Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 389/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 22. september 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 389/2022

í stjórnsýslumálum nr. KNU22080033 og KNU22080034

 

Beiðni um frestun réttaráhrifa og endurupptöku í máli [...]

  1. Málsatvik

    Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 423/2021, dags. 9. september 2021, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. febrúar 2021, um að taka umsókn [...], fd. [...], ríkisborgara Palestínu (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa henni frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 27. september 2021. Hinn 4. október 2021 lagði kærandi fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar og var þeirri beiðni synjað með úrskurði kærunefndar 27. október 2021. Hinn 16. desember 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku og var þeirri beiðni synjað með úrskurði kærunefndar 3. febrúar 2022.

    Hinn 24. ágúst 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun framkvæmdar á úrskurði kærunefndar nr. 423/2021 frá 9. september 2021, sbr. lokamálsliður 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 auk beiðni kæranda um endurupptöku málsins með vísan til 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá barst kærunefnd jafnframt beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

    Fallist var á beiðni kæranda um frestun framkvæmdar samkvæmt lokamálslið 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga 26. ágúst 2022 og var það niðurstaða kærunefndar að framkvæmd úrskurðarins yrði frestað þar til kærunefnd hafi afgreitt beiðni kæranda um endurupptöku úrskurðarins.

    Greinargerð kæranda varðandi endurupptöku málsins barst kærunefnd 31. ágúst 2022 ásamt fylgiskjölum. Beiðni kæranda um endurupptöku er líkt og áður segir byggð á 1. mgr. 24. gr. laga um útlendinga.

  2. Málsástæður og rök kæranda

    Kærandi lýsir málsatvikum í greinargerð og greinir m.a. frá því að hún sé þunguð og hafi kynnst barnsföður sínum á íslenskunámskeiði hér á landi. Hann hafi verið ástríkur og hugulsamur í upphafi sambandsins en fljótlega hafi farið að bera á afbrýðissemi sem hafi svo leitt til andlegs og líkamlegs ofbeldis. Kærandi hafi gefist upp á aðstæðum sínum og leitað sér aðstoðar eftir að hún varð ólétt af barni þeirra. Kærandi dvelji í kvennaathvarfinu og fái aðstoð frá bráðaþjónustu geðsviðs Landspítalans. Sem dæmi um hið andlega ofbeldi leggi kærandi fram skjáskot af skilaboðum í gegnum samskiptaforrit. Barnsfaðir kæranda hafi jafnframt komið ítrekað að heimili kæranda og reynt að fá aðgang að íbúð hennar að henni fjarverandi og án hennar samþykkis. Um aðstæður kæranda í Grikklandi vísar kærandi til viðtala hennar hjá Útlendingastofnun og annarra gagna málsins.

    Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24 gr. stjórnsýslulaga um að aðili máls eigi rétt á því að fá mál sitt tekið til meðferðar á ný hafi ákvörðun byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða hafi íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því ákvörðun var tekin.

    Í því samhengi vísar kærandi til þess að atvik hafi breyst verulega í máli hennar. Kærandi sé ólétt og hafi neyðst til að dvelja í kvennaathvarfinu og á bráðamóttöku geðsviðs Landspítalans, þar sem hún sé undir eftirliti fagaðila. Samkvæmt læknisvottorði glími hún við einkenni áfallastreitu og þurfi á áframhaldandi stuðningi fagaðila að halda. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til úrskurða kærunefndar frá 26. mars 2019 nr. 110/2019 og frá 27. september 2018 nr. 393/2018, sem hún telur að hafi fordæmisgildi í máli sínu. Kærandi telur aðstæður sínar sambærilegar aðstæðum kærenda í framangreindum málum. Þá bendir kærandi á að komi til endursendingar hennar til Grikklands hafi hún ekki gilt dvalarleyfi þar í landi þar sem það hafi runnið út 21. júní 2021. Það muni gera kæranda erfiðara en ella að sækja sér þjónustu í Grikklandi. Kærandi sé einstæð og njóti hvorki stuðnings í Grikklandi né heimaríki. Þá óttist kærandi um heilsu sína, verði rof á þeirri þjónustu sem hún njóti nú eða ef henni standi ekki nauðsynleg þjónusta áfram til boða. Með hliðsjón af jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga beri íslenskum stjórnvöldum að taka umsókn hennar um alþjóðlega vernd á Íslandi til efnismeðferðar.

    Kærandi telur jafnframt að kærunefnd útlendingamála hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik þegar nefndin hafi synjað henni um endurupptöku málsins og beri nefndinni því að endurupptaka málið. Því til stuðnings vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar útlendingamála frá 6. júlí 2022 nr. 250/2022. Kærandi hafi, þegar henni hafi verið birt tilkynning um framkvæmd ákvörðunar um frávísun frá Íslandi til Grikklands, skýrlega óskað eftir tækifæri til þess eins að ráðfæra sig við lögmann sinn. Með hliðsjón af ofangreindum úrskurði og jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga sé óskiljanlegt hvers vegna kærunefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu í máli kæranda að vegna skorts á samstarfsvilja kæranda hafi verið ljóst að stoðdeild hafi ekki haft ástæðu til að aðhafast frekar í máli kæranda, s.s. með frekari undirbúningi á flutningi hennar til Grikklands. Kærandi mótmæli þessu harðlega og bendir á að stjórnvöld verði að virða rétt einstaklinga til aðstoðar og þjónustu lögmanna.

    Kærandi vísar til fyrri greinargerða sinna til Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála um þær aðstæður sem bíði hennar í viðtökuríki, verði hún endursend þangað. Líta verði til verulega breyttra aðstæðna sem setja kæranda í viðkvæma stöðu í Grikklandi. Kærunefnd beri að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og leggja fyrir stofnunina að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

    Þá vísar kærandi til þess hún hafi sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi 15. nóvember 2020 og ljóst sé að sá tímafrestur sem síðari málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kveði á um sé liðinn. Kærandi vísar til fyrri greinargerða sinna og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga hvað það varðar.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi 15. desember 2020 og rann því umræddur 12 mánaða frestur út á miðnætti hinn 15. desember 2021. Með vísan til röksemda kæranda um þann þátt málsins er lýtur að meintum töfum hennar á málsmeðferð og m.a. úrskurðar kærunefndar útlendingamála frá 6. júlí 2022 nr. 250/2022 fellst kærunefnd á að skilyrði 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu uppfyllt. Kærandi verður þannig ekki talin hafa tafið mál sitt samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Með hliðsjón af framangreindu verður því ekki talinn vera fyrir hendi grundvöllur fyrir kærunefnd til að ákvarða að tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda hafi verið á hennar ábyrgð, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Af framangreindu leiðir að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er uppfyllt og ber að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar. Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er, að mati kærunefndar, ekki tilefni til umfjöllunar um aðrar málsástæður eða varakröfu kæranda.

Í ljósi framangreinds er því fallist á að atvik hafi breyst verulega í máli kæranda á þann hátt að hún eigi rétt á endurupptöku á máli sínu, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Það er jafnframt niðurstaða kærunefndar að fella ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hennar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 539/2021 var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hafnað. Hefur kærunefnd því áður tekið afstöðu til þeirrar beiðni, en fram kemur í 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga að beiðnin skuli berast innan sjö daga frá birtingu úrskurðar. Af þeim sökum er beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa úrskurðar kærunefndar, nr. 423/2022, vísað frá kærunefnd.


 

Úrskurðarorð:

 

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hennar.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa úrskurðar kærunefndar er vísað frá.

 

 

The appellant‘s request for re-examination of her case is granted.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant‘s application for international protection in Iceland.

The appellant‘s request for suspension of the legal effects of the Appeals Board decision in her case is dismissed.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                 Sandra Hlíf Ocares


 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum