Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20um%20uppl%C3%BDsingam%C3%A1l

860/2019. Úrskurður frá 13. desember 2019

Úrskurður

Hinn 13. desember 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð
nr. 860/2019 í máli ÚNU 19050028.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 13. maí 2019, kærði A ákvörðun Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. (hér eftir Herjólfur ohf.) um synjun beiðni um aðgang að ráðningarsamningi við framkvæmdastjóra félagsins og starfslýsingu hans. Kærandi óskaði eftir því með bréfi, 3. maí 2019, að veittur yrði aðgangur að gögnunum. Í svari Herjólfs ohf. til kæranda, dags. 16. maí 2019, var beiðninni hafnað. Kærandi kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með bréfi, dags. 22. maí 2019.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Herjólfi ohf. með bréfi, dags. 30. maí 2019 og veittur frestur til að senda umsögn um kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun félagsins.

Í umsögn Herjólfs ohf. við kæruna, dags. 19. ágúst 2019, er vísað til þess að í ákvæði 4. mgr. 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 sé sérstaklega fjallað um hvaða upplýsingar um málefni starfsmanna opinberum hlutafélögum sé skylt að veita. Í umsögninni eru veittar upplýsingar um starfskjör framkvæmdastjóra félagsins samkvæmt fastlaunasamningi og um menntun hans. Auk þess er vísað til þess að upplýsingar um launakostnað framkvæmdastjóra séu einnig birtar í ársreikningi félagsins hvert ár.

Umsögnin var kynnt kæranda með bréfi, dags. 2. maí 2019, og honum gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum. Með bréfi, dags. 9. september 2019, krafðist kærandi þess að úrskurðarnefnd um upplýsingamál úrskurðaði um skyldu Herjólfs ohf. til að veita aðgang að gögnunum.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að ráðningarsamningi Herjólfs ohf. við framkvæmdastjóra félagsins og starfslýsingu hans.

Herjólfur ohf. er opinbert hlutafélag og fellur sem slíkt undir upplýsingalög, sbr. 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum fer því eftir meginreglu 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. laganna.

Í 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga er sérregla um aðgang almennings að upplýsingum sem felur í sér undantekningu frá meginreglu 1. mgr. 5. gr. laganna um upplýsingarétt almennings. Þessi sérregla felur í sér að almenningur á að jafnaði ekki rétt á upplýsingum um málefni starfsmanna þeirra aðila sem heyra undir ákvæði laganna. Reglan er orðuð á þann veg að „réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem lögin taka til samkvæmt 2. gr. [taki] ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti“, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ekki vafa leika á því að ráðningarsamningar og starfslýsingar starfsmanna aðila sem falla undir lögin, séu upplýsingar um starfssamband viðkomandi aðila í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga.

Kveðið er á um undantekningar frá framangreindri sérreglu um málefni starfsmanna í 2. – 4. mgr. 7. gr. Í 4. mgr. 7. gr. kemur fram sérregla um aðgang almennings að upplýsingum um atriði sem varða starfsmenn lögaðila sem falla undir upplýsingalög samkvæmt 2. mgr. 2. gr. Í 4. mgr. 7. gr. segir að skylt sé að veita upplýsingar um nöfn starfsmanna og starfssvið, sbr. 1. tölul., og launakjör æðstu stjórnenda og upplýsingar um menntun þeirra, sbr. 2. tölul. málsgreinarinnar. Samkvæmt 5. mgr. 7. gr. laganna á almenningur rétt til aðgangs að upplýsingum skv. 2. og 4. mgr. frá viðkomandi vinnuveitanda jafnvel þótt þær sé ekki að finna í gögnum sem tilheyra tilteknu máli. Sem fyrr segir á kærandi ekki rétt til aðgangs að gögnum í málum sem varða starfsamband Herjólfs ohf. við starfsmenn félagsins og á hann því ekki rétt til aðgangs að ráðningarsamningi félagsins við framkvæmdastjóra þess og starfslýsingu hans. Kærandi á þó rétt til aðgangs að upplýsingum um launakjör framkvæmdastjóra félagsins sem æðsta stjórnanda þess og menntun hans, sbr. 4. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt gögnum málsins hafa þær upplýsingar verið veittar. Verður því ákvörðun Herjólfs ohf. staðfest.

 

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. um synjun beiðni kæranda, A, dags. 13. maí 2019, um aðgang að ráðningarsamningi við framkvæmdastjóra félagsins og starfslýsingu hans.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigríður Árnadóttir

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum