Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20um%20uppl%C3%BDsingam%C3%A1l

973/2021. Úrskurður frá 5. febrúar 2021.

Úrskurður

Hinn 5. febrúar 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 973/2021 í máli ÚNU 20110015.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 10. nóvember 2020, kærði A þá ákvörðun prófnefndar um próf til að öðlast réttindi til að vera héraðsdómslögmaður um að synja henni um aðgang að fyrirliggjandi eldri prófum sem lögð voru fyrir á námskeiðum árin 2014 til 2020.

Kærandi fór fram á aðgang að gögnunum með bréfum, dags. 26. október 2020, og var beiðnin ítrekuð með bréfi, dags. 29. október 2020. Formaður prófnefndar tók afstöðu til beiðninnar með bréfi, dags. 29. október 2020, þar sem fram kom að veittur yrði aðgangur að skriflegum verkefnum en synjað um aðgang að munnlegum prófum.

Með tölvupósti, dags. 30. október 2020, óskaði kærandi eftir rökstuðningi vegna þeirrar ákvörðunar prófnefndar að synja um aðgang að munnlegum prófum. Frekari rökstuðningur barst kæranda 2. nóvember 2020.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags.12. nóvember 2020, var prófnefndinni kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn. Umsögn prófnefndar barst með bréfi, dags. 27. nóvember 2020. Í umsögninni er fyrirkomulagi munnlegra prófa lýst og tekið fram að þau próf sem lögð séu fyrir próftaka munnlega séu notuð aftur og aftur og að litið hafi verið svo á að ef verkefnin væru afhent yrði gagnslaust að leggja þau fyrir aftur í bráð. Tekið er fram að ekki séu öll verkefnin undantekningarlaust lögð fyrir í hverju og einu prófi. Í sakamálaréttarfari hafi að jafnaði nær öll verkefnin verið lögð fyrir hverju sinni í stórum dráttum og sama eigi við um próf í skiptastjórn. Verkefni í einkamálaréttarfari hafi verið allmörg og hafi kennarar valið úr þeim flokki verkefna nokkur til prófs hverju sinni, en gert nokkrar breytingar á verkefnunum og því breytt nálgun verkefna frá ári til árs þrátt fyrir að sú atvikalýsing sem verkefni byggi á hafi í stórum dráttum verið svipuð. Haustið 2020 hafi verið farin sú leið að semja algerlega ný verkefni sem gert sé ráð fyrir að notuð verði að nýju. Í ljósi þessa þyki ekki nauðsynlegt að synja um aðgang að eldri verkefnum í einkamálaréttarfari og þyki rétt að veita aðgang að verkefnum sem lögð hafa verið fyrir fram að hausti 2020. Gert sé ráð fyrir að verkefnin sem lögð voru fyrir haustið 2020 verði notuð á ný.

Þá segir í umsögninni að meiri hluti þeirra verkefna sem notast sé við í prófi í skiptastjórn hafi verið notuð í öllum prófum. Þó hafi í áranna rás orðið sú breyting að þrjú verkefni sem lögð voru fyrir í fjórum prófum áranna 2014 og 2015 hafi ekki verið notuð síðan, en frá og með prófum 2016 hafi önnur þrjú komið í þeirra stað. Eitt þeirra teljist að mati prófnefndar svipa svo mikið til nýrra verkefnis að afhending þess myndi draga verulega úr þýðingu þess að leggja nýrra verkefnið fyrir. Hins vegar sé rétt að afhenda hin verkefnin tvö sem ekki hafi verið notuð undanfarin ár.

Umsögn prófnefndar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 1. desember 2020, og kæranda veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

Niðurstaða

Mál þetta varðar beiðni um aðgang að fyrirliggjandi eldri prófum sem lögð voru fyrir í námskeiði til undirbúnings prófs til að öðlast málflutningsréttindi fyrir héraðsdómstólum.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. laganna.

Þrátt fyrir að ekki sé skýrlega vísað til lagagreina má ráða af umsögn prófnefndar til úrskurðarnefndarinnar að synjun nefndarinnar byggi á 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga en þar er fjallað um takmarkanir á aðgangi almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjist vegna fyrirhugaðra ráðstafana eða prófa á vegum hins opinbera ef þau yrðu þýðingarlaus eða skiluðu ekki tilætluðum árangri, væru þau á almannavitorði. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 segir að með prófum sé átt við hvers konar prófraunir sem opinberir aðilar standi fyrir. Augljóst sé að eigi próf að geta gefið óvilhalla niðurstöðu sé nauðsynlegt að halda öllum prófgögnum leyndum áður en próf er þreytt. Takmörkunin er undantekning frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Þá er tekið fram í 2. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna að veita skuli aðgang að gögnum þegar ráðstöfunum og prófum sé að fullu lokið nema aðrar takmarkanir samkvæmt lögunum eigi við.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur í úrskurðarframkvæmd lagt til grundvallar við skýringu á 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga að sé prófi lokið og ekki fyrirhugað að leggja sama próf fyrir aftur í óbreyttri eða nær óbreyttri mynd beri að veita aðgang að því. Vísast um þetta m.a. til úrskurða nefndarinnar nr. 729-731/2018 og 710/2017 og úrskurði nefndarinnar í málum A-160/2003 og A-73/1999 sem kveðnir voru upp í gildistíð eldri upplýsingalaga.

Í úrskurðum nefndarinnar nr. 729-731/2018, 710/2017 og A-73/1999 taldi úrskurðarnefndin ekki heimilt að synja um aðgang að spurningum prófa sem lögð höfðu verið fyrir á grundvelli 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga þar sem ekki lægi fyrir að sömu próf yrðu lögð fyrir aftur. Í úrskurði nefndarinnar í máli nr. A-160/2003 staðfesti úrskurðarnefndin synjun Umhverfisstofnunar á beiðni um aðgang að sex prófverkefnum sem lögð voru til grundvallar á hæfnisprófi veiðimanna á árinu 2002. Í niðurstöðu nefndarinnar segir að sömu spurningar hafi um nokkra hríð verið lagðar fyrir þá sem þreytt hafi prófið og að ætlunin væri að leggja þær fyrir aftur. Eina undantekningin væri sú að tvær spurningar, sem vegi samtals 4% af prófinu í heild, væru til í tveimur útgáfum og væri hvor útgáfa um sig lögð fyrir um það bil helming próftaka hverju sinni.

Í umsögn prófnefndar kemur fram að veita beri aðgang að þeim munnlegu prófum sem ekki sé fyrirhugað að leggja fyrir á nýjan leik og því ekki hætta á að með afhendingu þeirra yrðu síðari próf þýðingarlaus í skilningi 5. tölul. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga. Hins vegar sé ekki unnt að veita aðgang að öðrum munnlegum prófum þar sem sama prófið sé lagt fyrir reglulega og í sumum tilvikum sé ávallt notast við sama prófið. Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér afstöðu prófnefndar og telur í ljósi hennar ekki forsendur til að leggja annað til grundvallar en að stefnt sé að því að leggja umrædd próf í sakamálaréttarfari, skiptastjórn og einkamálaréttarfari fyrir á nýjan leik í óbreyttri mynd. Þrátt fyrir að ekki sé víst að öll prófin verði notuð í öllum prófum sem lögð verða fyrir telur úrskurðarnefndin ljóst að þau séu lögð fyrir með svo reglubundnum hætti að hætta sé á að þau verði þýðingarlaus verði þau afhent, sbr. 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Með vísan til alls framangreinds er það mat nefndarinnar að prófnefndinni sé heimilt að takmarka aðgang að prófunum á grundvelli 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Verður því staðfest ákvörðun prófnefndar um að synja beiðni kæranda um aðgang að gögnunum að undanskildum eldri verkefnum sem ekki sé fyrirhugað að leggja fyrir á nýjan leik og prófnefnd hefur í umsögn sinni fallist á að veita beri aðgang að.

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun prófnefndar að synja kæranda um aðgang að munnlegum prófum sem lögð voru fyrir á námskeiði til öflunar réttinda til að flytja mál fyrir héraðsdómi árin 2014-2020 að undanskildum eldri verkefnum sem ekki sé fyrirhugað að leggja fyrir á nýjan leik og prófnefnd hefur í umsögn sinni fallist á að veita beri aðgang að.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigríður Árnadóttir Símon Sigvaldason








Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum