Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Atvinnuleysistryggingar%20og%20vinnumarka%C3%B0sa%C3%B0ger%C3%B0ir

Mál nr. 316/2020 - Úrskurður

.

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 316/2020

Fimmtudaginn 22. október 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 22. júní 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar um 50% bótarétt og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 16. mars 2020. Með ákvörðun, dags. 25. maí 2020, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt og bótaréttur metinn 100%. Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur 1. júní 2020 í samræmi við þá ákvörðun en greiðslur voru skertar vegna eldri ólokinna viðurlaga. Þann 16. júní 2020 var tekin ný ákvörðun í máli kæranda þar sem hann hafði öðlast rétt til nýs bótatímabils. Viðurlögin voru því látin niður falla og greiðslur til hans leiðréttar. Bótaréttur kæranda var einnig ákvarðaður að nýju og metinn 50% á grundvelli vinnusögu hans á ávinnslutímabilinu. Við þá leiðréttingu kom í ljós að kærandi hafði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 128.217 kr.    

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. júní 2020. Með bréfi, dags. 24. júní 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 30. september 2020, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. október 2020, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

 

 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að bótaréttur hans hefði verið ákvarðaður 100% frá 16. mars 2020 þar sem hann hafi verið atvinnurekandi á eigin kennitölu. Á fyrsta greiðsluseðli hafi hann hins vegar fengið greitt frá 26. mars 2020 og jafnframt hafi verið dregið af bótunum og það tilgreint sem skerðing vegna viðurlaga. Þann 16. júní 2020 hafi kærandi fengið nýtt mat á atvinnuleysisbótum og þá hafi bótaréttur verið ákvarðaður 50%. Hvorki Vinnumálastofnun né Greiðslustofa hafi svarað fyrirspurn hans varðandi þetta eða gefið einhverjar útskýringar.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Þar sem kærandi hafi áunnið sér rétt á nýju bótatímabili hafi Vinnumálastofnun borið að endurreikna bótarétt kæranda, enda hafi ekki verið unnt að líta til ávinnslu hans á eldra tímabili við mat á bótarétti, sbr. 23. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Útreikningur bótaréttar þeirra sem starfi hjá eigin fyrirtækjum eða sem sjálfstætt starfandi einstaklingar fari eftir 19. gr. laga nr. 54/2006. Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sem greitt hafi mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem nemi lægri fjárhæð en viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald teljist tryggður hlutfallslega í samræmi við fyrrgreinda viðmiðunarfjárhæð. Samkvæmt skráningu kæranda hjá embætti skattsins hafi hann starfaði í starfaflokki E2. Viðmiðunarfjárhæð viðkomandi starfaflokks fyrir árið 2020 sé 446.000 kr. á mánuði en hafi verið 428.000 kr. á mánuði á árinu 2019. Reiknað endurgjald kæranda á ávinnslutímabilinu hafi ávallt numið lægri upphæð en fyrrgreind viðmiðunarfjárhæð og að auki hafði kærandi einungis greitt tryggingagjald og staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi í sex mánuði á starfstímabili sínu. Því hafi bótaréttur kæranda reiknast samtals 50%.

Í ljósi þess að greiðslur til kæranda hafi upphaflega farið fram á röngum grundvelli hafi stofnuninni borið að endurákvarða greiðslur atvinnuleysisbóta til hans. Við það hafi komið í ljós ofgreiðsla atvinnuleysisbóta sem stofnuninni hafi borið að innheimta, sbr. ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Samkvæmt ákvæðinu sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og innheimta þær atvinnuleysisbætur sem hafi verið ofgreiddar. Það hafi verið mat stofnunarinnar að ekki skyldi innheimta álag vegna ofgreiðslna til kæranda. Ofgreiddar bætur hafi numið alls 128.217 kr. og kæranda hafi verið tilkynnt um ákvörðun stofnunarinnar þann 15. júní 2020. Kæranda hafi enn fremur verið tilkynnt að skuld vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta yrði skuldajafnað við síðar tilkomnar atvinnuleysisbætur í samræmi við ákvæði 3. mgr. 39. gr. laganna. Skuld kæranda við Atvinnuleysistryggingarsjóð nemi nú 112.426 kr.

Í kjölfar kæru kæranda hafi loks komið í ljós að við endurútreikning atvinnuleysisbóta þann 16. júní 2020 höfðu endurákvarðaðar greiðslur til kæranda verið greiddar frá 1. apríl en ekki frá umsóknardegi 16. mars 2020. Stofnunin hafi nú leiðrétt þá greiðslu og hún muni koma til framkvæmda fyrsta greiðsludag októbermánaðar.

Með vísan til ofangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að bótaréttur kæranda sé réttilega ákvarðaður 50% frá og með 16. mars 2020. Þá beri honum að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. 

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um 50% bótarétt kæranda og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Verður fyrst vikið að ákvörðun um bótarétt kæranda.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Sjálfstætt starfandi einstaklingur er hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum Ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns, sbr. b-lið 3. gr. laganna.

Óumdeilt er að kærandi var sjálfstætt starfandi áður en hann sótti um atvinnuleysisbætur. Í IV. kafla laga nr. 54/2006 er fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. telst sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald samfellt á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum uppfylltum, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr. Í 2. mgr. 19. gr. segir svo um útreikning bótaréttar:

„Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sem greitt hefur mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald skemur en tólf mánuði en þó lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, telst tryggður hlutfallslega í samræmi við fjölda þeirra mánaða sem hann hefur greitt staðgreiðsluskatt að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr. Hið sama gildir um sjálfstætt starfandi einstakling sem hefur greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar en þá ákvarðast tryggingahlutfall hans af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið af og viðmiðunarfjárhæðar, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr.“

Samkvæmt framangreindu getur umsækjandi um atvinnuleysisbætur einungis átt hlutfallslegan rétt til bóta ef hann hefur reiknað sér endurgjald í skemmri tíma en 12 mánuði á ávinnslutímabili. Hið sama á við ef reiknað endurgjald atvinnuleitanda er lægra en viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein. Bótaréttur kæranda var byggður á framangreindri reiknireglu þar sem kærandi hafði einungis greitt tryggingagjald og staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi í sex mánuði á starfstímabili sínu og reiknað endurgjald nam lægri upphæð en viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra fyrir þann tekjuflokk sem starf hans féll undir. Með vísan til þess er ákvörðun Vinnumálastofnunar um 50% bótarétt kæranda staðfest.

Verður þá vikið að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur í kjölfar leiðréttingar á bótarétti kæranda. Í 39. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum, beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laganna er heimilt að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysisbótum á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum sama einstaklings en þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur 25% af síðarnefndu atvinnuleysisbótum í hverjum mánuði.  Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.

Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á. Þar sem kærandi hafði fengið greiddar atvinnuleysisbætur miðað við 100% bótarétt er ljóst að hann fékk hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Í máli þessu hefur ekkert álag verið lagt á skuld kæranda og því er ekki ágreiningur um það atriði. Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um 50% bótarétt A, og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum