Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 152/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 152/2020

Fimmtudaginn 9. júlí 2020

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur

Með kæru, móttekinni 24. mars 2020, kærði G lögmaður f.h.,A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 25. febrúar 2020 vegna umgengni hennar við syni sína, C, og D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengirnir C og D eru bræður, fæddir árin X og X. Faðir drengjanna afsalaði sér forsjá til Barnaverndarnefndar B þann 13. nóvember 2019 og móðir drengjanna var svipt forsjá þeirra með dómi Héraðsdóms B þann 29. nóvember 2019. Kærandi er kynmóðir drengjanna.

Drengirnir voru teknir úr umsjá kæranda þann 17. janúar 2019. Kærandi var þá í […]. Gengið var frá varanlegri fósturvistun drengjanna þegar kærandi var svipt forsjá þeirra með dómi Héraðsdóms B.

Kynforeldrar drengjanna áttu reglulega umgengni við drengina á meðan forsjársviptingarmálið var rekið fyrir dómstólum. Í kjölfar forsjársviptingar kæranda náðist ekki samkomulag um tíðni umgengninnar og var málið því tekið til úrskurðar samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.).

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem bent er á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd B ákveður að C og D hafi umgengni við foreldra sína A, og E, tvisvar sinnum á ári, í eina og hálfa [klukkustund] í senn, undir eftirliti og í húsnæði á vegum Barnaverndar B. Fósturforeldrar verði viðstaddir umgengnina.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 24. mars 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. apríl 2020, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst nefndinni þann 12. maí 2020 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. maí 2020, var hún send lögmanni kæranda til kynningar og veittur frestur til að gera athugasemdir. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að úrskurði Barnaverndarnefndar B verði hrundið og að fyrirkomulag umgengni hennar við drengina verði einu sinni í mánuði.

Drengirnir hafi verið vistaðir utan heimilis frá því í janúar 2019 eftir uppákomu á heimili þeirra þar sem kærandi hafi veitt þeim […]. Undir meðferð málsins hafi kærandi verið greind með viðvarandi […]. Vegna alvarleika málsins og veikinda kæranda hafi drengjunum ekki þótt óhætt í umsjá móður og hafi hún fengið takmarkaða umgengni við þá einu sinni í mánuði undir eftirliti.

Faðir drengjanna hafi afsalað sér forsjá og kærandi fallið frá vörnum í forsjársviptingarmáli sem Barnaverndarnefnd B hafi höfðað á hendur henni. Í málinu hafi verið lagt fyrir mat dómkvadds matsmanns sem kvað á um takmarkaða forsjárhæfni kæranda. Kærandi hafi verið svipt forsjá drengjanna með dómi Héraðsdóms B þann 29. nóvember 2019. Kærandi hafi gert sérstakan áskilnað í málinu um rétt til að höfða nýtt forsjármál að ári. Kærandi sé staðráðin í að ná bata og reyna til þrautar að fá forsjá drengjanna á nýjan leik.

Að mati kæranda sé mánaðarleg umgengni algert lágmark til þess að drengirnir glati ekki tengslum við uppruna sinn. Það séu gagnkvæmir hagsmunir hennar og drengjanna að halda fjölskyldutengslum. Að mati kæranda hafi ekki verið sýnt fram á hvernig sú umgengni sem kærandi krefst fari í bága við hagsmuni barnanna. Umgengni hafi verið undir eftirliti og gætt hafi verið að því að ofgera ekki drengjunum sem séu ungir að árum. Þrátt fyrir að foreldrarnir báðir myndu vilja vikulega umgengni geri þau sér grein fyrir því að drengirnir þarfnist stöðugleika og virði þá ákvörðun starfsmanna barnaverndar að takmarka umgengni við mánaðarlega umgengni.

Kæra þessi byggi á því að aðstæður kæranda séu gerbreyttar frá því að drengirnir voru vistaðir utan heimilis. Með viðeigandi lyfjagjöf og margvíslegri aðstoð lækna og fagfólks hafi kæranda tekist að ná tökum á veikindum sínum. Þá þiggi kærandi aðstoð við að ná fótfestu í samfélaginu á nýjan leik. Kærandi sé nú í endurhæfingu á […]. Vísað sé til meðfylgjandi umsagnar meðferðarteymis, dags. 11. febrúar 2020, um meðferðarheldni og góða samvinnu kæranda.

Að mati kæranda hafi takmörkuð umgengni, eins og úrskurðurinn kveði á um, í för með sér að tengsl hennar og drengjanna rofni endanlega. Það hafi jafnframt í för með sér að möguleikar hennar í forsjármáli til þess að fá forsjá þeirra á ný séu mjög takmarkaðir, þrátt fyrir endurhæfingu sem hún hafi sinnt til að öðlast forsjárhæfni.

Aðstæður kæranda séu sérstakar. Hún standi höllum fæti í málinu vegna sjúkdóms síns og félagslegra aðstæðna. Jafnræðisregla stjórnsýsluréttar geri kröfu um að við úrlausn mála sé óheimilt að mismuna aðilum á grundvelli sjónarmiða byggðum á kynferði, þjóðerni, trúarbrögðum, þjóðfélagsstöðu eða öðrum sambærilegum aðstæðum, sbr. 2. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Barnaverndarnefnd B krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að samkvæmt 74. gr. bvl. eigi barn rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem séu því nákomnir. Þar sé kveðið á um rétt kynforeldra til umgengni í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Það skuli taka mark á því hvað þjóni hagsmunum barnsins best og hversu lengi fóstri sé ætlað að vara.

Tillögur starfsmanna barnaverndar um umgengni byggi á þeirri grundvallarforsendu að stefnt sé að því að drengirnir alist upp á núverandi fósturheimili til 18 ára aldurs. Í varanlegu fóstri sé markmið fósturs að barnið aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu eins og um eigið barn sé að ræða. Markmið varanlegrar fósturvistunar sé ávallt sú sama, óháð félagslegri stöðu foreldra eða veikinda þeirra. Horft sé til hagsmuna barnanna í þessum efnum. Drengirnir hafi báðir verið mjög ungir þegar þeir hafi farið í umsjá fósturforeldra sinna og hafi það verið í kjölfar mjög alvarlegra atburða sem hafi átt sér stað á heimili drengjanna þar sem kærandi hafi verið valdur að […].

Afar jákvætt sé að kærandi hafi náð að vinna í sínum málum og sinni meðferð vel vegna þeirra […] erfiðleika sem hún glími við. Mikilvægt sé fyrir börnin að foreldrar séu í jafnvægi og ástandi til að sinna umgengni á tímabili fósturs. Við mat á umgengni í varanlegu fóstri breyti það í sjálfu sér ekki þótt kærandi hafi með ýmsu móti bætt forsjárhæfni sína. Markmið með umgengni kynforeldra við drengina í varanlegu fóstri sé ekki til að byggja upp tengsl á milli þeirra og sona þeirra heldur fyrst og fremst að drengirnir þekki uppruna sinn. Það sé mat Barnaverndarnefndar B að því markmiði verði náð með umgengni X á ári. Drengirnir búi nú við góðar og traustar aðstæður í umsjá fósturforeldra sem verði þeirra framtíðar uppalendur og hafa tekið að sér að annast drengina til 18 ára aldurs.

Umgengni barns við foreldra og aðra nákomna þurfi því að þjóna hagsmunum barnsins en ekki vera á forsendum fullorðinna eða þjóna þeirra hagsmunum. Sérstaklega þurfi að horfa til þessa að tryggja þurfi að friður, ró og stöðugleiki ríki í lífi barnsins í hinu varanlega fóstri hjá fósturforeldrunum. Verði það ekki gert, beri að líta svo á að ekki hafi verið nægilega gætt að því að umgengnin þjóni hagsmunum barnsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Með því að takmarka umgengni kynforeldra við drengina, eins og gert sé með hinum kærða úrskurði, sé stefnt að því að þeir fái frið til að aðlagast og tilheyra fósturfjölskyldunni, án þeirrar truflunar sem umgengni við kynforeldra sé til þess fallin að valda þeim. Horfa verði til þeirra áfalla sem drengirnir hafi orðið fyrir og gæta að því að þeir nái að byggja upp traust og góð tengsl við aðalumönnunaraðila sína, fósturforeldrana. Markmiðið með því sé að tryggja hagsmuni drengjanna, öryggi þeirra og þroskamöguleika. Haga beri ákvörðun um umgengni með tilliti til þessara sjónarmiða. Með vísan til þess er að framan greinir, allra gagna málsins, forsendna hins kærða úrskurðar og 2. og 3. mgr. 74. gr. bvl. þyki umgengni kæranda við drengina hæfilega ákveðin með hinum kærða úrskurði.

IV. Afstaða fósturforeldra

Úrskurðarnefndin óskaði eftir afstöðu fósturforeldra til umgengni kæranda við drengina. Í tölvupósti þeirra til nefndarinnar, dags. 19. júní 2020, kemur fram að fósturforeldrar leggi til að umgengni fari fram einu sinni á ári, tvisvar á ári í mesta lagi. Samkvæmt þeirra skilningi sé markmið með varanlegu fóstri að börn aðlagist og tilheyri sinni fósturfjölskyldu og að tilgangur umgengni kynforeldra við börnin sín sé ekki að efla eða mynda ný tengsl barnanna við kynforeldra sína heldur sé tilgangurinn að þeir þekki uppruna sinn. Fósturforeldrar telji að tengslarof hafi átt sér stað á milli eldri drengsins og kynmóður og að yngri drengurinn hafi ekki myndað tengsl við hana sökum ungs aldurs þegar hann hafi komið til fósturforeldra í fóstur.

Með vísan til skýrslu F sálgreinis komi fram að fyrstu tengsl þeirra við kynmóður hafi rofnað og að huga þurfi sérstaklega að þeim samskiptum sem þeir komi til með að eiga við hana en þau séu til þess fallin að vekja hjá þeim ruglingslega líðan. Upplifun fósturforeldra af tengslum drengjanna við kynforeldra sína stemmi við skýrslu F. Fósturforeldrar upplifi að drengirnir virðist lítið spenntir fyrir umgengni og hafi það á tilfinningunni að þeir séu stundum að þvinga eldri drenginn til þess að taka þátt í umgengni. Hann eigi það til að vera stressaður í umgengni og komi þetta allt fram í dagálum starfsmanna barnaverndar. Fósturforeldrar telji of mikla umgengni við kynforeldra koma til með að raska stöðugleika í lífi drengjanna.

Þar sem lítil tengsl séu til staðar á milli drengjanna og kynforeldra þá telji fósturforeldrar að það þjóni alls ekki hagsmunum drengjanna að auka umgengni til þess eins að efla tengsl þeirra við kynforeldra. Sérstaklega í ljósi þess að rök þeirra byggi að mestu leyti á mögulegri endurupptöku á forsjármáli þeirra sem gæti hugsanlega gefið aðra niðurstöðu. Það að mynda ný tengsl á milli drengjanna og kynforeldra geti leitt til alvarlegra afleiðinga fyrir drengina.

Fósturforeldrum þyki í ljósi ungs aldurs, úthalds og líðan drengjanna að umgengni í einn og hálfan tíma í hvert skipti sé hæfileg. Þá vilji fósturforeldrar að umgengni fari áfram fram undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar B og þeir vilji fá að vera viðstaddir umgengnina.

V.  Niðurstaða

Drengirnir C og D eru bræður, fæddir árin X og X. Faðir drengjanna afsalaði sér forsjá þeirra til Barnaverndarnefndar B þann 13. nóvember 2019 og móðir drengjanna var svipt forsjá þeirra með dómi Héraðsdóms B þann 29. nóvember 2019. Kærandi er kynmóðir drengjanna.

Með hinum kærða úrskurði frá 25. febrúar 2020 var ákveðið að kærandi hefði umgengni við drengina X sinnum á ári í allt að eina og hálfa klukkustund í senn undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar B. Í úrskurðinum er á því byggt að í ljósi allra gagna málsins og afstöðu aðila að umgengni við foreldra X á ári sé hæfileg. Með vísan til þess sem fram komi í greinargerð starfsmanna barnaverndar varðandi ungan aldur drengjanna, úthaldsleysi þeirra og foreldra í umgengni, telji nefndin nauðsynlegt að umgengin verði í eina og hálfa klukkustund. Umgengni fari fram undir eftirliti í húsnæði á vegum nefndarinnar.

Kærandi krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að umgengni verði mánaðarlega. Barnaverndarnefnd B krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Fósturforeldrar hafa lýst afstöðu sinni í tölvupósti til úrskurðarnefndarinnar 19. júní 2020. Þar kemur fram sú afstaða að þeir leggi til að umgengni fari fram einu sinni á ári, tvisvar á ári í mesta lagi.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirra stöðu sem drengirnir eru í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni þeirra við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum þeirra best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt því, sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum, ber að leysa úr kröfum kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum drengjanna best með tilliti til stöðu þeirra en fóstrinu er ætlað að vara til 18 ára aldurs. Í máli drengjanna er því ljóst að ekki er stefnt að því að þeir fari aftur í umsjá kæranda. Umgengni kæranda við drengina þarf því að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun þeirra í varanlegt fóstur.

Sterk geðtengsl, sem drengirnir búa við að alla ævi, myndast í frumbernsku eða á fyrstu tveimur árunum. Ef þessari tengslamyndun verður ábótavant er afar mikilvægt að börnin komist sem fyrst í fullnægjandi umhverfi til að reyna að minnka þann skaða sem orðið hefur í tengslamynduninni. Í þessu tilviki komust drengirnir í öruggt, stöðugt umhverfi á þeim tíma þegar þeir voru innan við X ára gamlir og má ráða af gögnum máls að drengirnir hafa náð að tengjast fósturforeldrum sínum vel og finni fyrir öryggi hjá þeim. Drengirnir eru því fyrst og fremst tengdir fósturforeldrum sínum sem hafa annast þá og er sú fjölskylda sem þeir þekkja.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður að haga umgengni drengjanna við kæranda þannig að þeir fái sem mestan frið til að aðlagast fósturfjölskyldu sinni. Markmiðið með því er að tryggja frambúðar umönnun drengjanna, öryggi þeirra og þroskamöguleika. Þá ber að líta til þess að með umgengni kæranda við drengina er ekki verið að reyna styrkja tengsl þeirra við kæranda, heldur viðhalda þeim tengslum sem þegar eru fyrir hendi, ekki síst í þeim tilgangi að drengirnir þekki uppruna sinn.

Þegar allt framangreint er virt er það mat úrskurðarnefndarinnar að umgengni við kæranda hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem eigi að leggja til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barna í varanlegu fóstri við foreldra og aðra nákomna er ákveðin.

Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 25. febrúar 2020 varðandi umgengni C og D við A, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum