Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtbo%C3%B0sm%C3%A1la

Mál nr. 27/2019. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 5. maí 2020
í máli nr. 27/2019:
Puhastusekspert
gegn
Sveitarfélaginu Árborg

Lykilorð
Sveitarfélag. Auglýsing á Evrópska efnhagssvæðinu.

Útdráttur
Kærandi byggði á því að útboðið „Ræsting og hreingerning stofnana Árborgar“ hefði átt að auglýsa á Evrópska efnahagssvæðinu en að það hefði verið vanrækt. Í málinu lágu fyrir gögn um að útboðið hefði verið auglýst í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins og var því öllum kröfum kæranda hafnað.

Með kæru 28. október 2019 kærði Puhastusekspert útboð sveitarfélagsins Árborgar er nefnist „Ræsting og hreingerning stofnana Árborgar“. Kærandi krefst þess að hið kærða útboð verði ógilt og að sveitarfélaginu Árborg (hér eftir vísað til sem varnaraðila) verði gert að auglýsa það á nýjan leik. Þá er gerð krafa um að varnaraðila verði gert að greiða kæranda málskostnað. Varnaraðila var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Með greinargerðum 5. nóvember 2019 og 6. janúar 2020 krafðist varnaraðili þess að öllum kröfum kæranda yrði hafnað. Kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við greinargerðir varnaraðila og skilaði athugasemdum 18. nóvember 2019 og 5. febrúar 2020.

Með ákvörðun 28. nóvember 2019 hafnaði kærunefnd útboðsmála að stöðva hið kærða útboðsferli varnaraðila.

I

Í ágúst 2019 auglýsti varnaraðili hið kærða útboð sem varðar ræstingu og hreingerningar á nánar tilgreindum stofnunum sveitarfélagsins. Jafnframt var gert ráð fyrir því að bjóðendur legðu til allar hreinlætisvörur og önnuðust áfyllingar á þeim.

Auglýsing vegna þessara innkaupa var meðal annars birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins 27. ágúst 2019. Tilboð voru opnuð 18. október 2019 og bárust þrjú tilboð. Kærandi var ekki meðal bjóðenda. Lögmaður kæranda beindi fyrirspurn til varnaraðila vegna auglýsingar útboðsins í október 2019 og var henni svarað 28. sama mánaðar.

II

Kærandi byggir á því að varnaraðila hafi borið að auglýsa hið kærða útboð á Evrópska efnahagssvæðinu en það hafi ekki verið gert. Kærandi hafi símleiðis óskað eftir upplýsingum frá umsjónarmanni útboðsins um það hvort útboðið hefði verið auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu en telur sig hafa fengið óljós svör. Verði því að mati kæranda að miða við að umrætt útboð hafi ekki verið auglýst lögum samkvæmt og hafi varnaraðili því brotið gegn skýrri lagaskyldu sinni. Kærandi telur að þau gögn sem varnaraðili hefur lagt fram til staðfestingar á auglýsingu á Evrópska efnahagssvæðinu séu ófullnægjandi og telur að mistök hafi verið gerð við birtinguna.

III

Af hálfu varnaraðila er vísað til þess að honum hafi frá upphafi verið ljóst að auglýsa bæri útboðið á Evrópska efnahagssvæðinu. Útboðið hafi verið auglýst eins og áskilið sé í lögum nr. 120/2016 um opinber innkaup og reglugerðum settum á grundvelli þeirra. Þannig hafi útboðið meðal annars verið auglýst í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins og leggur varnaraðili fram umrædda auglýsingu því til staðfestingar. Varnaraðili tekur fram að umsjónarmaður útboðsins, sem kærandi hafi verið í samskiptum við, hafi ekki sjálfur séð um birtingu auglýsingarinnar og hafi viljað afla upplýsinga áður en fyrirspurn kæranda var svarað. Kæranda hafi verið tilkynnt um það og svar borist nokkrum dögum síðar.

IV

Aðilar eru sammála um að útboðið hafi átt að auglýsa á Evrópska efnahagssvæðinu og ágreiningur þeirra lýtur einungis að því hvort sýnt hafi verið fram á að varnaraðili hafi staðið við þá skyldu. Varnaraðili hefur lagt fram afrit auglýsingar vegna útboðsins sem birtist 27. ágúst 2019 í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins. Þá hefur nefndin við skoðun sína jafnframt fundið umrædda auglýsingu í rafrænni útgáfu Stjórnartíðindanna.

Með vísan til framangreinds liggur fyrir að hið kærða útboð var auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 55. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup og þágildandi reglugerð nr. 178/2018 um auglýsingu innkaupa á útboðsvef, viðmiðunarfjárhæðir vegna opinberra innkaupa og innkaup samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um opinber innkaup. Verður því að hafna öllum kröfum kæranda. Rétt er að málskostnaður falli niður.

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda, Puhastusekspert, vegna útboðs varnaraðila, Sveitarfélagsins Árborgar, „Ræsting og hreingerning stofnana Árborgar“ er hafnað.
Málskostnaður fellur niður.

Reykjavík, 5. maí 2020

Ásgerður Ragnarsdóttir

Auður Finnbogadóttir

Sandra Baldvinsdóttir



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum