Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 361/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 20. ágúst 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 361/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21060037

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 15. júní 2021 kærði […], fd. […], ríkisborgari Georgíu (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. júní 2021, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í fjögur ár.

Kærandi krefst þess að endurkomubann verði stytt verulega og það verði að hámarki tvö ár og að honum verði heimilað að fara sjálfviljugur úr landi á eigin kostnað.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kæranda var birt tilkynning þann 31. maí 2021 þar sem fram kom að til skoðunar væri að brottvísa honum og ákvarða endurkomubann á grundvelli b-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Var kæranda veittur þriggja daga frestur til að leggja fram andmæli í tilefni tilkynningarinnar. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. júní 2021, var kæranda brottvísað og ákveðið endurkomubann til landsins í fjögur ár. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála hinn 15. júní 2021 og meðfylgjandi var greinargerð kæranda.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að samkvæmt skýrslu lögreglu, dags. 31. maí 2021, hafi kærandi kvaðst hafa framvísað fölsuðu grísku vegabréfi nr. […] gagnvart Þjóðskrá Íslands og með þeim hætti útvegað sér kennitöluna […] með það fyrir augum að starfa ólöglega hér á landi. Samkvæmt stimpluðum síðum í vegabréfi kæranda hafi hann komið inn á Schengen-svæðið þann 13. febrúar 2021 og dvalið samfleytt á svæðinu frá þeim tíma. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra hafi verið greidd staðgreiðsla vegna launa af kennitölunni […] frá janúar til og með desember 2019, janúar, júlí, ágúst, september og október árið 2020 og frá mars til og með apríl 2021. Í ljósi ofangreinds hafi kæranda verið birt tilkynning þann 31. maí 2021 um fyrirhugaða brottvísun og endurkomubann á grundvelli b-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga og hafi honum verið með vísan til 12. gr. laga um útlendinga og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verið veittur þriggja daga frestur til að leggja fram andmæli í tilefni tilkynningarinnar. Hafi kæranda ekki verið veittur frestur til sjálfviljugrar heimfarar með vísan til e-liðar 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hafi af ásetningi gefið efnislega rangar og augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögum um útlendinga. Þá var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði með háttsemi sinni brotið alvarlega og margsinnis gegn lögum um útlendinga. Hefði að mati stofnunarinnar ekkert komið fram í málinu sem leiddi til þess að sú ráðstöfun að brottvísa kæranda gæti talist ósanngjörn gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans með hliðsjón af tengslum hans við landið eða atvikum máls, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Að framangreindu virtu var það mat Útlendingastofnunar að heimilt væri og skylt að brottvísa kæranda frá Íslandi á grundvelli b-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Var kæranda brottvísað og ákveðið endurkomubann til landsins í fjögur ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. sömu laga, með hliðsjón af alvarleika brots kæranda.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til þess að hann hafi framvísað grísku vegabréfi til að fá útgefna kennitölu hjá Þjóðskrá og ráðið sig til starfa hér á landi á grundvelli hennar. Hafi kærandi starfað við byggingarvinnu hér á landi, staðið skil á sköttum, gengið frá skattframtölum, greitt í lífeyrissjóð og til stéttarfélags. Hafi hann verið reglusamur frá komu til landsins, ekki notið þjónustu frá opinberum aðilum og verið í alla staði til fyrirmyndar bæði í vinnu og allri hegðun. Vísar kærandi til þess að tilgangur dvalar hafi verið af efnahagslegum toga enda sé staðan í atvinnumálum í heimaríki hans erfið.

Kærandi óskar eftir því að kærunefndin endurskoði hluta hinnar kærðu ákvörðunar um lengd endurkomubanns til Íslands og á Schengen-svæðið. Þrátt fyrir að hann hafi sannanlega gerst brotlegur við ákvæði laga um útlendinga verði að virða honum til tekna að hann hafi verið samvinnuþýður, kurteis og að öll hegðun hans hér á landi hafi verið til fyrirmyndar. Í því ljósi óski hann þess að endurkomubanni hans verði markaður mun styttri tími og ekki lengur en 24 mánuði en líta verði til þess að kærandi hafi taugar til landsins eftir svo langa veru hér á landi. Vísar kærandi til þess að hann fallist á þau rök Útlendingastofnunar að hann hafi af ásetningi gefið efnislega rangar upplýsingar þegar hann sótti um kennitölu hjá Þjóðskrá Íslands og fékk með því leyfi til að starfa hér á landi. Hins vegar fallist hann ekki á að hann hafi margsinnis brotið gegn ákvæðum laga um útlendinga eins og staðhæft sé í hinni kærðu ákvörðun, nema túlkun Útlendingastofnunar sé sú að í hvert skipti sem hann hafi mætt til vinnu hafi það jafngilt broti á lögum um útlendinga. Að mati kæranda væri nær að líta á brot hans sem eitt viðvarandi brot.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Á grundvelli b-liðar 1. mgr. 98. gr. er heimilt að vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann hefur brotið alvarlega eða margsinnis gegn einu eða fleiri ákvæðum laganna, hefur af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt lögunum eða kemur sér hjá því að hlíta ákvörðun sem felur í sér að hann skuli yfirgefa landið.

Kærandi var handtekinn þann 30. maí 2021 vegna gruns um skjalafals og brot á lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Var kærandi færður í skýrslutöku hjá lögreglu þann 31. maí 2021. Aðspurður játaði kærandi að hafa lagt fram grískt vegabréf nr. […] hjá Þjóðskrá og að vegabréfið væri falsað. Játaði kærandi jafnframt sakargiftum í málinu og að hann væri samþykkur því að vera fluttur aftur til heimaríkis. Eins og greinir í III. kafla úrskurðarins var greidd staðgreiðsla vegna launa af kennitölunni […], þeirri kennitölu sem kærandi útvegaði sér hjá Þjóðskrá með framvísun falsaðs grísks vegabréfs, frá janúar til og með desember 2019, janúar, júlí, september og október árið 2020 og frá mars til og með apríl 2021. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi því starfað hér á landi frá janúar 2019 í bága við 2. mgr. 50. gr. laga um útlendinga, sbr. lög um atvinnuréttindi nr. 97/2002.

Með vísan til þess sem að framan greinir er það mat kærunefndar að kærandi hafi með háttsemi sinni brotið alvarlega gegn 2. mgr. 50. gr. laga um útlendinga og af ásetningi gefið efnislega rangar eða augljóslega villandi upplýsingar í máli samkvæmt ákvæðum laganna. Eru skilyrði til brottvísunar samkvæmt b-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga því uppfyllt.

Í 102. gr. laga um útlendinga er kveðið á um vernd gegn frávísun og brottvísun og takmarkanir á ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. skal brottvísun ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að brottvísun kæranda geti talist ósanngjörn gagnvart honum eða nánustu aðstandendum með hliðsjón af tengslum hans við landið.

Samkvæmt framansögðu verður staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun kæranda með vísan til b-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Þá verður ákvörðun Útlendingastofnunar um fjögurra ára endurkomubann jafnframt staðfest, en ljóst er að endurkomubanni er m.a. ætlað að hafa almenn varnaðaráhrif gegn brotum útlendings á ákvæðum laga hér á landi, m.a. ákvæðum laga um útlendinga.

Gögn málsins bera með sér að kærandi hafi yfirgefið landið þann 23. júní 2021 og mun fjögurra ára endurkomubann til landsins því hefjast þann dag, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga, er heimilt samkvæmt umsókn þar um, að fella endurkomubann úr gildi hafi aðstæður breyst frá því ákvörðun um brottvísun var tekin.

 

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum