Hoppa yfir valmynd
Endurupptökunefnd

Mál nr. 27/2017

Hinn 15. febrúar 2018 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 27/2017:

 

Beiðni um endurupptöku

héraðsdómsmáls nr. E-240/2016;

Landsbankinn hf.

gegn

Sigríði Vöku Jónsdóttur

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR:

 

I. Beiðni um endurupptöku

1.        Með erindi, dagsettu 28. nóvember 2017, fór Sigríður Vaka Jónsdóttir þess á leit að héraðsdómsmál nr. E-240/2016, sem dæmt var í Héraðsdómi Suðurlands 10. október 2016, yrði endurupptekið.

2.        Með vísan til 54. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Gizur Bergsteinsson, Haukur Örn Birgisson og Þórdís Ingadóttir.

II. Málsatvik

3.      Með áritaðri stefnu í Héraðsdómi Suðurlands 10. október 2017 var endurupptökubeiðanda gert að greiða gagnaðila skuld að fjárhæð 4.467.486 kr. ásamt 12,20% vöxtum frá lokunardegi reiknings, 9. mars 2015, til 11. maí 2016 og dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. maí 2016 til greiðsludags. Um var að ræða skuld vegna reiknings endurupptökubeiðanda hjá Sparisjóði Vestmannaeyja frá því á árinu 2002. Fjármálaeftirlitið tók þann 29. mars 2015 ákvörðum um að Landsbankinn hf. tæki, frá og með þeim degi, við rekstri, eignum og skuldbindingum Sparisjóðs Vestmannaeyja, sem var slitið.

4.      Stefna var birt fyrir endurupptökubeiðanda 30. ágúst 2016. Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Suðurlands 21. september 2016 og var stefnan árituð um aðfararhæfi 10. október sama ár.

5.   Endurupptökubeiðandi lagði fram beiðni fyrir Héraðsdómi Suðurlands um endurupptöku héraðsdómsmáls nr. E-240/2016 og var henni synjað þar sem beiðnin barst dómnum ekki innan þeirra tímamarka sem skilgreind eru í 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991.

 III. Grundvöllur beiðni

6.        Endurupptökubeiðandi byggir á því að sterkar líkur séu leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið réttilega leidd í ljós þegar málið hafi verið til meðferðar og aðilanum verði ekki kennt um það, sbr. núgildandi a-lið 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála.

7.        Er byggt á því að krafa gagnaðila í málinu hafi verið vanreifuð og óskýr. Þá er enn fremur á því byggt að skort hafi fylgigögn með stefnu þar sem ekki hafi verið lögð fram nein stofngögn um meintar skuldbindingar endurupptökubeiðanda. Engin stofngögn liggi fyrir sem sýni fram á að endurupptökubeiðandi hafi stofnað til meintra skuldbindinga við gagnaðila og sé þannig skuldari að meintri skuld. Gagnaðili hafi ekki sýnt fram á að endurupptökubeiðandi hafi nokkurn tímann notað þá fjármuni sem teknir hafi verið af umræddum bankareikningi. Öll sönnunarbyrði um annað hvíli á gagnaðila sem fjármálastofnun.

8.        Telur endurupptökubeiðandi það eðlilegt grundvallaratriði að fyrir liggi undirritað skuldaskjal af hálfu skuldara þar sem fram komi að viðkomandi taki á sig viðkomandi skuldbindingar. Endurupptökubeiðandi hafi aldrei tekið á sig umrædda skuldbindingu við gagnaðila. Einnig liggi fyrir að endurupptökubeiðandi hafi aldrei móttekið fjármuni af umræddum tékkareikningi.

9.        Endurupptökubeiðandi byggir á því að gagnaðili hafi ekki formlega löglega heimild til innheimtu á meintri skuld á hendur endurupptökubeiðanda.

10.    Af hálfu endurupptökubeiðanda er bent á að vegna misskilnings hennar hafi þingsókn fallið niður af hennar hálfu við þingfestingu málsins og hún talið að um misskilning væri að ræða sem ekki gæti haft nokkur réttaráhrif.

11.    Endurupptökubeiðandi byggir á því að henni hafi ekki verið kunnugt um málsúrslit fyrr en við fjárnámsgerð sem farið hafi fram 25. október 2017 hjá Sýslumanninum á Suðurlandi. Þá fyrst hafi endurupptökubeiðanda verið ljóst að árituð hefði verið stefna sem hægt væri að framfylgja með fjárnámi í eignum hennar. Gert hafi verið fjárnám í fasteign hennar en samþykkt hafi verið að fresta því að krefjast nauðungarsölu vegna athugasemda endurupptökubeiðanda svo hún gæti aflað gagna.

12.    Endurupptökubeiðandi hafi fyrst lagt fram beiðni sína um endurupptöku fyrir Héraðsdómi Suðurlands og stutt beiðni sína þá við b-lið 137. gr. laga um meðferð einkamála. Var þeirri beiðni vísað frá þar sem frestur til þess væri liðinn.

13.    Endurupptökubeiðandi hafi óskað eftir gögnum frá gagnaðila en fengið þær upplýsingar að gagnaðili ætti engin gögn sem tengdu hana við málið. Engin stofngögn væru til né gögn um að hún hefði nýtt þá fjármuni af yfirdráttarheimild sem henni væri gefið að sök að skulda. Endurupptökubeiðandi vísar til þess að hún hafi lagt fram kæru hjá lögreglu vegna málsins.

14.    Telur endurupptökubeiðandi að ljóst sé að engin af þeim málsgögnum sem fylgdu stefnunni til Héraðsdóms Suðurlands sýni að hún hafi stofnað til skuldbindingar þeirrar sem henni er gefið að sök og því séu skilyrði a-liðar 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála fullnægt.

IV. Viðhorf gagnaðila

15.    Í umsögn gagnaðila, dagsettri 28. desember 2017, er ekki fallist á að neitt skilyrði núgildandi 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála sé uppfyllt í málinu.

16.    Gagnaðili telur kröfu sína skýra og að endurupptökubeiðanda hljóti að hafa verið um hana kunnugt, enda hafi henni mánaðarlega verið sendar upplýsingar um stöðu á reikningnum frá stofnun hans. Í þeim bréfum hafi verið bent á að athugasemdir skyldu gerðar innan 20 daga, annars teldist reikningurinn réttur. Gagnaðili bendir á að þessi gögn hafi verið til staðar fyrir endurupptökubeiðanda enda þótt stofnskjöl séu það ekki, enda reikningurinn stofnaður í janúar 2002. Þá hafði endurupptökubeiðandi ekki gert athugasemdir við tilvist reikningsins í hennar nafni, eða stöðuna á honum, allan tímann frá stofnun hans þar til innheimta hófst. Í upphafi hafi endurupptökubeiðandi ekki kannast við að vera í viðskiptum við gagnaðila.

17.     Þegar gagnaðili hóf innheimtu hafi lögmaður endurupptökubeiðanda haft samband við gagnaðila. Ekki hafi fundist lausn á málinu og því hafi verið gefin út stefna sem birt hafi verið fyrir endurupptökubeiðanda sjálfri og hún ritað undir birtingarvottorðið. Stefnan hafi verið þingfest 21. september 2016 í Héraðsdómi Suðurlands og árituð 10. október sama ár. Ekki var mætt við þingfestingu, að því er virðist fyrir mistök, en gagnaðili bendir á að þau mistök hafi uppgötvast þá þegar, samanber tölvubréf lögmanns endurupptökubeiðanda til innheimtuaðila dagsett 12. október 2016.

18.     Gagnaðili byggir á því að ekkert skilyrði 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála eigi við og alls ekki stafliður a, svo sem endurupptökubeiðandi byggi á. Þvert á móti bendi athugasemdalaus viðtaka á mánaðarlegum reikningsyfirlitum frá janúar 2002 til maí 2015 til að endurupptökubeiðanda hafi verið fullkunnugt um skuld sína við forvera gagnaðila. Þá sé ljóst að síðari málslið stafliðs a sé enn síður fullnægt enda hafi endurupptökubeiðandi haft alla möguleika á að leita endurupptöku fyrr og til að koma þar fram öllum sínum sjónarmiðum.

VI. Niðurstaða

19.    Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVIII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt 1. mgr. 191. gr. laganna getur endurupptökunefnd orðið við beiðni um að héraðsdómur, sem hefur ekki verið áfrýjað, og áfrýjunarfrestur er liðinn, verði endurupptekinn til nýrrar meðferðar í héraði ef skilyrðum ákvæðisins er fullnægt. Í samræmi við 5. mgr. 137. gr. verður ákvæði þessu jafnframt beitt um endurupptöku útivistarmáls sem hefur lokið með því að stefna í máli hefur verið árituð um aðfararhæfi samkvæmt 113. gr. laganna:

     a.    sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til                    meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,

     b.     sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,

     c.    önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

20. Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt. Endurupptökubeiðandi styður beiðni sína um endurupptöku við a-lið 1. mgr. 191. gr. og telur skilyrði þess málsliðar uppfyllt. Í endurupptökubeiðni er ekki rökstutt sérstaklega hvernig skilyrði b- og c-liða 1. mgr. 191. gr. séu uppfyllt.

21.    Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína um endurupptöku á því að hún hafi aldrei stofnað til þeirra skuldbindinga sem lágu að baki hinni árituðu stefnu og engin gögn liggi fyrir um að hún hafi nýtt þá fjármuni af yfirdráttarheimild sem henni var gefið að sök að skulda. Vegna misskilnings hafi hún ekki mætt við þingfestingu og hafi henni ekki verið kunnugt um málsúrslit fyrr en við fjárnámsgerð rúmu ári seinna, eða 25. október 2017. Jafnframt byggir endurupptökubeiðandi á því að gagnaðili hafi ekki lagt fram nein stofngögn um meintar skuldbindingar hennar þegar málið var þingfest á sínum tíma og hafi málið því verið vanreifað. Máli sínu til stuðnings leggur endurupptökubeiðandi fram áritaða stefnu og aðfararbeiðni en engin frekari gögn.

22.    Óumdeilt er í máli þessu að stefna var birt endurupptökubeiðanda og að útivist varð af hennar hálfu við þingfestingu héraðsdómsmálsins. Við þingfestinguna var meðal annars lagt fram yfirlit skráðs reiknings endurupptökubeiðanda úr tölvukerfi gagnaðila og innheimtuviðvörun sem send var á heimilisfang hennar. Eins og endurupptökubeiðandi bendir á þá voru ekki lögð fram frekari skjöl um stofnun reiknings hennar hjá Sparisjóði Vestmannaeyja. Í athugasemdum gagnaðila við endurupptökubeiðni kemur meðal annars fram að endurupptökubeiðanda hafi verið sendar mánaðarlega upplýsingar um stöðu á reikningnum frá stofnun hans og leggur hann fram sýnishorn því til stuðnings. Strax og innheimta hófst hafi lögmaður endurupptökubeiðanda haft samband við gagnaðila en þar sem lausn hafi ekki fundist hafi verið gefin út stefna. Lögmaður hennar hafi haft samband við gagnaðila tveimur dögum eftir að stefna var árituð, samanber afrit þeirra samskipta. Endurupptökubeiðandi hefur ekki gert athugasemdir við þessar athugasemdir gagnaðila, þrátt fyrir að henni hafi verið gefið tækifæri til þess.

23.    Með vísan til þessa verður ekki talið að sterkar líkur hafi verið leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verði ekki kennt um það, sbr. áskilnað a-liðar 1. mgr. 191. mgr. laga um meðferð einkamála. Skortir þess vegna á að þetta skilyrði sé uppfyllt. Verður því að hafna kröfu endurupptökubeiðanda þegar af þessari ástæðu.


Úrskurðarorð

Beiðni Sigríðar Vöku Jónsdóttur um endurupptöku héraðsdómsmáls nr. E-240/2016 er hafnað.

  

Haukur Örn Birgisson formaður

 

Gizur Bergsteinsson

  

Þórdís Ingadóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum