Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 178/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 178/2020

Mánudaginn 8. júní 2020

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 8. apríl 2020, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, úrskurð Barnaverndarnefndar B, dags. 24. mars 2020, um að dvalarstað C, verði haldið leyndum gagnvart móður á grundvelli 8. mgr. 81. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.).

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn C er á X aldursári en hann er sonur kæranda og D. Kærandi fer ein með forsjá drengsins. Drengurinn á X systkini sammæðra, X eldri og X yngra.

Mál drengsins hefur verið til meðferðar hjá barnaverndaryfirvöldum með hléum frá árinu 2006, en á árunum 2014-2018 var mál drengsins til meðferðar hjá Barnavernd L vegna áreitis og hótana kæranda í garð framkvæmdastjóra Barnaverndar B. Kærandi hlaut þriggja ára skilorðsbundinn dóm vegna þessa. Máli drengsins var lokað sumarið 2018 þar sem hann dvaldi erlendis með kæranda og aðstæður hans óþekktar. Alls hafa borist 42 tilkynningar og þrjár bakvaktarskýrslur vegna drengsins til Barnaverndar B og hefur hann verið vistaður X sinnum utan heimilis, X sinni á vegum Barnaverndar B þegar hann var nýfæddur og í X skipti á vegum Barnaverndar L á árunum 2014-2016. Ítrekaðar tilkynningar hafa borist frá skóla drengsins á árunum 2018 til 2020 þar sem miklar áhyggjur hafa verið af námi hans, hegðun og. Tilkynningarefni frá skóla voru langar, óútskýrðar fjarverur drengsins frá skóla, jafnvel mánuðum saman, og erfið hegðun hans þegar hann var í skólanum. Hegðun drengsins hafi farið versnandi í skóla og fari ekkert nám fram sökum hegðunar hans, auk þess sem hún hafi mikil áhrif á skólastarf og kennslu samnemenda hans. Ítrekað hafi verið óskað eftir því að kærandi samþykki stuðning í skóla en það hafi ekki gengið eftir. Kærandi hafi einnig hafnað stuðningi og samvinnu við Barnavernd B. Þann 2. febrúar 2020 hafi för kæranda úr landi með drenginn og bróður hans verið stöðvuð og neyðarráðstöfun á grundvelli 31. gr. bvl. beitt.

Barnaverndarnefnd B hafi úrskurðað 11. febrúar 2020 um vistun drengsins utan heimilis samkvæmt 27. gr. bvl. Úrskurður nefndarinnar hafi verið staðfestur af Héraðsdómi B 6. apríl 2020 um leið og fallist hafi verið á kröfu nefndarinnar um frekari vistun drengsins til 11. ágúst 2020. Landsréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms B þann 5. maí 2020.

Kærandi óskaði eftir því að vera upplýst um hvar drengurinn væri dvalfastur á meðan hann væri vistaður á P. Beiðni kæranda var bókuð á meðferðarfundi starfsmanna 25. febrúar 2020 þar sem niðurstaðan hafi verið sú að leggja málið fyrir Barnaverndarnefnd B með tillögu um að dvalarstað hans yrði haldið leyndum.

Málið var tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B 17. mars 2020. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd B ákveður að dvalarstað C, verði haldið leyndum gagnvart móður þeirra, sbr. 8. mgr. 81. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Úrskurður þessi gildir í allt að 6 mánuði.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 8. apríl 2020. Með bréfi, dags. 14. apríl 2020, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst 7. maí 2020 og með bréfi, dags. 12. maí 2020, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Með tölvupósti, dags. 20. maí 2020, tilkynnti lögmaður kæranda að hún gætti ekki lengur hagsmuna kæranda. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 24. mars 2020 verði felldur úr gildi.

Í kæru kemur fram að með hinum kærða úrskurði hafi barnaverndarnefnd úrskurðað að dvalarstað drengsins yrði haldið leyndum gagnvart kæranda, sbr. 8. mgr. 81. gr. bvl. Þann 11. febrúar síðastliðinn hafi Barnaverndarnefnd B kveðið upp úrskurð um að C skyldi vistaður utan heimilis í tvo mánuði, auk þess sem borgarlögmanni hafi verið falið að gera kröfu fyrir dómi um vistun barnsins í allt að x mánuði, eða til 11. ágúst 2020. Með úrskurði Héraðsdóms B frá 6. apríl 2020 í máli nr. U-1664/2020 hafi úrskurður barnaverndarnefndar um vistun í x mánuði verið staðfestur, auk þess sem dómurinn féllst á viðbótarkröfu um vistun til allt að 11. ágúst 2020.

Það hafi verið mikið áfall fyrir kæranda þegar sonur hennar hafi verið tekinn úr hennar umsjá og færður í umsjá barnaverndaryfirvalda. Það að vita ekki hvar drengurinn sé niðurkominn og að úrskurðað hafi verið að kærandi fengi ekki að vita það sé henni ennþá meira áfall. Hún viti ekki hvar drengurinn dvelji, hver sé að hugsa um hann eða hvernig honum líði. Þetta valdi kæranda miklu hugarangri og sé til þess fallið að gera þetta tímabil sem barnið sé vistað utan heimilis enn meira íþyngjandi fyrir kæranda.

Við ákvarðanatöku í málum hjá stjórnvöldum skuli gæta meðalhófs, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (ssl.), sbr. einnig 7. mgr. 4. gr. bvl. Það að úrskurða um að dvalarstaður barns, sem vistað sé utan heimilis, skuli haldið leyndum, þrátt fyrir að barninu stafi engin hætta af forsjárforeldri, geti ekki talist rúmast innan sjónarmiða um meðalhóf. Þá beri að ítreka það að kærandi hafi aldrei orðið uppvís að því að vera í neyslu eða neins konar óreglu. Þá sé vísað á bug fullyrðingum í hinum kærða úrskurði um andlegt ójafnvægi kræanda þar sem engin gögn hafa verið lögð fram sem sýna fram á slíkt.

Að lokum beri að nefna að í skýrslu talsmanns barnsins, sem barnaverndarnefnd hafi lagt fram við fyrirtöku málsins, komi fram að drengurinn vilji vera hjá móður sinni. Þá segist hann sakna móður sinnar. Tengsl mæðginanna virðast vera afar sterk sé miðað við það sem fram komi í skýrslu talsmannsins. Þennan vilja barnsins þurfi einnig að taka inn í það mat sem fram fari þegar kveðinn sé upp úrskurður um hagi barnsins. Sérstakt tillit þurfi að taka til þess að drengurinn sé á X aldursári og ætti vilji hans því að hafa mikið um það að segja hver niðurstaða málsins verði.

Í ljósi alls framangreinds geti kærandi ekki fallist á það að nauðsynlegt sé með tilliti til hagsmuna barnsins að halda dvalarstað hans leyndum fyrir henni.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að drengurinn dvelji í búsetuúrræði á vegum P á meðan mál hans sé metið með tilliti til stuðningsþarfa hans. Vel hafi gengið með drenginn á P á vistunartíma og hafi hann sýnt framfarir gagnvart starfsmönnum og í hegðun. Kærandi hafi undirritað meðferðaráætlun samkvæmt 23. gr. bvl. þar sem hún samþykkti að undirgangast forsjárhæfnismat og geðmat. Hún hafi dregið samþykki sitt fyrir fyrrgreindu til baka. Kærandi hafi óskað eftir því að vera upplýst um hvar drengurinn væri dvalfastur á meðan hann væri vistaður á P. Kærandi hafi verið með ógnandi tilburði á samfélagsmiðlum og birt myndbönd þar sem hún hafi verið fyrir utan skrifstofur P en þar taldi hún drenginn dvelja. Kærandi hafi einnig ítrekað verið að spyrja drenginn um dvalarstað hans og fleira en svo virðist sem drengurinn hafi ekki viljað svara henni varðandi dvalarstað sinn. Málið hafi verið bókað á meðferðarfundi starfsmanna 25. febrúar 2020 þar sem niðurstaðan hafi verið sú að leggja mál drengsins fyrir Barnaverndarnefnd B með tillögu um að dvalarstað hans yrði haldið leyndum.

Mál drengsins hafi verið tekið fyrir á fundi nefndarinnar 17. mars 2020. Lögmaður kæranda hafi mætt á fund nefndarinnar og gert grein fyrir sjónarmiðum kæranda. Fyrir fundinn hafi legið fyrir greinargerð starfsmanna barnaverndar, dags. 6. mars 2020, með tillögu um að úrskurðað yrði um leyndan dvalarstað drengsins á grundvelli 8. mgr. 81. gr. bvl. Í greinargerðinni komi fram það mat að staða kæranda sé slæm, hún sé í miklu andlegu ójafnvægi og starfsmenn telji tilefni til að hafa miklar áhyggjur af óstöðugleika hennar og að hún sé ófyrirsjáanleg. Það séu ekki hagsmunir drengsins að kærandi geti mætt fyrirvaralaust fyrir utan vistunarúrræði hans. Síkar heimsóknir kæranda myndu hafa áhrif á andlega líðan og jafnvægi drengsins. Vegna hegðunar kæranda í garð starfsmanna og þar sem hún hafi verið að sýna myndbönd þar sem hún hafi verið fyrir utan skrifstofur P að næturlagi telji starfsmenn það þjóna hagsmunum drengsins best að dvalarstað hans verði haldið leyndum til að tryggja stöðugleika og öryggi hans og koma í veg fyrir að kærandi hafi tækifæri til að áreita drenginn og umönnunaraðila hans.

Ekki hafi verið talið forsvaranlegt að biðja drenginn um að taka afstöðu til tillagna starfsmanna Barnaverndar B um leyndan dvalarstað. Fyrir liggi skýrsla talsmanns, dags. 13. mars 2020, þar sem fram komi vilji drengsins til að hitta kæranda án eftirlits. Hann kveðist þó una umgengni undir eftirliti ef önnur umgengni sé ekki í boði. Gögn málsins beri hins vegar með sér að drengurinn vilji sjálfur ekki upplýsa kæranda um hvar hann sé vistaður og biðjist undan því að svara þegar hún spyrji um vistunarstað. Þetta hafi bæði komið fram munnlega hjá starfsmönnum P og enn fremur í yfirliti P, dags. 16. mars 2020. Þar komi fram að drengurinn hafi í nokkur skipti ekki viljað ræða við kæranda í síma þegar hún hafi hringt og í þau skipti sem hann hafi rætt við hana hafi hann hækkað töluvert í spennu þar sem hann sé ósáttur við spurningar hennar en hún hafi meðal annars verið að spyrja hann hvar hann sé staðsettur í G og hvort hann þekki einhver hús í kring þannig hún átti sig á því hvar hann sé. Drengurinn hafi verið ósáttur við kæranda og meðal annars sagt við hana „þú kemur ekki að skemma fyrir mér“ og beðið hana að hætta spyrja sig.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. bvl. skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að séu barni fyrir bestu og skulu hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Meginregla barnaverndarlaganna sé því sú að í barnaverndarstarfi skuli jafnan beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að séu barni fyrir bestu. Þessi regla vísi til sjálfstæðs réttar barnsins þar sem hagsmunir þess skuli skipa öndvegi. Aðrir hagsmunir, svo sem hagsmunir foreldra, verði þar af leiðandi að víkja ef þeir stangist á við hagsmuni barnsins, sbr. 1. tölul. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Við beitingu þessarar meginreglu séu barnaverndaryfirvöld þó bundin við þau úrræði sem lögin geri ráð fyrir.

Í 2. mgr. 4. gr. bvl. segi að í störfum sínum skuli barnaverndaryfirvöld taka tillit til sjónarmiða og óska barna eftir því sem aldur þeirra og þroski gefi tilefni til. Um þetta er meðal annars vísað til 1. tölul. 12. gr. fyrrnefnds samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Til þess sé skírskotað að afskipti barnaverndaryfirvalda skuli grundvallast á meðalhófi og sérstakar ráðstafanir aðeins réttlætanlegar, beri nauðsyn til vegna hagsmuna barnsins, sbr. 7. mgr. 4. gr. laganna.

Í ljósi framangreinds, allra gagna málsins, og með vísan til forsendna niðurstöðu úrskurðar nefndarinnar frá 24. mars 2020 geri Barnaverndarnefnd B kröfu um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Ljóst þyki að staða kæranda sé slæm, hún hafi verið til lítillar samvinnu og beri gögn málsins með sér að ríkt tilefni sé til að hafa miklar áhyggjur af andlegu ójafnvægi hennar og óstöðugleika. Í því ljósi verði að telja að það séu hagsmunir drengsins að kærandi geti ekki mætt fyrirvaralaust í vistunarúrræði hans en slíkar heimsóknir geti haft slæm áhrif á líðan og jafnvægi drengsins sem samrýmist ekki hagsmunum hans eða markmiði vistunar hans utan heimilis. Það þjóni best hagsmunum drengsins, sem vilji sjálfur ekki upplýsa kæranda um dvalarstað sinn, að dvalarstað hans verði haldið leyndum til að tryggja stöðugleika og öryggi hans og koma í veg fyrir að kærandi hafi tækifæri til að áreita drenginn og umönnunaraðila hans.

IV.  Niðurstaða

Drengurinn C er fæddur árið X og fer kærandi ein með forsjá hans. Kærandi er móðir drengsins. Með hinum kærða úrskurði Barnaverndarnefndar B var ákveðið að dvalarstað drengsins yrði haldið leyndum gagnvart móður hans á grundvelli 8. mgr. 81. gr. bvl.

Kærandi krefst þess að úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 24. mars 2020 verði felldur úr gildi. Kærandi telur að þegar Barnaverndarnefnd B tók ákvörðun sína, hafi hún ekki gætt meðalhófs, sbr. 7. mgr. 4. gr. bvl. og 12. gr. ssl. Barnaverndarnefnd B krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Í 8. mgr. 81. gr. bvl. segir að barnaverndarnefnd geti kveðið upp úrskurð um að halda dvalarstað barns leyndum, meðal annarra gagnvart foreldrum, ef hagsmunir barnsins krefjast þess. Í athugasemdum við 8. mgr. 81. gr. í frumvarpi því er varð að barnaverndarlögum segir að rétt þyki að barnaverndarnefnd hafi slíka heimild, enda geti aðstæður verið með þeim hætti að afskipti kynforeldra af barninu geti haft mjög truflandi áhrif og unnið gegn því að markmiði að vistunarráðstöfun náist.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála eru það hagsmunir drengsins að fá að vera óáreittur í vistuninni. Þeir hagsmunir vega þyngra en hagsmunir kæranda af því að vita um dvalarstað hans. Með því að upplýsa kæranda um dvalarstað barnsins verður tekin óþarfa áhætta á því að drengurinn verði fyrir truflun í vistuninni og að með því sé unnið gegn þeim markmiðum sem stefnt er að með vistunarráðstöfuninni. Ráðið verður af gögnum málsins að það þjóni hagsmunum drengsins best að dvalarstað hans verði haldið leyndum fyrir kæranda. Með vísan til þess telur úrskurðarnefnd velferðarmála að úrskurður Barnaverndarnefndar B um að halda dvalarstað drengsins leyndum gagnvart kæranda hafi verið byggð á lögmætum sjónarmiðum og að hagsmunir drengsins krefjist þess að dvalarstað hans verði haldið leyndum fyrir kæranda.

Þá verður engin stoð fundin fyrir því að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins eða 7. mgr. 4. gr. bvl. við meðferð og úrlausn málsins af hálfu Barnaverndarnefndar B. Með vísan til alls framangreinds ber að staðfesta hinn kærða úrskurð.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B, dags. 24. mars 2020, um að dvalarstað C, verði haldið leyndum gagnvart móður hans, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum