Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 182/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 182/2021

Föstudaginn 27. ágúst 2021

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur

Með kæru, dags. 8. apríl 2021, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 25. mars 2021 vegna umgengni hennar við dóttur sína, D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan D er tæplega X ára gömul stúlka sem laut forsjá kæranda og föður síns. Kærandi er kynmóðir stúlkunnar.

Mál stúlkunnar var tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B þann 16. mars 2021. Fyrir fundinn lá fyrir greinargerð starfsmanna barnaverndar, dags. 10. mars 2021. Starfsmenn lögðu til að umgengni skyldi vera tvisvar í mánuði í klukkustund í senn. Kærandi var ekki samþykk tillögum starfsmanna og var málið því tekið til úrskurðar þann 25. mars 2021. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Barnaverndarnefnd B ákveður að A, hafi umgengni við D, tvisvar í mánuði í eina klukkustund í senn á meðan forsjársviptingarmál er rekið fyrir dómstólum.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 8. apríl 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 13. apríl 2021, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst nefndinni þann 19. maí 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar var hún send samdægurs lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 20. maí 2021 og voru þær sendar samdægurs Barnaverndarnefnd B til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.   

Með dómi Héraðsdóms B 2. júlí 2021 voru foreldrar stúlkunnar svipt forsjá dóttur sinnar. 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir aðallega þá kröfu að hinum kærða úrskurði verði hrundið og henni veitt umgengni við dóttur sína átta sinnum í mánuði í fjórar klukkustundir í senn. Til vara sé þess krafist að henni verði veitt umgengni fjórum sinnum í mánuði í fjórar klukkustundir í senn og til þrautavara að inntak umgengni verði ákvörðuð af úrskurðarnefnd. Í öllum tilvikum er þess jafnframt krafist að umgengni fari ekki fram undir eftirliti.

Fram kemur í kæru að barnaverndarnefnd hafi úrskurðað þann 24. nóvember 2020 um vistun stúlkunnar utan heimilis í tvo mánuði á meðan rekið væri forsjárviptingarmál fyrir dómstólum.  Forsjársviptingarmálið hafi verið höfðað þann 22. janúar 2021. Barnaverndarnefnd upplýsti að búið væri að finna fósturforeldra fyrir bæði systkinin og myndi fósturaðlögun drengsins hefjast í byrjun desember, en stúlkunnar í byrjun janúar 2021. Stúlkan hafi þá verið í umsjá stuðningsfjölskyldu sinnar, en fósturaðlögun hófst um miðjan janúar með því að stúlkan hafi verið tekin úr umsjá stuðningsfjölskyldunnar og færð á E og hafi átt að vera þar í undirbúningi fyrir nýtt heimili. Fósturforeldrarnir, sem barnavernd valdi að tillögu Barnaverndarstofu, gáfust upp innan við viku, án þess stúlkan hafi gist hjá þeim og aðeins verið einu sinni ein með þeim. Stúlkan hafi því verið áfram á E og sé enn á meðan barnavernd sé búin að hafa samband við að minnsta kosti sex fjölskyldur sem allar hafi hafnað að taka stúlkuna í fóstur.

Kærandi byggir kröfur sínar á því að barnaverndarnefnd hafi úrskurðað um mun takmarkaðri umgengni en nauðsynlegt sé og að hagsmunir stúlkunnar krefjist aukinnar umgengni hennar við móður sína en kveðið er á um í úrskurðinum og hafi varnaraðili því brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og barnaverndarlaga við töku ákvörðunarinnar sem og inntaki barnaverndarlaga um að börn skuli njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og að markmiðum laganna skuli náð með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu, sbr. 1. og 2. gr. bvl.

Í úrskurði barnaverndarnefndar sé vísað til þess að umgengni hafi „gengið vel fyrir sig“ í þau skipti sem hún hafi átt sér stað og að „stúlkan virðist njóta samveru með móður sinni.“ Þrátt fyrir að vísað sé til þessara skipta sem umgengni fór vel fram séu gögn þar að lútandi ekki lögð til grundvallar í málinu þar sem umgengninni sé lýst nánar og bersýnilega komi í ljós hve vel kærandi og dóttir hennar ná vel saman. Í dagál frá 26. janúar 2021 sé gerð grein fyrir umgengni kæranda við dóttur sína. Þar segir meðal annars að stúlkan hafi „fagnaði móður sinni vel, knúsað hana og greinilega gladdist yfir komu móður sinnar“. Þar kemur jafnframt fram að kærandi „sýndi Ísabellu þolinmæði og var natin við hana allan tímann sem umgengnin varði“ og að kærandi hafi virst „örugg með sig“ og verið í „góðu jafnvægi“ á meðan umgengni varði. Umræddur dagáll sé hins vegar ekki á meðal þeirra gagna sem barnaverndarnefnd lagði til grundvallar niðurstöðu sinni.

Óumdeilt sé að umgengni kæranda og stúlkunnar hafi gengið mjög vel í þau skipti sem hún hefur átt sér stað, sbr. fyrrnefndur dagáll barnaverndarnefndar frá 26. febrúar 2021. Þá fór einnig fram umgengni 25. mars 2021, sbr. dagáll, en þá hafi umgengni aftur verið til fyrirmyndar og sérstaklega tekið fram að bæði kærandi og stúlkan hafi báðar „notið samvistar með hvor annari“. Þá komi þar einnig fram að þegar að kveðjustund kom hafi stúlkan ekki viljað að móðir sín færi strax og vildi halda umgengni áfram. Þegar svo ber við getur það varla talist stúlkunni fyrir bestu að umgengni sé jafn takmörkuð og kveðið sé á um í hinum kærða úrskurði. Stúlkan hafi notið samvistar við móður sína til hins ýtrasta og veitt henni mikla ánægju og gleði og því vandséð að aukin samvist við kæranda gangi gegn hagsmunum hennar.

Mikilvægt sé að líta til afstöðu barna að því marki sem unnt er þegar taka á ákvarðanir um umgengnisrétt þeirra við foreldra sína. Þó svo að stúlkan sé ung hafi hún skýrlega gefið til kynna að hún njóti umgengni við móður sína sem hljóti að vega þungt þegar tekin sé ákvörðun um umgengni. Samkvæmt þeirri grundvallarreglu sem fram kemur í 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga skal ávallt tekið mið af því hvað þjónar hagsmunum barnsins best þegar afstaða er tekin til umgengni barns í fóstri við foreldra sína. Sambærilega reglu er að finna í 1. mgr. 4. gr. laganna, 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 sem og 3. gr. barnasáttmálans, sbr. lög nr. 19/2013. Umgengni hennar við móður sína sé því bersýnilega af hinu góða og því sé jafn takmörkuð umgengni við móður og tvær klukkustundir í mánuði því án efa andstæð hagsmunum stúlkunnar. Þá sé rétt að líta til mikilvægi þess að börn viðhaldi tengslum við kynforeldra sína og uppruna sin, þá sérstaklega þegar um sé að ræða tilvik eins og í þessu máli þar sem barnið er hálfíslenskt og þarf því enn frekar að rækta samband sitt við móður sína sem sé af erlendu bergi brotin og úr öðrum menningarheimi. Þá beri að líta til þess að þrátt fyrir að nú sé rekið mál fyrir héraðsdómi vegna kröfu barnaverndarnefndarinnar um forsjársviptingu sé alls óvíst hver niðurstaða þess máls verður. Af þeim sökum verði að gera ráð fyrir þeim möguleika að stúlkan muni snúa aftur í umsjá kæranda. Ef svo fer sé það bersýnilega andstætt hagsmunum barnsins ef búið sé að rjúfa, eða að minnsta kosti skerða tengsl barnsins og kæranda. Það fyrirkomulag sem nú hefur verið úrskurðað um sé svo takmarkað að það gæti skaðað hagsmuni barnsins þegar til lengri tíma er litið.

Í ljósi þess að kærandi hafi ekki verið svipt forsjá barnsins verði að telja að umgengni hennar við barnið sé gríðarlega lítil, sérstaklega þegar litið sé til fyrri ákvarðana úrskurðarnefndar velferðarmála varðandi umgengni, en þar hafa foreldrar sem sviptir hafa verið forsjá barna sinna, sem ekki er raunin í þessu máli, fengið mun meiri umgengni við börn sín en barnaverndarnefndin veitir kæranda í úrskurði sínum. Má þar nefna mál nr. 528/2020 þar sem forsjársviptum föður var veitt umgengni við barn sitt tvisvar í mánuði í þrjár klukkustundir í senn sem sé ríflega tvöfalt meiri umgengni en kæranda er veitt. Í máli nr. 275/2019 hafi móður, sem svipt hafði verið forsjá barns síns, verið veitt eftirlitslaus umgengni fyrstu helgi annars hvors mánaðar í 48 klukkustundir í senn, eða tólffalt lengri umgengni en kæranda sé veitt. Jafnframt megi vísa til máls nr. 166/2019 þar sem föður, sem sviptur hafði verið forsjá barns síns. hafi verið veitt umgengni þriðju hverja viku í tvær klukkustundir í senn, eða 34 klukkustundir á ári, þrátt fyrir að fram komi að umgengni hafi ekki alltaf verið til fyrirmyndar og „gengið misvel“. Með hliðsjón af framangreindum úrskurðum og hvernig umgengni sóknaraðila við barnið hafi gengið hingað til sé ljóst að meðalhófs hafi ekki verið gætt af hálfu barnaverndarnefndarinnar þegar ákvörðun um umgengni hafi verið tekin, en slík skylda sé lögð á hendur stjórnvöldum þegar teknar séu íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga. Um sé að ræða gríðarlega íþyngjandi ákvörðun og því bar barnaverndarnefndinni að gæta enn betur að meðalhófi við ákvarðanatökuna en ella.

Umgengnin samkvæmt úrskurði varnaraðila sé gríðarlega takmörkuð og því beri að gera ríkar kröfur til barnaverndarnefndar um að ákvörðunin sé vel rökstudd og að aukin umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum stúlkunnar, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Rökstuðningur barnaverndarnefndar sé hins vegar takmarkaður og byggi niðurstöðu sína á því að stúlkan þurfi „stöðugleika og ró“. Jafnframt bendir barnaverndarnefndin á í úrskurði sínum að umgengni hafi verið óstöðug, meðal annars vegna vanda móður og að „slíkar uppákomur séu einungis til að auka á þann óstöðugleika sem stúlkan hefur búið við“.

Unnt sé að fallast á að miður sé að umgengni hafi fallið niður vegna áfengisneyslu kæranda, en ekki verður séð að draga muni úr stöðugleika og ró stúlkunnar við það eitt að hún fái að njóta aukinnar umgengni við kæranda, enda sýna fyrirliggjandi gögn með skýrum hætti að stúlkan nýtur þess að eiga samskipti við móður sína, enda hafi umgengni ávallt gengið vel þegar hún hafi átt sér stað. Ekki sé rökstutt með fullnægjandi hætti að aukin umgengni muni hafa neikvæð áhrif á stúlkuna og vinni gegn hagsmunum hennar. Vitaskuld hafi það ekki verið ákjósanlegt fyrir stúlkuna og komið henni í uppnám þegar til hafi staðið að fá að umgangast móður sína, en hætt hafi verið við á seinustu stundu. En hafa verði í huga að ástæðan fyrir því sé hin mikla löngun stúlkunnar til að umgangast móður sína og öll þau jákvæðu áhrif sem kærandi hafi á dóttur sína.

Líklegt megi telja að þau skipti sem umgengni féll niður hafi það að einhverju leyti haft neikvæð áhrif á stúlkuna, en að sama skapi séu bæði kærandi og barnaverndarnefnd sammála því að umgengni hafi gengið vel þegar af henni hefur orðið, sbr. dagálar varnaraðila frá 26. janúar 2021 og 25. mars 2021. Því verði að gera þá kröfu til barnaverndarnefndar að framkvæma hagsmunamat á því hvort hin jákvæðu áhrif aukinnar umgengni eigi að vega meira en möguleg neikvæð áhrif þess ef svo skyldi verða að umgengni félli oftar niður vegna vanda móður en hefur verið hingað til. Í hinum kærða úrskurði virðist ekkert slíkt mat hafa átt sér stað, heldur er í niðurstöðukafla hans einungis vísað til hinna mögulegu neikvæðu afleiðinga án þess að bera þá saman við hin augljósu jákvæðu áhrif sem aukin umgengni stúlkunnar við móður sína myndu hafa.

Eina sjónarmið barnaverndarnefndarinnar fyrir niðurstöðu sinni sé þörf stúlkunnar fyrir „stöðugleika og ró“ og að þau skipti sem þurft hefur að hætta við umgengni vegna móður auki á óstöðugleika í lífi stúlkunnar og metur það svo að umgangist stúlkan kæranda oftar en tvisvar í mánuði megi ætla að það hefði neikvæðar afleiðingar fyrir stúlkuna. Jafnvel þó að unnt væri að fallast á það sjónarmið barnaverndarnefndarinnar að kærandi eigi einungis að fá að umgangast dóttur sína tvisvar í mánuði hafi engin rök verið færð fyrir því að umgengni þurfi að vera markaður jafn skammur tími og gert sé í úrskurðinum, eða eina klukkustund í senn. Ekkert sé því til fyrirstöðu að lengja umgengnistímann í hvert sinn þó að umgengni sé einungis tvisvar sinnum í mánuði. Yrði það gert án þess að fjölga skiptum sem umgengni á sér stað sé ekkert sem bendir til þess að umgengni muni falla oftar niður vegna móður en í óbreyttu ástandi. Umgengnin sjálf hefur alltaf verið til fyrirmyndar þegar hún hefur átt sér stað og engin rök til staðar sem mæla gegn því að umgengni verði markaður lengri tími í hvert skipti.

Þá sé rétt að líta til þess að kærandi hafi unnið í því að takast á við áfengisvanda sinn síðan úrskurður barnaverndarnefndar hafi verið kveðinn upp og hafi skráð sig inn á meðferðarheimilið F og muni hefja innlögn þar þann 12. apríl 2021. Þá hafi umgengni eftir 25. mars 2021 gengið vel og ekkert sem bendir til þess að umgengni í framtíðinni muni falla niður með stuttum fyrirvara vegna sóknaraðila.

Dóttir kæranda hafi verið í mjög erfiðri stöðu í umsjá barnaverndar þar sem hún hefur verið á vaktaskiptu heimili á E núna í tæpa fjóra mánuði eftir að aðlögun átti að hefjast með fósturforeldrum sem síðan hættu við og hún hefur ekki fengið umgengni við stuðningsfjölskyldu þá sem hún dvaldist þó hjá í góðu yfirlæti á meðan bróðir hennar var í fósturaðlögun.  Hún sé ekki vistuð með bróður sínum, það sé enginn sem heimsækir hana á E og út frá skýrslum E frá því í byrjun febrúar sé ekki annað að sjá en að hún hafi verið spennt að vera með bróður sínum og fara til þeirra fósturfeðra sem til stóð að hún yrði hjá.

Óhæfilegur dráttur hafi verið á málshöfðun til forsjársviptingar, en úrskurður var kveðinn upp 24. nóvember 2020 og málið var þingfest 22. janúar 2021 og sé enn rekið fyrir héraðsdómi þar sem beðið sé niðurstöðu nýs forsjárhæfnismats og nýs geðmats á kæranda, þrátt fyrir að sönnunarbyrðin sé á barnavernd í þessu máli og hún hafi talið málið nægjanlega upplýst til að fara fram með kröfuna. Allur dráttur á rekstri málsins sé því vegna vinnubragða barnaverndar og á meðan líður stúlkan fyrir einmannaleika og höfnun í vaktaskiptu úrræði á vegum borgarinnar, án þess að fá að hitta móður sína. 

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að gerðar séu athugasemdir við það að barnaverndarnefnd leggi fram samhliða greinargerð sinni skjöl sem urðu til eftir að fundur Barnaverndarnefndar B var haldinn þann 16. mars 2021 þegar kærandi hafi fengið að gæta andmælaréttar við framkomin gögn á nefndarfundi, sem og gögn sem urðu til eftir uppkvaðningu úrskurðar þann 25. mars 2021. Um sé að ræða dagál, eftirlit í umgengni, dags. 9. apríl, 2021, dagál, fósturaðlögun hefst, dags. 19. apríl 2021, dagál, fund með móður og fósturforeldrum, dags. 11. maí 2021, geðheilbrigðisrannsókn, dags. 3. maí 2021, sálfræðilega matsgerð, dags. 4. maí 2021, og dagál, eftirlit í umgengni, dags. 17. maí 2021. 

Kæra hafi verið send úrskurðarnefnd velferðarmála þann 8. apríl 2021 og með bréfi nefndarinnar þann 13. apríl 2021 hafi barnaverndarnefnd verið veittur 14 daga frestur til að koma á framfæri greinargerð í málinu.  Það lét barnaverndarnefnd algerlega undir höfuð leggjast og það hafi ekki verið fyrr en fimm vikum síðar sem greinargerð ásamt fylgigögnum barst, eftir ítrekun frá lögmanni kæranda.   

Öll fylgiskjöl með greinargerð, að einu undanskildu, lágu ekki fyrir þegar sá úrskurður var kveðinn upp sem verið er að kæra. 

Samkvæmt 4. mgr. 51. gr. bvl. geti úrskurðarnefnd metið að nýju bæði lagahlið málsins og sönnunargögn.  Um málsmeðferð fyrir nefndinni gilda almennar stjórnsýslureglur, ásamt IX. og VIII. kafla barnaverndarlaga.  Í lögunum komi ekkert fram sem breytir þeim meginreglum stjórnsýsluréttar sem lúta að jafnræði málsaðila í þá veru að annar málsaðila geti lagt fram gögn til æðra stjórnvalds sem urðu til eftir að sá úrskurður var kveðinn upp sem sætir kæru. 

Í 3. mgr. 52. gr. segir að úrskurðarnefndin skuli að jafnaði byggja úrskurð sinn á þeim gögnum sem fyrir eru í málinu og það sé á forræði úrskurðarnefndar velferðarmála, telji hún ríka ástæðu til, að leggja fyrir aðila að afla nánar tilgreindra gagna, svo sem álitsgerða sérfræðinga. Það hafi hún ekki gert. 

Hvað varðar skýrslu sérfræðings, dags. 24. febrúar 2021, móttekna hjá Barnaverndarnefnd B 1. mars 2021, sem sé tæplega þremur vikum eftir að fósturforeldrar höfnuðu að taka stúlkuna til sín, en fyrir liggur ódagsett bréf frá fósturforeldrum en móttekið 19. febrúar þar sem þeir gáfust upp eftir að hafa verið á hnefanum í barnauppeldi í heila viku. Þá sé enginn samhljómur á milli skýrslu sérfræðings og stöðuskýrslu E 28. janúar – 6. febrúar 2021. 

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B sé í engu svarað þeim röksemdafærslum sem settar séu fram í kæru, heldur sé vísað til og byggt á gögnum sem hafa orðið til eftir að úrskurður var kveðinn upp og vísað í rekstur dómsmáls um forsjársviptingu. Ekkert í barnaverndarlögum nr. 80/2002 segir að umgengni skuli ákveðin með ákveðnum hætti á meðan dómsmál um forsjársviptingu sé rekið. Annaðhvort sé foreldri með forsjá eða ekki og út frá því miðast lagasjónarmið um umgengni. 

Að því sögðu sé í fyrsta lagi áréttað að hvergi í greinargerð Barnaverndarnefndar B séu færð rök fyrir því hvernig úrskurðurinn sé í samræmi við inntak barnaverndarlaga um að börn skuli njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og að markmiðum laganna skuli náð með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu, sbr. 1. og 2. gr. bvl. Þvert á móti virðist vera byggt á ólögmætu sjónarmiði um að vegna þess að rekið sé dómsmál um forsjársviptingu, eigi að ákveða umgengni með ákveðnum hætti sem hvergi er mælt fyrir um í lögum. Undir rekstri dómsmálanna sem nú séu rekin fyrir Héraðsdómi B og Barnaverndarnefnd B hafði ekki fyrir því að stefna inn fyrr en 22. janúar 2021, eða tveim dögum áður en tveggja mánaða vistunartími utan heimils rann út, hefur kærandi aflað geðmats um sjálfa sig og forsjárhæfnismats. Sú leið að leggja meðal annars þau gögn fram undir rekstri kærumáls þessa sé með öllu óskiljanleg, sérstaklega og sér í lagi þar sem allur rökstuðningur Barnaverndarnefndar B virðist byggjast á því að kærandi muni verða dæmd óhæf til að fara með forsjá á grundvelli matsgerðanna. 

Í öðru lagi komi ekkert fram annað en að umgengi kæranda við dóttur sína hafi alltaf gengið vel fyrir sig og að stúlkan virðist njóta samveru með móður sinni. 

Í þriðja lagi hafi Barnaverndarnefnd B algerlega misfarist að sýna fram á að grundvallarregla 3. mgr. 74. gr. bvl. um að ávallt skuli tekið mið af því hvað þjónar hagsmunum barnsins best þegar tekin er afstaða til umgengni, hafi verið höfð að leiðarljósi við ákvörðunartökuna. Þvert á móti virðast aðrir og óljósir hagsmunir, jafnvel þrjóska hafa ráðið för við ákvörðun um umgengni. 

Úrskurðarnefnd velferðarmála beri því ekki, og sé óheimilt, að taka tillit til þeirra gagna og röksemda sem hafa verið færð fram af hálfu barnaverndarnefndar B og byggja á atvikum og gögnum eftir uppkvaðningu úrskurðar. 

Vegna þess dráttar sem orðið hefur á því að Barnaverndarnefnd B skilaði greinargerð í málinu sé þess óskað að málið hljóti tafarlausa afgreiðslu hjá úrskurðarnefnd velferðarmála. Úrskurðarnefnd velferðarmála beri ekki skylda til að bíða í margar vikur eftir að stjórnvald skili af sér greinargerð í jafn viðkvæmum málum eins og umgengni þriggja ára stúlku við móður sína er.  Þar sé hver vika sem heil eilífð. 

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að um sé að ræða rúmlega X ára gamla stúlku sem hafi lotið forsjá beggja foreldra sinna. Lögheimili stúlkunnar hafi verið hjá kæranda. Á fundi Barnaverndarnefndar B þann 17. nóvember 2020 bókaði nefndin um vistun stúlkunnar utan heimilis í tvo mánuði og fól Borgarlögmanni að gera þá kröfu fyrir dómi að foreldrar stúlkunnar yrðu svipt forsjá hennar. Stúlkan hafi búið við mikinn óstöðugleika í lífi sínu allt frá fæðingu og samtals hafi vistun hennar utan heimilis staðið í 21 mánuð, stóran hluta af ævi stúlkunnar. Stúlkan hefur ítrekað verið vistuð á E, vistheimili barna, auk þess sem hún hefur verið í umsjá stuðningsfjölskyldu sinnar. Í kjölfar þess að barnaverndarnefnd tók ákvörðun um að gera ætti þá kröfu fyrir dómi að foreldrar stúlkunnar yrðu svipt forsjá hennar hafi verið fundin fósturfjölskylda fyrir stúlkuna og yngri bróður hennar. Ákveðið hafi verið að aðlaga börnin ekki að fósturheimilinu samtímis. Þegar aðlögun drengsins hafði staðið yfir í mánuð hafi verið hafist handa við að aðlaga stúlkuna að fósturheimilinu. Aðlögun stúlkunnar gekk illa, sérfræðingur í tengslamyndun ungra barna hafi verið fengin til að aðstoða fósturforeldrana og meta stöðu beggja barnanna. Í skýrslu sérfræðingsins, dags. 24. febrúar 2021, kom meðal annars fram að börnin bæru bæði merki þess að glíma við tilfinninga- og tengslavanda og þau þurfi hvort sína fjölskylduna til að vinna úr vandanum. Í skýrslunni segir einnig að þegar litið væri til þess hvað stúlkan hefði upplifað á sinni stuttu ævi, ítrekaða vanrækslu og vistanir utan heimilis, með og án foreldra, væri ljóst að það væru fyrst og fremst hennar þarfir að hægt væri að skapa henni  fyrirsjáanleika, ró og öryggi til að draga úr áhrifum þessara fyrstu æviára á að stúlkan muni eiga við tengslavanda sem gæti leitt til námsörðugleika og vanda í félagslegum sem og líkamlegum þroska.

Þegar úrskurður barnaverndarnefndar hafi verið kveðinn upp þann 25. mars 2021 hafði stúlkan átt umgengni við móður sína í tvígang frá október 2020. Umgengni gekk vel þegar hún fór fram. Þrisvar sinnum hafði þó þurft að aflýsa umgengni kæranda við stúlkuna, í tvígang hafi verið búið að upplýsa stúlkuna um að umgengni ætti að fara fram en umgengni féll niður vegna áfengisneyslu kæranda. Í greinargerð starfsmanna, dags. 10. mars 2021, sem lá fyrir á fundi barnaverndarnefndar kom fram það mat að stúlkan væri í þörf fyrir stöðugleika og öryggi. Bentu starfsmenn á að þrátt fyrir að umgengni stúlkunnar við móður hefði gengið vel þegar hún fór fram, fylgdi því óstöðugleiki fyrir stúlkuna þegar umgengni væri felld niður með skömmum fyrirvara líkt og átt hefði sér stað í tvígang í máli stúlkunnar.

Í úrskurði barnaverndarnefndar frá 25. mars 2021 hafi nefndin tekið undir sjónarmið starfsmanna og vísaði einnig í skýrslu sérfræðings í tengslamyndun ungbarna þar sem fram kemur að óöryggi í aðstæðum stúlkunnar hefði haft áhrif á líðan hennar og hegðun. Það hafi verið mat Barnaverndarnefndar B að umgengni kæranda við stúlkuna tvisvar í mánuði í klukkustund í senn væri hæfileg umgengni eins og málum væri háttað í lífi stúlkunnar.

Frá því að hinn kærði úrskurður féll hafi umgengni farið fram einu sinni, eða þann 9. apríl 2021. Samkvæmt dagálsnótu eftirlitsaðila gekk umgengnin vel, kveðjustund reyndist mæðgunum erfið en stúlkan hafi verið fljót að jafna sig.

Erfiðlega hafi gengið að finna fósturheimili fyrir stúlkuna. Barnaverndarnefnd, sem vill ráðstafa barni í fóstur, sendir beiðni þar að lútandi til Barnaverndarstofu, sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 804/2004 um fóstur. Barnaverndarstofa annast leyfisveitingar til fósturforeldra, tekur ákvarðanir og veitir barnaverndarnefndum liðsinni í fósturmálum, sbr. 4. mgr. 7. gr. barnaverndarlaga. Barnaverndarstofu ber að halda skrá yfir alla þá aðila sem hlotið hafa leyfi til að taka barn í fóstur, sbr. 14. gr. reglugerðar um fóstur. Með því veitir Barnaverndarstofa barnaverndarnefndum fulltingi við öflun fósturforeldra. Stúlkan dvaldi á E þar til fósturaðlögun hófst þann 19. apríl 2021. Fósturaðlögun hafi gengið vel.

Í tengslum við forsjársviptingarmálið, sem rekið hafi verið fyrir dómstólum, voru dómkvaddir geðlæknir og sálfræðingur til að framkvæma mat á móður.

Geðheilbrigðisrannsókn lá fyrir þann 3. maí 2021. Fram komi í matinu að móðir sé vanhæf til að fara með forsjá barnanna. Þá svarar matsmaður þeirri spurningu játandi að geðrænar truflanir móður séu þess eðils að líkamlegri og andlegri heilsu barnanna og þroska þeirra sé hætta búin af forsjá móður.

Í niðurstöðum forsjárhæfnimats, dags. 4. maí 2021, komi fram að líkamlegri og andlegri heilsu og þroska barnanna sé hætta búin við uppeldisaðstæður í umsjá móður. Þá segir einnig að vandi móður sem uppalandi sé djúpstæður og mikill. Matsmaður bendir á að börnin séu á þeim aldri að þau þurfi mikið utanumhald ásamt stöðugleika og fyrirsjáanleika í tilveru sína. Matsmaður segir innsæi móður í þarfir barnanna mjög takmarkað og segir móður ekki í stakk búna til að annast um börnin og tryggja þeim velferð. Móðir sé samkvæmt matinu ekki hæf til að fara með forsjá barnanna.

Í kæru móður til úrskurðarnefndar sé ítrekað vísað til þess hve vel umgengni hafi gengið þegar hún hafi farið fram. Barnavernd B taki undir þau sjónarmið en bendir jafnframt á þann óstöðugleika sem ríkt hefur í lífi stúlkunnar til langs tíma og tilkominn sé vegna vímuefnavanda og geðræns vanda móður líkt og fram komi í tilvitnuðum matsgerðum geðlæknis og sálfræðings. Í matsgerðunum komi fram að vandi móður sé viðvarandi og hafa aðstæður móður farið versnandi samkvæmt mati sálfræðings. Þá bendir sálfræðingur einnig á að fíknivandi móður er alvarlegur og móðir hefur sinnt meðferðum illa. Að mati barnaverndar er ljóst að stúlkan getur ekki gengið að því sem vísu að umgengni sem skipulögð hefur verið með móður fari fram og líkur séu á að stúlkan upplifi óöryggi þessu tengdu. Móðir átti til að mynda nýverið skipulagða umgengni við bróður stúlkunnar sem hún nýtti sér ekki, barnið, fósturforeldri og eftirlitsaðili voru mætt í húsnæði Barnaverndar B en urðu frá að hverfa.

Í kæru móður þar sem farið er fram á ríkari umgengni við stúlkuna vísar lögmaður móður sjónarmiðum sínum til stuðnings í niðurstöður úrskurðarnefndar velferðarmála í þremur málum. Í máli nr. 528/2020 hafi ekki verið um að ræða forsjársviptan föður líkt og haldið sé fram í kæru móður. Þá vísaði úrskurðarnefnd til þess í niðurstöðu sinni að í gögnum málsins kæmi fram í afstöðu tveggja sérfræðinga að mikilvægt væri að barnið ætti umgengni við föður vegna tengsla þeirra. Í máli stúlkunnar sem hér á í hlut hafa sérfræðingur í tengslamyndun og sálfræðingur sem framkvæmdi forsjárhæfnimat á móður bent á að stúlkan sé i þörf fyrir fyrirsjáanleika í tilveru sína og sé að mati barnaverndar erfitt að sjá hvernig sá fyrirsjáanleiki verði tryggður ef ákveða á jafn rúma umgengni og móðir óskar eftir þegar ófyrirsjáanleiki hefur verið ríkjandi í tengslum við umgengni hingað til.

Varðandi mál nr. 275/2019 og 166/2019 sé um að ræða mál sem séu ólík málinu sem hér sé til umfjöllunar hvað varðar aldur barna og aðstæður foreldra, auk þess sem upplýsingar í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 166/2019 bera með sér að fyrirséð hafi verið að vistun barnsins væri tímabundin og ekki fyrirliggjandi upplýsingar um að stefna málsins væri með þeim hætti að barnið yrði vistað í varanlegu fóstri.

Markmiðið í þessu máli, og í samræmi við bókun Barnaverndarnefndar B þann 17. nóvember 2020, sé að stúlkan verði vistuð í varanlegu fóstri. Í ljósi þess og alls sem hafi gengið á í lífi stúlkunnar sé lögð áhersla á að hún upplifi öryggi og ró á fósturheimilinu. Það sé sérstaklega mikilvægt að stúlkan fái tíma til að aðlagast aðstæðum á fósturheimilinu sem hún hafi svo nýlega verið vistuð á og að sé stefnt að verði hennar framtíðarheimili. Meta verði umgengni með hliðsjón af hagsmunum stúlkunnar fyrst og fremst.

Umgengni samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga þarf að ákveða í samræmi við hagsmuni og þarfir D. Rétturinn til umgengni og umfang hans getur verið takmarkaður og háður mati á hagsmunum hennar þar sem meðal annars ber að taka tillit til markmiðanna sem stefnt sé að með fósturráðstöfuninni og hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Fari hagsmunir  stúlkunnar og móður ekki saman verða hagsmunir móður að víkja, sbr. 1. mgr. 4. gr. bvl. Það sé mat Barnaverndarnefndar B að umgengni móður við stúlkuna hafi verið hæfilega ákveðin með hinum kærða úrskurði nefndarinnar þann 25. mars 2021.

Í ljósi alls framangreinds, gagna málsins og með hagsmuni stúlkunnar að leiðarljósi sé gerð krafa um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV. Afstaða barns

Sökum ungs aldur stúlkunnar var ekki aflað afstöðu hennar til umgengni við kæranda.

V.  Niðurstaða

Stúlkan D er tæplega X ára stúlka. Kynforeldrar voru svipt forsjá hennar með dómi Héraðsdóms B 2. júlí 2021 og lýtur stúlkan nú forsjá Barnaverndarnefndar B.

Með hinum kærða úrskurði frá 25. mars 2021 var ákveðið að umgengni stúlkunnar við kæranda yrði tvisvar sinnum í mánuði eina klukkustund í senn á meðan forsjásviptingarmál væri rekið fyrir dómstólum.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að afskipti hafa verið af högum stúlkunnar frá fæðingu hennar vegna tilkynninga um vanrækslu stúlkunnar í umsjá kæranda og vegna andlegrar heilsu kæranda og áfengisneyslu hennar. Á fundi Barnaverndarnefndar B 17. nóvember 2020 var bókað að stúlkan skyldi vistuð utan heimilis í allt að tvo mánuði með vísan til 27. gr. bvl., auk þess sem Borgarlögmanni var falið að gera kröfu fyrir Héraðsdómi B um að foreldrar skyldu verða svipt forsjá stúlkunnar, sbr. a- og d-liði 1. mgr. 29. gr. bvl. Stúlkan var tekin úr umsjá kæranda þann 19. október 2020 og vistuð á E, vistheimili barna og fór í umsjá stuðningsfjölskyldu sinnar þann 22. október 2020. Til stóð að stúlkan yrði vistuð hjá fósturforeldrum yngri bróður hennar og hófst aðlögun að heimili þeirra 27. janúar 2021. Aðlögun gekk ekki upp og var henni hætt. Foreldrar stúlkunnar voru svipt forsjá stúlkunnar 2. júlí 2021 með dómi Héraðsdóms B.

Kærandi krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og henni verði veitt umgengni við dóttur sína átta sinnum í mánuði í fjórar klukkustundir í senn. Til vara er þess krafist að umgengni verði fjórum sinnum í mánuði í fjórar klukkustundir í senn og til þrautavara að inntak umgengni verði ákvörðuð af úrskurðarnefnd velferðarmála. Í öllum tilvikum sé þess krafist að umgengni fari fram án eftirlits.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem stúlkan er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hennar við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hennar best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfum kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum stúlkunnar best með tilliti til stöðu hennar. Forsenda hinnar kærðu ákvörðunar var sú að ekki væri stefnt að því að stúlkan færi aftur í umsjá kæranda og því ljóst að ekki var stefnt að því að hún færi aftur í umsjá kæranda. Umgengni kæranda við barnið þarf að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun stúlkunnar í fóstur. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi stúlkunnar í fóstri hjá fósturforeldrunum þar sem markmiðið er að tryggja henni uppeldi og umönnun innan fjölskyldu svo sem best hentar þörfum hennar, sbr. 3. mgr. 65. gr. bvl. Verði það ekki gert ber að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjónaði hagsmunum stúlkunnar best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála ber fyrst og fremst að líta til þess við ákvörðun um umgengni við kæranda hvað þjónar hagsmunum barnsins best. Í því sambandi ber að líta til þeirrar stöðu sem stúlkan er í samkvæmt gögnum málsins og þess að það er ekki markmiðið að styrkja tengsl hennar við kæranda heldur einungis að viðhalda tengslum. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að miðað við núverandi aðstæður þjóni það best þörfum barnsins að umgengni verði með þeim hætti sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði.

Með vísan til alls þess sem að framan greinir er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umgengni við kæranda hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja beri til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barns í fóstri við foreldra og nákomna er ákveðin. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 25. mars 2021 varðandi umgengni D, við A, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum