Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Mál nr. 331/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 331/2020

Miðvikudaginn 16. desember 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 1. júlí 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, annars vegar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 24. júní 2020 um að stöðva greiðslur meðlags og mæðralauna afturvirkt frá 1. júlí 2018 og 1. október 2018 og endurkrefja um ofgreiddar greiðslur og hins vegar ákvörðun stofnunarinnar frá 25. júní 2020 um að stöðva greiðslu heimilisuppbótar afturvirkt frá 1. nóvember 2019 og krefjast endurgreiðslu ofgreiddrar heimilisuppbótar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur meðlags með umsókn 7. september 2018 og var hún samþykkt frá 1. maí 2018 með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 2. október 2018. Kærandi sótti um greiðslur mæðralauna með umsókn 18. september 2018 og var hún samþykkt frá 1. október 2018 með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 2. október 2018. Með bréfum Tryggingastofnunar, dags. 15. mars 2019, var kæranda tilkynnt um að greiðslur meðlags og mæðralauna yrðu stöðvaðar á grundvelli þess að hún og barnsfaðir hennar væru skráð með sama lögheimili. Kærandi sótti um framangreindar greiðslur að nýju með umsóknum 5. apríl 2019 og 24. apríl 2019 og voru þær samþykktar með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 10. maí 2019. Kærandi sótti um heimilisuppbót með umsókn 19. nóvember 2019 og var hún samþykkt frá 1. nóvember 2019 með bréfi Tryggingastofnunar, dagsettu sama dag. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 16. mars 2020, var kæranda tilkynnt að á grundvelli breytingar á lögheimili hennar yrði hún að sækja um greiðslu heimilisuppbótar að nýju. Kærandi sótti um áframhaldandi greiðslu heimilisuppbótar með umsókn, dags. 20. mars 2020, og með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 24. mars 2020, voru samþykktar áframhaldandi greiðslur heimilisuppbótar frá 1. maí 2020.

Með bréfi, dags. 25. maí 2020, var kæranda tilkynnt um að við eftirlit hjá Tryggingastofnun hafi vaknað grunsemdir um að hún hafi ekki veitt upplýsingar sem nauðsynlegar væru vegna greiðslna hjá stofnuninni er varði sambúð hennar með barnsföður hennar. Tryggingastofnun hafi upplýsingar um að þau hafi eignast barn í X 2020. Um sé að ræða greiðslur heimilisuppbótar sem séu ætlaðar þeim einstaklingum sem standi einir að heimilisrekstri og greiðslur meðlags sem sé framfærsla barns þegar ekki sé um að ræða sambúð foreldra. Tryggingastofnun óskaði eftir skýringum á framangreindu og tekið var fram að ef hvorki bærust athugasemdir né gögn fyrir 15. júní 2020 yrði ákvörðun um framhald málsins tekin á grundvelli þeirra gagna sem fyrir lægju. Með bréfi, dags. 16. júní 2020, var kæranda tilkynnt um að þar sem engin gögn hefðu borist yrðu greiðslur heimilisuppbótar og meðlags stöðvaðar. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 24. júní 2020, var kæranda tilkynnt um stöðvun greiðslna meðlags frá 1. júlí 2018 og mæðralauna frá 1. október 2018 og um endurgreiðslukröfu að fjárhæð samtals 2.796.726 kr. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 25. júní 2020, var kæranda tilkynnt um stöðvun á greiðslum heimilisuppbótar frá 1. nóvember 2019 og um endurgreiðslukröfu að fjárhæð 379.774. Skýringar bárust frá kæranda með tölvupósti 25. júní 2020. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 26. júní 2020, var kæranda tilkynnt að innsend gögn væru ekki fullnægjandi og fyrri niðurstaða um stöðvun heimilisuppbótar, meðlags og mæðralauna stæði óbreytt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 1. júlí 2020. Með bréfi, dags. 2. júlí 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 31. júlí 2020, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. ágúst 2020. Athugasemdir kæranda bárust með tölvupósti þann 23. september 2020 og voru þær sendar Tryggingastofnun með bréfi, dags. 24. september 2020. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Úrskurðarnefndin leggur þann skilning í kæruna að farið sé fram á að ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um stöðvun á greiðslu heimilisuppbótar annars vegar og stöðvun á milligöngu um meðlag og greiðslna mæðralauna til hennar hins vegar, auk endurgreiðslukrafna, verði felldar úr gildi.

Í kæru segir að kærandi sé X barna einstæð móðir og Tryggingastofnun sé búin að stoppa allar meðlagsgreiðslur, mæðralaun og heimilisuppbót til hennar vegna þess að hún hafi eignast barn með fyrrum sambýlismanni X 2020. Hún hafi átt að skila inn meðlagsákvörðun í miðjum Covid-19 faraldri en hún hafi ekki getað það vegna þess að hún hafi verið heima fyrir [...]. Hún hafi svarað bréfi Tryggingastofnunar og henni hafi verið neitað vegna þess að hún eigi hús með fyrrum sambýlismanni sínum. Það hafi þó farið á sölu 2018 um það leyti sem þau hafi slitið sambúð. Barnsfaðir hennar búi ekki hjá henni og þau séu ekki saman. Hún sé með fullt forræði yfir börnunum X og barnsfaðir hennar sé alkóhólisti. Kærandi hafi þurft að hringja á lögreglu og fengið barnavernd inn á borð til sín vegna hans. Hún sé ekki með honum og henni finnist rangt að Tryggingastofnun taki af henni þessar greiðslur. Sökum Covid-19 hafi þessi tími ekki verið venjulegur og hún hafi ekki getað sýnt vottorð eins og Tryggingastofnun fari fram á.

Í athugasemdum kæranda segir að kærandi sé einstæð með X börn, hún hafi ekki getað sinnt tímamörkum Tryggingastofnunar með umsóknir í apríl og maí vegna Covid-19 þar sem hún hafi verið með X heima. Hún sé búin að gera grein fyrir getnaði sem hafi orðið þegar yngsti sonur hennar hafi komið undir, en barnsfaðir hennar sé veikur maður, með alkóhólisma. Það væri óskandi að hann myndi taka sig á og vera með fjölskyldunni en það sé ekki svo gott, það gangi ekki vel og henni gangi heldur ekki mjög vel að halda börnum sínum uppi á örorku og fái enga styrki með X börn. Hvað varði húsið sem sé til útleigu á Airbnb þá sé það hús sem kærandi og barnsfaðir hennar hafi [...] og sé það til sölu. Kærandi sé ekki kunnug Facebook. Hún og barnsfaðir hennar hafi hætt saman árið 2018.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé stöðvun og endurkrafa á heimilisuppbót frá 1. nóvember 2019, stöðvun á milligöngu og endurkrafa meðlagsgreiðslna frá 1. júlí 2018 og stöðvun og endurkrafa mæðralauna frá 1. október 2018.

Málavextir séu þeir að í kjölfar X barns kæranda X 2020 hafi vaknað grunur hjá Tryggingastofnun um að kærandi væri í sambúð með barnsföður sínum. Við eftirlit Tryggingastofnunar hafi Facebook síður þeirra meðal annars verið skoðaðar þar sem fram hafi komið upplýsingar um að þau hafi verið í sambúð síðan X og á síðu Airbnb þar sem hús þeirra að […], sé til útleigu. Húsið standi á jörðinni X sem sé [...].

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 16. mars 2020, hafi kæranda áður verið tilkynnt um nauðsyn á umsókn um mæðralaun með öllum börnum vegna barnsfæðingar þann X 2020 svo að ekki kæmi til stöðvunar greiðslna frá 1. maí 2020.

Með bréfi eftirlits Tryggingastofnunar, dags. 25. maí 2020, hafi verið óskað eftir upplýsingum frá kæranda vegna gruns um að hún væri í sambúð með barnsföður sínum en fyrir hendi hafi verið upplýsingar um að þau hefðu átt barn saman í X 2020. Tiltekið hafi verið að greiðslur sem um hafi rætt væru heimilisuppbót og meðlag.

Með bréfi eftirlits Tryggingastofnunar, dags. 16. júní 2020, hafi á grundvelli þess að andmælum hefði ekki verið svarað verið tilkynnt að greiðslur heimilisuppbótar og meðlags yrðu stöðvaðar frá 1. júlí 2018, þ.e. 2 ár aftur í tímann.

Með bréfi réttindasviðs Tryggingastofnunar, dags. 24. júní 2020, hafi kæranda verið tilkynnt með vísan til bréfa, dags. 25. maí 2020 og 16. júní 2020, að greiðslur meðlags með þremur eldri börnum kæranda hefðu verið stöðvaðar frá 1. júlí 2018. Við þessa stöðvun hafi myndast ofgreiðsla, kr. 2.436.426, fyrir tímabilið 1. júlí 2018 til 6. mars 2019 og 17. mars 2019 til 30. júní 2020. Einnig hafi greiðslur mæðralauna verið stöðvaðar frá 1. október 2018. Við þá stöðvun hafi myndast ofgreiðsla, kr. 360.300, fyrir tímabilið 1. október 2018 til 30. júní 2020. Samtals hafi því ofgreiðsla vegna meðlags og mæðralauna verið kr. 2.796.726.

Með bréfi réttindasviðs Tryggingastofnunar, dags. 25. júní 2020, hafi kæranda verið tilkynnt, með vísan til bréfa, dags. 25. maí 2020 og 16. júní 2020, að greiðslur heimilisuppbótar hefðu verið stöðvaðar frá 1. nóvember 2019. Við þessa stöðvun hafi myndast ofgreiðsla, kr. 359.774, fyrir tímabilið 1. nóvember 2019 til 30. júní 2020.

Með tölvupósti, dags. 25. júní 2020, hafi kærandi greint frá því að [...] og barnsfaðir hennar sem væri alkóhólisti hefði sýnt á sér sínar bestu hliðar á meðan [...]. Hún hefði haldið að hann væri breyttur maður þá, en í dag væri hún einstæð X barna móðir.

Með bréfi eftirlits Tryggingastofnunar, dags. 26. júní 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að innsend gögn væru ekki fullnægjandi og fyrri niðurstaða um stöðvun heimilisuppbótar, meðlags og mæðralauna stæði.

Greiðslur meðlags og mæðralauna hafi áður verið stöðvaðar með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 15. mars 2019, á grundvelli þess að hún og barnsfaðir hennar hafi verið skráð með sama lögheimili. Þau hafi þá verið bæði skráð að […] frá 7. mars 2019. Lögheimili barnsföður hennar hafi síðan verið flutt að […] frá 18. mars 2019. Greiðslur meðlags og mæðralauna til kæranda hafi verið settar af stað að nýju með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 10. maí 2019.

Greiðslur meðlags og mæðralauna til kæranda hafi upphaflega hafist á árinu 2018 á grundvelli staðfestingar Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á samkomulagi um forsjá og meðlagsgreiðslur, dags. 11. september 2018.

Kærandi hafi sótt um heimilisuppbót með umsókn, dags. 19. nóvember 2019, frá 1. október 2019 og skilað inn leigusamningi um húseignina […], þar sem tilgreindur leigutími hafi verið frá 15. október 2019 til 15. október 2020. Umsóknin hafi verið samþykkt með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 19. nóvember 2019, og hafi verið miðað við að greiðslur hæfust frá 1. nóvember 2019.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 16. mars 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að á grundvelli breytingar á lögheimili hennar, þ.e. flutningi frá […] í X til […] í X þann 1. febrúar 2020, yrði ef óskað væri eftir áframhaldandi greiðslum að berast umsókn um heimilisuppbót og afrit af leigusamningi svo að ekki kæmi til stöðvunar greiðslna frá 1. maí 2020. Kærandi sótti um áframhaldandi heimilisuppbót með umsókn, dags. 20. mars 2020, og fylgdi með leigusamningur, dags. 1. febrúar 2020. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 24. mars 2020, hafi verið samþykktar áframhaldandi greiðslur heimilisuppbótar frá 1. maí 2020.

Báðir leigusamningar, sem kærandi hafi framvísað til Tryggingastofnunar vegna umsóknar um heimilisuppbót, séu vottaðir annars vegar af barnsföður hennar og hins vegar af móður hennar.

Í 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, með síðari breytingum, segi að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skuli gilda þegar lagt sé fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga.

Samkvæmt 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 sé Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Í reglugerð nr. 945/2009, með síðari breytingum, sé kveðið á um framkvæmd Tryggingastofnunar ríkisins á fyrirframgreiðslu meðlags og öðrum framfærsluframlögum samkvæmt meðlagsákvörðun, samkvæmt barnalögum nr. 76/2003, innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar nr. 100/2007 setji. Í 4. tölul. 8. gr. reglugerðarinnar segi að meðlagsgreiðslur skuli falla niður ef meðlagsmóttakandi og meðlagsgreiðandi gangi í hjúskap, hefji sambúð eða séu skráð með sama lögheimili.

Í 16. gr. reglugerðarinnar segi að hafi Tryggingastofnun ofgreitt meðlagsmóttakanda meðlag eða önnur framfærsluframlög eigi stofnunin endurkröfurétt samkvæmt almennum reglum.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða mæðralaun til einstæðra foreldra sem hafi tvö börn eða fleiri á sínu framfæri og séu búsett hjá sér.

Í 55. gr. laga um almannatryggingar segi að hafi Tryggingastofnun ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skuli stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kunni að öðlast rétti til. Einnig eigi Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega samkvæmt almennum reglum. Samkvæmt 13. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 skuli einnig beita þessari grein vegna endurheimtu á ofgreiddum bótum laganna.

Samkvæmt 39. gr. laga um almannatryggingar sé umsækjanda eða greiðsluþega rétt og skylt að taka þátt í meðferð málsins, meðal annars með því að koma til viðtals og veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Þá sé skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur eða greiðslur.

Tryggingastofnun telji að greiðslur heimilisuppbótar, meðlags og mæðralauna hafi réttilega verið stöðvaðar til kæranda á grundvelli upplýsinga um sambúð með barnsföður hennar og hún hafi réttilega verið endurkrafin um þessar greiðslur fyrir þau tímabil sem tilgreind séu hér að ofan, sbr. bréf Tryggingastofnunar til kæranda, dags. 24. og 25. júní 2020.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar annars vegar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 24. júní 2020 um að stöðva greiðslur meðlags og mæðralauna frá 1. júlí 2018 og 1. október 2018 og krefjast endurgreiðslu ofgreiddra bóta og hins vegar ákvörðun stofnunarinnar frá 25. júní 2020 um að stöðva greiðslu heimilisuppbótar frá 1. nóvember 2019 og krefjast endurgreiðslu ofgreiddrar heimilisuppbótar.

A. Mæðralaun og heimilisuppbót

Kveðið er á um heimilisuppbót í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingu, en þar sem segir í 1. mgr.:

„Heimilt er að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem býr einn og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.“

Til þess að eiga rétt á heimilisuppbót þurfa öll skilyrði ákvæðisins að vera uppfyllt, meðal annars skilyrði um að vera einhleypur. Skilgreining á orðinu einhleypur samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók, sem birt er á netinu og unnin hjá orðfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, er að um sé að ræða einstakling sem sé hvorki í sambúð né í hjónabandi.

Um mæðralaun er fjallað í 2. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 2. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða mæðra- og  feðralaun til einstæðra foreldra sem hafa börn sín undir 18 ára aldri á framfæri og eru búsett hér á landi. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um greiðslu mæðra- og feðralauna. [...]“

Í 3. mgr. ákvæðisins segir:

„Mæðra- og feðralaun falla niður einu ári eftir að viðtakandi launanna skráir sig í þjóðskrá í óvígða sambúð með öðrum en foreldri barnsins eða barnanna, sbr. 49. gr. laga um almannatryggingar. Nú skráir viðtakandi launanna sig í óvígða sambúð með foreldri barnsins eða barnanna, fyrrverandi sambýlisaðila eða gengur í hjúskap og falla þá launin strax niður.“

Í 6. gr. reglugerðar nr. 540/2002 um mæðra- og feðralaun er tiltekið að greiðslur mæðra- og feðralauna stöðvist í lok þess mánaðar sem skilyrði fyrir greiðslum eru ekki lengur uppfyllt. Í 7. gr. reglugerðarinnar er tiltekið að greiðslur stöðvist í lok þess mánaðar sem einstætt foreldri gengur í hjúskap, hefur óvígða sambúð eða staðfesta samvist við fyrri sambýlisaðila eða foreldri þeirra barna sem greitt er vegna.

Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda lög nr. 100/2007 um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Þá segir í 2. málsl. 13. gr. laga um félagslega aðstoð að beita skuli V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna.

Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 39. gr. laga um almannatryggingar, sem er í V. kafla laganna, er greiðsluþega skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Um eftirlit og viðurlög er fjallað í 45. gr. laganna sem er jafnframt í V. kafla laganna. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal Tryggingastofnun reglubundið sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggist á. Einnig segir í 2. mgr. 45. gr. að grundvöll bótaréttar megi endurskoða hvenær sem er og samræma betur þeim breytingum sem orðið hafi á aðstæðum greiðsluþega. Þá segir í 2. málsl. 3. mgr. ákvæðisins að um ofgreiðslur og vangreiðslur fari samkvæmt 55. gr. Ákvæði 1. mgr. 55. gr. laganna hljóðar svo:

„Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“

Fyrir liggur að Tryggingastofnun stöðvaði greiðslur mæðralauna og heimilisuppbótar til kæranda á þeim grundvelli að hún væri í sambúð með barnsföður sínum. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af framangreindum lagaákvæðum að kærandi uppfyllir ekki skilyrði fyrir umræddum greiðslum ef hún er í slíkri sambúð.

Í gögnum málsins liggur fyrir endurrit úr sifjamálabók Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 20. ágúst 2018 þar sem fram kemur að til sambúðar hafi verið stofnað X og samvistarslit hafi orðið 1. maí 2018. Einnig segir að kærandi kveði barnsföður sinn vera í neyslu og hann fái ekki að umgangast börnin fyrr en hann hafi tekið sig á. Þá liggur fyrir staðfesting Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á samkomulagi um forsjá og meðlag, dags. 11. september 2018, þar sem fram kemur að sambúð hafi verið slitið 1. maí 2018 og barnsfaðir kæranda greiði einfalt meðlag með hverju barni frá þeim tíma.

Samkvæmt gögnum frá Þjóðskrá flutti barnsfaðir kæranda lögheimili sitt til kæranda 7. mars 2019. Með bréfum Tryggingastofnunar, dags. 15. mars 2019, var kæranda tilkynnt um að sökum þess yrðu greiðslur meðlags og mæðralauna til hennar stöðvaðar. Í kjölfarið flutti barnsfaðir kæranda lögheimili sitt að […]. Hann var með skráð lögheimili þar frá 18. mars 2019 til 6. ágúst 2019 og síðan frá 2. apríl 2020 samkvæmt gögnum frá Þjóðskrá. Sú fasteign hefur verið í sameiginlegri eigu kæranda og barnsföður hennar frá X 2011 samkvæmt fasteignaskrá. Á síðunni Airbnb.com er […] skráð til skammtímaleigu og af skjáskotum sem liggja fyrir í málinu má ráða að barnsfaðir kæranda sé umsjónarmaður hússins.

Ljóst er af gögnum málsins að kærandi og barnsfaðir hennar eignuðust sitt X barn saman í X 2020. Þá eru meðal gagna málsins skjáskot af Facebook síðu kæranda og barnsföður hennar. Þar tilkynnti kærandi þann X 2019 að von væri á barni hennar og barnsföður, vísaði til þess að fjölskyldan [...] og merkti barnsföður sinn. Auk þess má þar sjá myndir af kæranda og barnsföður hennar saman með börnum sínum. Þá má sjá á skjáskoti af Facebook síðu barnsföður kæranda að hann hafi verið skráður í sambandi á Facebook síðan X.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráða megi af gögnum frá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu að kærandi og barnsfaðir hennar hafi slitið sambúð 1. maí 2018. Aftur á móti telur úrskurðarnefndin gögn málsins gefa til kynna að þau hafi hafið sambúð að nýju á árinu 2019. Úrskurðarnefndin horfir sérstaklega til þess að barnsfaðir kæranda flutti lögheimili sitt til kæranda 7. mars 2019. Fljótlega eftir það varð kærandi ófrísk og tilkynnti um það á Facebook með fjölskyldumyndum X 2019. 

Fyrir liggur að með bréfum Tryggingastofnunar, dags. 25. maí, 16. júní og 24. júní 2020, var kæranda gefinn kostur á að skila skýringum. Tölvupóstur barst frá kæranda 25. júní 2020. Í honum kom fram að kærandi hafi eignast barn með fyrrum sambýlismanni sínum. Þá hafi kærandi [...] og kærandi látið barnsföður sinn vita. Hann hafi sýnt sínar bestu hliðar þegar [...] og hún hafi haldið að hann væri breyttur maður. Nú sé hún einstæð X barna móðir. Með bréfi, dags. 26. júní 2020, var kæranda tilkynnt um að innsend gögn væru ekki fullnægjandi og fyrri ákvörðun um stöðvun heimilisuppbótar, meðlags og mæðralauna stæði óbreytt.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að tölvupóstur kæranda frá 25. júní 2020 hafi gefið Tryggingastofnun tilefni til að rannsaka málið nánar. Úrskurðarnefndin telur að stofnuninni hafi borið að gefa kæranda kost á að leggja fram gögn máli sínu til stuðnings, til dæmis leigusamninga barnsföður eða önnur gögn. Umfjöllun í kæru gefur til kynna að það kunni að liggja fyrir gögn hjá lögreglu og barnaverndarnefndum.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að gögn málsins gefi til kynna að kærandi hafi uppfyllt skilyrði fyrir greiðslu mæðralauna frá 1. október 2018 þar til barnsfaðir kæranda flutti lögheimili sitt til kæranda 7. mars 2019. Þá telur úrskurðarnefndin, í ljósi andmæla kæranda og þess að kæranda var ekki veittur kostur á að leggja fram gögn máli sínu til stuðnings, ekki nægjanlega upplýst hvort skilyrði framangreindra greiðslna, og síðar heimilisuppbótar, voru uppfyllt eftir 7. mars 2019 og eftir atvikum hve lengi, sbr. 10 gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 38. gr. laga um almannatryggingar.

Ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur mæðralauna og heimilisuppbótar til kæranda afturvirkt frá 1. október 2018 og 1. nóvember 2019, og endurkrefja um ofgreiddar bætur eru því felldar úr gildi. Þeim hluta málsins er vísað aftur til stofnunarinnar til nánari rannsóknar.

B. Meðlag

Í 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er mælt fyrir um rétt til fyrirframgreiðslu meðlags frá Tryggingastofnun ríkisins. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

„Hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga, nr. 76/2003, getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skal gilda þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga. Fyrirframgreiðsla meðlags frá Tryggingastofnun skal ávallt vera innan þeirra marka sem 20. gr. laga þessara setur um fjárhæð greiðslna og aldur barna.“

Reglugerð nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga, með síðari breytingum, hefur verið sett með stoð í 70. gr., sbr. 6. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar. Í 8. gr. reglugerðarinnar eru talin upp þau tilvik þar sem meðlagsgreiðslur falla niður. Í 4. tölul. 8. gr. segir að greiðslur falli niður ef „meðlagsmóttakandi og meðlagsgreiðandi ganga í hjúskap, hefja sambúð eða eru skráð með sama lögheimili“.

Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur þegar umsækjandi hefur lögformlega meðlagsákvörðun. Þessi regla er jafnframt áréttuð í 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 þar sem segir að stofnuninni sé skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla laganna sem búsettur er hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setja. Framangreind ákvæði leggja þannig þá skyldu á Tryggingastofnun ríkisins að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur ef fyrir liggur fullnægjandi meðlagsákvörðun. Eins og áður hefur komið fram liggur fyrir í máli þessu staðfesting Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á samkomulagi um forsjá og meðlag, dags. 11. september 2018, þar sem fram kemur að barnsfaðir kæranda greiði einfalt meðlag með hverju barni frá 1. maí 2018. Því er ljóst að kærandi uppfyllir skilyrði framangreinds lagaákvæðis fyrir milligöngu meðlagsgreiðslna. Engu að síður stöðvaði Tryggingastofnun greiðslur til kæranda á þeim grundvelli að hún væri í sambúð með barnsföður sínum, sbr. 4. tölul. 8. gr. reglugerðar nr. 945/2009.

Í 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar kemur ekki fram að greiðslur falli niður ef meðlagsmóttakandi og meðlagsgreiðandi hefja sambúð. Því kemur til skoðunar hvort framangreint skilyrði reglugerðarinnar hafi næga lagastoð. Almennt er ekki unnt að skerða verulega réttindi til greiðslna samkvæmt almannatryggingalögum með reglugerð nema hún hafi stoð í skýru og ótvíræðu lagaákvæði.

Reglugerð nr. 945/2009 er sett með stoð í 70. gr., sbr. 6. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007. Ákvæði 70. gr. laganna veitir ráðherra einungis almenna heimild til að kveða á um nánari framkvæmd laganna í reglugerð. Þá hljóðar reglugerðarheimildin í 6. mgr. 63. gr. svo:

„Heimilt er að setja reglugerð um framkvæmd þessarar greinar þar sem m.a. er kveðið á um fyrirframgreiðslu meðlags þegar foreldri eða börn eru búsett erlendis og um hámarksgreiðslur sem Tryggingastofnun ríkisins innir af hendi.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála fær hvorki ráðið að í 6. mgr. 63. gr. né 70. gr. laganna felist heimild til að setja viðbótarskilyrði í reglugerð sem takmarka verulega rétt til milligöngu meðlagsgreiðslna. Að mati úrskurðarnefndarinnar hefði framangreint skilyrði í reglugerð nr. 945/2009 annaðhvort þurft að koma fram í lögunum sjálfum eða ráðherra hafa veitt heimild til að setja sjálfstæð efnisleg skilyrði í reglugerð með skýrri og ótvíðræðri reglugerðarheimild í lögum. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að ákvæði 4. tölul. 8. gr. reglugerðar nr. 945/2009 um að meðlagsgreiðslur falli niður ef meðlagsmóttakandi og meðlagsgreiðandi gangi í hjúskap, hefji sambúð eða séu skráð með sama lögheimili, eigi sér ekki næga stoð í 70. gr., sbr. 6. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna til kæranda á grundvelli 4. tölul. 8. gr. reglugerðar nr. 945/2009 og endurkrefja um ofgreitt meðlag er því felld úr gildi.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur mæðralauna og heimilisuppbótar til A, afturvirkt frá 1. október 2018 og 1. nóvember 2019 og endurkrefja um ofgreiddar bætur, eru felldar úr gildi. Þeim hluta málsins er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar. Ákvörðun Tryggingastofnunar um að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna til kæranda og endurkrefja um ofgreitt meðlag, er felld úr gildi.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum