Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd eignarnámsbóta

Matsmál nr. 1/2017, úrskurður 6. nóvember 2018

Ár 2018, þriðjudaginn 6. nóvember, er í Matsnefnd eignarnámsbóta, samkvæmt lögum nr. 11/1973, tekið fyrir matsmálið nr. 1/2017.

Vegagerðin

gegn

Drífu Kristjánsdóttur

og

Ólafi Einarssyni                                                         

 

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Úrskurð þennan kveða upp Allan Vagn Magnússon, varaformaður matsnefndar eignarnámsbóta ad hoc, ásamt meðnefndarmönnunum, Magnúsi Leopoldssyni, löggiltum fasteignasala, og Vífli Oddssyni, verkfræðingi, en varaformaður hefur kvatt þá til starfa í málinu samkvæmt heimild í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.

Eignarnemi er Vegagerðin kt. 680269-2899 Borgartúni 5 og 7, 105 Reykjavík.

Eignarnámsþolar eru þinglýstir eigendur jarðarinnar Torfastaða í Bláskógabyggð, þau Drífa Kristjánsdóttir kt. 311050-3469 og Ólafur Einarsson kt. 130552-4989 Torfastöðum, 801 Selfossi.

 

KRÖFUR AÐILA

Eignarnemi gerir kröfu um að Matsnefnd eignarnámsbóta meti bætur vegna framkvæmda við vegagerð í landi Torfastaða, Bláskógabyggð, auk landspildu þar sem ágreiningur ríkir um hvort spildan sé í eigu eignarnámsþola eða landeigenda Vegatungu og eignarhald því óljóst.

 

Af hálfu eignarnámsþola eru gerðar eftirfarandi kröfur fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta:

 

  1. Að eignarnema verði gert að greiða eignarnámsþolum sameiginlega sem bætur fyrir eignaskerðingar og verðmætarýrnun sem hljótast muni af framkvæmdum Vegagerðarinnar 38.869.000 krónur.

     

  2. Að eignarnema verði gert að greiða eignarnámsþolum sameiginlega sem bætur fyrir tímabundið rask og ónæði sem hljótast muni af framkvæmdum Vegagerðarinnar 2 milljónir króna.

     

  3. Að eignarnema verði gert að greiða eignarnámsþolum sameiginlega sem bætur fyrir nýtingar vegslóða vegna framkvæmda Vegagerðarinnar 500 þúsund krónur.

     

  4. Að eignarnema verði gert að greiða eignarnámsþolum sameiginlega sem bætur fyrir nýtingu jarðefna úr landi Torfastaða vegna framkvæmda Vegagerðarinnar 46 milljónir króna.

 

Að eignarnema verði gert að greiða eignarnámsþolum sameiginlega málskostnað samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirlit og við ákvörðun hans verði tekið tillit til alls kostnað þeirra vegna eignarnámsmálsins og skyldu til greiðslu virðisaukaskatts af keyptri lögmannsþjónustu. Málflutningsyfirlit verður lagt fram við munnlegan flutning málsins fyrir hinni virðulegu nefnd.

 

MÁLSATVIK

Með bréfi, dagsettu 27. júní 2017, fór eignarnemi með vísan til 39. gr. vegalaga nr. 80/2007 og laga nr. 11/1073 um framkvæmd eignarnáms þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta, að kvaddir væru tveir eða fjórir hæfir og óvilhallir menn, ásamt formanni til að meta bætur vegna framkvæmda við vegagerð í landi Torfastaða (landnr. 167176), Bláskógabyggð, auk landspildu þar sem ágreiningur ríkir um hvort sé í eigu eignarnámsþola eða landeiganda Vegatungu (landnr. 167187) og eignarhald því óljóst. Með bréfi dagasettu 20. september 2017 tilkynnti lögmaður eignarnámsþola um kæru eignarnámsþola á ákvörðun Vegagerðarinnar um eignarnám. Hinn 24. júlí 2018 var kröfu eignarnámsþola um að fella ákvörðun Vegagerðarinnar úr gildi hafnað með úrskurði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. 

Eignarnemi segir að um sé að ræða endurbyggingu núverandi Reykjavegar á milli Biskupstungnabrautar og Laugavatnsvegar. Litlar breytingar verði á legu vegarins fá því sem nú er, nema þar sem nauðsynlegt þyki að laga tvær krappar beygjur vegna umferðaröryggis. Vegurinn verði breikkaður og vegaxlir byggðar. Sjónlengdir verði auknar með jöfnun hæða og lægða. Vegurinn miðist við 40 metra breitt vegsvæði, 20 metra frá miðlínu til hvorrar handar og sé það svæði andlag eignarnámsins.  Til þess að koma til móts við sjónarmið eignarnámsþola, hafi skeringin vinstra megin á kafla vegarins milli stöðva 400 og 700 verið mjókkuð úr tæplega 30 metrum í 20 metra frá miðlínu vegarins.

Kveðið sé á um framkvæmdina í samgönguáætlun fyrir árin 2015 til 2018 sem samþykkt hafi verið af Alþingi 12. október 2016. Framkvæmdin sé í samræmi við gildandi aðalskipulag Bláskógabyggðar. Sveitarstjórn hafi gefið út framkvæmdaleyfi 21. mars 2017, en það runnið út þar sem framkvæmdir hafi ekki hafist innan árs. Framkvæmdaleyfi hafi verið endurnýjað 27. júlí 2018.

Andlag eignarnáms:

Í fyrsta lagi sé um að ræða land undir Reykjaveg í landi Torfastaða milli stöðva 0-3240 samtals 11,02 ha með núverandi vegsvæði. Vegagerðin sé eigandi núverandi 12 metra breiðs vegsvæðis, þ.e. 6 metra frá miðlínu vegar til hvorrar handar, samtals 2,75 ha lands sem ekki þurfi að taka eignarnámi. Sönnunbyrði um annað eignarhald hvíli á eignarnámsþolum. Hluta núverandi vegar, 0,6 ha, verði skilað aftur til eignarnámsþola og dragist sá flötur frá hinu eignarnumda landi, sbr. 4. mgr. 39. gr. vegalaga nr. 80/2007. Spildan sem eignarnámið taki til og ágreiningslaust sé að er í landi Torfastaða sé því 7,67 ha (11,02-0,6-2,75).

Í öðru lagi sé um að ræða land undir veg milli stöðva 0-1100 en ágreiningur sé milli eignarnámsþola og eigenda jarðarinnar Vegatungu um hvar landamerki séu á milli jarðanna á þessu svæði. Heildarflatarmál svæðisins sé 2,81 ha. Vegagerðin sé eigandi núverandi 12 metra breiðs vegsvæðis, þ.e. 6 metra frá miðlínu vegar til hvorrar handar, samtals 0,63 ha lands, svo sem rakið sé hér að framan. Þurfi því ekki að taka það svæði eignarnámi og dragist það frá. Spildan sem eignarnámið taki til á ágreiningssvæðinu sé því 2,18 ha (2,81-0,63). Eigendur Vegatungu hafi fyrir sitt leyti fallist á framboðnar bætur eignarnema og framkvæmdir í landi sínu.

Í þriðja lagi sé um að ræða framboðnar bætur fyrir tímabundin afnot að vegslóða sem fyrir sé í landi Torfastaða, en hann liggi að námu í landi Syðri Reykja sem eignarnemi hafi í hyggju að nota við vegagerðina.

 

Af hálfu eignarnámsþola er því lýst að með bréfi Vegagerðarinnar, dagsettu 16. október 2014, hafi eignarnámsþolum í fyrsta sinn verið kynnt að Vegagerðin ætlaði að endurbyggja Reykjaveg nr. 355 frá Biskupstungnabraut að Laugarvatnsvegi. Samkvæmt bréfinu hafi átt að hefja framkvæmdir strax árið 2015 og ljúka þeim eigi síðar en sumarið 2017. Í bréfinu hafi jafnframt verið sagt að Vegagerðin þyrfti að eignast 7.59 hektara lands úr landi eignarnámsþola vegna framkvæmdarinnar og jafnframt aðgang um núverandi námu á Torfastaðaheiði yfir í nýja námu við girðinguna í landi Syðri-Reykja.

Hinn 31. mars 2015 hafi eignarnámsþolum verið sent bréf þar sem fram hafi komið að breyting hafi orðið á vegsvæðinu sem Vegagerðin hygðist nýta. Taldi eignarnemi að hæfilegar bætur fyrir land úr landi Torfastaða næmu 650.000 kr. fyrir hvern hektara, samtals 5.115.500 kr. fyrir 7,87 hektara lands. Jafnframt myndi Vegagerðin skila aftur 0,6 hektara landsvæði aftur til eignarnámsþola. 

Eignarnámsþolar hafi mótmælt fyrirætlunum eignarnema og óskað þess að lagning vegarins færi ekki út fyrir núverandi vegstæði og að rask á jörðinni yrðu sem minnst. Þá hafi eignarnámsþolar mótmælt efnistöku vestan fyrirhugaðs Reykjavegar fyrir sunnan núverandi frístundabyggð. Jafnframt hafi boðnum bótum verið mótmælt sem allt of lágum og í ósamræmi við markaðsverðmæti landsins. Í bréfi 22. mars 2016 hafi eignarnemi sagt að hann ætlaði ekki að endurskoða framboðnar bætur vegna landsins, án nokkurs rökstuðnings.

Með bréfi lögmanns eignarnámsþola hinn 28. apríl 2016 hafi verið rökstutt að þrátt fyrir að námuréttur og réttur til efnistöku, umfram heimilis- og búsþarfir, hafi verið undanskilin við sölu, þá væri slíkur réttur enn í óskiptri sameign íslenska ríkisins og landeiganda. Einnig hafi þess verið krafist að Vegagerðin héldi efnistöku innan vegsvæðis og að efnistöku vestan fyrirhugaðs vegar væri mótmælt. Slíkt myndi valda miklum spjöllum á landi og raski á grónu landi nærri frístundabyggð. Þá hafi framboðnum landbætum verið mótmælt sem of lágum, enda ekki í samræmi við 72. gr. stjórnarskrár um full verð.

Með bréfi dagsettu 8. júlí 2016 hafi komið fram að Vegagerðin myndi draga úr skeringum lítillega. Ekki hafi verið talin ástæða til að endurskoða framboðnar bætur vegna landtöku og skyldi ekkert greitt fyrir efnistöku. Með tölvupósti hinn 17. ágúst 2016 hafi lögmaður eignarnámsþola lýst því að þau væru ekki tilbúin til að samþykkja tillögu Vegagerðarinnar og vísað hafi verið til fyrri athugasemda.

Með bréfi hinn 14. nóvember 2016 hafi Vegagerðin svo boðað fyrirhugað eignarnám. Þessu hafi verið mótmælt hinn 12. desember 2016 af hálfu eignarnámsþola með þeim rökstuðningi að skilyrði eignarnáms væru ekki uppfyllt. Engar aðrar útfærslur framkvæmdanna hefðu verið skoðaðar eða a.m.k. kynntar fyrir eignarnámsþolum. Þá hafi verið ítrekað að engar raunverulegar viðræður hefðu átt sér stað, heldur hafi Vegagerðin einfaldlega lagt upp með ákveðna framkvæmd og skilgreindar landbætur, sem Vegagerðin neitaði að hrófla við.

Með bréfi dagsettu 11. apríl 2017 hafi Vegagerðin boðað að nýju fyrirhugað eignarnám vegna framkvæmda við Reykjaveg. Hafi verið fyrirhugað að taka eignarnámi 7,67 hektara af landi Torfastaða og 2,18 hektara lands á kafla þar sem eignarhald sé óljóst að mati Vegagerðarinnar. Hafi bréfinu verið fylgt eftir með öðru bréfi sama efnis hinn 27. apríl 2017.

Fyrirhuguðu boðuðu eignarnámi hafi verið mótmælt með bréfi lögmanns eignarnámsþola 2. maí 2017. Vegagerðinni hafi verið bent á að eignarnámsþolar teldu að skilyrði 72. gr. stjórnarskrár um almenningsþörf og meðalhóf væru ekki uppfyllt í málinu. Hafi Vegagerðin ekki fengist til raunverulegra viðræðna um hugsanlegar landbætur, þrátt fyrir að þeim hafi verið mótmælt sérstaklega. Að auki hefði engin umræða farið fram um réttindi eignarnámsþola varðandi efnistöku í samræmi við ákvæði 40. gr. jarðalaga nr. 81/2004. Eigi eignarnámsþolar rétt til efnistöku til heimilis- og búsþarfa og eiga þar með hlutdeild í því efni, sem fyrirhugað sé að taka úr landi jarðarinnar, af þeim sökum beri að greiða þeim bætur fyrir slíka efnistöku, a.m.k. að hluta. Bréfi þessu hafi ekki verið svarað af hálfu Vegagerðarinnar.

Hinn 27. júní 2017 hafi eignarnámsþolum borist tilkynning þar sem tekin hafi verið  ákvörðun um eignarnám 7,67 hektara lands úr landi Torfastaða og 2,18 hektara lands þar sem eignarhald lands væri óljóst. Þá hafi verið tekin ákvörðun um tímabundið eignarnám á afnotarétti af vegslóða í landi Torfastaða. Jafnframt hafi verið tilkynnt að Vegagerðin ætlaði að nýta 92.000 m3 af malarefni úr landi Torfastaða en Vegagerðin telji að Ríkissjóður Íslands sé einn eigandi þess efnis.

Með kæru dagsettri 25. september 2017 hafi eignarnámsþolar kært ákvörðun eignarnema. Hafi þeir krafist ógildingar ákvörðunarinnar. Hinn 24. júlí 2018 hafi Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kveðið upp úrskurð í kærumálinu og hafnað kröfu eignarnema um ógildingu ákvörðunarinnar.

 

SJÓNARMIÐ EIGNARNEMA UM FJÁRHÆÐ BÓTA:

Eignarnemi telur hæfilegar bætur fyrir land undir veg vera kr. 650.000 fyrir hvern hektara. Við mat á bótum sé litið til samninga í sambærilegum málum og upplýsinga um verð á landi við kaup og sölu jarða. Óhjákvæmilegt sé að líta til þess að Reykjavegur hafi legið í landinu í áratugi og nýr vegur liggi að langmestu leyti í núverandi veglínu þannig að um lágmarks rask sé að ræða á svæðinu. Þannig sé svæðið sem eignarnámið beinist að að mestu innan veghelgunarsvæðis núverandi vegar, sbr. 1. mgr. 32. gr. vegalaga nr. 80/2007. Not á landinu hljóti því alltaf að takmarkast af þeirri staðreynd. Þannig ætti framkvæmdin ekki að hafa breytingar á framtíðarnotkun landsins. Í þessu sambandi telur eignarnemi fráleitt það sjónarmið eignarnámsþola að miða verðmæti landsins við verð á lóðum til frístundabyggðar. Sá samanburður standist enga skoðun. Þannig verði heldur ekki séð að fyrirhuguð efnistaka „feli í sér talsverð spjöll  á landi“ og „mikið rask á grónu landi nærri frístundabyggð“ eins og eignarnámsþolar hafi haldið fram.

Landið sé fremur rýrt að gæðum og gróðursnautt. Þá minnir eignarnemi á að við matið beri að taka tillit til þeirra hagsbóta sem landeiganda hlotnist við eignarnámið, sbr. 3. mgr. 39. gr. vegalaga nr. 80/2007. Aðgengi að landi eignarnámsþola og frístundabyggð í landi þeirra verði mun betra en áður. Líklegt sé því að verðmæti þess aukist t.d. við sölu frístundahúsalóða úr því. Í því sambandi megi nefna að með framkvæmdinni sé dregið úr hæðarmun á veginum og þannig komið í veg fyrir snjósöfnun auk þess sem umferðaröryggi aukist. Hljóðmengun verði auk þess minni en áður að frístundahúsabyggð í landinu. Sjónræn áhrif aukist ekki frá því sem nú sé. Verði ekki annað séð en að framkvæmdin sé öllum þeim sem fara um veginn mjög til hagsbóta þ.m.t. eignarnámsþolum og eigendum frístundahúsa í landinu. Allt framangreint styðji það sjónarmið eignarnema að framkomið boð um bætur sé eftir atvikum sanngjarnt og eðlilegt.

Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. vegalaga nr. 80/2007 beri landeiganda að leyfa efnistöku í landi sínu til vegagerðar enda bætist það að fullu. Það eigi hins vegar ekki við hér þar sem óumdeilt sé að ríkissjóður sé eigandi námuréttinda á svæðinu. Til að valda sem minnstu raski sé efnistaka að mestu úr skeringum innan þess svæðis sem krafa um eignarnám taki til. Það eigi þó ekki við svæðið á Torfastaðaheiði milli stöðva 1900 til ca 2150 þar sem nauðsynlegt sé að fara út fyrir 20 metra mörkin. Því svæði hafi að verulegu leyti þegar verið raskað með efnistöku og sýnist hluti svæðisins í seinni tíð hafa verið notaður sem „tippur“. Við ákvörðun um efnistöku miði eignarnemi við að sem minnst röskun verði á svæðinu. Þannig muni eignarnemi einnig sækja efni í námu í landi Syðri Reykja til þess að „dreifa“ efnistöku.

Eins og að framan greini sæki eignarnemi m.a. efni til framkvæmdanna í námu í landi Syðri Reykja. Til þess að komast þangað þurfi eignarnemi að nýta slóða í landi eignarnámþola.. Liggi hann um land sem þegar hafi verið raskað að verulegu leyti. Sá slóði verði lagaður og frá honum gengið að loknum framkvæmdum í samráði við eignarnámsþola. Tjón eignarnámsþola vegna þessa sé því í besta falli óverulegt. Telur eignarnemi sanngjarnt verð fyrir afnot að slóðanum vera kr. 50.000.

Við gerð hinnar nýju tengingar við veg að Tjörn verði u. þ. b. 1,4 hektara spilda lítillega aðgreind frá landi Torfastaða og hafi eignarnemi boðið 500.000 krónur í bætur vegna þessa svo sem fram kemur í matsbeiðni.

Varðandi lagarök að öðru leyti vísar eignarnemi til VII. kafla vegalaga nr. 80/2007 og laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms eftir því sem við á.

SJÓNARMIÐ EIGNARNÁMSÞOLA UM FJÁRHÆÐ BÓTA:

1. Umfang og eignarnámsbætur vegna eignarnáms:

Samkvæmt gögnum málsins sé um að ræða land undir Reykjaveg í landi Torfastaða milli stöðva 0 og 3240. Landið sé 11,02 ha að stærð. Samkvæmt greinargerð eignarnema telji hann að hann sé eigandi núverandi vegar sem nemi 2,75 ha. Þá verði hluta núverandi vegar að stærð 0,6 ha skilað aftur til landeiganda í samræmi við 4. mgr. 39. gr. vegalaga nr. 80/2007. Samtals sé umfang eignarnámsins því 7,67 ha að stærð.

Eignarnámsþolar hafna  því í fyrsta lagi að eignarnemi geti skilað eldra vegstæði, þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 39. gr. vegalaga, enda muni eldri vegur með engu nýtast eignarnámsþolum. Verði því að taka þá tölu inn í útreikning varðandi umfang eignarnámsins og nemur eignarnámið þá 8,27 ha.

Líkt og greinir að framan hafi eignarnemi á öllum þessum tíma einungis boðið eignarnámsþolum 650 þúsund krónur fyrir hvern hektara lands vegna fyrirhugaðs eignarnáms. Engu hafi breytt þótt eignarnámsþoli hafi ítrekað krafist fullra og sanngjarnra bóta og lagt fram samninga þess efnis að lóðaverð sé mun hærra á svæðinu. Hafi eignarnemi ávallt haldið sig við þessa tölu og aldrei hvikað þrátt fyrir almennar verðlagshækkanir og hækkun á lóðaverði.

Eignarnámsþolar leggja nú fram þrjá nýlega kaupsamninga á lóðum úr landi Torfastaða á málskjölum nr. 18 til 20. Í kaupsamningunum komi fram verðmæti lóðanna:

  1. Prestabraut 18. Kaupsamningur dagsettur 10. júlí 2018 á milli eignarnámsþola og FÓ eignarhalds ehf. um kaup á 7.021 fermetra lóð á 3.510.500 krónur. Fermetraverð lóðarinnar sé því 500 krónur og verð per hektara ákveðist því 5 milljónir króna.
  2. Þórðarbraut 2. Kaupsamningur dagsettur 10. júlí 2018 á milli eignarnámsþola og FÓ eignarhalds ehf. um kaup á 5.355 fermetra lóð á 2.661.000 krónur. Fermetraverð lóðarinnar sé því 497 krónur og verð per hektara ákveðist því 4.970.000 krónur.
  3. Guðmundarbraut 5. Kaupsamningur dagsettur í ágúst 2018 á milli eignarnámsþola og Jóhanns Unnars Sigurðssonar og Kristínar Þórsdóttur um kaup á 5.830 fermetra lóð á 2.400.000 krónur. Fermetraverð lóðarinnar sé því 412 krónur og verð per hektara ákveðist því 4.120.000 krónur.

 

Samkvæmt framangreindum kaupsamningum nemi meðaltals fermetraverð því 470 krónum og verð per hektara ákveðist því 4.700.000 krónur. Þá verði að hafa í huga að áætlað fasteignamat fyrir framangreindar eignir fyrir árið 2019 séu sem hér segir:

  1. Prestabraut 18, 7.021 fermetra lóð. Fasteignamat 2019, 1.620.000 krónur. Fermetraverð sé þá ákveðið 230 krónur og verð per hektara ákveðist því 2.300.000 krónur.
  2. Þórðarbraut 2, 5.355 fermetra lóð. Fasteignamat 2019, 1.500.000 krónur. Fermetraverð sé þá ákveðið 280 krónur og verð per hektara ákveðist því 2.800.000 krónur.
  3. Guðmundarbraut 5. 5.830 fermetra lóð. Fasteignamat 2019, 1.535.000 krónur. Fermetraverð sé þá ákveðið 263 krónur og verð per hektara ákveðist því 2.630.000 krónur.

Samkvæmt opinberri skráningu fasteignamats sé meðaltals fermetraverð því 258 krónur og verð per hektara ákveðist því 2.580.000 krónur.

 

Eignarnámsþolar byggja þó á því að notast eigi við markaðsverð við eignarnámið í ljósi 72. gr. stjórnarskrár um að fullt verði eigi að koma fyrir eignarnámið. Benda eignarnámsþolar á að eignarnemi hafi ekki lagt fram fullnægjandi gögn sem sýni að sanngjarnt endurgjald sé 650.000 krónur per hektara. Þvert á móti hafi eignarnemi haldið sig við sömu fjárhæð allt fram til dagsins í dag þrátt fyrir mikla hækkun lóðaverðs á undanförnum árum. Engu breyti þótt annar aðili hafi samið um þessa fjárhæð við eignarnema.

Í greinargerð eignarnema frá 31. ágúst 2018 sé framboðið verð rökstutt með þeim hætti að aðgengi að landi eignarnámsþola og frístundabyggð í landi þeirra verði mun betra en áður og að hljóðmengun muni minnka. Þessu er alfarið hafnað af hálfu eignarnámsþola. Þvert á móti megi búast við því að með tilkomu hins nýja vegar muni umferð um veginn aukast til muna með tilheyrandi hávaða og mengun. Þá sé ljóst að vegurinn verði nær frístundabyggðinni og muni valda eigendum sumarbústaða á svæðinu miklu ónæði. Að auki sé ljóst að sú efnistaka sem reifuð sé hér síðar muni hafa í för með sér mikið sjónlýti fyrir alla íbúa svæðisins, ekki síst eignarnámsþola.

Að mati eignarnámsþola verði að miða við verðmæti þeirra lóða sem liggja í landi Torfastaða og rétt markaðsverð þeirra lóða við mat á eignarnámsbótum til eignarnámsþola. Krafa eignarnámsþola nemi því 38.869.000 króna vegna eignarnáms 8,27 ha lands úr landi Torfastaða. Útreikningur kröfunnar byggist á raunverulegu meðalverði kaupsamninga frá 2018 sem greini að framan. 4.700.000 krónur x 8,27 hektarar.

 

2. Krafa um bætur vegna tímabundins rasks og ónæðis vegna framkvæmdanna og vegna afleiðinga efnistöku.

Samkvæmt áætlun eignarnema muni framkvæmdir vegna hins nýja vegar taka um tvö ár. Miðað við það magn af efni sem eignarnemi hyggist nýta sé ljóst að mikið rask og ónæði verði af framkvæmdinni á framkvæmdartímanum. Þá sé jafnframt ljóst að sú efnistaka sem eignarnemi hyggst framkvæma utan vegstæðisins muni hafa í för með sér stórkostleg spjöllum á landi til lengri tíma.

Eignarnámsþolar krefjist því bóta vegna þessa rasks og ónæðis að fjárhæð ein milljón króna fyrir hvort ár framkvæmdarinnar, eða samanlagt tvær milljónir króna.

 

3. Krafa um bætur vegna fyrir nýtingu á vegslóða í eigu eignarnámsþola.

Samkvæmt gögnum málsins þurfi eignarnemi að nýta vegslóða í landi eignarnámsþola til þess að sækja efni í námu í landi Syðri Reykja. Í greinargerð eignarnema komi fram að slóðinn verði lagaður og frá honum gengið að loknum framkvæmdum. Eignarnámsþolar telji þó að slóðanum verði aldrei komið í sama horf og fyrir framkvæmdirnar og mótmæla að 50 þúsund krónur sé hæfileg fjárhæð vegna þessara afnota. Í raun sé eignarnemi að leigja þetta land undir stórvirkar vinnuvélar á framkvæmdatímanum. Telur eignarnámsþoli að hæfilegar bætur nemi a.m.k. 500.000 krónum vegna þessara afnota.

 

4. Krafa um bætur vegna efnisnotkunar.

Einn af ásetningarsteinum málsmeðferðarinnar sé sú skoðun eignarnema að hann eigi rétt til þess að nýta 92.000 rúmmetra af efni í vegagerðina. Óumdeilt sé að í afsali jarðarinnar frá 15. maí 1998 hafi námuréttindi og réttur til efnistöku, þ.m.t. sand- og malarnám, umfram heimilisþörf verið undanskilin sölunni. Staðreyndin sé hins vegar sú að enn sé um óskipta sameign milli eignarnámsþola og eignarnema að ræða og hafi eignarnemi ekki fengið leyfi eignarnámsþola til nýtingar á því efni.

Þá verði jafnframt að líta til þess að þar sem um óskipta sameign sé að ræða eigi eignarnámsþolar einhverja hlutdeild í þessu efni á meðan sameigninni hafi ekki verið skipt. Sé því eðlilegt að eignarnemi greiði til eignarnámsþola eðlilega hlutdeild í efniskostnaði. Að mati eignarnámsþola sé eðlilegt verð a.m.k. eitt þúsund krónur fyrir rúmmetra af efni. Nemi heildarefniskostnaður því 92 milljónum króna. Að teknu tilliti til eignarréttar eignarnámsþola í hinni óskiptri sameign krefjist eignarnámsþolar bóta fyrir efnistökuna sem nemi 50% af heildarverði, 46 milljóna króna.

 

5. Krafa um kostnað:

Eignarnámsþolar gera að auki kröfu um að þeim verði úrskurðaður málskostnaður úr hendi eignarnema vegna kostnaðar eignarnámsþola í tilefni að aðdraganda eignarnámsins og eignarnámsmálsins, þ.m.t. lögmannsaðstoð og útlagðan kostnað. Við þá ákvörðun sé jafnframt gerð krafa um greiðslu virðisaukaskatts.

Hafa verði í huga að gríðarlega langur aðdragandi hafi verið að eignarnáminu og eignarnemi ekki á neinum tímapunkti sýnt vilja til þess að breyta kröfum sínum eða koma til móts við eignarnámsþola um verðmæti þess lands sem tekið sé eignarnámi. Þá hafi eignarnámsþolar þurft að leita til æðra stjórnvalds til að láta reyna á eignarnámsákvörðun eignarnema. Verði því að taka tillit til allrar þeirrar vinnu sem eignarnámsþolar hafi þurft að greiða fyrir vegna málsins. Yfirlit vegna málskostnaðar var lagt fram við munnlegan flutning málsins fyrir nefndinni.

 

Lagarök:

Vísað er til 65. og 72. gr. stjórnarskrárinnar og hefðbundinna sjónarmiða við verðmat eigna við eignarnám og innlausn. Enn fremur er vísað til laga nr. 11/1973. Málskostnaðarkrafan er reist á 11. gr. laga nr. 11/1973.

 

NIÐURSTAÐA

           Matsnefndin fór á vettvang  20. ágúst sl. ásamt lögmönnum aðila og eignarnámsþolum og kynnti sér aðstæður.

Eignarnámið nær til spildu undir endurbyggingu Reykjavegar.

Tekur það í fyrsta lagi til svæðis milli stöðva 0-3240 sem ágreiningslaust er að tilheyri landi Torfastaða. Heildarflatarmál svæðisins nemur 11,02 hekturum. Fallist er á það með eignarnema að hann sé eigandi 12 metra breiðs vegsvæðis núverandi vegar 6 metra frá miðlínu vegarins til hvorrar handar en það svæði nemur 2,75 hekturum. Þá verða 0,6 hektarar sem er hluti núverandi vegar skilað til eignarnámsþola vegna breyttrar legu nýs vegar. Hin eignarnumda spilda á framangreindu svæði nemur því 7,67 hekturum.

Í öðru lagi beinist eignarnámið að 2.18 hektara spildu sem eignarnámsþolar og eigendur jarðarinnar Vegatungu gera tilkall til sem eignar sinnar.

Í þriðja lagi mun koma til tímabundinna afnota vegslóða um land eignarnámsþola að námu í landi Syðri Reykja.

Í fjórða lagi kemur til rasks og ónæðis vegna umsvifa eignarnema á framkvæmdatímanum.

Í fimmta lagi kemur til  óhagræði sem verður af því að 1,4 hektara skiki er lítillega aðgreindur frá hluta jarðarinnar. 

Við mat þetta verður litið til þess hvert sé líklegt söluverðmæti lands þess sem hér er tekið eignarnámi. Er þá litið til gagna um sölu lands sem nefndinni eru tiltækar og aðilar hafa gert grein fyrir í málatilbúnaði sínum svo og úrskurða nefndarinnar sjálfrar í sambærilegum málum.

Hið metna er í um 100 metra hæð yfir sjávarmáli með samfelldum gróðri. Land þetta er að mestu leyti beitarland og ekki er ræktað land á vegsvæðinu. Ekki verður séð að lagning þessa vegar hafi neikvæð áhrif á sumarbústaðabyggð sem er eða kann að verða í nágrenninu. Kemur þar til að vegurinn verður með jöfnum halla, með bundnu slitlagi og hljóðmengun frá umferð því minni og ryk frá veginum verður hverfandi. Telur nefndin hæfilega metnar bætur fyrir hvern hektara lands vera ákveðið 800.000 krónur. Nema því bætur vegna 7.67 hektara spildu 6.136.000 krónum.

Verð hektara í hinu umdeilda landi sem er 2,18 hektarar þykir sömuleiðis nema 800.000 krónum og bætur vegna þess því hæfilega ákveðnar 1.744.000 krónur sem leggist á geymslureikning.

Bætur fyrir rask vegna framkvæmda þ. m. t. utan vegsvæða almennt svo sem við svonefndan Berjahól þykja hæfilega ákveðnar 1.000.000 króna.

Bætur vegna afnota á vegslóða að efnisnámu í landi Syðri-Reykja þykja hæfilega ákveðnar 200.000 krónur. Svæði það sem slóðinn liggur um hefur verið í vanhirðu og þykir umferð vinnuvéla ekki hafi teljandi skaðleg áhrif á svæðið.

Þá þykja bætur vegna óhagræðis af skiptingu lands vegna tengingar við heimreið að Tjörn vera hæfilega ákveðnar 500.000 krónur eins og eignarnemi hefur boðið.

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að honum verði greitt vegna notkunar efnis á jörðinni við vegagerðina. 

Í afsali Landbúnaðarráðherra til eignarnámsþola frá 15. maí 1998 er svohljóðandi ákvæði: „Námuréttindi og réttur til efnistöku, þ. m. t. sand- og malarnám, og vatns- og jarðhitaréttindi umfram heimilisþörf, ásamt nauðsynlegri aðstöðu til að hagnýta framangreind réttindi, eru undanskilin sölu þessari.“

Af hálfu eignarnámsþola er því haldið fram að enn sé um óskipta sameign milli eignarnámsþola og eignarnema að ræða og hafi eignarnemi ekki fengið leyfi eignarnámsþola til nýtingar á því efninu. Þá verði jafnframt að líta til þess að þar sem um óskipta sameign sé að ræða eigi eignarnámsþolar einhverja hlutdeild í efninu á meðan sameigninni hafi ekki verið skipt. Sé því eðlilegt að eignarnemi greiði til eignarnámsþola eðlilega hlutdeild í efniskostnaði sem nemi helmingi verðmæti þess.

Í málinu liggur fyrir tölvubréf frá Ríkiseignum þar sem segir m. a: „Ríkiseignir (áður Jarðeignir ríkisins) heimila fyrir sitt leyti að efnistaka eigi sér stað á jörðunum Torfastaði og Vegatungu. Ríkið á malarefni á þessum jörðum og rétt á nauðsynlegri aðstöðu til að hagnýta malarréttindin.“

Í afsalinu kemur fram að seljandi hélt eftir réttindum þeim sem hér er fjallað um og er því eigandi þeirra og eins og að framan greinir hefur handhafi þeirra réttinda heimilað eignarnema að nýta þau við vegagerð þá sem er tilefni máls þessa. Heimild til handa eignarnámsþola til hagnýtingar efnis til heimilisþarfa gefur því enga stoð að honum beri endurgjald, ráðstafi eigandi þeirra þeim svo sem hér hefur verið gert. Er því þessari kröfu eignarnámsþola hafnað.

 

Samkvæmt framsögðu þykja eignarnámsbætur í máli þessu til eignarnámsþola hæfilega ákvarðaðar 7.836.000 krónum. Bætur vegna eignarnáms spildu sem eignarnámsþolar og eigendur Vogatungu gera tilkall til þykja hæfilega ákveðnar 1.744.000 krónur.

Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþolum 3.486.105 krónur í málskostnað og tvær milljónir og fjögur hundruð  þúsund krónur í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

             

ÚRSKURÐARORÐ

            Eignarnemi, Vegagerðin, greiði eignarnámsþolum, Drífu Kristjánsdóttur og Ólafi Einarssyni, 7.836.000 krónur og 3.486.105 krónur í málskostnað.

            Bætur vegna eignarnáms á spildu sem eignarnámsþolar og eigendur Vegatungu gera tilkall til ákveðast 1.744.000 krónur sem lagðar skulu á geymslureikning.

Eignarnemi greiði tvær milljónir og fjögur hundruð þúsund krónur í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

                                                                       

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum