Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 269/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 22. júní 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 269/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21030001

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.             Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála þann 22. janúar 2021 var staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja […], fd. […], ríkisborgara Pakistan (hér eftir nefndur kærandi), um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Þann 26. febrúar 2021 barst kærunefnd beiðni frá kæranda um endurupptöku málsins, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en með beiðni kæranda fylgdi greinargerð.

II.            Málsástæður og rök kærenda

Krafa kæranda um endurupptöku er aðallega reist á þeim grundvelli að ákvörðun hafi verið byggð á ófullnægjandi og röngum upplýsingum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá er krafa hans jafnframt reist á óskráðri meginreglu þess efnis að endurupptaka máls sé heimil ef ákvörðun er haldin verulegum annmarka. Meðfylgjandi kröfu hans sé vottorð frá sendiráði Pakistan í Noregi þar sem því sé slegið föstu að hjúskaparvottorð og önnur gögn málsins séu í senn ófölsuð og áreiðanleg. Telji kærandi að þessi nýju gögn séu til þess fallin að varpa ljósi á að úrskurður kærunefndar í máli hans hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum um gildi framlagðra gagna. Áréttar kærandi að sendiráð Pakistan í Noregi sé það sendiráð ríkisins sem sé næst Ísland og telji kærunefnd þörf á frekari gagnaöflun eða staðfestingu ætti að vera einfalt að hafa samband beint við sendiráðið.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði nr. 14/2021, dags. 22. janúar 2021, staðfesti kærunefnd ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga. Beiðni kæranda um endurupptöku byggir á því að úrskurður kærunefndar hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum með vísan til framlagðs skjals frá pakistanska sendiráðinu í Osló þar sem því sé slegið föstu að hjúskaparvottorð og önnur gögn málsins séu ófölsuð og áreiðanleg.

Í fyrrgreindum úrskurði komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að kærandi hefði ekki lagt fram trúverðug gögn sem sýndu fram á að hann og […], sem umsókn hans um fjölskyldsameiningu byggði á, væru í hjúskap, en kærandi hefði við meðferð málsins lagt fram hjónavígsluskráningarvottorð sem metin hefðu verið af sérfræðingum á sviði skjalarannsókna hjá lögreglunni á Suðurnesjum sem grunnfölsuð og ótraust. Var það niðurstaða kærunefndar að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga til útgáfu dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar.

Í framlögðu gagni með endurupptökubeiðni, sem ber með sér að vera útgefið af pakistanska sendiráðinu í Osló, er vottað fyrir réttmæti og áreiðanleika þeirra gagna sem kærandi hefur lagt fram hjá Útlendingastofnun og kærunefnd við meðferð fyrra stjórnsýslumáls. Þann 30. mars 2021 óskaði kærunefnd eftir því að lögreglan framkvæmdi rannsókn á framlögðu skjali en skjalarannsóknarskýrsla lögreglu barst kærunefnd þann 13. maí 2021. Kemur þar fram að skjalið sé að forminu til traust, enga fölsun sé að sjá en ekki verði fullyrt um innihaldið. Í tölvupósti frá lögreglu til kærunefndar þann sama dag kom fram að með vísan til þess vafa sem uppi væri um þau gögn sem lægju hjónavígsluvottorði kæranda og maka til grundvallar hafi verið ákveðið að senda fyrirspurn til sendiráðs Pakistan í Osló og óskað eftir því að sendiráðið aflaði afrits af því Nikha Nama sem ætti að vera til staðar bæði hjá útgefanda (múslímskum skrásetjara) og í viðkomandi ráðhúsi. Við dagsetningu bréfsins til kærunefndar hefði hins vegar ekkert svar borist frá sendiráðinu.

Ljóst er að efni framlagðs gagns með endurupptökubeiðni kæranda, sem ber ekki annað með sér en að vera gefið út af sendiráði Pakistans í Osló, fer ekki saman við niðurstöður lögreglunnar varðandi þau skjöl sem fjallað var um í úrskurði kærunefndar nr. 14/2021. Að mati kærunefndar þarf því, í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga, að fara frekari rannsókn fram í málinu hjá Útlendingastofnun. Með vísan til þess er fallist á beiðni kæranda um endurupptöku. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar frá 11. september 2020 því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

The appellants request for re-examination of his case is granted.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

 

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

 

                                                                                                                                 Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                  Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum