Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd eignarn%C3%A1msb%C3%B3ta

Matsmál nr. 3/2020, úrskurður 2. júlí 2020

Fimmtudaginn 2. júlí 2020 var í matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 3/2020

RARIK ohf.

gegn

Bjarna Sigjónssyni

og Akurnesbúinu ehf.

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I

Skipan matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta er í máli þessu skipuð Valgerði Sólnes, lektor, formanni, ásamt þeim Gústaf Vífilssyni, verkfræðingi, og Magnúsi Leópoldssyni, löggiltum fasteignasala, sem formaður kvaddi til starfans samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II

Matsbeiðni, eignarnámsheimild, aðilar og matsandlag:

Með matsbeiðni 2. júní 2020 fór RARIK ohf., kt. 520269-2669, Dvergshöfða 2, 110 Reykjavík (hér eftir eignarnemi), þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að hún legði mat á bætur vegna eignarnáms á spildu í landi jarðarinnar Fornustekka 1, landnúmer 159476, og spildu í landi jarðarinnar Akurness, landnúmer 159452, í þágu lagningar hitaveitu fyrir Höfn í Hornafirði og nærliggjandi landsvæði. Með matsbeiðninni var þess einnig farið á leit við matsnefndina að nefndin heimilaði eignarnema að taka umráð þess verðmætis sem taka ætti eignarnámi gegn tryggingu fyrir væntanlegum bótum, sbr. 14. gr. laga nr. 11/1973.

Eignarnámsheimild er í 34. gr. orkulaga nr. 58/1967 og 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003.

Eignarnámsþolar eru annars vegar Bjarni Sigjónsson, [...], þinglýstur eigandi jarðarinnar Fornustekka 1. Hins vegar Akurnesbúið ehf., [...] þinglýstur eigandi jarðarinnar Akurness, en fyrirsvarsmaður eignarnámsþolans er Sveinn Rúnar Ragnarsson, stjórnarformaður, [...].

Matsandlagið samkvæmt matsbeiðni 2. júní 2020 og upplýsingum eignarnema 1. júlí sama ár er nánar tiltekið:

  1. Landspilda í vegöxl í landi Fornustekka 1, einn meter á breidd og 273 metrar á lengd, ásamt tímabundnum afnotum af samtals 0,5460 hektara spildu (samtals 20 metra breiðri spildu beggja vegna þess staðar þar sem stofnpípa hitaveitu kemur í jörð).
  2. Landspilda í vegöxl í landi Akurness, einn meter á breidd og 573 metrar á lengd, ásamt tímabundnum afnotum af samtals 1,146 hektara spildu (samtals s20 metra breiðri spildu beggja vegna þess staðar þar sem stofnpípa hitaveitu kemur í jörð).

III

Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir þriðjudaginn 16. júní 2020. Eignarnemi lagði fram matsbeiðni ásamt sjö tölusettum fylgiskjölum, auk drónamynda af vettvangi á tölvutæku formi. Matsnefndin lagði fram afrit boðunarbréfs. Ákveðið var að bíða með ákvörðun um hvort þörf væri vettvangsathugunar í málinu, þá eftir atvikum að teknu tilliti til drónamynda af vettvangi sem lagðar voru fram af hálfu eignarnema, en eignarnemi taldi ekki sérstaka þörf á vettvangsathugun. Eignarnámsþola var veittur frestur til að taka afstöðu til þessa. Þá var þess farið á leit við málsaðila að þeir skiluðu til matsnefndarinnar athugasemdum um hvort skilyrði stæðu til umráðatöku samkvæmt fyrsta málslið 1. mgr. 14. gr. laga nr 11/1973 á grundvelli fram kominnar beiðni eignarnema þar að lútandi. Loks vakti eignarnámsþoli athygli á því að hann hefði í hyggju að höfða dómsmál til ógildingar ákvörðunar ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra 27. maí 2020 um eignarnám.

Með tölvubréfi 18. júní 2020 fór eignarnámsþoli þess á leit við matsnefndina að gengið yrði á vettvang.

Fimmtudaginn 25. júní 2020 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Þá var málsaðilum gefinn frestur til að leggja fram greinargerð.

Með tölvubréfi 30. júní 2020 var þess farið á leit við eignarnema að hann veitti matsnefnd nánari skýringar á matsandlaginu eins og það er afmarkað í matsbeiðni eignarnema 2. júní 2020. Með tölvubréfi 1. júlí sama ár bárust nefndinni umbeðnar upplýsingar.

Fimmtudaginn 2. júlí 2020 var málið tekið fyrir af matsnefndinni. Nefndin lagði fram afrit fundargerðar vegna fyrirtöku 16. júní 2020 og vettvangsgöngu 26. sama mánaðar. Þá höfðu matsnefndinni borist til framlagningar athugasemdir eignarnema 29. júní 2020 og athugasemdir eignarnámsþola sama dag ásamt einu tölusettu fylgiskjali. Voru skjöl þessi lögð fram. Þá var málið tekið til úrskurðar að því er varðar kröfu eignarnema um undanfarandi umráðatöku.

IV

Sjónarmið eignarnema:

Að því er varðar kröfu eignarnema þess efnis að matsnefnd eignarnámsbóta heimili honum að taka umráð þeirra landspildna eignarnámsþola, sem taka á eignarnámi, gegn tryggingu fyrir væntanlegum bótum, sbr. 14. gr. laga nr. 11/1973, skírskotar eignarnemi til þess að markmið framkvæmdarinnar um lagningar hitaveitu fyrir Höfn í Hornafirði og nærliggjandi svæði sé það að tryggja hitaveitu á landsvæðinu, svo og að aðgengi að hitaveitu hafi verið talið hluti af orkuöryggi og almannahagsmunum á landsvísu. Telur eignarnemi að lagaskilyrði standi til þess að verða við beiðni hans um að neyta heimildar 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973 enda sé honum vegna tíma, aðstæðna og af sérstökum ástæðum brýn nauðsyn á að fá eins fljótt og unnt er umráð hins eignarnumda verðmætis, svo og að honum yrði verulegt óhagræði af því að bíða eftir ákvörðun bóta.

Eignarnemi vísar til þess að í ákvörðun ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra 27. maí 2020 um eignarnám hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að eignarnemi hafi sem hitaveita sveitarfélags í merkingu 34. gr. orkulaga tekist á hendur ákveðnar skyldur, um hagkvæma og örugga hitaveitu, gagnvart íbúum innan hitaveitusvæðisins. Tiltekur eignarnemi að hagsmunir hans af því að hefja framkvæmdir hið fyrsta séu brýnir, til þess að honum sé mögulegt að sinna áðurgreindri skyldu og tryggja aðgengi að hitaveitu á svæðinu. Liggi því bæði fyrir almannahagsmunir og almannaöryggi og að eignarnámið sé nauðsynleg forsenda framkvæmdarinnar og sé því uppfylltur áskilnaður 72. gr. stjórnarskrárinnar um almenningsþörf. Framkvæmdin muni tryggja grunninnviði sem rík almenningsþörf standi til og fari sú almenningsþörf saman við þá sérstöku hagsmuni eignarnema af að fá umráð hins eignarnumda verðmætis eins fljótt og unnt er.

Eignarnemi tiltekur að sérstakir hagsmunir hans af að geta hafið framkvæmdir hið fyrsta séu jafnframt brýnir í ljósi aðstæðna og tafarlaus umráðataka sé því nauðsynleg. Eignarnemi bendir á að seinkun framkvæmdarinnar um lagningu hitaveitunnar myndi gera þær mun óhagkvæmari en gengið hefði verið út frá í upphafi. Þannig hafi framkvæmdum við útlagningu og suðu þegar verið hætt og verktakinn vinni nú að öðrum verkefnum sem brátt ljúki. Ef vinnan tefjist frekar, þannig að ekki verði hægt að leggja hitaveitupípu um landspildur eignarnámsþola á næstu vikum, frestist það að unnt sé að tengja íbúa á Höfn við hitaveituna frá Hoffelli fram á næsta vetur sem muni valda auknum tilkostnaði við jarðvinnuframkvæmdir og þar af leiðandi augljósu tjóni fyrir eignarnema. Þá kunni tafirnar einnig að valda frestun fram á næsta sumar, íbúum Hafnar til bersýnilegs ama og jafnvel tjóns. Sé þannig brýnt fyrir eignarnema og íbúa svæðisins að framkvæmdum ljúki fyrir veturinn. Í því samhengi bendir eigarnemi á að framkvæmdirnar séu nú þegar langt komnar, enda hafi verið samið við 20 af 22 landeigendum á svæðinu og því hægt að leggja pípuna og ljúka framkvæmdum á þeim svæðum. Varlega áætlað sé búið að ljúka suðu að langmestu leyti og um 80% þess verks sé lokið, auk þess sem búið sé að leggja pípuna í jörð á um 40% hluta leiðarinnar, eða að svo miklu leyti sem hagkvæmt sé miðað við aðstæður. Sé því ljóst að framkvæmdirnar séu vel á veg komnar með tilheyrandi tilkostnaði. Í ljósi legu lagnarinnar um lönd eignarnámsþola sé á hinn bóginn ómögulegt að halda verkinu áfram því löndin slíti leið pípunnar í sundur og hafi vettvangsganga matsnefndar 25. júní 2020 sýnt þetta með glöggum hætti. Liggi því fyrir að ekki sé hægt að halda framkvæmdum áfram eins og sakir standi með tilheyrandi tjóni og séu því tafarlaus umráð eignarnema nauðsynleg í ljósi aðstæðna. Áréttar eignarnemi að frekari seinkun framkvæmda valdi einnig íbúum svæðisins óhjákvæmilega verulegum óþægindum og valdi því að framkvæmdin verði mun óhagkvæmari en gengið hafi verið út frá í upphafi, með tilheyrandi tjóni fyrir eignarnema og íbúa. Þá bendir eignarnema á að verktakinn kunni að eiga bótakröfu á hendur verkkaupa, það er eignarnema, svo og að fjárfestingar sem lagt hafi verið í nýtist ekki með tilheyrandi fjárhagstjóni fyrir eignarnema og viðskiptavini hitaveitunnar á Höfn. Að mati eignarnema kalli þessar sérstöku aðstæður á tafarlaus umráð.

Af þessum ástæðum fer eignarnemi þess á leit við matsnefndina að hún heimili umráðatöku gegn tryggingu á grundvelli 14. gr. laga nr. 11/1973. Vísar eignarnemi í því samhengi til þess að framkvæmdin feli í sér uppbyggingu á hitaveitu á landsvæðinu, sem mikil þörf sé á, til að tryggja aðgang svæðisins að öruggri og hagkvæmri hitaveitu.

Eignarnemi bendir á að ekki hafi verið hægt að velja hitaveitulögninni aðra leið en um landspildur eignarnámsþola, án þess að skerða möguleika íbúa í Nesjum á því að geta átt möguleika á að tengjast hitaveitu og eiga þannig kost á hagkvæmum og vistvænum húshitunarmöguleika til framtíðar. Fyrir liggi að aðrir kostir hafi verið ítarlega athugaðir.

Eignarnemi bendir einnig á að samningar hafi eins og áður greinir tekist við 20 af 22 landeigendum á svæðinu og að reynt hafi verið til þrautar að ná samningum við eignarnámsþola, án árangurs, svo sem staðfest hafi verið í eignarnámsákvörðun ráðherra. Um sé að ræða eignarnám á takmörkuðum og afmörkuðum réttindum sem eignarnámsþolar láti af hendi til jafns við aðra í sambærilegri stöðu, það er hina landeigendurna 20. Hafi eignarnemi og samfélagið í heild mun meiri hagsmuni af því að framkvæmdin getið haldið áfram óslitið en eignarnámsþolar af því að umráðataka bíði ákvörðunar um bætur. Þá verði að líta til þess að umráðatakan raski ekki að neinu leyti hagsmunum eignarnámsþola, því landspildur þeirra á veghelgunarsvæðinu muni líta eins út fyrir og eftir framkvæmdirnar. Sé þess gætt að skurðurinn sé eins fyrirferðalítill og kostur er og sáð sé í sárið þegar skurðinum hafi verið lokað, í því skyni að tryggja að jarðvegurinn grói eins fljótt og unnt er. Sé þess vel gætt að gengið sé eins vel um svæðið og hægt er meðan á framkvæmdum stendur og við frágang að þeim loknum.

Þá áréttar eignarnemi að sú almenningsþörf, sem samkvæmt áðurgreindu standi til framkvæmdarinnar, fari hér saman við þá sérstöku hagsmuni eignarnema af að fá þegar umráð hins eignarnumda verðmætis.

Loks bendir eignarnemi á að hitaveitulögnin sem um ræðir og grafin verður í veghelgunarsvæði fyrir landi eignarnámsþola verði öll neðanjarðar. Yfirborð svæðisins þar sem lögnin verður grafin verður frágengin þannig að það verði eins eða sem líkast því sem það er fyrir gröft lagnarinnar. Raski umráðataka eignarnema því ekki hagsmunum eignarnámsþola.

V

Sjónarmið eignarnámsþola:

Eignarnámsþolar krefjast þess að hafnað verði kröfu eignarnema um umráðatöku landspildna þeirra og að tekið verði tillit til þessa hluta málsins við endanlega ákvörðun um málskostnað til handa eignarnámsþola.

Eignarnámsþolar vísa til þess að samkvæmt meginreglu 13. gr. laga nr. 11/1973 skuli umráðataka fara fram þegar mat matsnefndar liggur fyrir og bætur hafa verið greiddar. Í 1. mgr. 14. gr. sömu laga sé mælt fyrir um undantekningu frá meginreglunni, þar sem segir að matsnefnd geti heimilað eignarnema að taka umráð verðmætis, og ráðast í þær framkvæmdir, sem séu tilefni eignarnámsins, þótt mati sé ekki lokið. Þá halda eignarnámsþolar því fram að samkvæmt 2. mgr. sömu greinar þurfi annað af tvennu að vera uppfyllt; annað hvort að vandkvæði séu á að ákveða bætur fyrirfram eða að mat sé að öðru leyti vandasamt. Skýra verði þessa undantekningarreglu þröngt eða í öllu falli samkvæmt orðanna hljóðan.

Telja eignarámsþolar að í matsbeiðni eignarnema sé í engu vikið að því hvernig áðurgreind lagaskilyrði séu uppfyllt í málinu og að rök eignarnema varði í grundvallaratriðum það að um þýðingarmikla framkvæmd sé að ræða sem geti frestast ef málið taki lengri tíma. Telja eignarnámsþolar að þessi rök hafi ekkert með þau atriði að gera sem tiltekin séu í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973. (Aths. ENÞ, 1) Vísa eignarnámsþolar til dóms Hæstaréttar 13. maí 2015 í máli nr. 53/2015 og þess að málsatvik hér séu um margt sambærileg og í tilvitnuðum dómi. Nánar tiltekið telja eignarnámsþolar að eignarnemi hafi ekki leitt að því sjálfstæð rök hví þörf sé á umráðatöku umfram það sem hann hafi þegar rökstutt í beiðnum sínum til ráðherra fyrir eignarnáminu sjálfu, ásamt því að fullyrðingar eignarnema um að brýnt sé að fá umráðin sem fyrst séu jafn almennar og fullyrðingar eignarnema í dómi Hæstaréttar. Engin gögn hafi verið lögð fram því til stuðnings að seinkun framkvæmda myndi gera þær óhagkvæmari en gengið hafi verið út frá í upphafi, svo sem eignarnemi hefur haldið fram, og fullyrðingar um aukinn kostnað séu ósannaðar. Þá sé vandséð hvernig framkvæmdirnar muni tefjast fram á næsta sumar þótt beðið yrði niðurstöðu matsnefndar. Nefna eignarnámsþolar í því samhengi að í matsbeiðni sé af hálfu eignarnema tiltekið að tafir valdi „hugsanlega“ frestun fram á næsta sumar og að verktakinn kunni „hugsanlega“ að eiga bótakröfu á hendur verkkaupa. Með hliðsjón af tilvitnuðum dómi Hæstaréttar sé rökstuðningur eignarnema ófullnægjandi og að almennar og órökstuddar fullyrðingar geti ekki valdið því að eignir séu teknar af mönnum áður en bætur séu ákvarðaðar og greiddar.

Eignarnámsþolar benda á að seinagangur í málinu sé ekki á þeirra ábyrgð. Eignarnemi hafi litið svo á að samningaviðræður hafi verið fullreyndar 13. maí 2019 en ekki óskað eftir eignarnámi fyrr en með bréfi til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis 26. ágúst sama ár, eða um þremur og hálfum mánuði síðar. Ferlið hjá ráðuneytinu hafi tekið níu mánuði og ekki verði ráðið af gögnum málsins að eignarnemi hafi þrýst á ráðuneytið um niðurstöðu í málinu. Árstöf sé því á ábyrgð annarra en eignarnámsþola og hljóti að benda til þess að fullyrðingar eignarnema um brýna þörf séu ýktar.

Loks er vakin athygli á að eignarnámsþolinn Akurnesbúið ehf. hafi tekið ákvörðun um að höfða mál til ógildingar á eignarnáminu og af drögum að stefnu í málinu, sem lögð hafi verið fyrir matsnefnd, verði ráðið að málatilbúnaðurinn sé málefnalegur og verði ekki augljóslega vísað á bug af dómstólum. Séu í stefnunni færð frambærileg rök fyrir því að eignarnemi hafi ekki reynt samningaleið til þrautar og að eignarnámsþolinn telji að samkomulag hafi í raun verið í höfn í lok maí 2019. Þrátt fyrir þetta hafi eignarnemi ákveðið að slíta viðræðunum einhliða og óskað eftir eignarnámi þremur og hálfum mánuði síðar. Eignarnámsþolinn telur að hvað sem öðru líði muni þetta leiða til þess að eignarnemi muni ekki fá umráð umdeilda svæðisins því dómstólar muni koma til með að hafna kröfu um beina aðför þess efnis og vísar í því samhengi til dóms Hæstaréttar 8. apríl 2016 í máli nr. 202/2006. Það hljóti að hafa áhrif við mat nefndarinnar á því hvort skilyrði 14. gr. laga nr. 11/1973 séu fyrir hendi varðandi landspildu eignarnámsþolans Akurnesbúsins ehf.

VI

Niðurstaða matsnefndar:

Eignarnám á landspildum eignarnámsþola er til komið á grundvelli 34. gr. orkulaga og 23. gr. raforkulaga í þágu framkvæmda við lagningu hitaveitu fyrir Höfn í Hornafirði og nærliggjandi landsvæði. Tekur framkvæmdin nánar tiltekið til lagningar stofnpípu hitaveitu og nauðsynlegra samskiptalagna milli dælustöðva, samhliða lagningu jarðstrengs fyrir rafmagn (háspennulínu). Þar er farið um land 22 jarða, þ. á m. jarðir eignarnámsþola, frá Hoffelli allt til dælustöðvar í þéttbýli á Höfn. Jarðir eignarnámsþola, Fornustekkar og Akurnes, liggja austan Hornafjarðarfljóts í þessari röð frá norðvestri til suðausturs samsíða þjóðvegi, Hringvegi. Samningar munu hafa tekist við aðra landeigendur en eignarnámsþola. Framkvæmdin varðar lagningu 250 millimetra málmpípu, sem er 400 millimetrar í þvermál með einangrun, og lögð er neðanjarðar yfirleitt á um 1,1 metra dýpt nema sérstakar aðstæður krefjist þess að farið sé dýpra. Eignarnámið beinist nánar tiltekið að tveimur spildum fyrir landi eignarnámsþola sem liggja samsíða þjóðvegi, í jaðri vegaxlar vegarins, fjóra metra frá girðingum eignarnámsþola. Á framkvæmdatíma áskilur eignarnemi sér tímabundin afnot af samtals 20 metra breiðri spildu, beggja vegna þess staðar þar sem stofnpípa hitaveitu kemur í jörð, þó þannig að áréttað er af hálfu eignarnema að hér sé um áætlað vinnusvæði að ræða og að svæðið þar sem stofnpípa ásamt jarðstreng muni liggja verði innan við meter á breidd. Af fyrirliggjandi gögnum málsins verður ráðið að framkvæmdinni sé ætlað að tryggja íbúum á svæðinu aðgang að heitu vatni og að þeir hafi til þessa ekki getað reitt sig á hefðbundna hitaveitu (jarðvarmaveitu), heldur hafi fjarvarmaveita verið til staðar í þéttbýli á Höfn og kyndistöð fyrir dreifbýli Hornafjarðar, en kyndistöðin nýtir ótryggða raforku til upphitunar á vatni og olíu til vara. Þá kemur fram í gögnunum að leið stofnpípunnar um landsvæðið hafi verið valin á þann veg að þar sem kostur er fari hún um veghelgunarsvæði Vegagerðarinnar milli vegaxlar og girðingar landeigenda, og háttar svo til þar sem í hlut eiga spildur eignarnámsþola í landi Fornustekka og Akurness sem sæta eignarnámi. Frávik frá þessu á lagnaleiðinni verði rakin til þeirrar viðleitni eignarnema að sem flestir íbúar á lagnaleið geti fengið notið tengingar við hina nýju hitaveitu.

Í þessum þætti málsins kemur til úrlausnar matsnefndar sú krafa eignarnema að nefndin heimili honum að taka umráð matsandlagsins, tvær spildur eignarnámsþola í landi jarðanna Fornustekka og Akurness, gegn tryggingu fyrir væntanlegum bótum, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973.

Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 segir að matsnefnd eignarnámsbóta skeri úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms. Í fyrsta málslið 1. mgr. 10. gr. sömu laga segir að matsnefnd skuli kveða upp úrskurð um fjárhæð eignarnámsbóta til eignarnámsþola. Í fyrsta málslið 13. gr. laganna segir að þegar mat liggur fyrir, geti eignarnemi tekið umráð eignarnumins verðmætis gegn greiðslu matsfjárhæðar og kostnaðar af mati. Í öðrum málslið sömu greinar segir að eignarnema sé rétt að leita aðfarargerðar án undangengins dóms eða sáttar í þessu skyni. Frá fyrirmælum síðastgreinds ákvæðis er vikið í fyrsta málslið 1. mgr. 14. gr. laganna, þar sem segir að þótt mati sé ekki lokið geti matsnefnd heimilað eignarnema að taka umráð verðmætis, sem taka eigi eignarnámi, og ráðast í þær framkvæmdir sem séu tilefni eignarnámsins. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laganna er matsnefnd einnig heimilt að heimila eignarnema að taka umráð verðmætis, sem taka á eignarnámi, og ráðast í þær framkvæmdir sem eru tilefni eignarnámsins þótt mati sé ekki lokið. Þar sem 14. gr. laganna á í hlut gildir þá það sama, um að eignarnema sé rétt að leita aðfarargerðar í þessu skyni, þegar umráðataka hefur verið heimiluð gegn tryggingu, ef tryggingar hefur verið krafist, sbr. lokamálslið 13. gr. laganna. Má enda gera aðför til fullnustu kröfum samkvæmt úrskurðum yfirvalda sem eru aðfararhæfir samkvæmt fyrirmælum laga, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

Hæstiréttur hefur tekið afstöðu til undanfarandi umráðatöku samkvæmt heimildum 14. gr. laga nr. 11/1973, sbr. dóm réttarins 13. maí 2015 í máli nr. 53/2015. Þar segir meðal annars að af orðalagi ákvæðisins og lögskýringargögnum leiði að við það sé miðað að þessarar heimildar sé fyrst og fremst neytt þegar eignarnema sé tímans vegna af sérstökum ástæðum mikil nauðsyn á að fá fljótt umráð eignarnumins verðmætis og honum yrði verulegt óhagræði af því að bíða eftir ákvörðun bóta. Samkvæmt þessu sé ljóst að hagsmunir eignarnema af því almennt séð að fá fljótt umráð hins eignarnumda geta ekki skipt máli þegar metið er hvort skilyrðum 1. mgr. 14. gr. laganna sé fullnægt. Meira þurfi til að koma svo sem sérstakar aðstæður sem geti valdið seinkun framkvæmda eða gert þær óhagkvæmari en gengið hafi verið út frá í upphafi og tengist veðurfari eða öðrum ytri aðstæðum í náttúrunni. Í dómi Hæstaréttar segir einnig meðal annars:

„Eignarnemi sem óskar þess að neyta heimildar samkvæmt 14. gr. laga nr. 11/1973 þarf að beina erindi um slíkt til matsnefndar eignarnámsbóta og færa þar fram rök fyrir því að fullnægt sé lagaskilyrðum til að verða við beiðni hans. Metur nefndin það síðan á grundvelli framkominna gagna hvort lagaskilyrðum sé fullnægt til að verða við beiðninni og ber nefndinni í því sambandi að líta til þess að um undantekningarákvæði er að ræða. Þarf samkvæmt þessu að vera hafið yfir vafa að fullnægt sé þeim skilyrðum sem að lögum eru sett fyrir því að vikið verði frá meginreglu 13. gr. laga nr. 11/1973. Eins og í hinum áfrýjaða dómi greinir nægir eignarnema í þessu sambandi almennt ekki að vísa til þess að eignarnám þjóni almannahagsmunum þannig að fullnægt sé áskilnaði 72. gr. stjórnarskrárinnar um almenningsþörf, heldur verður hann að færa að því rök að tafarlaus umráðataka sé nauðsynleg.“

Framkvæmdir um hitaveitu frá Hoffelli til Hafnar í Hornafirði voru kynntar íbúum á svæðinu árið 2018. Eins og áður greinir fer stofnpípa um land 22 jarða á svæðinu og munu samningar hafa tekist við landeigendur 20 jarða þar af, það er alla nema eignarnámsþola í máli þessu. Verkframkvæmdir um lagningu hitaveitu frá Hoffelli til Hafnar í Hornafirði hófust sumarið 2019, þegar jarðvinna fyrir grunn að dæluhúsi hófst. Samkvæmt fyrirætlunum eignarnema var verktími ráðgerður árin 2018 til 2021. Skyldi undirbúningur og áætlanagerð fara fram 2018 og 2019 og lagning safnpípu og frekari undirbúningur 2019. Á árunum 2019 til 2020 skyldi leggja stofnæð frá Hoffelli að Höfn, reisa dæluhús, stjórnstöð og jöfnunartank í Hoffelli og reisa dælustöð í Stapa. Á árinu 2020 skyldi gera breytingar á kyndistöð og vinna að tengingu dreifbýlis við nýja hitaveitu. Loks skyldi vinna að stækkun á innanbæjarkerfi hitaveitu í þéttbýli á Höfn 2020 til 2021, en sá verkþáttur mun reyndar hafa tafist sökum þess að ekkert tilboð barst í stækkun dreifikerfis og lagningu heimæða á Höfn og í dreifbýli. Eignarnemi ráðgerir enn að hitaveitan taki til starfa síðar á þessu ári og að fyrst um sinn muni 2/3 hlutar húsa á Höfn, sem í dag tengjast fjarvarmaveitu, tengjast nýju hitaveitunni, svo og að íbúar í dreifbýli tengist henni í ár. Nokkrar tafir verði á hinn bóginn á tengingu nýrra notenda við hitaveituna.

Af gögnum málsins verður ráðið að samskipti og samningaviðræður málsaðila hafi staðið yfir frá hausti 2018 fram í maí 2019. Síðustu samskipti aðila áttu sér stað með tölvubréfum í síðastnefndum mánuði, nánar tiltekið dagana 8., 13. og 28. þess mánaðar, án þess að samningar tækjust með þeim. Með bréfi 26. ágúst 2019 beindi eignarnemi beiðni til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis um heimild til eignarnáms vegna lagningar hitaveitunnar. Með ákvörðun ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra 27. maí 2020 var eignarnema, með vísan til 34. gr. orkulaga og 23. gr. raforkulaga, heimilað að framkvæma eignarnám á landspildum eignarnámsþola vegna lagningar stofnpípu hitaveitu ásamt nauðsynlegum samskiptalögnum milli dælustöðva og rafmagns jarðstreng, sem liggja frá Hoffelli að Höfn í Hornafirði, með skírskotun til skýringarmynda og yfirlitskorts í fylgiskjali með eignarnámsbeiðni eignarnema 26. ágúst 2019, og var eignarnámið heimilað til ótímabundinna afnota fyrir eignarnema. Í kjölfarið neytti eignarnemi eignarnámsheimildar sinnar og sendi í því skyni eins og áður greinir beiðni 2. júní 2020 til matsnefndar eignarnámsbóta þess efnis að mat færi fram.

Eignarnemi hefur í málinu fært fram sérstakar röksemdir fyrir því að heimildar 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973, til undanfarandi umráðatöku, skuli neytt í málinu. Samkvæmt fyrirætlunum eignarnema er ráðgert að ný hitaveita í Hornafirði taki til starfa í ár, sem þjóna mun dreifbýli frá Hoffelli til Hafnar og þéttbýli á Höfn. Af hálfu eignarnema er fram komið að ef vinnan tefjist enn frekar en orðið hefur, sökum þess að ekki verði unnt að leggja stofnpípu um lönd eignarnámsþola, þá muni eftir atvikum frestast fram á næsta vetur eða sumar að tengja íbúa á Höfn við hitaveituna frá Hoffelli og af því muni fyrirsjáanlega hljótast óþægindi og tjón fyrir eignarnema og viðskiptavini hitaveitunnar á Höfn, svo sem vegna aukins tilkostnaðar við jarðvinnuframkvæmdir, því að framkvæmdin verði óhagkvæmari en ráðgert hafi verið, því að verktaki kunni að eiga bótakröfu á hendur eignarnema, svo og tapaðra fjárfestinga sem lagt hafi verið í og nýtist ekki. Af gögnum málsins verður jafnframt ráðið að eignarnemi sjálfur hefur hraðað málsmeðferð sinni eftir föngum, bæði til þess tíma að beiðni um eignarnám var beint til ráðherra 26. ágúst 2019 og eftir að sú ákvörðun lá fyrir 27. maí 2020. Matsnefnd eignarnámsbóta fór á vettvang 25. júní 2020 ásamt lögmönnum aðila, eignarnámsþolanum Bjarna Sigjónssyni og fyrirsvarsmönnum eignarnámsþolans Akurnesbúsins ehf. Af þeirri athugun verður ráðið að framkvæmdir um lagningu stofnpípu í þágu hitaveitunnar séu mjög langt komnar beggja vegna landspildna eignarnámsþola. Um stöðu framkvæmdanna hefur eignarnemi upplýst að um 80% af allri suðuvinnu sé lokið, en sú vinna er ráðandi þáttur varðandi verktíma framkvæmda á borð við þessa, svo og að búið sé að leggja stofnpípu í jörð á um 40% hluta leiðarinnar frá Hoffelli til Hafnar. Ekki sé hægt að halda verkinu áfram fyrr en eignarnemi fái umráð spildna eignarnámsþola. Það er álit matsnefndar að röksemdir eignarnema standi til þess að honum sé tímans vegna nauðsyn á að fá fljótt umráð hins eignarnumda lands, til þess að hægt sé að ljúka framkvæmdum við lagningu hitaveitu í sumar og haust, meðan enn viðrar til þess verks, svo unnt sé að taka nýja hitaveitu í notkun á þessu ári, svo og að eignarnema yrði verulegt óhagræði af því að bíða eftir ákvörðun bóta. Standa því lagaskilyrði til þess að heimila eignarnema umráðatöku á landspildum eignarnámsþola samkvæmt undantekningarákvæði 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973, eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Þótt eignarnámsþolinn Akurnesbúið ehf. hafi lýst því yfir að hann hyggist höfða dómsmál til ógildingar á eignarnámsákvörðun ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra 27. maí 2020, getur það að áliti nefndarinnar ekki haft áhrif á að hún taki til greina kröfu eignarnema á grundvelli 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973 við þær aðstæður sem áður var lýst, þar sem framkvæmdir við lagningu hitaveitu eru langt komnar og synjun á beiðni um umráðatöku myndi fyrirsjáanlega valda seinkun framkvæmda og gera þær óhagkvæmari en ella. Hvað dóm Hæstaréttar 8. apríl 2016 í máli nr. 202/2016 varðar, sem eignarnámsþolinn Akurnesbúið ehf. hefur borið við í málinu, er það álit matsnefndar að hann eigi ekki við um atvikin í þessu máli sökum þess að framkvæmdir við lagningu hitaveitu eru eins og áður greinir langt komnar og ljóst er að endanlegrar niðurstöðu dómstóla í því máli, sem eignarnámsþolinn Akurnesbúið ehf. hyggst höfða, er ekki að vænta innan skamms tíma.

Þótt eignarnemi hafi boðist til að setja tryggingu fyrir væntanlegum bótum gegn því að undanfarandi umráðataka yrði heimiluð samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973, hefur krafa um slíkt ekki verið gerð af hálfu eignarnámsþola og verður slík trygging því ekki ákveðin, sbr. síðari málslið 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973.

Eignarnámsþoli hefur ekki haft uppi kröfu um að málskostnaður verði ákveðinn í þessum þætti málsins heldur krafist þess að tekið verði tillit til þessa hluta málsins við endanlega ákvörðun um málskostnað sér til handa. Í fyrsta málslið 11. gr. laga nr. 11/1973 segir að kostnað af starfi matsnefndar skuli greiða úr ríkissjóði en matsnefnd ákveði hverju sinni í úrskurði sínum, þegar ríkið er ekki eignarnemi, hverja greiðslu eignarnemi skuli inna af hendi til ríkissjóðs vegna slíks kostnaðar. Í lokamálslið sömu greinar segir að eignarnemi skuli greiða eignarnámsþola endurgjald vegna þess kostnaðar sem eignarnámsþoli hafi haft af rekstri matsmáls og hæfilegur verði talinn. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. sömu laga skal matsnefnd kveða upp úrskurð um fjárhæð eignarnámsbóta til eignarnámsþola og skal þar meðal annars tiltaka sérstaklega hvern matskostnað eignarnemi eigi að greiða, sbr. 11. gr. laganna. Bíður því ákvörðun um málskostnað til handa eignarnámsþola og kostnað vegna reksturs máls þessa fyrir nefndinni úrskurðar nefndarinnar um fjárhæð eignarnámsbóta til eignarnámsþola.

ÚRSKURÐARORÐ:

Eignarnema, RARIK ohf., er heimiluð umráðataka í landi Fornustekka í Hornafirði, í eigu eignarnámsþolans Bjarna Sigjónssonar, á spildu undir metersbreiða og 273 metra langa hitaveitulögn, ásamt háspennulínu og jarðstreng, í þágu framkvæmdar um lagningu hitaveitu frá Hoffelli til Hafnar í Hornafirði. Þá er eignarnema heimiluð umráðataka í þágu tímabundinna afnota af landi eignarnámsþolans á 0,5460 hektara spildu (samtals 20 metra spildu beggja vegna þess staðar þar sem stofnpípa hitaveitu kemur í jörð).

Eignarnema er heimiluð umráðataka í landi Akurness í Hornafirði, í eigu eignarnámsþolans Akurnesbúsins ehf., á spildu undir metersbreiða og 573 metra langa hitaveitulögn, ásamt háspennulínu og jarðstreng, í þágu sömu framkvæmdar. Þá er eignarnema heimiluð umráðataka í þágu tímabundinna afnota af landi eignarnámsþolans á 1,146 hektara spildu (samtals 20 metra spildu beggja vegna þess staðar þar sem stofnpípa hitaveitu kemur í jörð).


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum