geti orðið í hópi framleiðenda og tryggja að stuðningur ríkisins nýtist sem best starfandi bændum. Samkvæmt 2. gr. samningsins fái þeir einir framleiðendur greiðslur sem stunda landbúnað á lögbýli með virðisaukaskattsnúmer og að starfsemi þeirra falli undir atvinnugreinanúmer 01 og 02, sbr. ÍSAT2008, með ákveðnum undantekningum. Þannig geti hjón og sambýlisfólk sem standa saman að búrekstri óskað eftir að greiðslum samkvæmt samningnum sé skipt jafnt á milli aðili.

Í 6. gr. samningsins sé fjallað um nýliðun, þar sem kveðið sé á um að Matvælastofnun ráðstafi þeim fjármunum sem ætlaðir séu til nýliðunar samkvæmt samningnum. Samkvæmt 22. gr. samningsins skuli ráðherra setja reglugerð um fyrirkomulag styrkveitinga samkvæmt 6. gr., þar sem kveðið skuli á um umsóknarfresti, viðmiðanir við styrkveitingar, skilyrði fyrir greiðslum framlaga, upphæðir framlaga og skerðingarákvæði. Í reglugerð nr. 1180/2017 sé fjallað um stuðningsgreiðslur sem falla undir rammasamning um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins. Í 3. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um handhafa greiðslna þar sem kveðið sé á um að greiðslur fái þeir einir framleiðendur sem eru skráðir eigendur eða leigjendur lögbýlis með lögheimili á Íslandi og stunda landbúnað á lögbýlinu. Í ákvæðinu sé einnig kveðið á um að hjón og einstaklingar í óvígðri sambúð sem standa saman að búrekstri geti óskað eftir því við Matvælastofnun að greiðslum samkvæmt reglugerðinni sé skipt jafnt á milli aðila. Þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila sé að ræða með aðskilinn búrekstur getur hver og einn verið handhafi greiðslna. Í IV. kafla reglugerðarinnar sé fjallað um nýliðunarstuðning þar sem segi að Matvælastofnun ráðstafi fjármunum til nýliðunarstuðnings og hverjir geti talist rétthafar stuðningsins. Samkvæmt 16. gr. reglugerðarinnar skuli nýliðunarstuðningur beinast að einstaklingum í eigin nafni eða til lögaðila sem nýliði á a.m.k. 25% hlut í. Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar séu talin upp skilyrði sem viðkomandi einstaklingar þurfi að uppfylla.

Í umsögn Matvælastofnunar er vísað til 18. gr. reglugerðar nr. 1180/2017 þar sem fram kemur að stofnuninni sé heimilt að forgangsraða umsóknum um nýliðunarstuðning með vísan til nánari atriða sem fram koma í ákvæðinu. Í sama ákvæði er mælt fyrir um að stofnunin semji nánari reglur um forgangsröðun umsókna þar sem hver þáttur er metinn til stiga og birtir áður en opnað er fyrir umsóknir sem skulu flokkaðar eftir stigafjölda. Matvælastofnun hafi birt reglur samkvæmt 18. gr. reglugerðarinnar á heimasíðu stofnunarinnar 24. apríl 2018. Í reglunum komi fram að hjón/sambúðarfólk standi sem einstaklingar við stigagjöf og skuli sá aðili sem endar með fleiri stig lagður til grundvallar umsóknar enda uppfylli sá aðili almenn skilyrði fyrir nýliðunarstuðningi samkvæmt 16. gr. reglugerðarinnar. 

Við afgreiðslu umsókna sé notast við aðferðafræði sem byggir á því að ef hjón eða sambúðarfólk hafi sameiginlega staðið að umsókn hafi þættir sem falla undir menntun, jafnréttissjónarmið og starfsreynslu verið metin einstaklingsbundið en þættir sem falla undir rökstuðning, fimm ára rekstraráætlun og eignarhlut verið metinn sameiginlega. Fyrst hafi því verið reiknuð út heildarstig út frá einstaklingsbundnum þáttum og þar hafi einstaklingur með hærri stigafjölda verið lagður til grundvallar og að lokum hafi sameiginlegum stigum verið bætt ofan á í því skyni að finna út heildarstigafjölda. Í samræmi við framangreind sjónarmið hafi kærendur verið flokkaðir í forgangshópa og hafi kærendur verið metin með 19 stig. Kærendur hafi verið flokkaðir í forgangshóp 2 og í kjölfarið verið úthlutað 1.482.880 kr. vegna ársins 2018.

Í umsögn Matvælastofnunar kemur fram að nýliðunarstuðningi sé ætlað að auðvelda nýliðun þannig að nauðsynleg kynslóðaskipti geti orðið í hópi framleiðenda og tryggja að stuðningur nýtist sem best starfandi bændum. Stuðningurinn sé ekki ætlaður hjónum eða sambúðarfólki umfram aðra aðila eða að hjón og sambúðarfólk ættu að njóta forgangs eða vera gert hærra undir höfði en öðrum framleiðendum. Stofnunin telur regluverkið ekki gera ráð fyrir slíkri nálgun. Líta verði á umsóknir þannig að við stigagjöf sé ekki unnt að leggja saman styrkleika hjóna og sambúðarfólks heldur verði að stiga umsóknir í þeim tilvikum þegar hjón eða sambúðarfólk sæki um saman þannig að hærri stigagjöf hvors einstaklings verði lögð til grundvallar. Stuðningsgreiðslur vegna landbúnaðarframleiðslu, sbr. búvörulög nr. 99/1993, gangi til framleiðenda, þ.e. skráðra eigenda eða leigjenda lögbýlis, sem stunda landbúnað á viðkomandi lögbýli. Hjón eða einstaklingar í óvígðri sambúð samkvæmt skráningu Þjóðskrár sem standi saman að framleiðslu (búrekstri) séu þannig skilgreindir samkvæmt regluverkinu sem einn framleiðandi. Slíkir framleiðendur geti hins vegar óskað eftir því við Matvælastofnun að greiðslu vegna framleiðslunnar sé skipt jafnt á milli hjóna eða sambúðarfólks og hefur stofnunin þá greitt til viðkomandi í samræmi við óskir þess efnis, sbr. 3. gr. reglugerðarinnar.

Í umsögninni segir að stofnunin geri ekki athugasemdir við að hjón eða sambúðarfólk sæki um í sitt hvoru lagi en hafi leiðbeint aðilum sem slíkt hygðust gera að fjárstuðningur viðkomandi myndi skerðast hlutfallslega þar sem einungis væri veittur nýliðunarstuðningur fyrir hvert og eitt lögbýli og stuðningur við hvorn einstakling myndi skiptast jafnt á milli aðila. Engin slík umsókn hafi borist enda verði réttarstaða umsækjenda ávallt sterkari við sameiginlega umsókn þar sem hærri einstaklingur sé stigaður í einstaklingsbundnum þáttum. Matvælastofnun telur að stofnunin hafi gætt að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í umsögn stofnunarinnar er einnig vikið að athugasemd kærenda um hámarksstigagjöf, þ.e. að hámarkið sé 29 stig en ekki 30 stig líkt og fram kemur í reglunum. Fram kemur í umsögn Matvælastofnunar að um réttmæta ábendingu sé að ræða og stofnunin muni beita sér fyrir því að umræddur texti verði leiðréttur þannig að hann endurspegli reglurnar eins og þær hafa verið settar fram. Villan sé til komin vegna þess að mest sé unnt að fá níu stig vegna jafnréttissjónarmiða en ekki tíu líkt og kveðið er á um í textanum. Athugasemdin breyti þó engu um niðurstöðu stofnunarinnar á umsókn kærenda. Fyrir liggur að hún hafi ekki haft nein áhrif enda hafi hún haft sömu áhrif hjá öðrum umsækjendum.

Að mati stofnunarinnar hafi við framkvæmd nýliðunarstuðnings verið höfð til hliðsjónar þau meginsjónarmið sem kveðið er á um í framangreindu regluverki og að kærendur hafi ekki borið skarðan hlut frá borði miðað við aðra umsækjendur.

Forsendur og niðurstaða

Málið lýtur að umsókn kærenda um nýliðunarstuðning í landbúnaði. Í kröfugerð kærenda kemur fram að gerð sé krafa um að við ákvörðun um úthlutun nýliðunarstuðnings verði styrkleikar beggja kærenda lagðir til grundvallar umsókninni en ekki einungis þess aðila sem hlýtur hærri heildareinkunn samkvæmt mati Matvælastofnunar. Til vara er þess krafist að kærendur fái að sækja um nýliðunarstuðning í sitthvoru lagi þrátt fyrir að vera í hjónabandi.

Í samræmi við 30. gr. búvörulaga, nr. 99/1993 hafa verið gerðir samningar á milli íslenska ríkisins og Bændasamtaka Íslands, m.a. rammasamningur um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins og framlög sem ekki falla undir samninga um starfsskilyrði garðyrkju, nautgriparæktar og sauðfjárræktar á árunum 2017-2026. Samkvæmt 6. gr. rammasamningsins ráðstafar Matvælastofnun þeim fjármunum sem ætlaðir séu til nýliðunar samkvæmt samningnum en í 22. gr. samningsins segir að ráðherra skuli setja reglugerð um fyrirkomulag styrkveitinga samkvæmt 6. gr. samningsins. Markmið nýliðunarstuðnings er að aðstoða nýliða við að hefja búskap og auðvelda ættliðaskipti í landbúnaði, sbr. 15. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1180/2017, um almennan stuðning við landbúnað. Í 3. gr. reglugerðarinnar segir að hjón og einstaklingar í óvígðri sambúð, samkvæmt skráningu í Þjóðskrá, sem standa saman að búrekstri geti óskað eftir því við Matvælastofnun að greiðslum samkvæmt reglugerðinni sé skipt jafnt á milli aðila. Þá segir að þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila sé að ræða með aðskilinn búrekstur geti hver og einn þeirra verið handhafi greiðslna. Af ákvæðinu má ráða að ekki er gert ráð fyrir að báðir aðilar í hjónabandi eða í óvígðri sambúð hljóti nýliðunarstuðning vegna sama búrekstrar þar sem þeir eru skilgreindir sem einn framleiðandi samkvæmt regluverkinu.

Í 18. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1180/2017, um almennan stuðning við landbúnað, kemur fram  að Matvælastofnun sé heimilt að forgangsaða umsóknum um nýliðunarstuðning með vísan til tiltekinna þátta en jafnframt segir í ákvæðinu að stofnunin semji nánari reglur um forgangsröðun umsókna þar sem hver þáttur er metinn til stiga og birtir reglurnar áður en opnað er fyrir umsóknir. Þá kemur fram að umsóknir skuli flokkaðar eftir stigafjölda. Í gögnum málsins má finna vinnureglur Matvælastofnunar, dags. 18. apríl 2018, um forgangsröðun nýliðunarumsókna þar sem nánar er kveðið á um fyrirkomulag stigagjafar en reglurnar lágu til grundvallar ákvörðunar Matvælastofnunar um nýliðunarstuðning kærenda. Í reglunum segir m.a.:

Hjón/sambúðaraðilar standa sem einstaklingar við stigagjöf og skal sá aðili sem endar með fleiri stig lagður til grundvallar umsóknar, enda uppfylli sá aðili almenn skilyrði fyrir nýliðunarstuðningi skv. 16. gr. reglugerðarinnar.

Af framangreindu þykir ljóst að Matvælastofnun var falið að setja reglur um forgangsröðun umsókna um nýliðunarstuðning og fyrirkomulag stigagjafar. Í reglunum er kveðið á um fyrirkomulag stigagjafar þegar hjón eða sambúðaraðilar standa saman að umsókn um nýliðunarstuðning en í slíkum tilfellum skuli aðilar standa sem einstaklingar við stigagjöf. Reglurnar taka jafnframt mið af ákvæðum  framangreinds rammasamnings, sem byggir á ákvæðum búvörulaga, nr. 99/1993, þar sem fram kemur að einungis einn framleiðandi skuli vera skráður handhafi greiðslna á hverju lögbýli, sem og af ákvæðum þágildandi reglugerðar nr. 1180/2017, um almennan stuðning við landbúnað. Þannig er í reglunum gert er ráð fyrir því að einn aðili sé handhafi greiðslna vegna sama búrekstrar. Með vísan til þess getur ráðuneytið hvorki tekið undir þá túlkun kærenda að Matvælastofnun hafi borið að leggja styrkleika beggja kærenda til grundvallar umsókninni né að reglugerðarheimild hafi skort fyrir stofnunina til þess að meta umsókn kærenda um nýliðunarstuðning með umræddum hætti.

Kærendur vísa til þess að framangreindri reglu um stigagjöf hjóna eða sambúðarfólks hafi ekki verið fylgt við vinnslu umsóknar þeirra um nýliðunarstuðning þar sem stigagjöf hafi ekki í öllum tilvikum verið metin þannig að þau hafi staðið sem einstaklingur við stigagjöf. Í umsögn Matvælastofnunar kemur fram að við afgreiðslu umsókna hafi verið notast við þá aðferðafræði að ef hjón eða sambúðaraðilar hafi staðið sameiginlega að umsókn hafi þættir sem falla undir menntun, jafnréttissjónarmið og starfsreynslu verið metin einstaklingsbundið en þættir sem falla undir rökstuðningu, fimm ára rekstraráætlun og eignarhlut  verið metinn sameiginlega. Af gögnum málsins fæst ráðið að kærendur skiluðu sameiginlega inn umsókn um nýliðunarstuðning. Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun er ljóst að hluti umsóknar kærenda um nýliðunarstuðning var metinn í samræmi við þá meginreglu sem fram kemur í vinnureglum Matvælastofnunar, dags. 18. apríl 2018, um að hjón eða sambúðaraðilar skuli standa sem einstaklingar við stigagjöf. Þeir þættir sem hins vegar voru metnir sameiginlega til stiga féllu undir heildarmat á umsókn, þ.e. þættir sem lúta að rökstuðningi, fimm ára rekstraráætlun og eignarhlut. Ráðuneytið gerir ekki athugasemd við að síðarnefndu þættirnir séu metnir sameiginlega til stiga enda má ætla að sami rökstuðningur og fimm ára rekstraráætlun fylgi umsóknum sem skilað er inn vegna sama búreksturs. Þá er það mat ráðuneytisins að eðlilegt sé að meta eignarhlut hjóna sameiginlega. Í ljósi þess að frávik frá framangreindri vinnureglu voru ekki til þess fallin að veikja niðurstöðu kærenda í umsóknarferlinu telur ráðuneytið að Matvælastofnun hafi haft heimild til þess að leggja mat á umsókn kærenda með fyrrgreindum hætti. Það er þó mat ráðuneytisins að skýrleika framangreindra vinnureglna megi bæta með því að kveða með nánari hætti á um hvernig mat umsókna fer fram en sú afstaða ráðuneytisins hefur ekki áhrif á niðurstöðu þessa máls.

Kærendur bentu á að sá annmarki væri almennt á stigagjöf Matvælastofnunar að hámarksstigafjöldi væri í raun 29 stig en ekki 30 stig líkt og fram kemur í framangreindum vinnureglum. Í umsögn sinni tók Matvælastofnun undir ábendingu kærenda og upplýsti um að textinn yrði leiðréttur en fram kemur að framangreind villa hafi ekki haft áhrif á ákvörðun um nýliðunarstuðning kærenda enda hafi hún haft sömu áhrif á alla umsækjendur. Ljóst er að nú þegar hefur verið brugðist við framangreindri ábendingu kærenda enda hefur hámarksstigafjöldi verið færður niður í 29 stig í nýjustu útgáfu vinnureglna um forgangsröðun nýliðunarumsókna, sem birtar voru á heimasíðu Matvælastofnunar 22. janúar 2019. Í ljósi þess að misritun í vinnureglum, dags. 18. apríl 2018, hafði sömu áhrif á alla umsækjendur um nýliðunarstuðning telur ráðuneytið það ekki hafa áhrif á niðurstöðu málsins. 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 13. september 2018, um úthlutun nýliðunarstuðnings er hér með staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum