Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20F%C3%A9lags%C3%BEj%C3%B3nusta%20og%20h%C3%BAsn%C3%A6%C3%B0ism%C3%A1l

Mál nr. 172/2022- Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 172/2022

Fimmtudaginn 30. júní 2022

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 28. mars 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Reykjavíkurborgar á umsókn hans um milliflutning í annað félagslegt leiguhúsnæði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um milliflutning úr núverandi félagslegu leiguhúsnæði í annað félagslegt leiguhúsnæði með umsókn, dags. 16. apríl 2020. Umsókn kæranda um milliflutning var samþykkt á biðlista með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 25. maí 2020. Kærandi endurnýjaði umsókn sína 21. maí 2021 og 11. maí 2022.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 28. mars 2022. Með bréfi, dags. 8. apríl 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst úrskurðarnefndinni 6. maí 2022 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. maí 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að framkvæmdir séu hafnar í fjölbýlishúsi í eigu Félagsbústaða í B. Kærandi hafi sem leigjandi óskað eftir því að fá annað húsnæði á meðan á framkvæmdum stæði því að húsnæðið væri með öllu óíbúðarhæft vegna hávaða. Til vara hafi kærandi beðið um niðurfellingu á leigu. Hvoru tveggja hafi verið svarað neitandi.

Kærandi tekur fram að hann sé verkjasjúklingur sem þurfi að sinna endurhæfingu daglega til að geta lifað sómasamlegu lífi. Allur hávaði spenni kæranda upp og valdi verkjum. Kærandi þurfi að sofa átta tíma, að öðrum kosti sé hann með verki allan daginn. Kærandi finni að þegar hann vakni við ofsahávaða byrji líkaminn strax að spennast upp. Til að redda því hafi kærandi þurft að fara út úr húsi og ganga í um 90 mínútur til að ná verkjum niður.

Kærandi sjái fram á mikla verki í tengslum við þessar framkvæmdir. Ekki síst vegna þess að það hafi verið meiriháttar framkvæmdir á næstu lóð í sex ár, höggborar mánuðum saman. Engu að síður segi Félagsbústaðir að þetta sé gert fyrir velferð íbúa. Framkvæmdin snúist um að skipta um þakrennur og laga klæðningu.

Kærandi tekur fram að hluti af endurhæfingu hans sé nám í C. Núna sé kærandi á fimmta ári og æfingarnar og endurhæfingin þyngist. Miðað við núverandi hávaða sjái kærandi ekki fram á að geta gert neinar æfingar.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé X ára gamall karlmaður. Kærandi hafi sótt um milliflutning úr núverandi félagslegu leiguhúsnæði í annað félagslegt leiguhúsnæði með umsókn, dags. 16. apríl 2020, sem hafi verið samþykkt með bréfi þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis, dags. 25. maí 2020. Í framangreindu bréfi hafi komið fram að umsókn kæranda um milliflutning hafi verið metin til þriggja stiga. Kærandi hafi endurnýjað umsókn sína þann 21. maí 2021 og samkvæmt endurmati hafi hann verið metinn til þriggja stiga.

Reykjavíkurborg tekur fram að um félagslegt leiguhúsnæði gildi reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði sem hafi verið samþykktar á fundi velferðarráðs þann 19. janúar 2019 og á fundi borgarráðs þann 27. janúar 2022. Reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði hafi tekið gildi þann 1. júní 2019. Reglur þessar kveði á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum sé skylt að veita. Reglurnar séu settar með stoð í XII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum, 9. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og 4. tölul. 13. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. reglna Reykjavíkurborgar sé almennt félagslegt leiguhúsnæði ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem séu ekki á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa.

Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga skuli sveitarstjórnir, eftir því sem kostur sé og þörf sé á, tryggja framboð af leiguhúsnæði handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Af orðalagi ákvæðisins leiði að þeir einstaklingar, sem uppfylli skilyrði reglna sveitarfélags til að fá almennt félagslegt leiguhúsnæði, kunni að þurfa að bíða í nokkurn tíma eftir því að fá úthlutað slíku húsnæði. Unnið sé að því að útvega kæranda öðru félagslegu leiguhúsnæði en umsóknum um milliflutning úr núverandi félagslegu leiguhúsnæði í annað sé forgangsraðað með hliðsjón af faglegu mati ráðgjafa og úthlutunarteymis ásamt stigagjöf samkvæmt matsviðmiðum, sbr. 4. mgr. 23. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Jafnframt sé tekið mið af þjónustuþörf umsækjanda. Hingað til hafi aðrir umsækjendur verið metnir í meiri þörf fyrir milliflutning heldur en kærandi.

Sveitarfélögum sé tryggður sjálfstjórnarréttur í samræmi við ákvæði 78. gr. stjórnarskrárinnar og í honum felist meðal annars það að sveitarfélög ráði hvernig útgjöldum sé forgangsraðað í samræmi við lagaskyldur og áherslur hverju sinni. Með hliðsjón af þeirri sjálfstjórn sem sveitarfélögum sé veitt, setji þau sér sínar eigin reglur um rétt íbúa á grundvelli laganna. Lögunum sé því einungis ætlað að tryggja rétt fólks en ekki skilgreina hann, enda sé það verkefni hvers sveitarfélags. Einstaklingar geti því ekki gert kröfu um ákveðna, skilyrðis- og tafarlausa þjónustu heldur helgist framboð hennar af því í hvaða mæli sveitarfélagi sé unnt að veita þjónustuna. Í samræmi við framangreint hafi Reykjavíkurborg sett reglur um félagslegt leiguhúsnæði.

Reykjavíkurborg líti svo á að borgin hafi þegar tryggt kæranda félagslegt leiguhúsnæði, sbr. 1. mgr. 45. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Með hliðsjón af framangreindu sé því hafnað að biðtími kæranda eftir milliflutningi úr núverandi leiguhúsnæði í annað félagslegt leiguhúsnæði sé óásættanlegur eða gangi með einhverjum hætti í berhögg við 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Þá sé rétt að geta þess að í samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga hafi ráðgjafi kæranda reglulega upplýst hann í tölvupósti um stöðu umsóknar hans um milliflutning.

Með hliðsjón af framangreindu sé það mat Reykjavíkurborgar að málsmeðferð í máli kæranda hafi verið í samræmi við 9. gr. stjórnsýslulaga og að kærandi hafi verið upplýstur um þær tafir sem hafi orðið á afgreiðslu á máli hans. Ljóst sé að Reykjavíkurborg hafi ekki brotið gegn lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, stjórnsýslulögum eða ákvæðum annarra laga.

IV. Niðurstaða

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála vegna afgreiðslu Reykjavíkurborgar á umsókn hans um milliflutning í annað félagslegt leiguhúsnæði. Kærandi hefur óskað eftir milliflutningi vegna hávaða sem stafar af framkvæmdum í því leiguhúsnæði sem hann býr í. Kærandi sótti um milliflutning með umsókn, dags. 16. apríl 2020. Umsókn kæranda um milliflutning var samþykkt á biðlista með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 25. maí 2020. Kærandi endurnýjaði umsókn sína 21. maí 2021 og 11. maí 2022. Kærandi hefur ekki enn fengið milliflutning og lítur úrskurðarnefndin því svo á að kærður sé dráttur á afgreiðslu málsins, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls.

Í XII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er kveðið á um húsnæðismál. Þar segir í 1. mgr. 45. gr. að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Samkvæmt 46. gr. laganna skulu félagsmálanefndir sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.

Í reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði er kveðið á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita, sbr. XII. kafla laga nr. 40/1991. Í 2. mgr. 2. gr. reglnanna kemur fram að almennt félagslegt leiguhúsnæði sé ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa.

Í 2. mgr. 23. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði kemur fram að heimilt sé að óska eftir milliflutningi þegar þrjú ár eru liðin frá síðustu úthlutun. Umsækjendur um milliflutning geti sótt um undanþágu frá skilyrðinu um þriggja ára búsetu í núverandi félagslegu leiguhúsnæði séu veigamiklar ástæður fyrir flutningi, svo sem alvarlegt heilsuleysi eða mikil vandkvæði bundin við núverandi búsetu. Fullnægi umsækjandi eftir atvikum skilyrðum 4. gr., 7. gr., 11. gr. eða 14. gr. reglnanna raðast umsóknir um milliflutning í forgangsröð með hliðsjón af faglegu mati ráðgjafa og úthlutunarteymis ásamt stigagjöf samkvæmt matsviðmiðum, sbr. 3. mgr. 23. gr. reglnanna. Í 4. mgr. 23. gr. kemur fram að um milliflutninga gildi eftir atvikum þau matsviðmið sem tilgreind séu í fylgiskjölum númer fimm til átta í reglunum. Þá segir í 5. mgr. 23. gr. að umsækjanda skuli tilkynnt skriflega um hvort umsókn hans um milliflutning hafi verið samþykkt á biðlista og hvernig umsókn hans hafi verið metin samkvæmt matsviðmiðum með reglunum. Þá skuli umsækjanda gerð grein fyrir nauðsyn endurnýjunar umsóknar, sbr. 29. gr. reglnanna.

Hvorki í lögum nr. 40/1991 né framangreindum reglum Reykjavíkurborgar er kveðið á um lögbundinn frest til að úthluta öðru félagslegu leiguhúsnæði til þeirra sem uppfylla skilyrði milliflutnings. Að mati úrskurðarnefndarinnar ber því að líta til málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við mat á því hvort afgreiðsla á máli kæranda hefur dregist. Þar kemur fram sú meginregla að ákvarðanir í málum innan stjórnsýslunnar skuli teknar eins fljótt og auðið er. Í ákvæðinu kemur ekki fram hvaða tímafrest stjórnvöld hafa til afgreiðslu mála en af því leiðir að aldrei má vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Með hliðsjón af þessari meginreglu verður að telja að stjórnvöldum sé skylt að haga afgreiðslu þeirra mála sem þau fjalla um í samræmi við þessa meginreglu og gera eðlilegar ráðstafanir til þess að þau séu til lykta leidd af þeirra hálfu eins fljótt og unnt er. Hvað talist getur eðlilegur afgreiðslutími verður að meta í hverju tilviki fyrir sig. Þannig verður að líta til umfangs máls og atvika hverju sinni, auk þess sem mikilvægi ákvörðunar fyrir aðila getur einnig haft þýðingu í þessu sambandi.

Líkt og að framan greinir hefur kærandi verið á biðlista eftir milliflutningi frá 25. maí 2020. Reykjavíkurborg hefur vísað til þess að sveitarfélagið líti svo á að borgin hafi þegar tryggt kæranda leiguhúsnæði í samræmi við 1. mgr. 45. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Unnið sé að því að útvega kæranda annað félagslegt húsnæði en umsóknum um milliflutning sé forgangsraðað með hliðsjón af faglegu mati ráðgjafa og úthlutunarteymis ásamt stigagjöf samkvæmt matsviðmiðum, sbr. 4. mgr. 23. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Jafnframt sé tekið mið af þjónustuþörf umsækjanda. Hingað til hafi aðrir umsækjendur verið metnir í meiri þörf fyrir milliflutning heldur en kærandi. Þá hefur Reykjavíkurborg vísað til þess að ráðgjafar þjónustumiðstöðvar hafi upplýst kæranda um stöðu umsóknar hans um milliflutning. Loks segir í greinargerð Reykjavíkurborgar í máli kæranda nr. 205/2022 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála að kærandi hafi þann 20. maí 2022 verið tilkynnt um úthlutun íbúðar að D en hann hafi hafnað þeirri úthlutun.

Samkvæmt þeim skýringum sem Reykjavíkurborg hefur veitt og gögnum málsins er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að sveitarfélagið hafi unnið í máli kæranda með viðunandi hætti. Líta verður til þess að kærandi er í öruggu húsnæði sem Reykjavíkurborg hefur tryggt honum og að kærandi hefur fengið úthlutað öðru húsnæði sem hann hafnaði. Með vísan til þess er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að afgreiðsla máls kæranda hafi ekki dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin bendir þó á að ef fyrirséð er að á afgreiðslu málsins verði frekari tafir ber sveitarfélaginu að skýra kæranda með reglubundnum hætti frá því og upplýsa um ástæður tafanna og auk þess hvenær ákvörðunar um úthlutun húsnæðis sé að vænta, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ekki er fallist á að afgreiðsla Reykjavíkurborgar í máli A, hafi dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum