Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir%20heilbrig%C3%B0isr%C3%A1%C3%B0uneytis

Úrskurður nr. 10/2023

Úrskurður nr. 10/2023

 

Föstudaginn 5. maí 2023 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

 

Með erindi til ráðuneytisins þann 23. janúar 2023 kærði […] (hér eftir kærandi), kt. […], málsmeðferð embættis landlæknis vegna kvörtunar. Með bréfi, dags. 10. janúar 2023, var kæranda tilkynnt um að embættið myndi ekki taka kvörtun hans til frekari meðferðar grundvelli 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu.

 

Málið er kæranlegt á grundvelli 6. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, og barst kæra innan kærufrests.

I. Málavextir og málsmeðferð ráðuneytisins.

Kærandi kvartaði til embættis landlæknis þann 22. mars 2022 vegna þjónustu […] hjartalæknis (hér eftir A). Í bréfi embættis landlæknis til kæranda þann 10. janúar sl. kom það mat embættisins að í kvörtuninni fælist athugasemd vegna þjónustu í skilningi 1. mgr. 28. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, en slíkum erindum bæri að beina til yfirstjórnar heilbrigðisstofnunar. Í tilviki kæranda væri ekki um heilbrigðisstofnun að ræða og yrði hann að beina athugasemdunum til starfsstofu viðkomandi heilbrigðisstarfsmanns. Eftir gagnaöflun hafi embættið ekki talið tilefni til frekari málsmeðferðar eða rannsóknar m.t.t. eftirlitshlutverks embættisins.

 

Ráðuneytið óskaði eftir umsögn embættis landlæknis um kæru sem barst þann 21. febrúar 2023. Kærandi kom athugasemdum á framfæri m.a. þann 23. febrúar sl., 3. mars og 17. apríl.

II. Málsástæður og lagarök kæranda.

Kærandi kveðst ósáttur við ákvörðun embættis landlæknis um að taka kvörtun hans ekki til efnislegrar meðferðar. Hann hafi sýnt fram á að hann hafi veikst vegna kalíumskorts, en A hafi skrifað upp á vatnslosandi án þess að skrifa upp á kaleroid töflur með. A hafi einnig sýnt af sér óviðeigandi framkomu.

 

III. Málsástæður og lagarök embættis landlæknis.

Í umsögn embættis landlæknis segir m.a. að embættinu beri að taka kvartanir til meðferðar á grundvelli eftirlitsskyldu þegar sérfræðingar embættisins telji tilefni til þess. Í málinu hafi fullnægjandi skýringar meðferðaraðila legið fyrir sem embættið geri ekki athugasemdir við. Vísar embættið í framhaldinu til úrskurðar ráðuneytisins í máli nr. 5/2022, en þar komi fram að löggjafinn hafi gert greinarmun á athugasemdum vegna þjónustu sem veitt sé af heilbrigðisstarfsmönnum og kvörtunum vegna meintra mistaka, vanrækslu eða ótilhlýðilegrar framkomu. Telur embættið einnig mikilvægt að fá afstöðu ráðuneytisins til þess hvort ákvarðanir embættisins í þessu sambandi séu kæranlegar. 

 

IV. Athugasemdir kæranda.

Ráðuneytinu bárust ýmsar upplýsingar frá kæranda um heilsufar hans og þá heilbrigðisþjónustu sem honum hefur verið veitt vegna kalíumskorts. Kemur m.a. fram að kærandi telji mikið af vanhæfum læknum á Íslandi og að A hafi talið sig vera að spara eitthvað með því að skrifa ekki upp á kaleroid töflur fyrir hann.

 

V. Niðurstaða.

Mál þetta lýtur að kæru kæranda á málsmeðferð embættis landlæknis í kvörtunarmáli. Hvað kæruheimild varðar er það mat ráðuneytisins, að virtum þeim sjónarmiðum sem fram koma í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 11471/2012, frá 23. ágúst 2022, að ákveðin málsmeðferð hafi átt sér stað um kvörtun kæranda á grundvelli 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu. Embætti landlæknis beri þannig að leiðbeina þeim einstaklingum, sem fái sambærilega niðurstöðu, um heimild til að kæra meðferð slíkra mála til ráðuneytisins á grundvelli 6. mgr. 12. gr. sömu laga.

 

Meðal hlutverka embættis landlæknis er að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum, sbr. e-lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu. Í II. kafla laganna er fjallað um eftirlit með heilbrigðisþjónustu. Fjallað er um kvörtun til landlæknis í 12. gr. laganna, en samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins er heimilt að beina formlegri kvörtun til embættisins vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. laganna skal landlæknir að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Þá segir í ákvæðinu að um meðferð kvartana gildi að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við geti átt. Að lokinni málsmeðferð gefi landlæknir skriflegt álit, þar sem embættið skuli tilgreina efni kvörtunarinnar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu. Í 6. mgr. 12. gr. laganna er kveðið á um að heimilt sé að kæra málsmeðferð landlæknis samkvæmt ákvæðinu til ráðherra.

Í kvörtun kæranda kemur fram að hann hafi farið til A árið 2015. A hafi svo gott sem „hent“ honum út eftir að hafa farið til hans í nokkur skipti þótt kærandi hafi átt pantaðan tíma og viljað taka einhvern annan inn í staðinn. Kærandi hafi talið framkomuna dónalega. Eftir að kærandi hafi endað á Landspítala árið 2019 vegna öndunarerfiðleika hafi tveir læknar spurt hvort A væri ekki að gera neitt fyrir hann, en annar læknirinn kvað A hafa haft niðrandi orð um kæranda og ekki langað að hjálpa honum. Í rökstuðningi fyrir kvörtun segir að A hafi aldrei skrifað upp á kaleroid töflur með vatnslosandi töflum sem hann hafi ávísað til kæranda. Nokkru eftir að kærandi hafi farið að taka töflurnar hafi hann upplifað mikla vanlíðan og síðar öndunarerfiðleika. Árið 2019 hafi hann fengið kaleroid töflur, en engin eftirfylgni hafi verið með því eða ráðleggingar frá heimilislækni.

Þann 5. október 2022 áframsendi embætti landlæknis kvörtun kæranda til A og óskaði eftir því að A svaraði kæranda skriflega. Þann 18. nóvember 2022 sendi A bréf til kæranda þar sem fram kemur að A hafi sett inn blóðþrýstingsmeðferð. Að því er varðar ávísun á kaleroid segir A að það sé aldrei gert sjálfkrafa enda ekki fyrirfram gefið að einstaklingar á því lyfi sem hann hafi skrifað út missi kalíum. Sé það fremur undantekning en regla. Samkvæmt nótum hafi A reynt að koma kæranda í áframhaldandi meðferð á Reykjalundi sem hann hafi talið kæranda fyrir bestu. Segir í bréfinu að A þyki leitt að hann skuli vera ósáttur við samskipti þeirra á milli. Það sé fráleitt að hann hafi talað illa um kæranda og býður kæranda að ræða málin á fundi. Eins og fram er komið var það mat embættis landlæknis að líta yrði á efni kvörtunar kæranda sem athugasemdir við þjónustu í skilningi 1. mgr. 28. gr. laga um réttindi sjúklinga.

Í úrskurði ráðuneytisins nr. 5/2022, sem kærandi var einnig aðili að, hafði hann kvartað undan þjónustu heimilislækna sem höfðu verið með hann til meðferðar. Hafði embætti landlæknis litið á kvörtunina sem athugasemd við þjónustu sem félli undir lög um réttindi sjúklinga. Í niðurstöðu ráðuneytisins kom m.a. fram að  með 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu hefði löggjafinn mælt fyrir um heimild til að kvarta til landlæknis vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Væri heimildin sett í þeim tilgangi að veita sjúklingum, og eftir atvikum aðstandendum þeirra, færi á að upplýsa embætti landlæknis um atvik sem hafa að þeirra mati falið í sér vanrækslu og/eða mistök. Við meðferð þeirra kvartana sem teknar væru til umfjöllunar á grundvelli 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu þyrfti embætti landlæknis að uppfylla kröfur sem leiða megi af stjórnsýslulögum, svo sem um rannsókn og andmælarétt. Rannsókn á kvörtun og útgáfa álits á grundvelli 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu væri liður í eftirlitshlutverki embættisins og gæti t.a.m. orðið til þess að heilbrigðisstarfsmaður sæti viðurlögum á grundvelli III. kafla laganna.

Við mat á því hvort kvörtun heyri undir ákvæði 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu má jafnframt hafa hliðsjón af því að samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, skal athugasemdum sjúklings vegna þjónustu á heilbrigðisstofnun beint til yfirstjórnar viðkomandi stofnunar. Er kveðið á um í 2. mgr. ákvæðisins að vilji sjúklingur kvarta yfir meðferð geti hann beint kvörtun til landlæknis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um réttindi sjúklinga segir að gerður sé greinarmunur á athugasemdum og kvörtunum. Sé um athugasemdir að ræða við meðferð sem sjúklingur hafi fengið á heilbrigðisstofnun skuli þeim beint til yfirstjórnar viðkomandi stofnunar. Kvörtunum sé hins vegar beint til embættis landlæknis. Hefur löggjafinn samkvæmt framangreindu gert greinarmun á athugasemdum vegna þjónustu sem veitt er af hálfu heilbrigðisstarfsfólks og kvörtunum til embættis landlæknis vegna meintra mistaka eða vanrækslu við veitingu heilbrigðisþjónustu. Að mati ráðuneytisins þurfa atriði sem vísað er til í kvörtun til embættis landlæknis að ná ákveðnum lágmarksþröskuldi í samræmi við inntak ákvæðisins til að kvörtun verði tekin til meðferðar á grundvelli 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Nái kvörtun ekki þeim þröskuldi megi eftir atvikum líta á kvörtun sem athugasemd við þjónustu í skilningi 1. mgr. 28. gr. laga um réttindi sjúklinga. Er það mat ráðuneytisins með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, málsmeðferð á grundvelli 12. gr. laganna sem lýst er í ákvæðinu sem og eftirlitshlutverki landlæknis, að til að kvörtun til embættisins verði tekin til efnislegrar meðferðar verði hún að gefa að einhverju leyti til kynna að mistök eða vanræksla hafi átt sér stað við veitingu heilbrigðisþjónustu.

Kvörtun kæranda hefur áður verið rakin. Lýtur kvörtunin í meginatriðum að því að kærandi hafi ekki fengið ávísað tilteknu lyfi frá A ásamt því að gerðar eru athugasemdir við framkomu A. Þótt kærandi telji að A hafi átt að ávísa fyrrgreindu lyfi til hans er það mat ráðuneytisins, með vísan til þeirra gagna sem rakin hafa verið og því sérfræðimati sem lagt var á efni kvörtunarinnar hjá embætti landlæknis, að ekki séu forsendur til annars en að fallast á með embættinu að kvörtunin varði ekki atvik sem lúti að meintum mistökum eða vanrækslu við veitingu heilbrigðisþjónustu sem leiði til þess að embættinu hafi, á grundvelli eftirlitshlutverks síns, borið að taka kvörtunina til frekari meðferðar á grundvelli 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Þá verður ekki talið að þau atriði kvörtunarinnar sem lúti að framkomu A í garð kæranda séu með þeim hætti að embættinu hafi borið að rannsaka málið á grundvelli síðastnefnds ákvæðis eða að meðferð málsins hafi að öðru leyti brotið farið í bága við stjórnsýslulög.

Samkvæmt framangreindu gerir ráðuneytið ekki athugasemdir við að embætti landlæknis hafi litið á kvörtun kæranda sem athugasemdir við þjónustu í skilningi 1. mgr. 28. gr. laga um réttindi sjúklinga, fremur en kvörtun vegna meintra mistaka eða vanrækslu í skilningi 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Verður málsmeðferð embættis landlæknis vegna kvörtunar kæranda því staðfest.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Málsmeðferð embættis landlæknis vegna kvörtunar, dags. 22. mars 2022, er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum