Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20um%20uppl%C3%BDsingam%C3%A1l

1077/2022. Úrskurður frá 1. júní 2022

Hinn 1. júní 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1077/2022 í máli ÚNU 21080008.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 16. ágúst 2021, kærði A, f.h. Miðvíkur ehf., ófullnægjandi afgreiðslu Ísafjarðarbæjar á beiðni hans um gögn. Kærandi er eigandi hluta jarðarinnar Látra í Aðalvík, sem telst hluti af friðlandi á Hornströndum. Nokkur hús eru á svæðinu, þar á meðal nokkur smáhýsi í fjörukambinum. Kærandi óskaði hinn 22. febrúar 2019 eftir tilteknum gögnum í tengslum við svæðið. Erindi kæranda fylgdu átta viðaukar. Ísafjarðarbær svaraði því erindi hinn 28. maí 2019 og afhenti kæranda samhliða því tiltekin gögn.

Hinn 23. júní 2019 óskaði kærandi að nýju eftir gögnum í tengslum við svæðið. Erindið var að hluta til samhljóða erindi kæranda frá 22. febrúar sama ár en jafnframt var í erindinu óskað eftir gögnum sem ekki hafði verið óskað eftir áður. Farið var fram á að eftirfarandi gögn yrðu afhent:

1. Smáhýsi B.

a. Leyfi Umhverfisstofnunar til B frá árinu 2002 til að reisa smáhýsið, auk gagna sem leyfinu tengjast á borð við umsagnir Umhverfisstofnunar, Hornstrandanefndar o.fl.
b. Hvort það hafi fengist staðfest að C, fyrrverandi byggingarfulltrúi Ísafjarðarbæjar, hafi tjáð B að ekki þyrfti byggingarleyfi fyrir smáhýsi á Látrum.
c. Öll önnur gögn varðandi smáhýsi B en þau sem tilgreind voru í viðauka nr. 5 með erindi kæranda til Ísafjarðarbæjar frá 22. febrúar 2019.

2. Smáhýsi D.

a. Öll gögn varðandi smáhýsi D sem hann reisti við Nessjó, að sögn kæranda í leyfisleysi, árið 2014. Bygging smáhýsisins hafi verið tilkynnt til lögreglunnar á Ísafirði árið 2014 og til umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar.

3. Smáhýsi (beitningaskúr) E.

a. Umsókn E, dags. 26. júlí 2006, um að byggja geymsluhús við sumarhús sitt, ásamt teikningum.
b. Umsögn Umhverfisstofnunar sem tekin hafi verið fyrir á fundi umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar hinn 27. september 2006.
c. Bréf Ísafjarðarbæjar til E, dags. 16. október 2006.
d. Samþykki meðeigenda sumarhússins, dags. 30. október 2006.
e. Samþykki Ísafjarðarbæjar fyrir framkvæmdinni (líklega frá janúar 2007).
f. Önnur gögn sem varða málið.

4. Smáhýsi F.

a. Gögn sem hafi orðið til frá því bréf var sent til F hinn 24. júní 2014 um að hann skyldi annaðhvort fjarlægja smáhýsi, sem hann reisti árið 2012, eða afla heimildar frá landeigendum fyrir skúrnum innan fjögurra vikna frá dagsetningu bréfsins.

5. Gögn sem vísað er til í bréfi Umhverfisstofnunar frá 13. júní 2007 um ósk G um að fá að byggja skýli á Látrum í Aðalvík.

a. Teikningar af fyrirhuguðu skýli.
b. Staðfesting frá félaginu Nesið á Látrum í Aðalvík, þar sem veitt er leyfi fyrir skýlinu á lóð 27 samkvæmt uppdrætti H.
c. Umsögn Hornstrandanefndar um erindið.
d. Leyfi allra landeigenda, svo sem óskað er eftir í umsögn Umhverfisstofnunar.
e. Leyfi eða umsögn Fornleifaverndar ríkisins, svo sem óskað er eftir í umsögn Umhverfisstofnunar.

6. Gögn í tengslum við fund skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 24. september 2014.

a. Minnisblað frá bæjarlögmanni Ísafjarðarbæjar, sem skipulags- og mannvirkjanefnd óskaði eftir á fundinum, vegna erindis kæranda, dags. 26. ágúst sama ár, þar sem þess var farið á leit að Ísafjarðarbær léti fjarlægja tiltekið hús á Látrum.
b. Allar aðrar upplýsingar sem komið hefðu fram frá bæjarlögmanni vegna málsins.
c. Umsögn Umhverfisstofnunar um erindi kæranda.
d. Allar aðrar upplýsingar sem komið hefðu fram frá Umhverfisstofnun vegna málsins.

7. Gögn um fund eigendahóps Sjávarhússins á Látrum með bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, sem fram fór í apríl 2015.

8. Hvers vegna tölvupóstur frá I til J hafi fylgt svari frá Ísafjarðarbæ til kæranda hinn 28. maí 2019.

Kærandi ítrekaði erindi sitt hinn 9. júlí 2019. Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar, dags. 14. ágúst 2019, var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að svara erindi kæranda. Með erindi, dags. 4. nóvember 2019, óskaði kærandi eftir stöðu málsins. Var honum tjáð samdægurs að svar við fyrirspurninni myndi berast fljótlega. Í lok maí 2020 barst kæranda svo erindi frá skipulags- og byggingarfulltrúa sem varðaði aðra fyrirspurn kæranda sem er ekki hluti af þessu máli. Frá því þá kveðst kærandi ekki hafa heyrt frá Ísafjarðarbæ.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Ísafjarðarbæ með erindi, dags. 24. ágúst 2021, og því beint til sveitarfélagsins að taka ákvörðun um afgreiðslu beiðni kæranda eins fljótt og við yrði komið, og ekki síðar en 7. september 2021. Úrskurðarnefndin ítrekaði erindi sitt tvívegis, dags. 14. september og 27. september 2021.

Úrskurðarnefndinni barst svar frá sveitarfélaginu, dags. 29. september 2021, þess efnis að kæranda hefðu verið afhent öll þau gögn sem hann ætti rétt á. Hinn 6. október sama ár barst nefndinni annað erindi Ísafjarðarbæjar með afriti af gögnum sem kæranda hefðu verið afhent. Þau gögn tilheyrðu hins vegar annarri gagnabeiðni kæranda, sem ekki er til umfjöllunar í þessu máli. Í erindi Ísafjarðarbæjar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. desember 2021, kom fram að gagnabeiðni kæranda væri í öllum meginatriðum endurtekning á beiðni hans frá því í febrúar 2019, sem hefði verið svarað í maí sama ár. Það væri því ekki svo að kæranda hefðu ekki borist nein svör við gagnabeiðnum sínum.

Ísafjarðarbær setti sig í samband við kæranda með erindi, dags. 5. janúar 2022. Kom þar fram að málið byggðist á misskilningi; með bréfi kæranda hinn 22. febrúar 2019 hefði verið óskað eftir fjöldamörgum gögnum. Því bréfi hafi verið svarað hinn 28. maí 2019 og svarinu fylgt þau gögn sem óskað hafði verið eftir og rétt þótti að afhenda. Í beiðni kæranda, dags. 23. júní 2019, hafi í meginatriðum verið óskað eftir sömu gögnum og með erindinu í febrúar sama ár. Af hálfu Ísafjarðarbæjar væri því litið svo á að svarið frá 28. maí 2019 væri einnig svar við beiðni kæranda frá 23. júní sama ár.

Kærandi gerði athugasemdir við erindi Ísafjarðarbæjar með erindi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 10. janúar 2022. Kom þar fram að í erindi kæranda frá 23. júní 2019 væri að hluta til óskað eftir gögnum sem ekki hefði verið óskað eftir í erindinu frá því í febrúar sama ár. Þannig hefði erindi sveitarfélagsins frá því í maí 2019 ekki verið svar við þeim hluta beiðninnar.

Með erindum, dags. 11. og 12. maí 2022, var þess farið á leit við kæranda og Ísafjarðarbæ að úrskurðarnefndinni yrðu afhent þau gögn sem fylgdu svari sveitarfélagsins til kæranda hinn 28. maí 2019. Gögnin bárust frá kæranda hinn 13. maí 2022 og frá Ísafjarðarbæ hinn 17. maí sama ár.

Niðurstaða

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi óskaði eftir tilteknum gögnum varðandi Látra í Aðalvík hjá Ísafjarðarbæ hinn 22. febrúar 2019. Í svarbréfi Ísafjarðarbæjar, dags. 28. maí 2019, kom fram að samhliða bréfinu yrðu afhent fyrirliggjandi gögn, sbr. 5. gr. upplýsingalaga, en að öðru leyti vísað til „takmarkana á upplýsingarétti er leiða af II. kafla sömu laga“. Ekki var að finna frekari umfjöllun um beiðni kæranda í svarinu, til að mynda hvort öll fyrirliggjandi gögn sem heyrðu undir beiðni kæranda hefðu verið afhent eða hvort fyrir lægju gögn hjá sveitarfélaginu sem ekki yrðu afhent og þá á hvaða grundvelli.

Þau gögn sem fylgdu svarbréfi Ísafjarðarbæjar voru m.a. fundarbókanir af fundum skipulags- og mannvirkjanefndar og bæjarráðs frá 2014 til 2019 vegna meintra óleyfisframkvæmda á Látrum í Aðalvík, samskipti Ísafjarðarbæjar við eigendur Sjávarhússins, úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 116/2016, og bréf Umhverfisstofnunar til Ísafjarðarbæjar, dags. 13. júní 2007.

Beiðni kæranda til Ísafjarðarbæjar, dags. 23. júní 2019, var að hluta til ósk um sömu gögn og hann hafði óskað eftir í erindi sínu í febrúar en ekki fengið afhent í maí, sbr. framangreint, en að auki ósk um gögn sem ekki hafði verið óskað eftir áður. Fullyrðing Ísafjarðarbæjar um að gagnabeiðni kæranda frá því í júní hafi að meginstefnu verið samhljóða beiðni kæranda frá því í febrúar og að sveitarfélagið hafi því verið búið að svara beiðninni með fullnægjandi hætti stenst því ekki skoðun að mati úrskurðarnefndarinnar. Því til viðbótar fær úrskurðarnefndin ekki séð að þau gögn sem afhent voru í maí séu gögn sem kærandi hafi óskað eftir í erindi sínu frá 23. júní.

Að framangreindu virtu skortir að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál verulega á að tekin hafi verið rökstudd afstaða til gagnabeiðni kæranda líkt og upplýsingalög gera ráð fyrir, sbr. einnig 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Því verður að telja að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni er fært að endurskoða. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir Ísafjarðarbæ að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.

Við þá afgreiðslu ber sveitarfélaginu að afgreiða beiðni kæranda í samræmi við 15. gr. upplýsingalaga, sem felur eftir atvikum í sér að afmarka beiðnina við fyrirliggjandi gögn í vörslum sveitarfélagsins og meta rétt kæranda til aðgangs að þeim með hliðsjón af takmörkunarákvæðum laganna og hvort veita skuli aðgang að gögnum að hluta til, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna. Vakin er athygli á því að um aðgang kæranda að a.m.k. hluta gagnanna kann að fara samkvæmt III. kafla upplýsingalaga, sem fjallar um aðgang aðila að upplýsingum um hann sjálfan. Sá réttur er ríkari en upplýsingaréttur almennings skv. II. kafla sömu laga.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál biðst velvirðingar á þeim töfum sem orðið hafa á úrlausn málsins en leggur hins vegar áherslu á að meðferð málsins hjá Ísafjarðarbæ verði hraðað eins og kostur er í ljósi þeirra tafa sem þegar hafa orðið á því að kærandi fái efnislega úrlausn í máli sínu. Nefndin áréttar að kærandi getur leitað til nefndarinnar að nýju ef dráttur verður á afgreiðslu málsins hjá Ísafjarðarbæ.

Úrskurðarorð

Beiðni A, f.h. Miðvíkur ehf., dags. 23. júní 2019, er vísað til Ísafjarðarbæjar til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.


Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum