Hoppa yfir valmynd
Endurupptökunefnd

Mál nr. 2/2020

Hinn 26. nóvember 2020 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 2/2020:

Beiðni um endurupptöku

héraðsdómsmálsins nr. E-3765/2017:

Sigríður Sveinsdóttir og Magnús Jens Gunnarsson

gegn

Arion banka hf.

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR:

I. Beiðni um endurupptöku

  1. Með erindi, dags. 6. ágúst 2020, fara Sigríður Sveinsdóttir og Magnús Jens Gunnarsson þess á leit að héraðsdómsmálið nr. E-3765/2017, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 13. júlí 2018, verði endurupptekið.
  2. Með vísan til 54. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Gizur Bergsteinsson, Haukur Örn Birgisson og Hrefna Friðriksdóttir.

    II. Málsatvik

  3. Með dómi héraðsdóms var Arion banki hf. sýknaður af kröfum endurupptökubeiðenda um að viðurkennt yrði að eftirstöðvar skuldar þeirra við bankann samkvæmt skuldabréfi nr. 711920 hafi, eftir greiðslu gjalddaga 4. maí 2015, verið að nafnverði 11.231.361 kr. með grunnvísitölu 242,0 stig. Dóminum var ekki áfrýjað.
  4. Aðdragandi málsins var sá að þann 20. júlí 2005 gáfu endurupptökubeiðendur út skuldabréf að fjárhæð 15.500.000 kr. til Frjálsa fjárfestingarbankans hf. Skuldabréfið, sem var nr. 711920, var tryggt með veði í fasteign endurupptökubeiðenda að Holtsgötu 22 í Njarðvík. Vegna greiðsluerfiðleika endurupptökubeiðenda fóru þau þess á leit við umboðsmann skuldara að þeim yrði veitt greiðsluaðlögun á grundvelli laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010.
  5. Samkvæmt því sem fram kemur í endurupptökubeiðni mun Frjálsi fjárfestingabankinn hf. hafa samþykkt þann 11. desember 2011 að lækka skuld þeirra samkvæmt skuldabréfinu um 1.412.645 kr. samkvæmt samkomulagi lánveitenda í þágu yfirveðsettra heimila. Kveða endurupptökubeiðendur þessa leiðréttingu aftur á móti ekki hafa átt sér stað fyrr en fjórum árum síðar.
  6. Endurupptökubeiðendur undirrituðu samning um greiðsluaðlögun þann 23. febrúar 2012 en í tengslum við gerð hans var verðmæti fasteignar endurupptökubeiðenda metið. Með samningnum féll hluti umræddrar veðskuldar innan matsverðsins en hluti utan. Sá hluti sem féll innan matsverðs fasteignarinnar nam 18.247.722 kr. en sá hluti sem féll utan matsverðs fasteignarinnar nam 5.274.637 kr. Í samningnum var kveðið á um að fasteignaveðkröfur utan matsverðs fasteignarinnar skyldu meðhöndlaðar á sama hátt og samningskröfur en um þær sagði í samningi: „Samningskröfuhafar veita skuldurum algjöra eftirgjöf á kröfum sínum að loknu tímabili greiðsluaðlögunar.“ Var jafnframt tekið fram að um eftirgjöf skulda færi eftir ákvæðum 12. gr. laga nr. 50/2009 og yrðu veðkröfur ekki afmáðar nema fullnægt væri öllum almennum skilyrðum fyrir þeirri aðgerð samkvæmt þeim lögum.
  7. Stefndi Arion banki hf. mun hafa eignast umrætt veðskuldabréf með framsali frá Hildu hf. þann 3. desember 2013.
  8. Endurupptökubeiðendur kveða lánadrottinn þeirra hafa, einhliða og án samráðs við sig, útbúið nýtt lánsnúmer fyrir þann hluta lánsins sem stóð utan matsverðs fasteignarinnar og gefið því láni númerið 718293. Endurupptökubeiðendur kveða að um nýtt lán hafi verið að ræða sem þau hafi hvorki undirgengist né hafi þau samið um skilmála þess við Arion banka hf. Endurupptökubeiðendur kveða ríkisskattstjóra hafa tekið undir þetta þegar hann hafnaði því að lánið myndaði stofn til útreiknings vaxtabóta þar sem um nýtt lán væri að ræða og að of langt væri liðið frá kaupum á fasteigninni til að það gæti myndað stofn til útreiknings vaxtabóta.
  9. Endurupptökubeiðendur kveða greiðsluaðlögunartímabili þeirra hafa lokið í mars 2014 en áður hafi Arion banki hf. haldið áfram innheimtu gagnvart endurupptökubeiðendum af tveimur lánum þrátt fyrir að þau hefðu aðeins undirritað eitt skuldabréf.
  10. Endurupptökubeiðendur kveðast hafa staðið við samninginn um greiðsluaðlögun og leitað eftir því við sýslumann að sá hluti veðskuldarinnar sem var utan matsverðs fasteignarinnar yrði afmáður í samræmi við ákvæði samningsins. Sýslumaður hafnaði beiðni þeirra með þeim rökum að skilyrði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/2009 væru ekki fyrir hendi.
  11. Endurupptökubeiðendur kveða Arion banka hf. hafa haldið áfram innheimtuaðgerðum og látið skrá nýtt lán með númerið 46660 á endurupptökubeiðendur í maí 2015.
  12. Endurupptökubeiðendur kveða að greiðsluseðlar á nýja lánsnúmerinu beri með sér að upphafleg lánsfjárhæð hafi verið 12.970.091 kr. en ekki 15.500.000 kr. eins og eldri greiðsluseðlar báru með sér. Þá hafi fyrsti vaxtadagur verið sagður vera 2. október 2017, en samkvæmt greiðsluseðlum hafi hann virst síbreytilegur. Þannig hafi fyrsti vaxtadagur verið tilgreindur ýmist 11. maí 2011, 2. maí 2015 og 2. október 2017. Endurupptökubeiðendur kveða óskiljanlegt hvernig innheimtu hafi verið háttað og hvernig skuld þeirra hafi verið reiknuð.
  13. Endurupptökubeiðendur kveðast hafa leitað til lögmanns til þess að reka mál á hendur Arion banka hf. eftir að hafa árangurslaust leitað viðbragða hjá bankanum. Efnislega gerðu þau kröfu um að Arion banki hf. felldi niður eftirstöðvar þess hluta veðskuldarinnar sem var umfram matsvirði fasteignar þeirra.
  14. Í máli endurupptökubeiðenda gegn Arion banka hf. kröfðust þau viðurkenningar á því að eftirstöðvar skuldar þeirra samkvæmt skuldabréfi nr. 711920, eftir greiðslu gjalddaga 4. maí 2015, hafi verið að nafnverði 11.231.361 kr. með grunnvísitölu 242,0 stig. Dómur í málinu var kveðinn upp 13. júlí 2018 þar sem Arion banki hf. var sýknaður af kröfu þeirra.

    III. Grundvöllur beiðni 

  15. Endurupptökubeiðendur reisa beiðni sína á 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og telja öll skilyrði framangreinds ákvæðis vera uppfyllt.
  16. Hvað varðar skilyrði a-liðar 1. mgr. 191. gr. vísa endurupptökubeiðendur til þess að Arion banki hf. hafi færst undan því að svara fjölmörgum atriðum sem honum ætti að vera skylt að upplýsa um ef hann taldi sig eiga kröfu á hendur endurupptökubeiðendum. Endurupptökubeiðendur gera alvarlega athugasemd við að þeim hafi verið gert að greiða af láni sem þau hafi aldrei undirgengist né undirritað. Endurupptökubeiðendur telja héraðsdóm hafa færst undan því að leysa úr ágreiningi með tilliti til málsatvika og látið endurupptökubeiðendur alfarið bera hallann af því sem óupplýst var. Lán nr. 718293 og nr. 46660 séu endurupptökubeiðendum með öllu ókunnug og greiðsluaðlögunarsamningur sem þau undirrituðu hafi ekki gert ráð fyrir stofnun nýrra lána. Endurupptökubeiðendur telja héraðsdóm ekki hafa leyst úr ágreiningnum með tilliti til laga nr. 33/2013 um neytendalán. Þannig hafi bankanum borið að kalla endurupptökubeiðendur til fundar vegna fyrirhugaðra breytinga á láninu og þegar nýju lánin voru gefin út á þau, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um neytendalán.
  17. Hvað skilyrði b-liðar 1. mgr. 191. gr. varðar þá byggja endurupptökubeiðendur á því að ef málið verði endurupptekið þá verði Arion banka hf. gert að framvísa skjölum sem geti sannreynt kröfu bankans á hendur endurupptökubeiðendum og veitt skýringar á þeim atriðum sem óupplýst eru, líkt og upphafsdag vaxta, vaxtakjör, fjölda afborgana og fleiri skilyrði hinna meintu lána. Endurupptökubeiðendur telja að dómari hefði átt að meta það bankanum í óhag að hafa ekki getað upplýst undir rekstri máls um einföld atriði eins og hvernig höfuðstóll skuldar var sagður vera annar en hann var upphaflega ákveðinn og hvers vegna búið var að lengja tímabil afborgana umfram það sem upphaflega var ákveðið. Ákvæði laga um meðferð einkamála kveði á um að svari aðili ekki áskorunum um að upplýsa um atriði sem honum standa nær þá megi láta gagnaðila njóta vafans um þau atriði. Þannig hafi Arion banki hf. ekki getað framvísað neinum skjölum sem undirrituð hafi verið af endurupptökubeiðendum varðandi nýju lánin, hvorki nr. 718293 né nr. 46660. Endurupptökubeiðendur telja sig ekki bundna af nýjum lánum bankans og vísa til þess að ríkisskattstjóri hafi neitað að viðurkenna ný lánsnúmer bankans sem eldri lán, líkt og bankinn byggði málatilbúnað sinn á fyrir dómi.
  18. Hvað skilyrði c-liðar 1. mgr. 191. gr. varðar þá vísa endurupptökubeiðendur til þess að þau hafi ekki átt að hlíta ráðleggingum lögmanns síns, heldur hefðu þau átt að áfrýja málinu. Endurupptökubeiðendur byggja á því að málið hafi ekki fengið efnislega meðferð í héraði og að dómari málsins hafi ekki leyst úr ágreiningi aðila né hafi hann jafnað málið með heildstæðum hætti. Niðurstaðan hafi verið of afmörkuð og þar af leiðandi röng. Dómari málsins hafi ekki svarað grundvallaratriðum í málatilbúnaðinum sem varði kröfu bankans á hendur endurupptökubeiðendum og hvernig skýra ætti ákvæði laga um greiðsluaðlögun fyrir einstaklinga sem og ákvæði laga um neytendalán.
  19. Endurupptökubeiðendur árétta að um ný lán hafi verið að ræða og þannig hafi það verið fært í bækur bankans og það sé einnig afstaða ríkisskattsstjóra, sem hafi synjað þeim um að telja fram nýju lánin sem stofn til útreiknings vaxtabóta. Það eitt og sér eigi að nægja til að mæta skilyrðum c-liðar 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála um að stórfelldir hagsmunir endurupptökubeiðenda séu í húfi því þau reiði sig á vaxtabætur líkt og margir aðrir Íslendingar.
  20. Loks vísa endurupptökubeiðendur til þess að skilmálar og kjör samkvæmt upphaflegu skuldabréfi hafi ekki haldið sér. Afborganir hafi breyst sem og útgáfudagar. Að mati endurupptökubeiðenda er framangreind framkvæmd hvorki í samræmi við ákvæði laga um greiðsluaðlögun sem gerir ráð fyrir greiðsluskjóli í aðdraganda samnings um greiðsluaðlögun né heldur í samræmi við ákvæði laga um neytendalán, en endurupptökubeiðendur hafi aldrei samþykkt hin nýju lán bankans. Endurupptökubeiðendur telja þessa framkvæmd að sama skapi í ósamræmi við reglur um viðskiptabréf og skilmálabreytingar sem áratugavenja ríki um. Arion banki hf. hafi einhliða breytt skilmálum og kjörum hins upphaflega skuldabréfs og útbúið ný lán á endurupptökubeiðendur án þess að þau hafi haft kost á að gæta hagsmuna sinna. Vegna þessa hafi endurupptökubeiðendur ekki átt kost á því að telja fram venjulegt húsnæðislán sem tekið var árið 2005 til stofns við útreikning vaxtabóta.

    VII. Niðurstaða

  21. Endurupptökunefnd úrskurðar í máli þessu á grundvelli XXVIII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í 1. mgr. 191. gr. laganna segir að nú hafi héraðsdómur gengið í máli, sem hafi ekki verið áfrýjað, og áfrýjunarfrestur sé liðinn, og geti endurupptökunefnd þá orðið við beiðni um að málið verði endurupptekið í héraði ef skilyrðum ákvæðisins er fullnægt. Samkvæmt 1. mgr. 192. gr. laganna skal skriflegri beiðni um endurupptöku beint til endurupptökunefndar og í henni skal rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skulu gögn fylgja henni eftir þörfum.
  22. Skilyrði 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála eru eftirfarandi:
    1. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilum verður ekki kennt um það,
    2. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,
    3. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.
  23. Til að fallist sé á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt. Þá segir í 2. mgr. 192. gr. laganna að ef beiðni sé bersýnilega ekki á rökum reist synji endurupptökunefnd þegar í stað um endurupptöku.
  24. Í máli endurupptökubeiðanda gegn Arion banka hf. var efnislega tekist á um hvort Arion banka hf. bæri að fella niður eftirstöðvar veðskuldabréfs umfram matsvirði fasteignar með vísan til samnings um greiðsluaðlögun. Dómsniðurstaðan byggði á því að skýra samninginn um greiðsluaðlögun til samræmis við orðalag hans, markmið, eðli og tilgang samningsgerðarinnar og þeirrar löggjafar sem samningurinn byggði á. Sérstaklega voru túlkuð og skýrð ákvæði um eftirgjöf skulda.
  25. Að mati endurupptökunefndar hafa endurupptökubeiðendur ekki fært rök fyrir því að málsatvik hafi ekki verið nægilega skýr eða tilgreint hvaða upplýsingar um málsatvik myndu leiða til annarrar niðurstöðu um túlkun samningsins um greiðsluaðlögun.
  26. Að mati endurupptökunefndar eru því bersýnilega ekki uppfyllt skilyrði a-liðar 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála, um að leiddar hafi verið sterkar líkur að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós og að aðilum verði ekki um það kennt. Af þessum sökum er ekki tilefni til að fjalla sérstaklega um hvort skilyrði b- og c-liða séu uppfyllt.
  27. Samkvæmt framansögðu er beiðni um endurupptöku hafnað þegar í stað, sbr. 2. mgr. 192. laga um meðferð einkamála.
  28. Í tilefni af þeirri athugasemd endurupptökubeiðanda að þau hafi stórfellda hagsmuni af því að héraðsdómsmálið verði endurupptekið þar sem ríkisskattstjóri hafi hafnað því að þau lán sem um ræðir myndi stofn til útreiknings vaxtabóta skal tekið fram að á grundvelli laga nr. 90/2003 um tekjuskatt geta endurupptökubeiðendur leitað endurskoðunar á álagningu opinberra gjalda sinna, eftir atvikum með kæru til ríkisskattstjóra eða yfirskattanefndar á grundvelli 99. og 100. gr., eða á grundvelli beiðni samkvæmt 2. mgr. 101. gr. laganna.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni Sigríðar Sveinsdóttur og Magnúsar Jens Gunnarssonar um endurupptöku héraðsdómsmáls nr. E-3765/2017, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 13. júlí 2018, er hafnað.

Haukur Örn Birgisson formaður

Gizur Bergsteinsson

Hrefna Friðriksdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum