Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Mál 401/2022-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 401/2022
Mánudaginn 21. nóvember 2022

A

gegn

Barnaverndarnefndar B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 2. ágúst 2022, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndarnefndar B, dags. 1. júlí 2022, um að loka máli samkvæmt 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) vegna dóttur kæranda, D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan, D, er X ára gömul dóttir kæranda. Mál stúlkunnar hófst í kjölfar tilkynningar, dags. 8. febrúar 2022, samkvæmt 17. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.).

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B um könnun málsins, dags. 28. febrúar 2022, kemur fram að tilkynning hafi borist 16. febrúar 2022 frá E, lækni á Heilsugæslunni B. Í tilkynningu læknisins kemur fram að í læknisskoðun þann 7. febrúar 2022 hafi komið í ljós að stúlkan var með sár á kynfærum.

Að undangenginni könnun var mál stúlkunnar tekið fyrir hjá starfsmönnum Barnaverndarnefndar B þann 1. júlí 2022 og var niðurstaðan sú að ekki væri þörf á aðgerðum á grundvelli barnaverndarlaga og því hafi málinu verið lokað.

Lögmaður kæranda lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 4. ágúst 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. ágúst 2022, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst nefndinni með bréfi, dags. 8. september 2022, og með bréfi úrskurðarnefndar var greinargerðin send samdægurs lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir lögmanns kæranda bárust með bréfi, dags. 22. september 2022, og voru þær sendar barnaverndarnefndinni til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. september 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi telur að gögn málsins sýni að ákvörðun og málsmeðferð Barnaverndarnefndar B hafi ekki verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga og barnaverndarlaga og því beri að fella ákvörðunina úr gildi.

Í kæru kemur fram að kærandi telji að starfshættir barnaverndarnefndar, rannsókn málsins og greinargerð um niðurstöðu könnunar máls haldna verulegum ágöllum og að ákvörðunin sé ekki í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga og barnaverndarlaga.

Um atvik málsins segir að fyrir liggi að E læknir sendi barnaverndarnefnd tilkynningu samkvæmt 17. gr. bvl., dags. 8. febrúar 2022. Í tilkynningunni kom fram að stúlkan Dt hefði komið á vakt Heilsugæslunnar á B í fylgd móður þann 7. febrúar 2022 vegna sára á kynfærasvæði. Í tilkynningunni er útdráttur úr sjúkraskýrslu þar sem fram kemur að barnið sé með sár á kynfærum „ca. 1 cm langa lóðrétta rifu v. megin við efri pól skeiðaropsins.“ Þá kemur fram að kærandi hafi orðið vör við sárið þegar hún ætlaði að þvo barninu eftir að hún kom úr helgarumgengni hjá föður sínum.

Í greinargerð Barnaverndar B, dags. 27. maí 2022, kemur fram að á meðferðarfundi barnaverndarnefndar þann 18. febrúar 2022 hafi verið ákveðið að hefja könnun máls.

Kæranda hafi verið tilkynnt um að ákveðið hefði verið að hefja könnun máls þann 21. febrúar 2022 og rætt við móður um aðdraganda tilkynningarinnar. Í greinargerð barnaverndar kemur fram að kærandi hafi í viðtalinu lýst miklum áhyggjum af stúlkunni vegna kvíða sem hún hafi sýnt í lengri tíma, sbr. könnun máls á árinu 2021 í kjölfar tilkynningar frá barnalækni.

Þann 21. febrúar 2022 hafi skjal um könnun máls verið undirritað af félagsráðgjafa hjá B og kæranda. Skjalið virðist ekki hafa verið undirritað af föður og liggja engin gögn fyrir um það hvenær föður hafi verið tilkynnt um málið. Þó megi ráða af greinargerð í máli barns vegna tilvísunar í Barnahús að faðir hafi komið til viðtals þann 24. febrúar 2022.

Í skjali um könnun máls kemur fram að könnun máls muni fela í sér að aflað verði upplýsinga frá leikskóla barnsins, F listmeðferðarfræðingi sem barnið hefur gengið til reglulega síðustu ár, Barnaspítala Hringsins og G, SES ráðgjafa hjá B.

Í greinargerð barnaverndarnefndar kemur fram að þann 21. febrúar 2022 hafi starfsmaður barnaverndar rætt við stúlkuna á leikskóla hennar. Ekki liggur fyrir sérstök skýrsla um það viðtal.

Þann 25. febrúar 2022 ákvað barnaverndarnefnd að máli stúlkunnar yrði vísað í könnunarviðtal í Barnahús.

Þann 28. febrúar 2022 sendi félagsráðgjafi hjá B erindi til E, læknis á Sjúkrahúsi og Heilsugæslustöð B, þar sem óskað hafi verið eftir að barnaverndarnefnd verði veittar upplýsingar um stúlkuna. Bæði hafi verið óskað eftir upplýsingum um heilsufarssögu barnsins, upplýsingum um umhirðu og aðbúnað barnsins og samskipti heilsugæslu við foreldra, auk upplýsinga varðandi komu stúlkunnar þann 7. febrúar 2022, „þ.m.t. hvert faglegt mat læknis er hvernig slík sár sem stúlkan var með á kynfærasvæði hafi getað komið til.“ Loks hafi verið óskað eftir upplýsingum um komu stúlkunnar á Barnaspítala Hringsins þann 9. febrúar 2022, hvað læknismat hafi leitt í ljós og hvað lagt hafi verið til í kjölfar skoðunar.

Þann 28. febrúar 2022 sendi starfsmaður barnaverndarnefndar tilvísun í Barnahús ásamt greinargerð vegna tilvísunarinnar. Virðist erindið hafa borist Barnahúsi þann 17. mars 2022.

Þann 28. mars 2022 fór barnið í viðtal í Barnahús. Móðir kom með barninu í Barnahús, en starfsmaður Barnaverndar B var einnig viðstödd viðtalið.

Þann 5. apríl sendi lögmaður kæranda tölvupóst til Barnaverndar B og óskaði eftir upplýsingum um stöðu málsins. Jafnframt var óskað eftir afriti af öllum fyrirliggjandi gögnum.

Þann 20. apríl 2022 fékk lögmaður kæranda afhenta tilkynningu E, skjal um könnun máls og beiðni til Barnahúss ásamt meðfylgjandi greinargerð. Auk þess voru afhentir minnispunktar Barnahúss vegna rannsóknarviðtals, dags. 13. apríl 2022.

Í minnispunktum frá Barnahúsi kemur fram að ekkert hafi komið fram í viðtalinu sem benti til þess að stúlkan hefði sætt kynferðislegu ofbeldi eða áreitni. Þá sé vakin athygli á því að þótt barnið hafi ekki greint frá kynferðislegu ofbeldi í viðtalinu útiloki það ekki að slíkt hafi átt sér stað.

Þann 25. apríl 2022 hafi verið á dagskrá Landsréttar málflutningur í máli nr. 754/2021 þar sem kærandi og faðir stúlkunnar deildu um forsjá og umgengni við stúlkuna. Vegna gagna sem lögmaður kæranda sendi réttinum þann 20. apríl 2022, strax og gögnin bárust frá barnaverndarnefnd, hafi verið ákveðið að fresta málflutningi. Hafði Landsréttur í kjölfarið samband við Barnaverndarnefnd B og óskaði eftir upplýsingum um stöðu málsins.

Þann 18. maí 2022 óskaði lögmaður kæranda eftir upplýsingum um stöðu barnaverndarmálsins. Engin svör bárust og hafi beiðni um upplýsingar um stöðu málsins verið ítrekuð þann 31. maí 2022.

Þann 7. júní 2022 hafi enn verið ítrekuð beiðni um upplýsingar um stöðu málsins. Barst svar þar sem starfsmaður barnaverndar sagðist mundu hringja í lögmann kæranda. Í því símtali hafi komið fram að barnaverndarnefnd hygðist ekki rannsaka málið frekar.

Enn hafi verið óskað eftir gögnum málsins og afstöðu barnaverndar með tölvupósti þann 27. júní 2022. Engin viðbrögð bárust við erindinu.

Bréf um ákvörðun Barnaverndarnefndar B, dags. 1. júlí 2022, um að loka málinu barst kæranda þann 8. júlí 2022. Strax sama dag hafi verið ítrekuð ósk um gögn málsins, auk upplýsinga um kæruleiðir. Þann 14. júlí 2022 barst lögmanni kæranda greinargerð samkvæmt 1. mgr. 23. gr. bvl. og bréf frá H heimilislækni.

Í vottorði H, dags. 13. maí 2022, sé vísað til bréfs barnaverndar, dags. 28. febrúar 2022, þar sem óskað sé eftir faglegu mati læknis á því hvernig sár á kynfærasvæði stúlkunnar gæti verið tilkomið. Segir í vottorðinu að læknirinn hafi aðgang að myndum af umræddu sári. Segir í bréfinu að afrifur líkar þeim sem um ræðir séu „oft tilkomnar vegna nudds eða núnings undan fötum eða bleium. Sömuleiðis ef raki sé í húðfellingum. Af myndum hafi ekki verið að sjá aðrar húðbreytingar en umrædda afrifu.“

Engin frekari gögn hafa verið afhent kæranda.

Rannsókn máls

Í 1. mgr. 41. gr. bvl. kemur fram að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. einnig rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með þessu sé ætlunin að tryggja að ákvarðanir barnaverndarnefnda séu bæði löglegar og byggðar á réttum grunni.

Í 22. gr. bvl. og 16. gr. reglugerðar nr. 56/2004 sé að finna ákvæði um markmið könnunar máls. Þar er lögð áhersla á að afla sem bestra upplýsinga um hagi barnsins, svo sem andlega og líkamlega heilsu, tengsl við foreldra eða aðra, aðbúnað barns á heimilinu, skólagöngu, hegðun og líðan. Jafnframt þurfi að afla upplýsinga um hagi foreldra, fá upplýsingar um á hvern hátt þeim hafi tekist að mæta þörf barnsins fyrir umönnun, ástúð, öryggi og fleira. Þá sé tekið fram að leita skuli aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefur. Af lögum og lögskýringargögnum má sjá að markmiðið með könnun sé að meta hvort barnið sé í hættu, að ákveða hvort ástæða sé til að hafa áhyggjur af líðan barns, finna hvaða styrkleikar séu hjá barninu, í fjölskyldunni og umhverfinu og að ákveða stuðning og/eða aðrar aðgerðir gagnvart barninu og mögulega öðrum.

Í greinargerð um niðurstöður könnunar máls sé gert ráð fyrir að fram komi faglegt mat starfsmanns barnaverndar á því í hverju vandi barns eða fjölskyldu þess felst og hvaða leiðir séu vænlegastar til árangurs til þess að ráða bót þar á. Þá þurfi ákvarðanir að vera rökstuddar og byggja á upplýsingum sem liggja fyrir.

Kærandi telur að könnun máls dóttur sinnar hafi alls ekki verið fullnægjandi og því ekki í samræmi við ákvæði laga og reglna.

Í ákvörðun um könnun máls frá 21. febrúar 2022 segir að könnun máls feli í sér að aflað verði upplýsinga um barnið frá I sem sé leikskóli barnsins, F listmeðferðarfræðingi barnsins, Barnaspítala Hringsins, en barnið fór þangað í skoðun vegna sama máls þann 9. febrúar 2022, og G, SES ráðgjafa hjá B, en foreldrar barnsins hafa verið hjá henni í SES ráðgjöf.

Af gögnum málsins verður ekki séð að framangreindra gagna hafi verið aflað.

Þá liggur fyrir í málinu beiðni, dags. 28. febrúar 2022, frá barnavernd til Sjúkrahúss og Heilsugæslustöðvar B þar sem óskað sé eftir að barnaverndarnefnd verði veittar upplýsingar um stúlkuna. Bæði sé óskað eftir upplýsingum um heilsufarssögu barnsins, upplýsingum um umhirðu og aðbúnað barnsins og samskipti heilsugæslu við foreldra, auk upplýsinga varðandi komu stúlkunnar þann 7. febrúar 2022 svo og faglegs mats læknis á því hvernig slík sár sem stúlkan var með á kynfærasvæði hafi getað komið til. Loks sé óskað eftir upplýsingum um komu stúlkunnar á Barnaspítala Hringsins þann 9. febrúar 2022, hvað læknismat hafi leitt í ljós og hvað hafi verið lagt til í kjölfar skoðunar.

Ekki verður séð að umbeðin gögn hafi borist barnavernd annað en mat læknis á því hvernig umrætt sár á kynfærum stúlkunnar hefði getað komið til.

Þá verði að gera verulegar athugasemdir við vottorð H heimilislæknis, dags. 13. maí 2022. Umræddur læknir sé heimilislæknir og hvorki sérfróður í kvensjúkdómum eða barnalækningum. Þá má ráða af umræddu vottorði að læknirinn hafi aldrei hitt barnið og bara skoðað myndir af sárinu. Segir í vottorði hans:

„Um er að ræða afrifu af húð í húðfellingu. Slíkar afritur eru fremur algengar að komi upp í húðfellingum. Oft tilkomnar vegna nudds eða núnings undan fötum eða bleium. Sömuleiðis ef raki er í húðfellingum. Af myndum var ekki að sjá aðrar húðbreytingar en umrædda afrifu.“

Vegna þessa sé rétt að benda á að um sé að ræða X ára barn sem ekki hafi notað bleiu síðan hún var tveggja ára. Barnið notar mjúkar bómullarnærbuxur sem skapa ekki núning og hefur aldrei fengið neina áverka þessu líka áður. Umrætt barn er grönn X ára stúlka sem ekki er með neinar húðfellingar nálægt sárinu. Þá liggur fyrir að barnið hafði mikla verki í sárinu og því leitaði móðir með barnið til Barnaspítala Hringsins þann 9. febrúar 2022.

Kærandi hafi leitað eftir áliti sérfræðings í kvensjúkdómum og samkvæmt mati hennar séu sár eins og það sem hér um ræðir oftast afleiðingar þess að viðkomandi hafi dottið og meitt sig eða verið beittur ofbeldi.

Í greinargerð í máli barns vegna tilvísunar í Barnahús kemur fram að kvöldið áður en kærandi uppgötvaði sárið hafi barnið verið með föður hjá föðurömmu sinni og hún hafi baðað barnið. Kemur fram að barnaverndarnefnd hafi reynt að ná í föðurömmu barnsins en að hún hafi ekki svarað. Verður ekki séð að reynt hafi verið að ræða við ömmuna síðar þó að full ástæða hafi verið til.

Þá liggur fyrir að barnið hefur verið haldið kvíða og liðið illa og að Barnaverndarnefnd B hafði mál til rannsóknar vegna þessa frá mars til loka júlí 2021 í kjölfar tilkynningar barnalæknis barnsins þar sem fram kom að hann hefði verulegar áhyggjur af líðan og aðstæðum barnsins. Meðferð þess máls hafi verið hætt í lok júlí 2021. Kvartaði kærandi yfir starfsháttum barnaverndar í því máli til Barnaverndarstofu og sé það mál enn til skoðunar hjá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.

Verður ekki séð að barnaverndarnefnd hafi aflað nauðsynlegra gagna við könnun málsins, en fyrir liggur mikil vanlíðan og kvíði barnsins og að hún hefur að frumkvæði sveitarfélagsins verið í meðferð hjá listmeðferðarfræðingi í meira en eitt og hálft ár.

Málsmeðferð barnaverndarnefndar

Þá verði að gera verulegar athugasemdir við málsmeðferð barnaverndarnefndar. Auk þess að hafa ekki aflað nægilegra gagna liggur fyrir að barnaverndarnefnd hunsaði ítrekaðar beiðnir frá kæranda og lögmanni hennar um að barninu liði illa og að mikilvægt væri að meðferð málsins yrði hraðað.

Þá virðist ákvörðun um að loka málinu hafa verið tekin í lok maí, en tilkynning um það barst kæranda ekki fyrr en þann 8. júlí. Tilkynningunni fylgdu engin gögn og hafi kæranda ekki verið leiðbeint um kæruleiðir, sbr. 40. gr. barnaverndarlaga.

Greinargerð barnaverndarnefndar og leiðbeiningar um kæruleiðir bárust ekki fyrr en þann 14. júlí 2022 í kjölfar ítrekaðra beiðna um afhendingu gagna málsins.

Í greinargerð samkvæmt 1. mgr. 23. gr. bvl. sé ekki að finna neinn rökstuðning fyrir ákvörðun barnaverndarnefndar og sé texti skjalsins nær alveg sambærilegur texta sem sendur hafi verið í Barnahús í lok febrúar. Verður ekki séð að greinargerðin sé í samræmi við ákvæði 1. mgr. 23. gr. bvl. Þá verður ekki séð að ákvörðun barnaverndar um að hætta meðferð málsins hafi verið rökstudd með fullnægjandi hætti, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Loks sé gerð athugasemd við mikla tregðu barnaverndarnefndar til að afhenda kæranda gögn málsins, en slíkt fari gegn 45. gr. bvl.

Kærandi telur að málið hafi ekki verið rannsakað nægilega vel. Fyrir liggja gögn um að barnið sé haldið miklum kvíða og vanlíðan. Þá liggja fyrir gögn um að barnið vilji ekki fara í umgengni til föður og einnig hafi Barnaverndarnefnd B undir höndum skýrslu dómkvadds matsmanns, sem aflað hafi verið í forsjármáli aðila þar sem fram kemur að faðir taki geðdeyfðarlyfið Sertral og lyfið Quetiapine til að sefa hugann fyrir svefn. Einnig segir í matsgerðinni: „Komi til bakslags hjá J veikir það forsendur til að annast stúlkuna frá degi til dags.“ Umrædd skýrsla sé unnin á tímabilinu mars til maí 2021. Þá liggur fyrir í fyrra máli barnaverndar að faðir var í veikindaleyfi sumarið 2021 vegna kvíða og þunglyndis. Verður að telja að í ljósi ummæla í skýrslu sálfræðingsins hefði barnavernd borið að kanna betur aðstæður föður og hvort ástæða væri til að óttast um velferð barnsins í umsjá föður áður en ákvörðun hafi verið tekin um að loka málinu.

Í viðbótargreinargerð kæranda kemur fram að hún vilji koma að eftirfarandi athugasemdum vegna greinargerðar Barnaverndarnefndar B í málinu.

Í fyrsta lagi séu ítrekuð þau sjónarmið sem fram komu í kæru að barnaverndarnefnd hafi ekki aflað nauðsynlegra gagna við könnun málsins og þar með brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga og 16. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnavernd.

Þannig sýnir greinargerð Barnaverndarnefndar B mjög vel hversu illa hafi verið staðið að gagnaöflun í málinu. Segir í greinargerðinni að reynt hafi verið að hafa samband við F listmeðferðarfræðing, án árangurs, en að áfram sé mælt með listmeðferð. Fyrir liggur að í upphafi þótti ástæða til að hafa samband við F, enda hefur hún haft barnið til meðferðar að undirlagi sérfræðinga hjá B í tæp tvö ár vegna mikils kvíða og vanlíðanar barnsins. Með ólíkindum sé að starfsmenn barnaverndar hafi ekki lagt meira á sig til að afla upplýsinga frá listmeðferðarfræðingnum. Þá sé með öllu ótækt að rökstyðja það að ekki hafi verið leitað álits hjá henni með því að segja að tilkynningarskylda hvíli á listmeðferðarfræðingum og draga þá ályktun að allt sé í lagi fyrst listmeðferðarfræðingurinn hefur ekki sent inn tilkynningu til barnaverndar.

Með sömu rökum sé það réttlætt að barnavernd hafi lokað málinu án þess að afla gagna frá Barnaspítala Hringsins um komu barnsins þangað vegna áverka á kynfærasvæði. Þeim rökstuðningi sé mótmælt, enda ótækt að starfsmenn barnaverndarnefnda geti borið það fyrir sig að þeir þurfi ekki að leita eftir upplýsingum frá tilkynningarskyldum aðilum við rannsókn barnaverndarmála og reyni þannig að réttlæta að þeir sinni ekki skyldum sínum til að upplýsa mál með fullnægjandi hætti.

Í þessu sambandi megi sjá af gögnum málsins að barnavernd reyndi að ná í ömmu barnsins til að fá skýringar frá henni vegna málsins, en hún svaraði ekki og var látið þar við sitja og virðist sem ekki hafi verið reynt frekar að ræða við hana. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að barnið var hjá ömmu sinni kvöldið áður en sárið uppgötvaðist.

Kærandi mótmælir því sem fram kemur í greinargerð barnaverndar að könnun máls sem lauk sumarið 2021 hafi verið fullnægjandi. Málsmeðferð og gagnaöflun barnaverndar var mjög ábótavant og ályktanir, sem dregnar voru, voru gagnrýniverðar og ekki studdar fullnægjandi gögnum. Hefur Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála kvörtun kæranda á þeirri málsmeðferð enn til skoðunar og er mjög bagalegt hvað sú málsmeðferð hefur dregist úr hófi. Fylgir kvörtun kæranda á málsmeðferðinni fylgir kæru kæranda, en kvörtunin var send til Barnaverndarstofu sem á þeim tíma fór með slík mál.

Mótmælt er því sem fram kemur í greinargerð barnaverndar um að stúlkunni virðist almennt líða ágætlega. Í greinargerðinni virðist sú ályktun dregin af því sem fram kemur í bréfi E læknis sem hitti barnið einu sinni í stuttri læknisheimsókn, en í bréfinu segir að barnið virðist hvorki hrætt né kvíðið í heimsókninni. Þá sé einnig vísað til skýrslu frá starfsmanni Barnahúss sem segir að stúlkan sé glaðleg og flott.

Alfarið virðist þarna litið fram hjá því að stúlkan hefur átt við langvarandi kvíðavandamál að stríða sem sé ástæða þess að hún hefur sótt listmeðferð í nær tvö ár að undirlagi félagsráðgjafa sveitarfélagsins. Þá virðist einnig alfarið litið fram hjá því að ástæða tilkynningar barnalæknis til barnaverndar á síðasta ári hafi verið gífurleg vanlíðan og kvíði barnsins. Þarna sé um algjörlega óásættanleg vinnubrögð að ræða.

Einnig sé bent á að málsmeðferð Barnaverndarnefndar B sé ekki í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnavernd.

Í 3. mgr. 19. gr. reglugerðarinnar segir meðal annars að barnaverndarnefnd skuli að jafnaði leita skriflegra upplýsinga og gagna um aðstæður barns. Þá segir að barnaverndarnefnd beri að skrá upplýsingar um málsatvik sem henni séu veittar munnlega ef hún telji þær geta haft þýðingu fyrir úrlausn máls og þær sé ekki að finna í öðrum gögnum. Í 33. gr. reglugerðarinnar sé lögð sú skylda á barnaverndarnefndir að varðveita með skipulögðum hætti upplýsingar um málsatvik sem barnaverndarnefnd eru veittar munnlega, svo sem í símtölum eða á fundum, sbr. 19. gr. reglugerðarinnar. Barnaverndarnefnd B virðist ekki hafa farið að þessum fyrirmælum við úrvinnslu málsins.

Í greinargerðinni kemur fram að kæranda hafi verið afhent öll gögn í málinu. Einnig liggur fyrir að kæranda hafa ekki verið afhent nein gögn um viðtal við föður sem mun hafa farið fram 24. febrúar 2022 og hlýtur að mega draga þær ályktanir að slík gögn liggi ekki fyrir. Með sama hætti virðist hægt að álykta að í málinu séu heldur engin gögn um viðtal við leikskólastjóra sem sagt sé í greinargerð að tekið hafi verið. Loks sé ekki að finna nein gögn um viðtal við G félagsráðgjafa.

Barnaverndarnefnd virðist heldur ekki hafa farið að 21. gr. reglugerðarinnar, en þar segir að þegar mál hafi verið nægilega kannað að mati barnaverndarnefndar skuli nefndin taka saman skriflega greinargerð sem kynnt skal fyrir forsjáraðilum. Segir í ákvæðinu að greinargerð skuli liggja fyrir að jafnaði innan þriggja mánaða og eigi síðar en fjórum mánuðum eftir að ákvörðun var tekin um að hefja könnun.

Í þessu máli liggur fyrir að ákveðið hafi verið að hefja könnun máls þann 18. febrúar 2022. Greinargerð um könnun máls hafi hins vegar ekki verið afhent kæranda fyrr en þann 14. júlí 2022 í kjölfar margítrekaðra óska um afhendingu gagna málsins. Þá veki furðu að barnavernd ákveði að loka málinu í maí en tilkynni foreldrum barnsins ekki um það fyrr en í júlí.

Ljóst sé að barnaverndarnefnd taki ekki ákvörðun um að hefja könnun nema rökstuddur grunur sé um að tilefni sé til. Liggur fyrir að Barnaverndarnefnd B taldi tilefni til að kanna mál dóttur kæranda. Könnuninni hafi hins vegar verið verulega ábótavant og virðist niðurstaða nefndarinnar um að loka málinu einungis byggð á skýrslu um viðtal við barnið í Barnahúsi. Segir í greinargerð Barnaverndarnefndar B að í viðtali í Barnahúsi hafi ekkert komið fram sem bent hafi til að barnið hafi sætt kynferðislegu ofbeldi eða áreitni. Ekkert sé minnst á það að í skýrslu frá Barnahúsi segir með skýrum hætti að þó að barnið hafi ekki greint frá kynferðisofbeldi í viðtalinu þá útiloki það ekki að slíkt hafi átt sér stað.

Verði því að telja, sérstaklega í ljósi alvarleika málsins og vitneskju barnaverndarnefndar um langvarandi vanlíðan barnsins, að barnaverndarnefnd hafi á grundvelli 22. gr. barnaverndarlaga og 16. gr. reglugerðar nr. 56/2004 borið að afla mun ítarlegri upplýsinga um hagi barnsins áður en ákvörðun var tekin um að loka málinu. Í því sambandi sé ítrekað að hagsmunir barns skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi og að þörf til þess að vernda barn og tryggja hagsmuni þess minnkar ekki þó að foreldrar standi í forsjárdeilu. Má hræðsla starfsmanna barnaverndar við að blanda sér í slíkar deilur ekki koma í veg fyrir að hagsmuna barns sé gætt með fullnægjandi hætti.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð barnaverndarnefndarinnar kemur fram að samkvæmt 2. gr. bvl. sé markmið laganna að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Leitast skuli við að ná markmiðum laganna með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við. Þá skulu hagsmunir barns ávallt vera í fyrirúmi og þeim ráðstöfunum beitt sem ætla má að séu barni fyrir bestu samkvæmt 1. mgr. 4. gr. bvl. Í 7. mgr. 4. gr. bvl. sé sérstaklega áréttað að ávallt skuli beita vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt og aðeins skuli gera ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Sama meðalhófsregla sé áréttuð í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Framkvæmd hafi verið könnun máls á grundvelli tilkynningar sem laut að grun um kynferðislegt ofbeldi eða áreiti og fór í gang ferli sem barnavernd telur að hafi verið í samræmi við ákvæði bvl., einkum 22. gr. laganna. Þar sé kveðið á um að markmið könnunar máls sé að afla upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir stuðningsúrræði. Samkvæmt 3. mgr. 22. gr. bvl. sé kveðið á um að ef grunur sé til staðar um að barn hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi eða alvarlegu líkamlegu eða andlegu ofbeldi ber barnaverndarþjónustu að óska eftir þjónustu Barnahúss við könnun máls.

Í þessu samhengi ber einnig að horfa til 41. gr. bvl. og 16. gr. reglugerðar 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd þar sem kveðið sé á um að barnavernd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Þá sé sérstaklega áréttað í 2. mgr. 41. gr. bvl. að könnun máls skuli ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefur. Í frumvarpi með 2. mgr. 41. gr. kemur skýrlega fram að markmiðið með setningu þess ákvæðis sé að leggja áherslu á að barnavernd gangi ekki lengra í gagnaöflun og könnun máls hverju sinni en nauðsynlegt sé. Eins kemur fram að við framkvæmd þessara ákvæða beri að hafa í huga að öll afskipti barnaverndarnefnda af málefnum fjölskyldna fela í sér íhlutun í mál sem venjulega teljast einkamál. Af þessum sökum meðal annars sé það meginregla að könnun máls gangi ekki lengra en þörf sé á hverju sinni. Er það hlutverk starfsmanna barnaverndar að meta hvaða gagna skuli afla hverju sinni eða hvaða aðila þörf sé á að ræða við.

Á síðasta ári hafi verið opið barnaverndarmál vegna gruns um tilfinningalega vanrækslu og slæma líðan stúlkunnar og fór þá fram ítarleg könnun á högum hennar. Í könnun þess máls fór fram mjög umfangsmikil öflun upplýsinga og gagna en meðal annars var rætt við foreldra, stúlkuna, fengin umsögn frá leikskóla barnsins, heilsugæslu, rætt við listmeðferðarfræðing og barnalækni. Þá lá einnig til grundvallar ítarleg matsgerð á forsjárhæfni foreldra sem unnin hafi verið af dómkvöddum matsmanni í tengslum við forsjármál á milli foreldra svo og úrskurður héraðsdóms. Tekin hafi verið ákvörðun um að loka því máli 30. júlí 2021 en könnunin í því máli staðfesti að ekki væri stuðningsþörf til staðar. Fyrst og fremst væri um að ræða erfiða forsjárdeilu sem væri rekin fyrir dómstólum. Þáðu báðir foreldrar SES stuðning í kjölfarið.

Það komi í hlut starfsmanna barnaverndar að leggja faglegt mat á öflun upplýsinga í tengslum við könnun máls út frá því í hverju vandi barna og fjölskyldna þeirra felst hverju sinni. Fer slíkt mat fram á grundvelli tilkynninga og hvert efni þeirra tilkynninga er sem unnið sé að við rannsókn mála. Í ákvörðun um könnun máls frá 21. febrúar 2022 komi fram að starfsmenn barnaverndar hafi lagt upp með að afla upplýsinga frá foreldrum, barninu, I leikskóla barnsins, F listmeðferðarfræðingi barnsins, Barnaspítala Hringsins og G, SES ráðgjafa hjá B. Tilkynningin sem barst frá E lækni laut að því að stúlkan hafi verið með sár við kynfærasvæði. Sú rannsókn sem fer fram af starfsmönnum barnaverndar hlýtur fyrst í stað að snúa að því hvort barnið hafi orðið fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi miðað við eðli og efni tilkynningar. Sérstaklega komi fram í tilkynningu frá lækninum að stúlkan virtist ekki kvíðin eða hrædd. Ekki hafi verið uppi áhyggjur af aðbúnaði barns eða almennum aðstæðum á heimilum þess, enda hafði farið fram mjög rækileg könnun aðeins nokkrum mánuðum áður.

Rætt hafi verið við foreldra stúlkunnar þar sem móðir lýsti yfir áhyggjum af stúlkunni. Í kjölfarið hafi svo verið rætt við föður stúlkunnar en hann hafði ekki orðið var við að stúlkan væri með áverka eða hafi kveinkað sér þegar hún var böðuð kvöldið áður en hún kom til kæranda. Þá hafi amma stúlkunnar ekki orðið vör við neitt slíkt. 

Starfsmaður barnaverndar hafði samband við leikskólastjóra á skóla stúlkunnar og fékk þær upplýsingar að starfsmenn hafi ekki orðið varir við að stúlkan hafi kennt sér meins á mánudeginum 7. febrúar, eða sama dag og kærandi fór með stúlkuna til læknis. Þá ræðir starfsmaður við stúlkuna á leikskólanum þann 21. febrúar. Stúlkan hafi verið reiðubúin til að spjalla við starfsmann barnaverndar og mjög dugleg að tjá sig en hafði ekki áhuga á því að ræða sérstaklega um einkastaði. Ekkert kom fram í því viðtali sem benti til þess að stúlkan hefði verið beitt neins konar ofbeldi.

Stúlkan hafi verið send að frumkvæði barnaverndar og í samræmi við 3. mgr. 22. gr. bvl. í könnunarviðtal í Barnahúsi og fór stúlkan í það viðtal 28. mars 2022. Ekkert kom fram í viðtalinu sem gaf til kynna að stúlkan hefði verið beitt kynferðislegu ofbeldi eða áreitni.

Reynt hafi verið að hafa samband við F listmeðferðarfræðing barnsins, án árangurs. Í ljósi þeirra upplýsinga sem komu fram í Barnahúsi töldu starfsmenn barnaverndar ekki ástæðu til þess að ganga frekar á eftir þessum upplýsingun að svo stöddu. Áfram hafi verið lögð til listmeðferð hjá Unni, enda sé listmeðferðarform mjög hentugt fyrir börn á þessu aldursskeiði til að vinna með tilfinningar innan öryggis meðferðarsambands. Á það sé bent að listmeðferðarfræðingar sem starfa með börnum falla undir sérstaka tilkynningarskyldu, sbr. 17. gr. bvl., og ber þeim því að tilkynna þegar í stað ef upp kemur grunur um kynferðislegt ofbeldi eða áreiti. Aldrei hafi komið slík tilkynning inn á borð starfsmanna barnaverndar í máli stúlkunnar.

Starfsmenn barnaverndar hafi aflað upplýsinga frá Heilbrigðisstofnun Í með bréfi, dags. 28. febrúar 2022, og fengið í kjölfarið læknabréf frá H, yfirlækni á Í. Yfirlæknirinn hafði undir höndum myndir af umræddu sári og hafi hans faglega mat verið það að algengt væri að slíkar afrifur kæmu upp í húðfellingum, oft tilkomnar vegna núnings eða nudds undan fötum eða bleium. Í bréfi starfsmanna barnaverndar þar sem óskað sé eftir upplýsingum sé sérstaklega beðið um að horft sé einnig til læknisskoðunar sem stúlkan gekkst undir á Barnaspítala Hringsins. Í kjölfar tilkynningar frá E lækni heyrði starfsmaður barnaverndar í lækninum í gegnum síma og fékk hjá henni þær upplýsingar að læknar Í hafi aðgang að þeim upplýsingum sem legið hafi fyrir eftir skoðunina sem framkvæmd hafi verið á stúlkunni á Barnaspítala Hringsins þann 9. febrúar. Þess vegna hafi sérstaklega verið óskað eftir upplýsingum varðandi þá heimsókn stúlkunnar. Út frá yfirferð læknisins á málinu og skoðun á sárinu hafi verið augljóst að læknirinn taldi líklegast að barnið hafi fengið umrætt sár vegna núnings eða nudds undan fötum.

Starfsmenn barnaverndar töldu því ekki ástæðu til að kalla eftir frekari gögnum frá Barnaspítala Hringsins. Var einnig horft til þess við þá ákvörðun að læknar starfa undir mjög ríkri tilkynningarskyldu samkvæmt 17. gr. bvl. en sérstaklega eru læknar taldir upp í 2. mgr. 17. gr. til að árétta þá ríku skyldu. Í ljósi þessa hafi mátt ætla að sá læknir sem skoðaði stúlkuna á sínum tíma hefði sent inn tilkynningu til barnaverndar ef hann hefði talið líklegt að stúlkan hefði orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi eða áreitni og ef hann teldi að áverkarnir væru tilkomnir vegna þess.

Þeim fullyrðingum kæranda í kæru þess efnis að H yfirlæknir hafi ekki faglega þekkingu til að leggja mat á tilurð sárs eða afrifu á húð barns sé mótmælt. Yfirlæknirinn er sérfræðingur í heimilislækningum og engin ástæða er til þess að draga í efa hæfni læknisins á áverkum sem þessum. Gera má ráð fyrir að hann hafi töluverða reynslu af sárameðferð ýmiskonar miðað við starfsaldur, reynslu og stöðu. Ekki fæst séð að viðkomandi læknir verði að vera sérfræðimenntaður barnalæknir eða kvensjúkdómalæknir til að framkvæma slíka skoðun. Ástæða þess að læknirinn lagði mat á sárið út frá mynd til að svara beiðni barnaverndar sé sú að sá læknir sem skoðaði stúlkuna upphaflega hafði látið af störfum hjá Í.

G sé ráðgjafi foreldra í úrræðinu Samvinna eftir skilnað en hún er starfsmaður sveitarfélagsins. Fékk starfsmaður barnaverndar þær upplýsingar frá henni að sú ráðgjafavinna sem var farin í gang hafi verið sett á bið á meðan könnun þessa máls færi fram. Eftir nánari athugun starfsmanna barnaverndar hafi því ekki verið talið nauðsynlegt að kalla formlega eftir upplýsingum frá ráðgjafanum við vinnslu ferils við könnun þessa máls, að teknu tilliti til tilkynningarefnis.

Stúlkunni virðist almennt líða ágætlega miðað þær upplýsingar sem komu fram hjá þeim aðilum sem rætt var við í umhverfi barnsins, meðal annars E lækni sem tilkynnti, en hún greinir frá því í tilkynningu, dags. 8. febrúar 2022, að stúlkan virðist hvorki vera hrædd né kvíðin. Í lokaskýrslu Barnahúss lýsir sérfræðingur Barnahúss stúlkunni sem glaðlegri og flottri.

Máli stúlkunnar hafi verið lokað eftir könnun málsins, sbr. 22. gr. bvl., og ekki verið talin þörf á frekari stuðningi eða afskiptum barnaverndar. Sú könnun sem fór fram hafi ekki rennt stoðum undir grun um kynferðislegt ofbeldi eða áreitni, eins og efni tilkynningar, dags. 8. febrúar 2022, bar með sér. Allra nauðsynlegra upplýsinga hafi verið aflað ýmist skriflega eða munnlega, sem hafi þurft til að taka upplýsta ákvörðun á grundvelli efnis tilkynningar. Rætt hafi verið við báða foreldra, barnið sjálft, leikskólastjóra, fengnar upplýsingar frá læknum Í og stúlkan hafi farið í könnunarviðtal í Barnahús. Ekkert kom fram sem bendir til þess að stúlkan hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi í samræmi við efni tilkynningar. Þá hafði þegar farið fram ítarleg könnun á högum stúlkunnar í barnaverndarmáli á síðasta ári sem var lokað 30. júlí það ár.

Ákvörðun um að loka máli hafi verið tekin í lok maí 2022 en formleg tilkynning þar um hafi borist kæranda 8. júlí 2022. Þá hafi hún fengið afhent frekari gögn og leiðbeiningar um kæruleiðir þann 14. júlí 2022. Þann 7. júní 2022 hafi hins vegar starfsmaður barnaverndar hringt í lögmann kæranda og upplýst hana um að barnavernd hygðist ekki rannsaka málið frekar. Kærandi hafi því verið meðvituð um lokun málsins frá og með þeirri dagsetningu, þrátt fyrir að formlegt bréf um lokun máls hafi komið síðar.

Almennt hefur verið miðað við það tímamark hjá starfsmönnum barnaverndar að bregðast við gagnabeiðni innan fjögurra vikna frá því að formlegt erindi þar um berst. Getur þetta þó stundum dregist eitthvað, þ.e. ef mál eru umfangsmikil eða ef aðilar sammælast um að afhenda þau í skömmtum. Þann 5. apríl 2022 sendi lögmaður kæranda tölvupóst til starfsmanna barnaverndar og óskaði fyrst eftir upplýsingum um stöðu málsins og öllum gögnum. Þann 20 apríl 2022 fékk lögmaður kæranda afhent þau gögn sem voru kominn inn í málið á þeim tíma. Áréttað sé að lögmaður kæranda fékk við þetta tímamark öll gögn afhent fyrir utan greinargerð um lokun máls, dags. 30. maí 2022, og bréf frá H  yfirlækni sem barst barnavernd 20. maí 2022. Voru þau gögn afhent 14. júlí 2022. Sendi lögmaðurinn næstu gagnabeiðni 18. maí 2022 en við það tímamark hafi ekki verið komin til frekari gögn inn í málið. Eins sé áréttað að mögulegur dráttur á afhendingu þessara gagna hafði engin áhrif á rannsókn eða vinnslu könnunar vegna barnaverndarmálsins.

Í 45. gr. bvl. er kveðið á um að barnaverndarþjónusta skuli með nægilegum fyrirvara láta aðilum máls í té öll gögn er málið varða og koma til álita við úrlausn þess. Af þessu megi ráða að taka verður tillit til eðlis þess máls sem á við að hverju sinni. Í þessu tilfelli er í grunninn um að ræða ákvörðun hjá barnavernd þar sem foreldrar njóta almennt ekki andmælaréttar en geta kært ákörðunina til úrskurðarnefndar velferðarmála. Kærandi hafði þannig heimild til þess að skjóta ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar innan fjögurra vikna frá því að henni var tilkynnt um úrskurð eða ákvörðun, sbr. 1. mgr. 51. gr. bvl. Ljóst sé að kærandi fékk formlega tilkynningu um lokun málsins 8. júlí og hafði þá frest til 8. ágúst til að leggja fram kæru ef henni sýndist svo. Hafði hún fengið nánast öll gögn málsins afhent í apríl og þau tvö skjöl sem vantaði fékk hún afhent 14. júlí. Ætla má að kærandi hafi fengið nægan tíma til að kynna sér gögnin þótt þau hafi ekki borist fyrr en við áður greint tímamark. Kærandi varð þannig ekki fyrir réttarspjöllum eða tjóni þó að dráttur hafi orðið á afhendingu hluta gagnanna. 

Í ljósi alls ofangreinds sé farið fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Í viðbótargreinargerð Barnaverndarnefndar B vegna málsins er áréttuð það sjónarmið að á barnavernd hvílir sérstök skylda til að ganga ekki lengra í könnunarferli en þörf krefur, sbr. 2. mgr. 41. gr. bvl. Í því samhengi sé það hlutverk sérfræðinga að taka ákvörðun um hversu umfangsmikil könnun málsins skuli vera hverju sinni.

VI.  Niðurstaða

Stúlkan, D, er dóttir kæranda. Mál stúlkunnar hófst í kjölfar tilkynningar E lækni á Heilsugæslunni B sem barst barnavernd 16. febrúar 2022. Efni tilkynningar voru sár á kynfærum stúlkunnar. Með hinni kærðu ákvörðun Barnaverndarnefndar B var ákveðið að loka barnaverndarmáli stúlkunnar í kjölfar könnunar máls.

Í 1. mgr. 41. gr. bvl. kemur fram að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. einnig rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með þessu er reynt að tryggja að ákvarðanir nefndarinnar séu bæði löglegar og byggðar á réttum grunni. Ekki verða settar fram nákvæmar reglur um það hvernig staðið skuli að könnun máls og hverra gagna skuli aflað, enda er það matsatriði og breytilegt eftir eðli máls hverju sinni. Í því sambandi ber þó að gæta að 2. mgr. 41. gr. bvl. þar sem fram kemur að könnun barnaverndarmáls skuli ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefji og skuli henni hraðað svo sem kostur er. Í þessu felst meðal annars að barnaverndarnefnd skuli ekki ganga lengra í gagnaöflun og könnun máls hverju sinni en nauðsynlegt er. Í þessu felst einnig að ekki séu notaðar harkalegri aðferðir við könnun máls og öflun gagna en efni standa til.

Samkvæmt 22. gr. bvl. er það markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum bvl., allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Í þessu skyni skal barnaverndarnefnd kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, svo sem andlegt og líkamlegt ásigkomulag, tengsl við foreldra eða aðra, hagi foreldra, aðbúnað á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan þess. Leita skal aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefur. Um könnun máls, rannsóknarheimildir barnaverndarnefnda, skyldu til að láta barnaverndarnefndum í té upplýsingar og málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd almennt, gilda ákvæði VIII. kafla bvl.

Við úrlausn málsins ber úrskurðarnefndinni að leysa úr því hvort Barnaverndarnefnd B hafi réttilega metið það svo að ekki væri þörf á að hafa frekari afskipti af málefnum stúlkunnar og því bæri að loka því með vísan til 1. mgr. 23. gr. bvl.

Fyrir liggur að þegar ákvörðun var tekin um að hefja könnun máls var í ljósi þeirrar tilkynningar sem borist hafði lagt upp með að ræða við barnið, foreldra þess, leikskólastjóra leikskóla stúlkunnar og listmeðferðarfræðing stúlkunnar, auk þess sem aflað yrði frekari upplýsinga frá Heilbrigðisstofnun Vesturlands vegna málsins. Í könnunarferlinu var síðan meðal annars ákveðið að taka könnunarviðtal við stúlkuna í Barnahúsi í samræmi við 22. gr. barnaverndarlaga og var það gert  13. apríl 2022. Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að könnun málsins hafi gengið eftir í samræmi við fyrirætlan þar um að öðru leyti en því að ekki náðist að ræða við listmeðferðarfræðing barnsins. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur samkvæmt framansögðu að rannsókn málsins hafi verið fullnægjandi með hliðsjón af þeim gögnum sem aflað var í málinu.       

Úrskurðarnefndin telur því að ekki sé tilefni til þess að hrófla við því mati barnaverndarnefndar að rétt hafi verið að loka málinu samkvæmt 1. mgr. 23. bvl. Aflað hafi verið viðeigandi upplýsinga um hagi stúlkunnar og rannsókn málsins í samræmi við 41. gr. bvl.

Úrskurðarnefndin telur þó rétt að vekja athygli Barnaverndarnefndar B á mikilvægi þess að gætt sé að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga og barnaverndarlaga, meðal annars að tilkynningar um ákvarðanir og niðurstöður barnaverndarnefndar séu kynntar með formlegum hætti, upplýst sé um kærufresti, eigi slíkt við, og að erindum sem beint er til nefndarinnar sé svarað innan hæfilegs frests. Þrátt fyrir þá ágalla sem telja verður á málsmeðferð Barnaverndarnefndar B í því máli sem hér um ræðir veldur það ekki ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, að mati nefndarinnar.

Með vísan til alls þess, sem að framan er rakið, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun Barnaverndarnefndar B.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Barnaverndarnefndar B, dags. 1. júlí 2022, um að loka máli vegna stúlkunnar D, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum