Hoppa yfir valmynd
Yfirfasteignamatsnefnd

Mál nr. 1/2018

Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 22. júní 2018 í máli nr. 1/2018.
Fasteign: Kerhraun [...] Grímsnes- og Grafningshreppur, fnr. [...].
Kæruefni: Gjaldflokkur fasteignar.

Árið 2018, 22. júní, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 1/2018 kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Með bréfi, dags. 22. mars 2018, kærði X, kt. […], álagningu fasteignaskatts vegna sumarhúss hans að Kerhrauni […], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. […], fyrir árið 2018.

Með bréfi, dags. 27. mars 2018, óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir umsögn frá Grímsnes- og Grafningshreppi vegna kærunnar sem barst með bréfi, dags. 18. apríl 2018.

Umsögn sveitarfélagsins var send kæranda með bréfi, dags. 23. apríl 2018, og var honum gefinn kostur á að gera við hana athugasemdir og bárust þær með tölvubréfi, dags. 3. maí 2018. Athugasemdirnar voru sendar sveitarfélaginu til kynningar með bréfi, dags. 8. maí 2018.

Engar frekari athugasemdir bárust.

Málið var tekið til úrskurðar 22. júní 2018.

I.              Málavextir

Fasteign kæranda, Kerhraun […], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. […], var þann 21. mars 2018 skráð til útleigu heimagistingar samkvæmt 13. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, eins og henni var breytt með 10. gr. laga nr. 67/2016.

Með álagningarseðli fasteignagjalda fyrir árið 2018, dags. 21. febrúar 2018, tilkynnti sveitarfélagið, Grímsnes- og Grafningshreppur, kæranda um álagningu fasteignagjalda ársins 2018 vegna fasteignarinnar. Fasteignaskattur eignarinnar var að hluta til ákvarðaður samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga þar sem talið var að eignin væri nýtt fyrir ferðaþjónustu hluta úr árinu.

Í kjölfar álagningarinnar átti kærandi í tölvupóstssamskiptum við sveitarstjóra Grímsnes- og Grafningshrepps þar sem hann mótmælti álagningunni og óskaði eftir endurskoðun á henni. Fram kom í svari sveitarstjórans að fasteignin hefði verið auglýst til útleigu á vefmiðlum og hún því skattlögð í samræmi við það.  Þá var einnig vísað til þess að fasteignaskattur væri lagður á fasteignir í samræmi við lög um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 og tæki álagningarhlutfall fasteignaskatts mið af nýtingu viðkomandi húsnæðisins. Væri fasteign nýtt til ferðaþjónustu bæri að skattleggja eignina samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Vísaði sveitarstjórinn jafnframt til úrskurða yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 18/2015 og 17/2016 og dóms héraðsdóms Suðurlands í máli nr. E-3/2017, til rökstuðnings álagningunni.

Kærandi vill ekki una framangreindri ákvörðun sveitarfélagsins og hefur því kært hana til yfirfasteignamatsnefndar líkt og að framan greinir.

II.           Sjónarmið kæranda.

Kærandi gerir þá kröfu að álagning fasteignaskatts á sumarhús hans að Kerhrauni […], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. […], fyrir árið 2018, verði felld úr gildi  og að fasteignaskattur eignarinnar verði að öllu leyti ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

Kærandi bendir á að hann hafi auglýst fasteignina á vefsíðunni „airbnb“ seint á árinu 2017 í þriggja mánaða útleigu.  Nokkrum dögum síðar hafi fasteignagjald eignarinnar verið fært úr a-flokki í c-flokk.  Í framhaldi hafði kærandi samband við hreppsskrifstofuna og mótmælt breytingunni. Hafi honum þá verið tjáð að ef hann tæki auglýsinguna út af vefsíðu „airbnb“ yrði breytingin dregin til baka.  Það var og gert, enda var engin leiga á fasteigninni árið 2017. 

Kærandi auglýsti síðan fasteignina til leigu á internetinu á fyrsta ársfjórðungi 2018 og samkvæmt kæranda var þess getið í auglýsingunni að leiga gæti hafist 1. maí 2018.  Eignin var síðan skráð í leyfisveitingagátt þann 21. mars 2018.

Kærandi bendir enn fremur á að hann hafi haft það að markmiði að fá örlitlar tekjur af fasteigninni upp í kostnað við að reka eignina.  Hann telur gjaldtökuna ósanngjarna og að ekki hafi verið gætt meðalhófs við töku ákvörðunarinnar.

Loks vísar hann til úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar nr. 9/2017 og nr. 13/2017 máli sínu til stuðnings.

III.        Sjónarmið Grímsnes- og Grafningshrepps.

Í umsögn Grímsnes- og Grafningshrepps, dags. 18. apríl 2018, kemur fram að fasteign kæranda að Kerhrauni [...], hafi á tímabilinu janúar til mars 2018 verið auglýst til útleigu á vefsíðunni „airbnb“ án þess að kærandi hefði tilskilin rekstrarleyfi fyrir útleigunni á grundvelli laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Óumdeilt sé að á fyrrgreindu tímabili hafi fasteign kæranda verið nýtt fyrir ferðaþjónustu í skilningi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, sbr. úrskurð yfirfasteignamatsnefndar frá 19. september 2016 í máli nr. 13/2016. Því byggi álagning fasteignaskatts vegna fyrrgreinds tímabils á gjaldflokki c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Sveitarfélagið bendir á að það hvernig eiganda fasteigna tekst að nýta mannvirki í atvinnurekstri sínum geti ekki ráðið ákvörðun um álagningu fasteignaskatts. Álagning byggi á raunverulegri nýtingu mannvirkis.

 

Bent er á að kærandi hafi skráð fasteignina þann 21. mars 2018 fyrir heimagistingu á grundvelli laga nr. 85/2007. Sveitarfélagið hafi því byggt álagningu fasteignaskatta á eignina vegna þess tímabils sem heimagistingin tekur til á c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 í samræmi við túlkun sveitarfélagsins á ákvæðinu.  Sveitarfélagið bendir hins vegar á að með úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 9/2017 hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að Grímsnes- og Grafningshreppur hafi verið óheimilt að byggja álagningu fasteignaskatta á c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 vegna þess tíma sem viðkomandi fasteign  var skráð fyrir heimagistingu. Sveitarfélagið höfðaði að því tilefni dómsmál á hendur eigendum viðkomandi fasteignar til þess að láta reyna á lögmæti niðurstöðu yfirfasteignamatsnefndar. Leggur sveitarfélagið til að úrlausn um þennan þátt kærumálsins bíði þar til dómur liggur fyrir í fyrrgreindu máli.

 

IV.           Niðurstaða

Kærandi gerir þá kröfu að álagning Grímsnes- og Grafningshrepps frá 21. febrúar 2018 varðandi fasteignagjöld af sumarbústað hans að Kerhrauni […], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. […], fyrir árið 2018, verði felld úr gildi. Með hliðsjón af málsástæðum kæranda og framsetningu á kæru hans að öðru leyti lítur yfirfasteignamatsnefnd svo á að krafa hans lúti að því að fasteignaskattur af sumarbústað hans verði að öllu leyti ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, fyrir árið 2018.

I.

Kveðið er á um álagningu fasteignaskatts í II. kafla laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna er það í höndum sveitarstjórna að ákveða fyrir lok hvers árs skatthlutfall innan þeirra marka sem greinir í stafliðum a til c í ákvæðinu. Þá er það í höndum byggingarfulltrúa að ákveða hlutfallslega skiptingu milli gjaldflokka þegar það á við, sbr. 6. gr. sömu laga.

Ákvæði a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 sem fjallar meðal annars um sumarbústaði er undantekningarákvæði eins og ákvæði b-liðar sömu greinar. Af orðalagi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna verður ráðið að á allar aðrar fasteignir en þær sem sérstaklega eru taldar upp í stafliðum a og b verður lagður fasteignaskattur, allt að 1,32% af fasteignamati og lóðarréttindum. Í dæmaskyni eru þar meðal annars tilgreind „iðnaðar-, skrifstofu- og verslunarhúsnæði, fiskeldismannvirki, veiðihús og mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu“. Þá er sveitarstjórnum veitt heimild í 4. mgr. 3. gr. laganna til að hækka um allt að 25% álagningu á þær eignir sem falla undir a- og c-lið 3. mgr. 3. gr. laganna.

Hugtakið ferðaþjónusta er ekki skilgreint sérstaklega í lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga en það hefur hins vegar verið skilgreint af Hagstofu Íslands þannig að ferðaþjónusta teljist ekki sérstök atvinnugrein heldur samanstandi hún af mörgum atvinnugreinum. Þannig hefur almennt verið talið að til ferðaþjónustu teljist meðal annars hvers konar gistiþjónusta. Um sölu á gistingu gilda lög nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sbr. a-liður 2. mgr. 1. gr. laganna. Gististaðir í skilningi laga nr. 85/2007 eru þeir staðir þar sem boðin er gisting til lengri eða skemmri tíma gegn endurgjaldi, svo sem á hótelum, gistiheimilum, í gistiskálum, íbúðum og sumarhúsum, með eða án veitinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna.

Með lögum nr. 67/2016, sem tóku gildi 1. janúar 2017, voru gerðar breytingar á lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Þær breytingar sneru m.a. að breyttri skilgreiningu á svonefndri heimagistingu. Heimagisting er nú skilgreind sem gisting gegn endurgjaldi á lögheimili einstaklings eða í einni annarri fasteign sem hann hefur til persónulegra nota og er í hans eigu. Fjöldi útleigðra daga í báðum eignum samanlagt skal ekki fara yfir 90 daga á hverju almanaksári eða samanlagðar tekjur af leigu eignanna ekki nema hærri fjárhæð en kveðið er á um í 3. tl. 4. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Sala á annarri gistingu en heimagistingu er leyfisskyld, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2007. Hins vegar er skylt að skrá heimagistingu hjá sýslumanni í viðkomandi umdæmi samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 85/2007, sbr. 10. gr. laga nr. 67/2016. Skráningu heimagistingar skal endurnýja á ári hverju og við lok hvers almanaksárs skal aðili með skráða heimagistingu skila til sýslumanns yfirliti yfir þá daga sem húsnæði hans var leigt út ásamt upplýsingum um leigutekjur. Við skráningu heimagistingar skal sýslumaður úthluta aðila sérstöku skráningarnúmeri og ber aðila að nota númerið í allri markaðssetningu og kynningu, þ.m.t. á vefsíðum, bókunarsíðum, á sjálfri fasteigninni og í auglýsingum hvers konar, sbr. 13. gr. laga nr. 85/2007.

II.

Yfirfasteignamatsnefnd hefur í fyrri úrskurðum sínum komist að þeirri niðurstöðu að heimilt sé að skipta álagningu fasteignaskatts milli einstakra gjaldflokka innan hvers gjaldárs. Hefur í því sambandi m.a. verið vísað til 6. gr. laga nr. 4/1995, þar sem fram kemur að ef afnot fasteignar sem metin er sem ein heild er með þeim hætti að greiða skuli fasteignaskatt af henni samkvæmt fleiri en einum gjaldflokki sbr. 3. mgr. 3. gr. laganna þá skuli byggingarfulltrúi ákveða hlutfallslega skiptingu milli gjaldflokka. Má í þessu sambandi m.a. vísa til úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 4/2015.

Þá hefur yfirfasteignamatsnefnd jafnframt komist að þeirri niðurstöðu í fyrri úrskurðum sínum að sveitarfélögum sé heimilt að leggja á fasteignaskatt samkvæmt gjaldflokki c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 á frístundahús (sumarbústaði) sem nýtt eru hluta úr ári sem gististaðir til ferðamanna á grundvelli tilskilinna rekstrarleyfa samkvæmt lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Skal álagning samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 í slíkum tilvikum taka mið af þeim dagafjölda á ári hverju sem eignin er nýtt fyrir ferðaþjónustu en eigendum ber að tilkynna fyrirfram um það tímabil innan hvers árs sem þeir ætla að nýta eignina með fyrrgreindum hætti, sbr. m.a. úrskurður yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 1/2016.

Með úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 9/2017 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að fasteignaskattur vegna fasteigna sem skráðar eru til útleigu heimagistingar samkvæmt 13. gr. laga nr. 85/2007, eins og henni var breytt með 10. gr. laga nr. 67/2016, skuli ákvarðaður samkvæmt gjaldflokki a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Það er þó háð því að viðkomandi fasteignir fullnægi að öllu leyti þeim skilyrðum sem fram koma í lögum nr. 85/2007 varðandi formlega skráningu, heildarleigutíma og leigutekjur innan hvers almanaksárs.

III.

Lög nr. 67/2016 tóku gildi þann 1. janúar 2017, sbr. 24. gr. laganna. Samkvæmt 10. gr. þeirra, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 85/2007, skal hver sá sem hyggst bjóða upp á heimagistingu í samræmi við 1. mgr. 3. gr. laganna tilkynna sýslumanni í viðkomandi umdæmi að hann hyggist leigja út lögheimili sitt eða eina aðra fasteign í sinni eigu. Af gögnum málsins má ráða að fasteign kæranda hafi verið auglýst til útleigu fyrir ferðamenn á vefsíðunni www.airbnb.is áður en fasteignin var skráð 21. mars 2018 til útleigu heimagistingar samkvæmt 13. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sbr. 10. gr. laga nr. 67/2016.  Hefur kærandi ekki mótmælt þeim fullyrðingum sveitarfélagsins.

 

Með hliðsjón af málsatvikum í því máli sem hér um ræðir og fyrri úrskurðum yfirfasteignamatsnefndar, frá 19. september 2016 í máli nr. 13/2016 og frá 20. febrúar 2018 í máli nr. 13/2017 verður að telja að kærandi hafi nýtt fasteign sína fyrir ferðaþjónustu í skilningi c-liðar  3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, áður en fasteignin var skráð til útleigu heimagistingar. Með vísan til þess sem að framan er rakið ber að ákvarða fasteignaskatt eignarinnar á tímabilinu 1. janúar til og með 20. mars 2018 samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

 

IV.

Frá og með 21. mars 2018 hefur fasteign kæranda verið  skráð til heimagistingar samkvæmt 13. gr. laga nr. 85/2007 sbr. 10. gr. laga nr. 67/2016. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 85/2007, sbr. 1. gr. laga nr. 67/2016 er heimagisting, gisting gegn endurgjaldi á lögheimili einstaklings eða í einni annarri fasteign sem hann hefur til persónulegra nota og er í hans eigu. Fjöldi útleigðra daga í báðum eignum samanlagt skal ekki fara yfir 90 daga á hverju almanaksári eða samanlagðar tekjur af leigu eignanna skulu ekki nema hærri fjárhæð en kveðið er á um í 3. tl. 4. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Eins og áður sagði komst yfirfasteignamatsnefnd að þeirri niðurstöðu í úrskurði í máli nr. 9/2017 að fasteignaskattur vegna fasteigna sem skráðar eru til heimagistingar samkvæmt lögum nr. 85/2007 skuli ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 enda sé að öllu leyti fullnægt skilyrðum laga nr. 85/2007 um nýtingu eignarinnar fyrir heimagistingu. Fyrrgreind skilyrði varða m.a. fjölda útleigðra daga á hverju almanaksári auk takmörkunar á tekjum af útleigu. Ákvörðun yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 9/2017 er til meðferðar hjá dómstólum. Ekki er tilefni til bíða með úrlausn þessa máls þar til niðurstaða liggur fyrir varðandi fyrrgreint dómsmál.

Samkvæmt framansögðu er það m.a. skilyrði heimagistingar að fjöldi útleigðra daga fari ekki yfir 90 daga á hverju almanaksári eða tekjur af útleigunni fari ekki yfir ákveðið tekjuhámark. Eins og gefur að skilja er óljóst með fjölda útleigðra daga á árinu 2018 eða hverjar verði tekjur af leigu eignarinnar á yfirstandandi ári. Í ljósi þess skal fasteignaskattur eignarinnar frá 21. mars 2018 ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, enda sé fullnægt skilyrðum laga nr. 85/2007 um nýtingu eignarinnar fyrir heimagistingu á almanaksárinu 2018.

V.

Með hliðsjón af framangreindu skal fasteignaskattur ársins 2018 vegna fasteignar kæranda að Kerhrauni […], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. […], ákvarðaður samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, fyrir tímabilið 1. janúar til 20. mars 2018 en samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. sömu laga frá og með 21. mars 2018.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Grímsnes- og Grafningshrepps er varðar álagningu fasteignaskatts frá 21. febrúar 2018 er felld úr gildi.

Álagður fasteignaskattur vegna fasteignar kæranda að Kerhrauni […], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. […], árið 2018, skal ákvarðaður samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga fyrir tímabilið 1. janúar 2018 til 20. mars 2018, en samkvæmt a-lið sömu lagagreinar fyrir tímabilið 21. mars 2018 til 31. desember 2018 enda sé fullnægt skilyrðum laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald um nýtingu eignarinnar fyrir heimagistingu á árinu 2018.

 

_________________________________

Valtýr Sigurðsson

   ______________________________           ________________________________

Ásgeir Jónsson                                     Björn Jóhannesson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum