Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20um%20uppl%C3%BDsingam%C3%A1l

862/2020. Úrskurður frá 29. janúar 2020

Úrskurður

Hinn 29. janúar 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 862/2020 í máli ÚNU 18070011.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 29. júlí 2018, kærði A, f.h. Stapa ehf., ákvörðun RARIK ohf. um synjun beiðni um aðgang að gögnum varðandi jarðhitaboranir á Hornafirði.

Í kæru kemur fram að Stapi ehf. hafi með bréfi til RARIK ohf., dags. 21. mars 2018, óskað eftir upplýsingum um fjóra þætti. Í fyrsta lagi um kostnað vegna kaupa á jarðhitaréttindum, rannsókna, borana og prófana á borholum við Hoffell og Miðfell í Nesjum á Hornafirði frá árinu 2006 til og með árinu 2018. Í öðru lagi um kostnað vegna hönnunar veitunnar, umhverfismats og áætlaðan sundurliðaðan kostnað við dælustöðvar, stofnæð og dreifikerfi veitunnar. Í þriðja lagi var óskað eftir aðgangi að öllum skýrslum og mælingum sem unnar hefðu verið fyrir RARIK ohf. á árunum 2011-2018 og verksamningum sem RARIK ohf. hefði gert við ráðgjafa og verktaka vegna verkefnisins. Í fjórða lagi var óskað eftir upplýsingum um borkostnað og borholurannsóknir, auk upplýsinga um dýpi holanna.

RARIK ohf. svaraði beiðninni með bréfi, dags. 6. júlí 2018. Þá voru flest umbeðin gögn afhent kæranda. Kæranda var þó synjað um aðgang að samningi um kaup á jarðhitaréttindum, verksamningum við ráðgjafa og verktaka vegna jarðhitaverkefna við Hoffell og skýrslu ÍSOR vegna borholanna. Varðandi samning um kaup á jarðhitaréttindum vísaði RARIK ohf. til þess að um væri að ræða einkaréttarlegan samning með upplýsingum um fjárhagsmálefni einstaklings sem sanngjarnt og eðlilegt væri að færu leynt, sbr. 1. málsl. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Varðandi verksamninga RARIK ohf. við ráðgjafa og verktaka var vísað til þess að um væri að ræða viðkvæmar upplýsingar um fjárhagsmálefni þeirra fyrirtækja sem samið var við og væri því ekki veittur aðgangur að þeim með vísan til 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 1. ágúst 2018, var kæran kynnt RARIK ohf. og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn RARIK ohf., dags. 24. ágúst 2018, er ítrekað að upplýsingarnar varði einkahagsmuni og séu undanþegnar aðgangi almennings skv. 9. gr. upplýsingalaga. Annars vegar varði upplýsingarnar fjárhagsmálefni einstaklings, sem eðlilegt og rétt þyki að leynt fari, og hins vegar fjárhagsupplýsingar fyrirtækja, sem geti valdið viðkomandi fyrirtækjum tjóni, einkum með hliðsjón af samkeppnisstöðu þeirra. Það sé afstaða RARIK ohf. að afhending gagnanna geti haft afleiðingar fyrir samningsaðila fyrirtækisins sem það vilji ekki bera ábyrgð á.

Samhliða umsögninni afhenti RARIK ohf. úrskurðarnefndinni afrit af umbeðnum gögnum í trúnaði. Um er að ræða einn samning og samningsviðauka milli RARIK ohf. og landeigenda við Hornafjörð, tíu verksamninga RARIK ohf. við Ræktunarsamband Flóa og Skeiða ehf. og níu verksamninga RARIK ohf. við Íslenskar orkurannsóknir (hér eftir ÍSOR), ásamt skýrslu sem ÍSOR vann fyrir RARIK ohf.

Umsögn RARIK ohf. var kynnt kæranda með bréfi, dags. 28. ágúst 2018, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdunum segist kærandi ekki gera kröfu um aðgang að viðkvæmum viðskiptalegum upplýsingum. Kærandi telur að því verði ekki af sanngirni haldið fram að ÍSOR njóti ekki ríkisstyrkja og ívilnana beint af fjárlögum. Það komi í raunar skýrt fram í ríkisreikningi um rekstur ÍSOR, sem fylgir athugasemdum kæranda, og í töflu og á línuriti sem kærandi tók saman um rekstur ÍSOR, sem einnig er meðfylgjandi.

Með bréfum, dags. 21. nóvember 2019, óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir afstöðu ÍSOR og Ræktunarsambands Flóa og Skeiða ehf. til þess að aðgangur yrði veittur að gögnunum. Var þess óskað að lýst yrði í bréfi til nefndarinnar með skýrum hætti og tekin yrði afstaða til þess hvort og hvernig afhending gagnanna gæti skaðað fjárhags- eða viðskiptahagsmuni ÍSOR annars vegar og Ræktunarsambands Flóa og Skeiða ehf. hins vegar.

Í svarbréfi Ræktunarsambands Flóa og Skeiða ehf., dags. 28. nóvember 2019, kemur fram að félagið hafi gert 10 verksamninga við RARIK ohf. vegna jarðhitaverkefna við Hoffell en um sé að ræða samninga gerða á tímabilinu frá 10. september 2014 til 27. apríl 2018. Félagið telji ljóst að í samningunum sé að finna upplýsingar er varði mikilvæga og virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni félagsins í skilningi 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í samningunum sé að finna upplýsingar um einingaverð félagsins, verðmæti bora og annarra tækja í eigu þess og verktryggingar auk upplýsinga um verkáætlanir og aðferðir félagsins við borun. Félagið telji að það sé til þess fallið að valda félaginu tjóni verði almenningi veittur aðgangur að upplýsingum í samningnum enda myndi það skaða samkeppnishæfi þess. Um sé að ræða mikilvægar upplýsingar um atvinnu- og viðskiptaleyndarmál þess. Vísað er til þess að í fylgiskjölum við samninginn sé að finna ítarlegar verkáætlanir og aðferðir félagsins við framkvæmd þeirra verka sem samið var um. Upplýsingar um aðferðir félagsins séu ekki opinberar upplýsingar heldur viðskiptaleyndarmál í þess eigu. Samkeppnisaðili geti tekið upplýsingar um aðferðir félagsins, verkaáætlanir, kostnaðaráætlanir, einingaverð og ábyrgðir og nýtt þær upplýsingar í tilboðsgerð í verk í samkeppni við félagið. Í fylgiskjölunum sé einnig að finna kostnaðaráætlanir og upplýsingar um ábyrgðir vegna verkanna. Þessi ákvæði séu nátengd og veiti þau þeim sem lesi mikilvægar upplýsingar um útreikninga félagsins við gerð tilboða í verk. Kostnaðaráætlanir séu mjög ítarlegar og í þeim felist mjög viðkvæmar upplýsingar fyrir félagið. Þá kemur fram að í a.m.k. einum samningi sé aðferð félagsins við framkvæmd verks lýst. Það verk hafi ekki áður verið leyst af hendi með sama hætti og hafi félagið lagt mikla vinnu í undirbúning verkáætlunar vegna þess. Aðferðirnar og verkáætlunin séu því viðskiptaleyndarmál félagsins. Með vísan til framangreinds telji félagið óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnunum með vísan til 9. gr. upplýsingalaga.

Í bréfi ÍSOR, dags. 2. desember 2019, segir m.a. að það séu almennt samkeppnishagsmunir stofnunarinnar jafnt sem annarra aðila í samkeppnisrekstri, hvort heldur þeir séu í eigu opinberra aðila eða einkaaðila, að þurfa ekki á grundvelli upplýsingalaga að sæta því að almenningi, og þar með samkeppnisaðilum þeirra, séu veittar upplýsingar um viðskiptasamninga. Slík upplýsingagjöf sé að jafnaði til þess fallin að skerða samkeppnisstöðu. Óháð einstökum efnisatriðum samninga sem séu viðskiptalegs eðlis, sem iðulega hafi að geyma mikilsverðar upplýsingar um fjárhags- og viðskiptahagsmuni, séu slíkir samningar jafnan verðmæti í sjálfu sér. Það kosti viðkomandi samningsaðila vinnu og útgjöld, jafnvel í formi aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, að undirbúa og gera einstaka samninga, allt frá frumdrögum þeirra til endanlegrar útgáfu, en hún verði ekki til fyrr en eftir að aðilar hafi tekist á um form og efnisskipan samninganna og náð að semja sig að niðurstöðu sem sé ásættanleg fyrir báða. ÍSOR og aðrar stofnanir eða fyrirtæki í samkeppnisrekstri eigi ekki að þurfa að sæta því að samkeppnisaðilar þeirra eigi kröfu til þess að fá afhentar umorðalaust upplýsingar og verðmæti sem liggi í slíkum hugverkum, sem samkeppnisaðilar geti svo nýtt í sinni samningagerð. ÍSOR telur að allir þeir samningar sem taldir séu upp í bréfi úrskurðarnefndarinnar, varði mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni stofnunarinnar. Samningarnir hafi hver um sig að geyma margvíslegar upplýsingar sem stofnunin telji geta skaðað samkeppnis- og rekstrarstöðu hennar ef látnar yrðu í té og sé sanngjarnt og eðlilegt að þær fari leynt vegna starfsemi ÍSOR í samkeppni við aðra. Í því sambandi er sérstaklega nefnt að samningarnir hafi allir að geyma nákvæmar skilgreiningar á þeirri þjónustu sem veitt skuli og inntaki hennar, verkframkvæmd og framgangi verks og ítarlega sundurliðaðar upplýsingar um eininga- og heildarverð útseldrar þjónustu og samsetningu hennar í hverju tilviki.

Hvað varðar skýrslu ÍSOR þá hafi hún að geyma niðurstöður rannsókna og mælinga í tengslum við tiltekna holu sem RARIK ohf. hafi látið bora. Skýrslan sé flokkuð sem „opin“ sem feli í sér að öllum sé heimill aðgangur að efni hennar svo lengi sem verkkaupi, í þessu tilviki RARIK ohf., samþykki. Hagmunir ÍSOR standi því þannig ekki í vegi að skýrslan verði afhent.

Með bréfi, dags. 10. desember 2019, óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir afstöðu RARIK ohf. til þess að skýrslan „Hoffell í Nesjum – Hola HF-2: Borsaga, jarðfræði og mælingar“, dags. júní 2015, yrði gerð opinber. Með tölvupósti, dags. 7. janúar 2020, lýsti RARIK ohf. því yfir að fyrirtækið gerði ekki athugasemdir við að kærandi fengi aðgang að skýrslunni.

Niðurstaða
1.

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum RARIK ohf. um jarðboranir í Hornafirði. RARIK ohf. er opinbert hlutafélag um rekstur Rafmagnsveitna ríkisins sem stofnað var með lögum nr. 25/2006. Fellur starfsemi þess því undir gildissvið upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna.

Í málinu er í fyrsta lagi deilt um rétt kæranda til aðgangs að skjalinu „Samningur um jarðhitaréttindi við landeigendur í Hornafirði“, dags. 20. janúar 2013.

RARIK ohf. synjaði kæranda um aðgang að skjalinu með vísan til 9. gr. upplýsingalaga þar sem upplýsingar í því varði fjárhagsmálefni einstaklinga sem eðlilegt og rétt þyki að leynt fari.

Í 1. málsl. 9. gr. upplýsingalaga segir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á.

Í 2. mgr. 11. gr. samningsins er kveðið á um að honum skuli þinglýsa sem kvöð um eignarrétt/nýtingarrétt á jarðhitaréttindum á eignarhluta seljanda. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. reglugerðar um þinglýsingar nr. 405/2008, sem sett er með stoð í 1. mgr. 53. gr. laga nr. 39/1978, skal almenningur hafa aðgang að þinglýsingabókum og afritum þinglýstra skjala tiltekinna eigna í þeim tilgangi að kynna sér efni þeirra, eftir nánari ákvörðun viðkomandi þinglýsingarstjóra. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar getur sérhver fengið, gegn greiðslu endurritskostnaðar, staðfest ljósrit (endurrit) af því sem greinir í þinglýsingabókum og ljósrit af þinglýstum skjölum. Samkvæmt framangreindu verður að líta svo á að með samningsákvæðinu um þinglýsingu samningsins hafi samningsaðilar ákveðið að samningurinn skuli vera aðgengilegur almenningi. Með vísan til þessa verður RARIK ohf. gert að veita kæranda aðgang að samningnum.

2.

Í öðru lagi er deilt um aðgang að tíu verksamningum RARIK ohf. við Ræktunarsamband Flóa og Skeiða ehf. vegna borunar eftir heitu vatni á tilteknum jörðum í Hornafirði. Samningarnir eru frá árunum 2014-2018.

Ákvörðun RARIK ohf. um að synja beiðni kæranda um aðgang að gögnunum var reist á því að samningarnir geymdu upplýsingar um virka mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni Ræktunarsambands Flóa og Skeiða ehf. sem óheimilt sé að veita aðgang að, sbr. 9. gr. upplýsingalaga.

Samkvæmt 2. málsl. 9. gr. er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um virka mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Í athugasemdum um ákvæðið í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum segir um takmörkunina:

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir miklu að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar gera samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað er opinberum hagsmunum, getur þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.“

Við beitingu ákvæðis 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga gera lögin ráð fyrir að metið sé í hverju og einu tilviki hvort viðkomandi upplýsingar varði svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni viðkomandi fyrirtækja eða annarra lögaðila að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda þeim tjóni, verði þær gerðar opinberar. Við framkvæmd slíks mats verður að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt það er að tjón muni verða ef aðgangur er veittur að upplýsingunum. Enn fremur verður að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafi fyrir þann lögaðila sem um ræðir á þeim tíma er matið fer fram. Þegar allt þetta hefur verið virt veður að meta hvort vegi þyngra, hagsmunir viðkomandi lögaðila af því að upplýsingunum sé haldið leyndum eða þeir hagsmunir sem meginreglu upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings er ætlað að tryggja. Við mat á hagsmunum almennings skiptir almennt verulegu máli hvort og þá að hvaða leyti þær upplýsingar sem um ræðir lúta að ákvörðunum um ráðstöfun opinbers fjár og eigna.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur yfirfarið verksamninga RARIK ohf. og Ræktunarsambands Flóa og Skeiða ehf. og fylgiskjöl með þeim. Samningarnir innihalda upplýsingar um verklýsingar, greiðslur, verktíma, ákvæði um undirverktaka og tryggingar. Upplýsingar um verklýsingar varða framkvæmd verksins og er þar tiltekið hvaða tæki verði notuð. Í fylgigögnum koma fram nánari lýsingar á tæknilegum hliðum viðkomandi verkefna, frá verkkaupa, sem og tilboð og verk- og kostnaðaráætlanir frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur vafalaust að upplýsingar um verklýsingar, greiðslur og kostnaðaráætlanir sem fram koma í samningunum varði virka mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni Ræktunarsambands Flóa og Skeiða ehf. en um er að ræða tiltölulega nýlega samninga. Fyrir liggur að Ræktunarsamband Flóa og Skeiða ehf. leggst gegn því að aðgangur verði veittur að samningnum vegna viðskiptahagsmuna þess, sbr. bréf félagsins til nefndarinnar, dags. 28. nóvember 2019. Það er mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að hagsmunir Ræktunarsambands Flóa og Skeiða ehf. af því að upplýsingar í samningunum fari leynt vegi þyngra en hagsmunir almennings af því að geta kynnt sér efni þeirra og að RARIK ohf. sé því óheimilt að veita almenningi aðgang að samningunum, sbr. 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga. Um er að ræða upplýsingar um viðskipti lögaðila í opinberri eigu við einkaaðila um framkvæmd verks. Upplýsingarnar varða því ekki ráðstöfun opinbers fjár. Þá er það mat nefndarinnar að trúnaðarupplýsingar komi það víða fram í samningunum og fylgiskjölum þess að ekki sé unnt að veita aðgang að öðrum hlutum samninganna, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Verður því staðfest ákvörðun RARIK ohf. um að synja kæranda um aðgang að samningunum.

3.

Í þriðja lagi er deilt um rétt kæranda til aðgangs að skýrslunni „Hoffell í Nesjum – Hola HF-2: Borsaga, jarðfræði og mælingar“, dags. júní 2015, sem ÍSOR vann fyrir RARIK ohf. Skýrslan geymir niðurstöður rannsókna og mælinga í tengslum við tiltekna holu sem RARIK ohf. lét bora. Með bréfi, dags. 2. desember 2019 lýsti ÍSOR því yfir að stofnunin flokkaði skýrsluna sem „opna“, sem fæli í sér að öllum væri heimill aðgangur að efni hennar svo lengi sem verkkaupi, í þessu tilviki RARIK ohf., samþykkti. Hagmunir ÍSOR stæðu því ekki í vegi fyrir því að skýrslan yrði gerð aðgengileg. Með bréfi, dags. 7. janúar 2020, samþykkti RARIK ohf. að aðgangur yrði veittur að skýrslunni. Með vísan til þessa verður RARIK ohf. gert að afhenda kæranda skýrsluna.

4.

Í fjórða lagi er deilt um aðgang að níu verksamningum ÍSOR og RARIK ohf. sem gerðir voru á árunum 2014 til og með 2018. RARIK ohf. synjaði kæranda um aðgang að samningunum með vísan til þess að í þeim væru viðkvæmar viðskipta- og fjárhagsupplýsingar ÍSOR. Fyrir liggur að ÍSOR leggst gegn því að samningarnir verði gerðir aðgengilegir þar sem þeir geymi upplýsingar sem gætu skaðað samkeppnis- og rekstrarstöðu stofnunarinnar ef látnar yrðu í té og sé því sanngjarnt og eðlilegt að þær fari leynt vegna starfsemi ÍSOR í samkeppni við aðra. Samningarnir geymi allir nákvæmar skilgreiningar á þeirri þjónustu sem veitt skuli og inntaki hennar, verkframkvæmd og framgangi verks og ítarlega sundurliðaðar upplýsingar um eininga- og heildarverð útseldrar þjónustu og samsetningu hennar í hverju tilviki.

Í 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga kemur fram að heimilt sé að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjist, enda hafi þau að geyma upplýsingar um viðskipti stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra. Í athugasemdum við greinina í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum segir eftirfarandi:

„Markmiðið með þessu frumvarpi er m.a. að gefa almenningi og fjölmiðlum tækifæri á að fá vitneskju um það hvernig opinberum fjármunum er varið. Óheftur réttur til upplýsinga getur á hinn bóginn skaðað samkeppnis- og rekstrarstöðu opinberra stofnana og fyrirtækja í þeim tilvikum þegar hið opinbera þarf að keppa á markaði við einkaaðila sem ekki eru skyldugir til að gefa upplýsingar um stöðu sína. Af þessum sökum er lagt til að takmarkaður verði aðgangur að upplýsingum um viðskipti hins opinbera þegar svona háttar til.

Meginsjónarmiðið að baki þessu ákvæði er að opinber aðili eigi að standa jafnfætis öðrum samkeppnisaðilum í viðskiptum, hvorki betur né verr. Athuga verður þó í þessu sambandi að í sumum tilvikum eru fyrir hendi skýrar reglur um skyldu stjórnvalda til þess að veita upplýsingar í tengslum við viðskipti, sbr. lög nr. 65/1993, um framkvæmd útboða. Ákvæðið er sem fyrr segir einskorðað við þá stöðu þegar opinberir aðilar eru í samkeppni við aðra aðila. Ákvæðinu verður því ekki beitt þegar hið opinbera starfar í skjóli einkaréttar eða ef opinber aðili er einn um rekstur þótt einkaréttar njóti ekki við.“

Ákvæðið felur í sér undantekningu frá meginreglu 5. gr. upplýsingalaga um rétt almennings til aðgangs að gögnum og ber því að skýra það þröngri lögskýringu. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur talið að til þess að stjórnvöld geti byggt takmörkun á aðgangsrétti á 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga þurfi a.m.k. þremur skilyrðum að vera fullnægt. Í fyrsta lagi skal starfsemi þess aðila sem upplýsingabeiðni beinist að, eða upplýsingar tengjast að öðru leyti, í heild eða að hluta, vera í samkeppni við aðra aðila. Í öðru lagi þurfa þær upplýsingar sem beðið er um að tengjast þeirri starfsemi viðkomandi aðila sem telst til samkeppnisrekstrar hans. Í þriðja lagi að sú afstaða hafi verið tekin á grundvelli ígrundaðs mats á því að þeir samkeppnishagsmunir hinnar opinberu stofnunar eða fyrirtækis sem um ræðir séu það verulegir að réttlætanlegt sé að þeir gangi framar hagsmunum og rétti almennings skv. 5. gr. upplýsingalaga til aðgangs að umbeðnum upplýsingum. Um þetta má m.a. vísa til úrskurða nr. 813/2019, 764/2018, 762/2018 auk úrskurða í málum nr. A-492/2013, A-344/2010, A-378/2011 og A-379/2011, sem kveðnir voru upp í gildistíð eldri upplýsingalaga.

Í úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 832/2019, 813/2019 og 764/2018 var komist að þeirri niðurstöðu að rekstur ÍSOR fæli ekki í sér ráðstöfun opinberra hagsmuna í skilningi upplýsingalaga heldur væri um að ræða samkeppnisrekstur sem stofnunin yrði að standa og falla með. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál leikur ekki vafi á því að þeir samningar sem kærandi óskaði aðgangs að feli í sér upplýsingar um viðskipti ÍSOR að því leyti sem stofnunin er í samkeppni við aðra. Eru því fyrstu tvö skilyrðin um beitingu 4. tölul. 10. gr. uppfyllt. Í þriðja skilyrðinu felst hins vegar að meta þarf sérstaklega hvort samkeppnishagsmunir ÍSOR af því að gögnin lúti leynd séu það verulegir að réttlætanlegt sé að þeir gangi framar hagsmunum og rétti almennings skv. 5. gr. upplýsingalaga til aðgangs að umbeðnum upplýsingum. Er þá til þess að líta að aðeins er heimilt að undanþiggja gögn upplýsingarétti á grundvelli 10 gr. upplýsingalaga, þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast.

Við mat á því hvort rétt sé að undanþiggja samningana upplýsingarétti almennings verður að líta til þess að með þeim er ekki verið að ráðstafa opinberum fjármunum en bæði ÍSOR og RARIK ohf. eru í samkeppnisrekstri. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál myndi það ugglaust skerða samkeppnisstöðu ÍSOR gagnvart fyrirtækjum sem upplýsingaskylda samkvæmt upplýsingalögum hvílir ekki á, yrði því gert að opinbera viðskiptasamninga þeirra. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að ÍSOR hafi verið heimilt að synja Stapa ehf. um aðgang að samningunum á grundvelli 4. tölul. 10. gr. og ber því að staðfesta ákvörðun RARIK ohf. hvað þá varðar.

Úrskurðarorð:

RARIK ohf. er skylt að veita Stapa ehf. aðgang að eftirfarandi gögnum:

1. Samningi um jarðhitaréttindi við landeigendur í Hornafirði, dags. 20. janúar 2013.
2. Skýrslu Íslenskra orkurannsókna (ÍSOR) „Hoffell í Nesjum – Hola HF-2: Borsaga, jarðfræði og mælingar“, dags. júní 2015.

Að öðru leyti er ákvörðun RARIK ohf. staðfest.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigríður Árnadóttir

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum