Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20um%20uppl%C3%BDsingam%C3%A1l

962/2020. Úrskurður frá 17. desember 2020.

Úrskurður

Hinn 17. desember 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 962/2020 í máli ÚNU 20080010.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi, dags. 20. júlí 2020, beindi A erindi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og fór þess á leit að nefndin úrskurðaði um hvort Vestmannaeyjabæ væri skylt að veita aðgang að tölvu og prentara til að nálgast skjöl og upplýsingar á vefsíðu sveitarfélagsins.

Í tilefni af erindi A ritaði úrskurðarnefndin Vestmannaeyjabæ tölvubréf, dags. 3. september 2020, þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort íbúum sveitarfélagsins væri unnt að nálgast tölvur á bókasafni eða annars staðar hjá sveitarfélaginu.

Í svari sveitarfélagsins, dags. 3. september 2020, kom fram að íbúar gætu nálgast tölvu á bókasafni Vestmannaeyja og einnig prentað þar út gegn gjaldi en hver blaðsíða kosti 30 kr.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er heimilt að bera synjun um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Hið sama gildir um synjun á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er.

Úrskurðarnefndinni er kunnugt um að kærandi hefur í gegnum tíðina lagt fram fjölda beiðna um aðgang að gögnum og upplýsingum hjá Vestmannaeyjabæ. Nefndinni er líka kunnugt um að sveitarfélagið hafi í sumum tilvikum brugðist við beiðni kæranda með því að vísa til þess að umbeðnar upplýsingar séu aðgengilegar á vefsvæði sveitarfélagsins. Ljóst er af samskiptum kæranda við sveitarfélagið í gengum tíðina að hann telji þá afgreiðslu sveitarfélagsins ekki fullnægjandi þar sem hann eigi ekki tölvu og eigi þess því ekki kost að nálgast gögn og upplýsingar á vefsvæði sveitarfélagsins. Af þessum samskiptum verður einnig ráðið að hann telji aðgengi að tölvum á bókasafni sveitarfélagsins ábótavant. Úrskurðarnefndin leggur þann skilning í erindi kæranda sem hér er til meðferðar að hann óski þess að nefndin úrskurði um hvort sveitarfélaginu sé skylt að veita aðgang að tölvu og prentara.

Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á tiltæku formi. Valdsvið nefndarinnar nær því ekki til þess að fjalla um hvort sveitarfélaginu sé skylt að veita aðgang að tölvu og prentara eða eftir atvikum hvernig aðgengi er háttað að þeirri þjónustu sem veitt er á bókasafni Vestmannaeyja. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð

Kæru A dags. 3. september 2020, um hvort Vestmannaeyjabæ sé skylt að veita aðgang að tölvu og prentara er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum