Hoppa yfir valmynd
%C3%81fr%C3%BDjunarnefnd%20%C3%AD%20k%C3%A6rum%C3%A1lum%20h%C3%A1sk%C3%B3lanema

2/2018 Úrskurður A gegn Háskóla Íslands

Ár 2018, 26. október, lauk áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema, þau Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður og Eva Halldórsdóttir ­lögmaður málinu

 

nr. 2/2018

A

gegn

Háskóla Íslands

 

með svohljóðandi

Ú R S K U R Ð I

I.

Málsmeðferð

Mál þetta hófst með ódagsettri kæru A sem barst til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema í maí 2018 og óskaði  eftir endurskoðun á ákvörðun deildarforseta B á Háskóla Íslands um að hafna honum að taka vettvangsnám erlendis eða að sumri til í námskeiðinu Vettvangsnám. Niðurstaða deildarforseta var staðfest af kærunefnd í málefnum nemenda við Háskóla Íslands með úrskurði, dags. 15. febrúar 2018.

Háskóli Íslands var upplýstur um kæruna og bárust nefndinni viðbrögð skólans með bréfi 18. júní 2018 þar sem skólinn ítrekaði fyrri afstöðu. Svör skólans voru kynnt kæranda og A gefinn kostur á að gera athugasemdir, sem bárust 9. og 17. júlí 2018. Nefndin bauð skólanum að koma að frekari sjónarmiðum vegna erindis kæranda en skólinn taldi ekki ástæðu til að gera frekari athugasemdir og vísaði alfarið til bréfsins 18. júní 2018. Formaður nefndarinnar, Einar Hugi Bjarnason, vék sæti í málinu vegna vanhæfis.

II.

Málsatvik

Kærandi er á B í  Háskóla Íslands. Þann 6. desember 2016 sendi B Vettvangsnám,  tölvupóst til nemenda sem skráðir voru í námskeiðið á vormisseri C þar sem farið var yfir nokkur atriði tengd námskeiðinu. Þar var m.a. lýst tilhögun fyrirhugaðs námskeiðs og að nemendur þyrftu að tryggja viðveru sína vegna vettvangsnáms þá daga sem námskeiðið stæði yfir á tímabilinu 6. mars til 7. apríl, en engar undantekningar væru frá viðveruskyldu vettvangsnáms. Þá var tekið fram að ekki væri hægt að fara fram á sérstaka vettvangsstaði eða óska eftir sérstökum leiðbeinendum. Val á vettvangsstað væri í höndum umsjónarmanns og verkefnisstjóra en nemendur gætu valið milli þess að vinna að þjónustu við börn og unglinga eða fullorðna. Að baki vali á vettvangsstöðum og leiðbeinendum lægi áralöng vinna og reynsla af skipulagi vettvangsnáms sem væri nauðsynleg forsenda við valið.

Sama dag sendi kærandi tölvupóst til umsjónarkennarans þar sem fram kom að hann byggi í D og gæti því ekki tekið vettvangsnámið á Íslandi. Kærandi tók fram að hann talaði E og gæti mætt alla dagana í vettvangsnámið en spurði jafnframt hvort ekki væri hægt að sinna því í D. Kærandi fékk svar samdægurs frá umsjónarkennara þar sem beiðni hans var hafnað. Tekið var fram að reiknað væri með að nemendur stunduðu vettvangsnám sitt á Íslandi, enda hefði deildin ekki samstarfsaðila við stofnanir erlendis um vettvangsnám nemenda. Kærandi svaraði umsjónarkennaranum samdægurs og spurði hvort að mögulegt væri að taka vettvangsnámið yfir sumartímann á Íslandi, A og enginn möguleiki væri fyrir A að komast heim á tímabilinu.

Með tölvupósti 11. janúar 2017 svaraði umsjónarkennarinn kæranda á þann veg að fundað hefði verið um málið innan námsbrautarinnar og niðurstaðan væri sú að A yrði að koma til landsins til að taka vettvangsnámið og á því yrðu ekki gerðar undantekningar. Þar sem kennsluár háskólans næði ekki yfir sumartímann væri ekki um að ræða að taka vettvangsnám á þeim tíma. Kærandi svaraði umsjónarkennaranum samdægurs þar sem A lýsti því að ákvörðunin væri A mikið áfall þar sem útlit væri fyrir að A gæti ekki klárað námið vegna búsetu sinnar erlendis. A gæti tekið vettvangsnámið úti í D og vissi um íslenskan E þar í landi sem hugsanlega væri hægt að taka vettvangsnámið hjá. A mótmælti jafnframt að skólinn þyrfti að hafa samstarfsaðila erlendis enda væri skólinn í samstarfi við E hverju sinni en ekki stofnanir sem slíkar. Þá þekkti A dæmi úr öðrum deildum á B þar sem nemendur hefðu tekið vettvangsnám sitt erlendis. Umsjónarkennari svaraði kæranda samdægurs með tölvupósti og benti á að fyrirkomulag á vettvangsnámi hefði legið ljóst fyrir í kennsluskrá frá upphafi náms hans. Þar væri hvergi tekið fram að nemendur gætu stundað það erlendis en reiknað væri með að nemendur skipulegðu tíma sinn í samræmi við þær upplýsingar sem kæmu fram í kennsluskránni. Þótt Háskóli Íslands væri í margvíslegu alþjóðasamstarfi færi það ekki fram milli einstaklinga heldur með formlegum samningi milli háskólastofnana og nemendur hefðu ekki umboð frá háskólanum til að leita leiðbeinenda heldur væri það í höndum umsjónarkennara námskeiðs og verkefnastjóra. Synjun á beiðni kæranda hvíldi á formlegum starfsháttum og reglum háskólans og þeim forsendum sem fyrir væru á námsbrautinni.

Þann 6. júlí 2017 sendi kærandi formlegt erindi í tölvupósti til B,F,G og E Háskóla Íslands. Kærandi lýsti því að hann teldi brotið á rétti sínum til námsframvindu með því að neita kæranda um að taka vettvangsnám í A. Kærandi benti m.a. á að það þekktist innan annarra deilda á B, að taka vettvangsnám erlendis. Svar F barst kæranda með tölvupósti 28. ágúst 2017. Var þar vísað til fyrri samskipta hans við námsbrautarstjóra og umsjónarkennara vettvangsnámskeiða. Þá var vísað til þess að E hér á landi ætti sér ekki beina hliðstæðu á Norðurlöndum auk þess sem leiðbeinendur í vettvangsnáminu sæktu allir undirbúningsnámskeið áður en þeir tækju að sér handleiðslu.  Þá aðstöðu væri ekki hægt að tryggja fyrir kæranda erlendis. Þótt gott væri að geta kynnt sér vettvang á erlendri grundu og slíkt væri hægt í sumum öðrum námsgreinum þá væri slíkt alltaf undir eðli náms á hverjum stað komið og ekki hægt að búast við að allar óskir yrðu uppfylltar í þeim efnum. Niðurstaðan væri því sú að ekki væri unnt að verða við ósk kæranda um að taka námið erlendis.

III.

Málsástæður kæranda

Eins og áður segir gerir kærandi þá kröfu fyrir nefndinni að ákvörðun deildarforseta F um að hafna A að taka vettvangsnám erlendis eða um sumar í námskeiðinu Vettvangsnám  verði endurskoðuð.

Kærandi vísar til þess að rök gegn vettvangsnámi erlendis séu sáralítil ef einhver. Kærandi kveður staðreyndir málsins vera þær að nemendur í öðrum deildum B geti tekið vettvangsnámið erlendis. Á tiltekinni braut megi taka vettvangsnámið hvar sem er hér á landi og enginn munur sé t.d. á því að taka vettvangsnámið á Akureyri eða erlendis. Sé vettvangsnámið tekið á Akureyri sé leiðbeinandi nemanda í sambandi við kennara háskólans í gegnum síma eða skype-forritið. Þannig yrði þetta einnig ef vettvangsnámið færi fram erlendis. Þar að auki hefði kærandi átt þess kost að taka vettvangsnámið hjá íslenskum í B. Enn fremur bendir kærandi á að hvorki í kennsluskrá né á heimasíðu háskólans sé tekið fram að vettvangsnám þurfi að fara fram á Íslandi, heldur einungis að vettvangsnámið fari fram á völdum vettvangsstöðum. Kærandi hafi aldrei beðið um afslátt af mætingu og gæti staðist alla viðveru sem námskeiðið gerði kröfu um.

Kærandi vísar einnig til þess að það séu ósannindi hjá C að námið sé séríslenskt og bendir á að ef svo væri þá væri ekki hægt að fara í skiptinám. Þá bendir kærandi á að kennari vettvangsnámsins hafi hvatt nemendur í kennslustundum til þess að fara erlendis í skiptinám. Háskóli Íslands sé í miklu alþjóðlegu samstarfi við G. G tilheyri einnig norrænum samtökum og því ætti vettvangsnám erlendis ekki að vera flókið púsluspil.

Kærandi bendir á að út um allan heim sé hægt að læra E. Á Íslandi séu starfandi E sem hafa menntað sig erlendis. Sömuleiðis séu E útskrifaðir frá Háskóla Íslands sem starfa erlendis. Það liggi því ljóst fyrir að námið erlendis og á Íslandi sé metið á jöfnum grundvelli. Þá bendir kærandi á að hafa rætt við formann E sem hafi staðfest við kærandi að vettvangsnám erlendis hefði jákvæð áhrif. Þá bendir kærandi á að á heimasíðu háskólans þar sem fjallað sé um starfsþjálfun sé tekið fram að nemendur Háskóla Íslands eigi kost á að fara í starfsþjálfun eða rannsóknarvinnu í fyrirtækjum eða stofnunum í Evrópu. Þeir geti þannig öðlast dýrmæta alþjóðlega starfsreynslu sem geti komið sér vel síðar meir. Ávinningur af starfsþjálfun sé margvíslegur. Nemendur fái hagnýta starfsreynslu og geti fengið starfsþjálfunina metna sem hluta af náminu við háskólann, hluta af lokaverkefni eða skráða í skírteinisviðauka. Rannsóknir sýni að þeir sem farið hafi í starfsþjálfun erlendis eigi auðveldara með að fá vinnu og einn af hverjum þremur fái atvinnutilboð að lokinni starfsþjálfun hjá móttökuaðila.

Þá vísar kærandi til þess að helstu rök deildarforseta séu að ekki sé hægt að fullvissa sig um sambærilega aðstöðu erlendis og því sé ekki hægt að tryggja fullnægjandi vettvangsnám. Kærandi telur að þessi rök falli um sjálf sig þar sem engin E starfi eins og því sé ekki hægt að tryggja sambærilega reynslu. E sé hægt að læra um alla Evrópu og starfsleyfi fáist á Íslandi hafi viðkomandi lært E erlendis, auk þess sem hægt sé að fara í skiptinám erlendis á E. Kærandi bendir á að í reglugerðum um starfsleyfi E á Íslandi komi fram að veita skuli þeim umsækjanda sem lokið hafi BA-námi frá Háskóla Íslands eða öðrum ríkjum EES starfsleyfi.

Einnig vísar kærandi til þess að það geti ekki talist eðlilegt að Háskóli Íslands mismuni nemendum á milli námsbrauta og bendir á að í tómstunda- og félagsmálafræði sé leyfilegt að taka vettvangsnám erlendis en í E ekki þó að um keimlíkt nám sé að ræða. Munurinn sé enginn enda mikið af sömu áföngum kenndir en í öðru tilvikinu sé kennarinn að koma til móts við nemendur en í hinu ekki. Kærandi bendir enn fremur á að nú liggi fyrir að E við Háskóla Íslands lengist um eitt ár. Það hafi því verið komið í veg fyrir að kærandi geti útskrifast á réttum tíma og hafið meistaranám. Vegna lengingar námsins sé kærandi nú þvingaður til þess að skrá sig í leyfi frá náminu og hugsanlega taka eitt ár aukalega sem sé ekki það sem A skráði sig í upphaflega.

IV.

Málsástæður Háskóla Íslands

Háskóli Íslands gerir þá kröfu í málinu að kröfum kæranda verði hafnað. Skólinn vísar til þess í kennsluskrá fyrir E 2016-2017 segi eftirfarandi um námskeiðið Vettvangsnám

Nemendur sækja vettvangsnám sitt á valda vettvangsstaði og nema undir leiðsögn starfandi E. Þeir taka virkan þátt í störfum leiðbeinenda sinna í samræmi við leiðsagnaráætlun og greina vinnulag við framkvæmd einstaklingsmiðaðrar þjónustu. Í vettvangsnáminu er miðað að því að nemendur kynnist innra starfi viðkomandi stofnunar, þjónustunni sem hún veitir ásamt þeirri hugmyndafræði og lagalega ramma sem hún starfar eftir. Nemendur sækja vikulega leiðsagnarfundi til leiðbeinenda sinna. Auk þess skapa leiðbeinendur nemendum tækifæri til heimsókna á aðra þjónustustaði. Vettvangsnámið fer fram á seinni hluta vormisseris í um sex vikur og viðveruskylda er sex klukkustundir á dag.

Þá vísar skólinn til 1. mgr. 23. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009 þar sem fram komi að í kennsluskrá skuli meðal annars gerð grein fyrir skipan náms á hverju fræðasviði og í hverri deild, námsleiðum, námskröfum, námsframvindu, námskeiðum sem í boði eru og vægi þeirra, kennslumisserum, kennslufyrirkomulagi og kennsluaðferðum, námsefni, námsmati og próförkum, starfsþjálfun, æfingum og öðru því sem viðkemur náminu eftir því sem við eigi. Þá er vísað til þess að í 3. mgr. skuli við það miðað að kennsluskráin sé birt á vef háskólans í mars ár hvert fyrir komandi skólaár og allar breytingar á kennsluskrá skuli tilkynna skriflega eigi síðar en við upphaf kennslumisseris.

Einnig vísar háskólinn til þess að í 3. mgr. 54. gr. sömu reglna segi enn fremur að deildum sé heimilt að setja reglur um skyldu stúdenta til þátttöku í einstökum námskeiðum, æfingum, verklegu námi og vettvangsþjálfun, svo og reglur um leiðbeiningar og umsjón með námi stúdenta að öðru leyti. Í slíkum reglum sé enn fremur heimilt að kveða á um að viðvera og þátttaka í kennslustundum hafi vægi í námsmati.

Háskólinn byggir á því að kennsluskrá 2016-2017, ásamt námskeiðslýsingu fyrir umrætt námskeið, hafi legið fyrir við upphaf kennsluársins 2016. Í lýsingu námskeiðsins kæmi fram að nemendur sæktu vettvangsnámið á valda vettvangsstaði auk þess sem vettvangsnámið færi fram á seinni hluta vormisseris í um sex vikur og viðveruskylda væri um sex klukkustundir á dag. Kennslufyrirkomulag umrædds námskeið hafi því legið fyrir áður en námsárið hófst og hafi farið fram í samræmi við það sem fram kom í námskeiðslýsingu í kennsluskrá.

V.

Niðurstaða

Líkt og að framan greinir snýst ágreiningsefni máls þessa um synjun deildarforseta F á beiðni kæranda um að taka vettvangsnám erlendis eða um sumar í námskeiðinu Vettvangsnám.

Við mat á lögmæti synjunarinnar verður að horfa til þess að í upplýsingum um umrætt námskeið í kennsluskrá fyrir E 2016-2017 er m.a. tekið fram að nemendur sæki vettvangsnám sitt á valda vettvangsstaði og nemi undir leiðsögn starfandi E. Þá er tekið fram að vettvangsnámið fari fram á seinni hluta vormisseris í um sex vikur og viðveruskylda sé sex klukkustundir á dag.

Þá er einnig til þess að líta að umsjónarmaður námskeiðsins sendi tölvuskeyti til nemenda þann 6. desember 2016 þar sem hún áréttaði ýmis atriði varðandi tilhögun námsins og benti m.a. á að nemendur gætu ekki farið fram á sérstakan vettvangsstað eða óskað eftir sérstökum leiðbeinendum. Í tölvuskeytinu áréttaði umsjónarmaður námskeiðsins að nemendur skipuleggðu tíma sinn í samræmi við þær upplýsingar sem kom fram í kennsluskránni.

Enn fremur er rétt að nefna í þessu sambandi að í tölvupósti forseta F háskólans frá 28. ágúst 2017, kemur fram að leiðbeinendur í vettvangsnáminu sæki allir undirbúningsnámskeið áður en þeir taki að sér handleiðslu. Ekkert liggur fyrir um að sá leiðbeinandi sem kærandi óskaði eftir að tæki að sér handleiðslu hafi sótt slíkt undirbúningsnámskeið.

Samkvæmt framangreindu mátti kæranda vera ljóst frá upphafi að vettvangsnámið færi fram á fyrir fram ákveðnum stöðum sem deildin veldi og að það færi fram á seinni hluta vormisseris. Kærandi átti ekki rétt á því að stunda vettvangsnámið erlendis né utan hefðbundinna kennslutímabila í Háskóla Íslands, líkt og A óskaði eftir. Höfnun deildarforseta á beiðni kæranda var því í samræmi við gildandi reglur um námið og er því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun kærunefndar í málefnum nemenda við Háskóla Íslands í máli nr. 5/2017 er staðfest.

 

 

 

Daníel Isebarn Ágústsson                                   Eva Halldórsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum