Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 232/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 25. maí 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 232/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21030057

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 17. mars 2021 kærði […], fd. […], ríkisborgari Víetnams (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. mars 2021, um að synja honum um dvalarskírteini fyrir útlending sem ekki er EES- eða EFTA-borgari á grundvelli hjúskapar með EES- eða EFTA-borgara, sbr. 90. og 2. mgr. 92. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og umsókn kæranda á grundvelli 80. gr. og XI. kafla laga um útlendinga verði samþykkt. Til vara er þess krafist að málinu verði vísað aftur til Útlendingastofnunar til frekari rannsóknar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarskírteini fyrir útlending sem ekki er EES- eða EFTA-borgari á grundvelli hjúskapar með EES- eða EFTA-borgara hinn 2. desember 2019. Maki kæranda fór í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 22. október 2020. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. mars 2021, var umsókninni synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála hinn 17. mars 2021 og greinargerð kæranda og fylgigögn bárust kærunefnd hinn 6. apríl 2021.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að við vinnslu umsóknar hafi komið í ljós að fylgigögn með umsókninni væru ófullnægjandi. Hafi Útlendingastofnun sent kæranda bréf, dags. 3. september 2020, þar sem óskað hafi verið eftir staðfestingu á sambandi með ljósmyndum, greinargerð aðila um samband þeirra, samskiptasögu kæranda og maka, greinargerð um fjölskyldutengsl kæranda við Ísland, vina- og kunningjatengsl kæranda við Ísland, flugmiða maka varðandi ferðir til heimaríkis kæranda auk skattframtals og færsluyfirlita af bankareikningum frá því maki kynntist kæranda. Svarbréf við beiðninni hefði borist Útlendingastofnun hinn 1. október 2020. Hafi stofnunin sent beiðni um aðstoð lögreglu vegna gruns um málamyndahjúskap hinn 21. apríl 2020. Þá hafi maki kæranda verið boðaður í viðtal hjá Útlendingastofnun hinn 22. október 2020. Hafi Útlendingastofnun sent kæranda bréf hinn 3. febrúar 2021 þar sem fram hafi komið þau atriði sem helst þættu gefa til kynna að um mögulegan málamyndahjúskap væri að ræða. Andmælabréf hefði borist Útlendingastofnun frá lögmanni kæranda, dags. 19. febrúar 2021, þar sem fullyrðingum stofnunarinnar var hafnað.

Var það mat Útlendingastofnunar með vísan til gagna málsins að fyrir hendi væri rökstuddur grunur um að til hjúskapar kæranda og maka hans hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla honum dvalarskírteinis hér á landi, enda hefði ekki verið sýnt fram á annað svo óyggjandi væri, sbr. 2. mgr. 92. gr. laga um útlendinga. Var umsókn kæranda því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð er vísað til þess að kærandi og maki hafi verið skráð í hjúskap þann 16. september 2019, þau hafi kynnst í desember 2018 og hafið samskipti í gegnum samskiptaforritið Skype. Maki kæranda hafi farið til Víetnam í september 2019 og búið hjá kæranda, bæði fyrir hjúskap og eftir giftingu. Er vísað til þess að fyrstu svör Útlendingastofnunar hafi verið í september 2020, eða um tíu mánuðum eftir að umsóknin var lögð fram. Í andmælabréfi Útlendingastofnunar, dags. 3. febrúar 2021, hafi stofnunin tilgreint ýmis atriði sem lægju til grundvallar við mat á því að hjúskapurinn væri til málamynda. Í greinargerð kæranda til Útlendingastofnunar, dags. 19. febrúar 2021, hafi verið veittar ítarlegar skýringar á framangreindum efnisatriðum og settar fram leiðréttingar.

Kærandi byggir á því að ákvæði 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga, sbr. 92. gr. laganna, sé undantekningarákvæði sem feli í sér mikla skerðingu á rétti fólks til einkalífs og við túlkun á ákvæðinu beri að beita þröngri lögskýringu og vernda einstaklinga gegn ómálefnalegri íhlutun stjórnvalda í réttindi þeirra. Af því leiði að stjórnvöldum beri skylda til að framkvæma eigið mat og tryggja að slíkt mat fari raunverulega fram í hverju tilviki. Þá beri einnig að horfa til hugtaksins „rökstuddur grunur“, sem vísi m.a. til þess að eitthvað sé stutt ástæðum eða rökum og vísar kærandi í því samhengi til úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 83/2019, þar sem fram komi að hinn rökstuddi grunur þurfi að beinast að stofnun hjúskaparins. Kærandi gerir athugasemdir við aðferðafræði Útlendingastofnunar við mat á rökstuddum grun, sbr. 8. mgr. 70. gr. laganna. Af beinu orðalagi í niðurstöðukafla ákvörðunarinnar virðist sem Útlendingastofnun horfi nú til þess að í upptalningu í athugasemdum með ákvæðinu sé að finna dæmi með atriðum sem megi líta til við mat á því hvort rökstuddur grunur sé til staðar. Athygli veki að stofnunin tilgreini nú sérstaklega að ekki sé um tæmandi talningu að ræða en í fyrri ákvörðunum hafi hún byggt á því að í tilvitnuðum 11 liðum sé að finna tæmandi talningu á þeim atriðum sem skuli koma til skoðunar. Að sama skapi veki það upp spurningar að önnur atriði, sem stofnunin tilgreini í ákvörðuninni, séu hvergi tilgreind í leiðbeiningum löggjafans eða stjórnvaldsins sjálfs, og þá líti stofnunin fram hjá atriðum sem styðji við frásögn kæranda og maka. Veki það sérstaka athygli að í ákvörðuninni sé vægi annarra efnisatriða úr leiðbeiningunum ekki metið og önnur efnisatriði ekki rannsökuð eða studd öðrum gögnum, s.s. hvort þau þekki til tilvika úr lífi hvors annars, hvað sé óeðlilegt við að leigjandi greiði leigu mánaðarlega eða hvort einhver gögn liggi til grundvallar sem styðji grun stofnunarinnar. Jafnframt veki athygli að í niðurstöðukafla hinnar kærðu ákvörðunar tilgreini stofnunin aðeins fimm efnisatriði eftir að hafa vísað til leiðbeininga í frumvarpi með 70. gr. laga um útlendinga og þar af séu aðeins tvö þeirra tiltekin í tilvitnuðum leiðbeiningum sem horfa skuli til við mat á því hvort rökstuddur grunur sé til staðar, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Þá telur kærandi rétt að vekja athygli á að í viðtali við maka kæranda hafi hún lítið sem ekkert verið spurð út í hvað hún þekkti til kæranda en öllum spurningum um það efni, þ.e. um kæranda og líf hans, hafi maki hins vegar getað skýrlega svarað í viðtalinu. Með vísan til framanritaðs byggir kærandi á því að aðferðafræði stjórnvaldsins og mat þess í hinni kærðu ákvörðun sé haldið slíkum ágöllum að ógilda beri ákvörðunina og veita kæranda dvalarréttindi á Íslandi. Hafi sjálfstætt mat ekki farið fram á umsókn kæranda þar sem hver liður fái sjálfstætt vægi og þá sé ljóst að tilgreining á tilteknum leiðbeiningum í lögskýringargögnum með ákvæði 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga sé ekki tæmandi og aðeins í dæmaskyni. Sé því ekki málefnalegt sjónarmið að horfa fram hjá eðlilegum skýringum.

Kærandi byggir á því að nánast ekkert þeirra efnisatriða sem tilgreind séu í hinni kærðu ákvörðun hafi með stofnun hjúskaparins að gera, líkt og áskilið sé í lögum, sbr. 8. mgr. 70. gr. og 1. mgr. 92. gr. laga um útlendinga. Þá sé ljóst að meirihluti tilgreindra efnisatriða hafi enga eða óverulega þýðingu í heildarmatinu og önnur atriði eigi sér eðlilegar skýringar. Í fyrsta lagi byggi Útlendingastofnun mat sitt á því að maki kæranda eigi vin á Íslandi, […]. Í hinni kærðu ákvörðun sé sérstaklega byggt á því að þau hafi ferðast saman í gegnum tíðina og að til séu myndir af þeim ferðast sameiginlega á samfélagsmiðlum. Þá sé byggt á því að […] leigi rými hjá maka kæranda og hann hafi aðstoðað við að passa dóttur hennar. Sé alfarið horft fram hjá þeirri staðreynd að maki kæranda og […] hafi verið samstarfsfélagar og vinir um áraraðir en hvergi komið fram hvernig vinskapur þeirra eigi að hafa áhrif á hjúskap kæranda og maka hennar. Í öðru lagi byggi Útlendingastofnun mat sitt á því efnisatriði að það séu millifærslur á milli maka kæranda og áðurnefnds […]. Í greinargerð til Útlendingastofnunar hafi nánari grein verið gerð fyrir umræddum millifærslum en að stórum hluta sé um leigugreiðslur að ræða þar sem […] leigi rými hjá maka kæranda. Hafi stofnunin horft alfarið framhjá þessum skýringum í hinni kærðu ákvörðun. Í þriðja lagi byggi Útlendingastofnun mat sitt á því að kærandi og maki hafi ekki búið saman fyrir hjúskap en kærandi hafnar því að það eigi að hafa þýðingu fyrir útgáfu dvalarskírteinis. Kærandi og maki hafi enn fremur búið saman í Víetnam fyrir giftingu og þangað til maki fór aftur til Íslands og þannig hafi þau í reynd búið saman fyrir giftingu en í lögum um útlendinga sé hvergi að finna viðmið sem tilgreini hvað aðilar skuli hafa búið saman lengi.

Í fjórða lagi byggi Útlendingastofnun mat sitt á því að fáar myndir hafi verið afhentar og að framlagðar myndir séu ekki nægilegar. Þá vísi stofnunin til þess að þau tali ekki tungumál hvors annars og að skortur á skjáskotum og samskiptum af samfélagsmiðlum gefi til kynna grun um að til hjúskapar sé stofnað til málamynda. Hafi kærandi í greinargerð til Útlendingastofnunar bent á að stofnunin geti ekki lagt mikla vigt í að slík gögn séu ekki til staðar. Eigi það sérstaklega við þar sem hvergi segi í umsóknargögnum eða leiðbeiningum á heimasíðu Útlendingastofnunar að umsækjendur kunni að þurfa að framvísa slíkum gögnum. Í málinu séu fyrirliggjandi myndir af þeim saman auk samskipta á samfélagsmiðlum en hvergi sé að finna nokkur fyrirmæli sem gefi til kynna að það þurfi einhvern tiltekinn fjölda mynda eða magn samskipta. Þá sé hvergi að finna nokkur fyrirmæli sem gefi til kynna að það þurfi einhvern tiltekinn fjölda mynda en í umsóknargögnum stofnunarinnar sé hvergi tilgreint að umsækjandi þurfi að leggja fram afrit af myndum eða samskiptasögu, hvorki við afhendingu umsóknar í upphafi eða síðar. Ætli Útlendingastofnun sér síðar að byggja á því að slík gögn skorti beri stjórnvaldinu að leiðbeina umsækjanda við afhendingu umsóknarinnar um að varðveita slík gögn sérstaklega á meðan umsóknin er til meðferðar, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 3. mgr. 11. gr. laga um útlendinga. Hvað varðar tilvísun til þess að þau tali ekki tungumál hvors annars þá liggi fyrir að kærandi og maki tali ensku sín á milli, sbr. viðtal við maka kæranda, en þar komi fram að kærandi eigi erfitt með að skrifa ensku en hvergi að hann geti ekki talað eða lesið ensku. Í fimmta lagi byggi Útlendingastofnun mat sitt á því að kærandi eigi systur á Íslandi. Hafi stofnunin ekki byggt á þessu atriði í andmælabréfi sínu og telur kærandi þetta efnisatriði því ekki geta haft vægi við mat á ákvörðun auk þess að engin gögn liggi fyrir sem gefi til kynna að þessi staðreynd hafi nokkuð með stofnun hjúskaparins að gera. Byggir kærandi á því að um sé að ræða efnisatriði sem hafi engin áhrif að lögum, enda ljóst að slík túlkun hefði afar víðtæk áhrif enda væri þá alltaf rökstuddur grunur um málamyndahjúskap ef erlendir aðilar, sem eiga skyldmenni á Íslandi, giftast aðila sem er búsettur á Íslandi. Þá byggir kærandi á því að í hinni kærðu ákvörðun hafi ekki farið fram sjálfstætt mat á einstökum þáttum og þeir vegnir og metnir með hliðsjón af málsatvikum heldur virðist þeir allir fá jafnt vægi.

Loks byggir kærandi á því að Útlendingastofnun hafi ekki gætt að rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga. Þar sem um sé að ræða mjög íþyngjandi ákvörðun sem beinist að grundvallarmannréttindum um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu verði að gera ríkari kröfur til afgreiðslu stofnunarinnar en hin kærða ákvörðun beri með sér. Kærandi vísar jafnframt til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og áréttar að dvalarskírteini kæranda yrði ávallt tímabundið og stjórnvöld geti því hæglega gripið til annarra úrræða í kjölfar þess að dvalarskírteini hafi verið veitt, sé áframhaldandi grunur um málamyndahjúskap til staðar. Þá áréttar kærandi að stjórnvöld geti ekki valið að eigin geðþótta hvaða gögn séu lögð til grundvallar heldur verði að gæta meðalhófsreglu og jafnræðis við úrlausn allra mála.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í XI. kafla laga um útlendinga er fjallað um sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu. Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laganna gilda ákvæði kaflans um rétt útlendinga sem eru ríkisborgarar ríkis sem fellur undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu til að koma til landsins og dveljast hér á landi. Í 2. mgr. 80. gr. laganna segir að ákvæði kaflans gildi einnig um aðstandendur EES- eða EFTA-borgara sem fylgja honum til landsins eða koma til hans. Í 1. mgr. 82. gr. laga um útlendinga er þá kveðið á um að aðstandandi EES- eða EFTA-borgara sem falli undir ákvæði XI. kafla hafi rétt til að dveljast hér á landi með honum. Með aðstandanda í skilningi ákvæðisins er m.a. átt við maka. Jafnframt er í 86. gr. laganna fjallað um rétt til dvalar lengur en þrjá mánuði fyrir aðstandendur EES- eða EFTA-borgara og aðra útlendinga sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar. Af athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga er ljóst að XI. kafla laganna felur að verulegu leyti í sér innleiðingu á ákvæðum tilskipunar nr. 2004/38/EB um rétt borgara sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar fara og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna.

Í málinu liggur fyrir afrit af hjúskaparskírteini, dags. 16. september 2019, en samkvæmt efni þess gengu kærandi og maki hans í hjúskap í Víetnam. Þá liggur fyrir að maki kæranda er ríkisborgari Litháen, búsett á Íslandi og stundar atvinnu hér. Kærunefnd telur því ljóst að ákvæði XI. kafla laga um útlendinga eigi við um kæranda enda sé hann maki ríkisborgara Litháen sem hefur nýtt sér rétt sinn til frjálsrar farar og dvalar á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 1. og 2. mgr. 80. gr. laganna.

Í 1. mgr. 90. gr. laga um útlendinga segir að útlendingur sem dvelst hér á landi samkvæmt 86. gr. í meira en þrjá mánuði skuli fá útgefið dvalarskírteini. Umsóknarfrestur er þrír mánuðir frá komu til landsins og skal Útlendingastofnun gefa út skírteinið að fenginni umsókn, sbr. jafnframt 3. mgr. 90. gr. laganna. Í máli þessu liggur fyrir að Útlendingastofnun synjaði kæranda um útgáfu dvalarskírteinis á þeim grundvelli að dvalarréttur kæranda væri fallinn brott, sbr. 92. gr. laganna.

Í 1. mgr. 92. gr. laga um útlendinga er fjallað um brottfall dvalarréttar EES- eða EFTA-borgara eða aðstandenda hans. Segir m.a. í 1. mgr. ákvæðisins að réttur til dvalar samkvæmt ákvæðum XI. kafla falli niður ef um málamyndagerning að hætti 8. mgr. 70. gr. laganna sé að ræða. Þá kemur m.a. fram í 2. mgr. 92. gr. laganna að heimilt sé að synja um útgáfu dvalarskírteinis ef rökstuddur grunur sé um að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis og ekki sé sýnt fram á annað svo óyggjandi sé. Í athugasemdum við 70. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. orðrétt:

„Ákvæðinu er ætlað að heimila synjun á veitingu leyfis ef hægt er að sýna fram á að til hjúskapar hafi verið stofnað í öðrum tilgangi en til samvistar, t.d. til að afla dvalarleyfis. Þegar metið er hvort grunur sé á málamyndahjúskap er m.a. litið til þess hvort aðilar hafi búið saman fyrir stofnun hjúskapar, aldursmunar, hvort þau tali tungumál hvors annars, þekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvort annars og hjúskaparsögu viðkomandi maka og hvort hún veki grunsemdir hvað þetta varðar. Við mat á aðstæðum sem þessum þarf þó að taka tillit til þess að mismunur getur verið á milli menningarheima hvað varðar hefðir og aðdraganda hjúskapar og þekkingu hjóna hvort á öðru við upphaf hjúskapar. Það að aðilar hafi ekki hist áður eða búið saman fyrir stofnun hjúskapar getur ekki verið eini grundvöllur þess að synja um veitingu leyfis á þessum grundvelli heldur verður fleira að koma til sem bendir til þess að um málamyndagerning sé að ræða. Auk þessara þátta getur skipt máli hvort viðkomandi útlendingur hafi áður sótt um dvöl í landinu á öðrum grundvelli, m.a. með umsókn um alþjóðlega vernd og að viðkomandi útlendingur hafi gengið í hjúskap stuttu eftir að þeirri umsókn hafi verið hafnað. Þá getur þurft að líta til þess hvort viðkomandi eigi ættingja hér á landi, maki hérlendis hafi verið giftur á Íslandi og skilið rétt eftir að maki hans eða hann sjálfur hafi öðlast sjálfstæð réttindi hér á landi, hversu oft ábyrgðaraðili hafi verið giftur hér á landi og hvort grunur er um að hann hafi fengið verulegar fjárhæðir sem gætu tengst málinu.“

Eins og að framan greinir er í 1. mgr. 92. gr. vísað til 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga sem fjallar um veitingu dvalarleyfis vegna hjúskapar. Þar segir að sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis og ekki sé sýnt fram á annað svo að óyggjandi sé veiti það ekki rétt til dvalarleyfis. Við túlkun ákvæðisins verður því að hafa í huga að ákvæðið felur í sér frávik frá þeirri grundvallarreglu að EES- eða EFTA-borgarar sem og aðstandendur þeirra geti, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, nýtt sér rétt til frjálsrar farar og dvalar á Evrópska efnahagssvæðinu, líkt og m.a. er kveðið á um í 80. og 82. gr. gr. laga um útlendinga. Með vísan til innri samræmisskýringar telur kærunefnd hins vegar rétt að líta til framangreindra athugasemda við ákvæði 8. mgr. 70. gr. laganna, enda er ekki að finna leiðbeiningar í lögskýringargögnum með ákvæði 92. gr. um þau atriði sem stjórnvöld geti litið til við mat á því hvort skilyrði um „rökstuddan grun“ í skilningi ákvæðisins séu uppfyllt. Í framangreindum athugasemdum er vísað til atriða sem m.a. er unnt að líta til við mat á því hvort um rökstuddan grun sé að ræða í skilningi ákvæðisins. Hins vegar er ljóst að upptalning á þeim atriðum er koma til skoðunar er ekki tæmandi og gilda almennar sönnunarreglur í slíkum málum. Þannig er stjórnvöldum ótvírætt heimilt að líta til annarra atriða en nefnd eru í áðurnefndum lögskýringargögnum enda sé slíkt mat byggt á málefnalegum sjónarmiðum.Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun var það mat Útlendingastofnunar að fyrir hendi væri rökstuddur grunur um að til hjúskapar kæranda og maka hans hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla kæranda dvalarskírteinis hér á landi. Þá hefði kærandi ekki sýnt fram á annað svo óyggjandi væri. Var kæranda því synjað um dvalarskírteini hér á landi, sbr. 2. mgr. 92. gr. laga um útlendinga. Má ráða af ákvörðuninni að Útlendingastofnun byggi mat sitt á eftirfarandi atriðum. Í fyrsta lagi að maki kæranda sé í nánu sambandi við mann, […], þau hafi farið saman til Víetnam hinn 1. september 2019 og gengið í hjúskap, hvort um sig, víetnömskum mökum sínum síðasta dag ferðarinnar og ferðast svo heim saman til Íslands. Í öðru lagi sé samskiptasaga kæranda og maka takmörkuð auk þess sem þar komi fram að maki hafi ítrekað óskað eftir því við kæranda að hann taki myndir af henni af Facebook reikningi sínum. Þá séu fáar myndir af þeim saman. Í þriðja lagi séu reglulegar millifærslur á milli maka kæranda og áðurnefnds […]. Í fjórða lagi eigi kærandi systur á Íslandi sem búi hér með fjölskyldu sinni.

Af gögnum málsins er ljóst að maki kæranda á í náum samskiptum við […], þannig er t.d. að finna myndir af þeim við ýmis tilefni í ferðalögum erlendis auk þess sem […] býr hjá maka kæranda. Það að maki og […] eigi í slíkum nánum samskiptum og hafi á sama tíma farið til Víetnam og gengið í hjúskap síðasta dag ferðarinnar með aðilum sem síðar lögðu bæði fram dvalarleyfis- og dvalarskírteinisumsóknir hjá Útlendingastofnun er þess eðlis að vekja upp rökstuddan grun í skilningi 2. mgr. 92. gr. laga um útlendinga. Framlagðar myndir við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun eru fáar og virðast teknar við sömu tilefni. Þá eru framlögð gögn um samskipti á milli kæranda og maka af skornum skammti og ekki í samræmi við staðhæfingar í dvalarumsókn um að þau séu í samskiptum á samfélagsmiðlum nokkrum sinnum í viku. Hefur slíkt ótvírætt gildi í málinu enda höfðu kærandi og maki ekki hist í persónu fyrr en í september 2019 þegar maki og […] fóru til Víetnam. Í framlögðum gögnum um samskipti milli maka kæranda til kæranda kemur fram að þann 13. júlí 2020 bað hún kæranda um að fjarlæga myndir af sér á Facebook reikningi kæranda og ítrekaði hún þá beiðni sína þann sama dag. Að mati kærunefndar dregur framangreind beiðni maka til kæranda um að fjarlægja myndir af sér á Facebook reikningi hans óhjákvæmilega úr trúverðugleika sambands þeirra.

Þá hefur kærunefnd farið yfir endurrit af viðtali maka kæranda hjá Útlendingastofnun, dags. 22. október 2020. Í viðtalinu fór maki rangt með afmælisdag kæranda, sagði hann vera […] en kærandi á samkvæmt gögnum málsins afmæli […]. Þá sagðist maki jafnframt hafa óskað kæranda til hamingju með daginn heima hjá systur hans, sem búsett er á Íslandi, þ.e. […] dögum fyrir umrætt viðtal. Að mati kærunefndar er fæðingardagur sambandsaðila eitt af þeim atriðum sem gera má kröfu um að maki hafi vitneskju um auk þess sem svör maka í áðurnefndu viðtali benda ekki til annars en að hún hafi óskað kæranda til hamingju með afmælið heima hjá systur kæranda hinn […], en kærandi á líkt og áður greinir ekki afmæli þá. Þá má telja sennilegt að systir kæranda hefði leiðrétt slíkan misskilning enda að öllum líkindum með vitneskju um réttan afmælisdag bróður síns. Í viðtali kvaðst maki hafa byrjað að eiga í samskiptum við kæranda í desember 2018 en elstu samskipti þeirra á samfélagsmiðlum samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins eru frá 12. júní 2019, eða um einum og hálfum mánuði áður en maki fór til Víetnam. Þá eru skýringar maka á aðdraganda ferðar sinnar til Víetnam og aðdraganda þess að hún og kærandi gengu í hjúskap mjög ótrúverðugar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það mat kærunefndar að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að til hjúskaparins hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarskírteinis, sbr. 2. mgr. 92. gr. laga um útlendinga. Þá hefur að mati nefndarinnar ekki verið sýnt fram á svo óyggjandi sé að til hjúskaparins hafi verið stofnað í öðrum tilgangi en að afla dvalarskírteinis. Samkvæmt framansögðu veitir hjúskapur kæranda og maka hennar því ekki rétt til dvalarskírteinis samkvæmt 90. gr. laga um útlendinga. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

Vegna athugasemdar í greinargerð kæranda tekur kærunefnd fram að þegar 2. mgr. 92. gr. laga um útlendinga á við eru ekki vægari úrræði tiltæk en synjun á umsókn um dvalarskírteini. Þá er ljóst að Útlendingastofnun hefur víðtækar heimildir til gagnaöflunar á grundvelli 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga og 10. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Þá ber stofnuninni skylda til að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, en í því felst að m.a. að stofnunin geti kallað eftir frekari gögnum, s.s. afritum af samskiptasögu. Á það sérstaklega við þegar grunur vaknar um að ákvæði 2. mgr. 92. gr. kunni að eiga við í máli umsækjanda um dvalarskírteini. Gerir kærunefnd því ekki athugasemd við gagnaöflun Útlendingastofnunar í málinu. Þá hefur kærunefnd endurskoðað ákvörðun Útlendingastofnunar og komist að sömu niðurstöðu. Að öðru leyti telur kærunefnd ekki tilefni til umfjöllunar um þau rök sem kærandi hefur fært fram við meðferð málsins hjá nefndinni.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

Gunnar Páll Baldvinsson                                             Sandra Hlíf Ocares

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum