Hoppa yfir valmynd
Endurupptökunefnd

Mál nr. 7/2020

Hinn 26. nóvember 2020 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 7/2020:

Beiðni um endurupptöku

héraðsdómsmálsins nr. S-37/2019:

Ákæruvaldið

gegn

Vilhjálmi Stefánssyni

 

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

 

I. Beiðni um endurupptöku

  1. Með erindi, dags. 3. september 2020, fór Vilhjálmur Stefánsson þess á leit að héraðsdómsmál nr. S-37/2019, sem dæmt var í Héraðsdómi Suðurlands 11. apríl 2019, verði endurupptekið.
  2. Þá var þess óskað að Úlfar Guðmundsson lögmaður verði skipaður talsmaður hans, sbr. 1. mgr. 230. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
  3. Með vísan til 54. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Gizur Bergsteinsson, Haukur Örn Birgisson og Hrefna Friðriksdóttir.

    II. Málsatvik

  4. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. S-37/2019, sem kveðinn var upp 11. apríl 2019, var endurupptökubeiðandi sakfelldur fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 4. nóvember 2018 ekið bifreið við verslun Olís á Selfossi, sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna bifreiðinni vegna áhrifa amfetamíns og kókaíns og fyrir að hafa umrætt sinn haft í vörslu sinni 0,96 g af amfetamíni. Háttsemi endurupptökubeiðanda var talin varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a, og 1. mgr. 48. gr. þágildandi umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga og 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2011 með síðari breytingum.
  5. Endurupptökubeiðandi játaði skýlaust brot sitt fyrir dómi og var hann dæmdur til fangelsisvistar í 60 daga en með vísan til dómvenju þótti ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna. Með vísan til 101. gr. og 102. gr. þágildandi umferðarlaga var endurupptökubeiðandi sviptur ökurétti í þrjá mánuði, frá birtingu dómsins að telja. Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 voru gerð upptæk samtals 0,96 g af amfetamíni. Þá var endurupptökubeiðandi dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar.

    III. Grundvöllur beiðni

  6. Endurupptökubeiðandi styður endurupptökubeiðni sína við a-lið 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála.
  7. Þó það komi ekki berum orðum fram í beiðni endurupptökubeiðanda verður beiðni hans ekki skilin á annan veg en að á því sé byggt að fram séu komin ný gögn sem ætla megi að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk. Vísar endurupptökubeiðandi í þessu samhengi til þess að þann 11. júní 2019 hafi Alþingi samþykkt ný umferðarlög nr. 77/2019, sem tóku gildi 1. janúar 2020. Þann 5. júlí 2019, það er þremur mánuðum eftir dómsuppkvaðningu í máli endurupptökubeiðanda, hafi ríkissaksóknari gefið út fyrirmæli RS:3/2019. Í fyrirmælunum komi fram að við gildistöku nýrra umferðarlaga falli niður refsinæmi þess ef ávana- og fíkniefni mælist einungis í þvagi ökumanns. Megi ráða þetta af 1. mgr., sbr. 2. mgr. 50. gr. nýrra umferðarlaga. Refsinæmið muni því einungis miðast við að ávana- og fíkniefni finnist í blóði ökumanns.
  8. Endurupptökubeiðandi vísar til þess að ríkissaksóknari hafi talið rétt, þrátt fyrir að umferðarlög nr. 50/1987 héldu gildi sínu fram til 31. desember 2019, með hliðsjón af breyttu mati löggjafans á refsinæmi þess að ávana- og fíkniefni mældist í þvagi ökumanna, að ákærendur skyldu falla frá saksókn á grundvelli d-liðar 3. mgr. 146. gr. laga um meðferð sakamála, í þeim málum sem svo háttaði til. Vísar endurupptökubeiðandi til þess að ríkissaksóknari hafi talið að sérstakar ástæður mæltu með því að fallið yrði frá saksókn í þessum tilvikum, enda yrði að telja að almannahagsmunir krefðust ekki málshöfðunar.
  9. Endurupptökubeiðandi vísar til þess að ríkissaksóknari hafi af þessum sökum beint þeim fyrirmælum til allra ákærenda að fella niður þau mál sem þá voru til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi og dómstólum þar sem sakarefnið hafi einungis verið það að ávana- og fíkniefni hafi mælst í þvagi. Ríkissaksóknari hafi talið þetta fela það í sér að afturkalla bæri ákærur/ákæruliði í öllum slíkum sakamálum sem voru óafgreidd hjá héraðsdómstólum.
  10. Endurupptökubeiðandi byggir á því að ávana- og fíkniefni hafi einungis mælst í þvagi hans og vísar í því sambandi til staðfestinga úr sýnaskrá í skýrslu Lögreglustjórans á Suðurlandi, dags. 4. nóvember 2018. Að mati endurupptökubeiðanda eru skilyrði endurupptöku uppfyllt þar sem fyrirmæli ríkissaksóknara voru gefin út einungis þremur mánuðum eftir að dómur var kveðinn upp í máli hans. Vegna sanngirnissjónarmiða og þeirrar staðreyndar að refsing endurupptökubeiðanda var honum verulega íþyngjandi telur hann að heimild sé fyrir því að mál hans verði endurupptekið og lögbrot hans heimfært undir 1. mgr., sbr. 2. mgr. 50. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.

    IV. Viðhorf gagnaðila

  11. Í umsögn ríkissaksóknara, dags. 20. október 2020, er vakin athygli á því að á þeim tíma sem dómur í máli endurupptökubeiðanda hafi verið kveðinn upp, hafi ekki legið fyrir breytt mat löggjafans á refsinæmi þess að ávana- og fíkniefni mældust í þvagi ökumanna. Endurupptökubeiðandi hafi því verið réttilega sakfelldur fyrir þá háttsemi að aka bifreið óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna, sem mældust í þvagi hans, sbr. ákvæði 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a þágildandi umferðarlaga.
  12. Ríkissaksóknari telur að ný löggjöf, sem ber með sér breytt mat löggjafans á refsinæmi verknaðar eftir að hann er framinn, eigi ekki að leiða til sýknu í máli sem ódæmt er heldur til þess að refsing falli niður. Vísar ríkissaksóknari í því sambandi til 1. og 2. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og dóms Landsréttar í máli nr. 339/2019.
  13. Ríkissaksóknari telur, með vísan til framangreinds, að endurupptökubeiðandi hafi með dómi Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. S-37/2019 verið réttilega sakfelldur fyrir þau brot sem hann var ákærður fyrir og þegar af þeirri ástæðu séu ekki skilyrði til að verða við beiðni hans um endurupptöku málsins á grundvelli 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála. Ríkissaksóknari telur jafnframt að það geti ekki talist ný gögn í skilningi a-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála að ríkissaksóknari gefi út fyrirmæli á grundvelli lagabreytinga sem eiga sér stað eftir uppkvaðningu dóms og fela í sér að refsiákvæði laga sé fellt niður.
  14. Að lokum vísar ríkissaksóknari til þess að þegar litið sé til sakarferils endurupptökubeiðanda og ríkjandi dómvenju varðandi brot á umferðarlögum verði ekki betur séð en að rétt hafi verið að ákvarða endurupptökubeiðanda fangelsisrefsingu í 60 daga fyrir brot hans gegn 1. mgr. 48. gr. þágildandi umferðarlaga, þ.e. fyrir að aka bifreið sviptur ökurétti. Ökuréttarsvipting sú sem endurupptökubeiðanda hafi verið gert að sæta hafi á hinn bóginn verið tilkomin vegna brots hans gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a þágildandi umferðarlaga.
  15. Endurupptökubeiðanda var gefið færi á að koma á framfæri frekari athugasemdum vegna umsagnar ríkissaksóknara. Var frestur veittur til 20. nóvember 2020 en ekki bárust svör af hálfu endurupptökubeiðanda fyrir þann tíma.

    VI. Niðurstaða

  16. Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXIV. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í 1. mgr. 228. gr. laganna er kveðið á um að hafi héraðsdómur gengið í sakamáli sem ekki hafi verið áfrýjað og áfrýjunarfrestur liðinn geti endurupptökunefnd orðið við beiðni manns um endurupptöku, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, ef einhverju skilyrða í stafliðum a til d 1. mgr. 228. gr. er fullnægt.

    Skilyrði stafliða a til d 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála eru svohljóðandi:

    a.     fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,

    b.    ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,

    c.     verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,

    d.    verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

  17. Til að fallist verði á endurupptöku nægir að eitt af framangreindum skilyrðum sé uppfyllt.
  18. Fyrir liggur í máli þessu að endurupptökubeiðandi var með dómi Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. S-37/2019 sakfelldur fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot. Var háttsemi hans talin varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr. þágildandi umferðarlaga, sbr. 1. mgr. 100. gr. laganna og 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2011. Fyrir dómi játaði endurupptökubeiðandi skýlaust brot sitt og var hann dæmdur til refsingar, sviptingu ökuréttar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
  19. Endurupptökubeiðandi vísar til þess að Alþingi hafi samþykkt ný umferðarlög um tveimur mánuðum eftir að dómur féll í máli hans en með nýju lögunum hafi refsinæmi fallið niður þegar ávana- og fíkniefni mælast einungis í þvagi ökumanns bifreiðar. Í kjölfarið hafi ríkissaksóknari gefið út fyrirmæli þar sem beint var til allra ákærenda að fella niður þau mál sem þá voru til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum þar sem sakarefnið hafi einungis verið það að ávana- og fíkniefni hafi mælst í þvagi. Með vísan til þess að fíkniefni hafi einungis mælst í þvagi en ekki blóði endurupptökubeiðanda, hve stuttur tími leið frá sakfellingu hans þar til ný umferðarlög voru samþykkt og þess að ríkissaksóknari hafi gefið út umrædd fyrirmæli, byggir endurupptökubeiðandi á því að skilyrði séu til þess að endurupptaka málið á grundvelli a-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála.
  20. Svo unnt sé að fallast á endurupptöku sakamáls þarf endurupptökubeiðandi að hafa verið ranglega sakfelldur eða sakfelldur fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, sbr. 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála. Í málinu liggur fyrir að endurupptökubeiðandi játaði skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru og var hann í kjölfarið sakfelldur og dæmdur til refsingar lögum samkvæmt. Óumdeilt er í málinu að háttsemi sú sem endurupptökubeiðandi var sakfelldur fyrir var refsiverð lögum samkvæmt hvort sem litið er til þess tíma þegar brotið var framið, ákæra var gefin út eða dómur var kveðinn upp í málinu. Allt átti þetta sér stað í gildistíð þágildandi umferðarlaga. Það að refsinæmi háttseminnar hafi verið breytt með lögum sem Alþingi samþykkti tveimur mánuðum eftir að dómur féll í máli endurupptökubeiðanda getur engu breytt í þessu sambandi. Eftir stendur að með dómi héraðsdóms var endurupptökubeiðandi sakfelldur fyrir brot sem sannanlega var refsivert á þeim tíma þegar brotið var framið. Þegar af þeirri ástæðu eru ekki lagaskilyrði til að fallast á beiðni um endurupptöku málsins.
  21. Samkvæmt framansögðu verður beiðni endurupptökubeiðanda hafnað.
  22. Við meðferð málsins fyrir nefndinni var Úlfar Guðmundsson lögmaður skipaður til að gæta réttar endurupptökubeiðanda, sbr. 1. mgr. 230. gr. laga um meðferð sakamála. Þóknun hans að fjárhæð 100.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti greiðist úr ríkissjóði, sbr. 4. mgr. 231. gr. sömu laga.

Úrskurðarorð:

Beiðni Vilhjálms Stefánssonar um endurupptöku héraðsdómsmálsins nr. S-37/2019, sem dæmt var í Héraðsdómi Suðurlands 11. apríl 2019, er hafnað.

Þóknun lögmanns endurupptökubeiðanda, Úlfars Guðmundssonar, 100.000 kr., greiðist úr ríkissjóði.

Haukur Örn Birgisson formaður

Gizur Bergsteinsson

Hrefna Friðriksdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum