Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 525/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

 

Mál nr. 525/2020
Föstudaginn 4. desember 2020

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

ÚRSKURÐUR

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Þann 19. október 2020 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 19. október 2020, þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi, dags. 23. október 2020, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 27. október 2020.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 28. október 2020, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi, sem er fæddur X, lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 23. september 2020. Með bréfi, dags. 25. september 2020, var kæranda tilkynnt að við vinnslu á umsókn hans hefðu komið í ljós atriði sem leitt gætu til synjunar umsóknar hans um greiðsluaðlögun. Með bréfinu var kæranda veitt færi á að leggja fram skýringar og gögn áður en ákvörðun um afgreiðslu umsóknar yrði tekin. Engar skýringar bárust frá kæranda. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 19. október 2020 var umsókn kæranda synjað á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. og b-, c- og f-liða 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

 

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki sérstakar kröfur í málinu en skilja verður kæru hans svo að hann krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja honum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst hafa sótt um aðstoð frá umboðsmanni skuldara í annað sinn og verið synjað. Kærandi bendir á að erfitt sé að eiga við fjármál sín og hann sé kominn í andlegt sem og fjárhagslegt gjaldþrot.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda, dags. 25. september 2020, þar sem óskað er upplýsinga, er vísað til þess að í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Í 4. gr. lge. séu raktar þær upplýsingar og þau gögn sem skuldara beri að leggja fram þegar sótt sé um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Þá segi í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. að umsókn skuli fylgja upplýsingar um hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Jafnframt skuli greina hvort skuldari muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur sínar til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra. Fram komi í 6. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. að umsókn skuli fylgja mat skuldara á meðaltali mánaðarlegra útgjalda sinna, þar á meðal vegna framfærslu, opinberra gjalda, húsnæðis og afborgana af skuldum. Fram komi í 3. mgr. 4. gr. lge. að umsókn skuli meðal annars fylgja gögn til staðfestingar þeim upplýsingum sem hún hafi að geyma.

Í 5. gr. lge. sé kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli óska eftir öllum nauðsynlegum upplýsingum frá skuldara, opinberum aðilum og einkaaðilum. Þá segir í greinargerð með lögunum að eigi umboðsmaður erfitt um vik með að nálgast einhver gögn, sé það á ábyrgð skuldara að afla þeirra.

Við skoðun á fyrirliggjandi gögnum um tekjur og veltu á bankareikningum hafi komið í ljós að samkvæmt opinberum gögnum hafi innborganir á bankareikninga hjá Arion banka og Landsbanka numið töluvert hærri fjárhæðum en tekjur. Við skoðun á yfirlitum bankareikninga í eigu kæranda hafi verið misræmi á tekjum og veltu sem hafi helst skýrst af millifærslum kæranda á milli eigin reikninga, auk þess sem sambýliskona hans hafi millifært inn á reikninga kæranda sem og ættingjar hans og vinir. Hins vegar séu einstaka færslur sem nauðsynlegt hafi verið fyrir embættið að fá nánari skýringar á.

Með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. og 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. þar sem segi að í umsókn skuli koma fram hverjar tekjur umsækjenda séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og hvort umsækjandi muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur til að greiða af skuldum sínum, til dæmis vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra, hafi umboðsmaður skuldara óskað eftir skýringum á millifærslum á bankareikninga kæranda. Vegna ársins 2019 hafi verið óskað skýringa á millifærslum inn á reikning kæranda hjá Landsbankanum, samtals að fjárhæð 64.000 krónur og vegna ársins 2020 millifærslur inn á reikning kæranda hjá Arion banka, samtals að fjárhæð 1.440.900 krónur.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við mat á slíku skuli taka sérstakt tillit til nánar tilgreindra aðstæðna sem taldar séu upp í stafliðum a-g í ákvæðinu.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segi að heimilt sé að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef stofnað hafi verið til skulda á þeim tíma sem skuldari hafi greinilega verið ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Í c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segi enn fremur að heimilt sé að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Samkvæmt upplýsingum í skattframtali 2019 námu tekjur kæranda árið 2018 samtals 4.097.312 krónum, eða að meðaltali 341.443 krónur á mánuði. Áætlaður framfærslukostnaður árið 2018 hafi samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara verið 221.737 krónur. Greiðslugeta kæranda til greiðslu lána og annarra skuldbindinga, hafi því numið að meðaltali 119.706 krónum á mánuði á árinu 2018 samkvæmt fyrirliggjandi gögnum. Við árslok 2017 var greiðslubyrði kæranda samkvæmt gögnum málsins samtals 63.405 krónur, en á árinu 2018 hafi kærandi stofnað til aukinna skuldbindinga fyrir samtals 1.914.565 krónur. Nam greiðslubyrði þeirra skuldbindinga, sem stofnað til var á árinu 2018, samtals 94.561 krónu og var heildargreiðslubyrði kæranda því 157.966 krónur á mánuði við árslok 2018.

Greiðslugeta kæranda til greiðslu lána og annarra skuldbindinga nam að meðaltali 119.706 krónur á árinu 2018 og þegar tekið hafi verið tillit til forsendna um tekjur, framfærslukostnað og greiðslubyrði lána, virðist heildargreiðslubyrði skuldbindinga kæranda hafi verið komin umfram greiðslugetu hans í júlí 2018. Á árinu 2019 hafi kærandi engu að síður stofnað til enn frekari skuldbindinga við Netgíró, Valitor og Ecommerce sem námu 438.648 krónum.

Samkvæmt ofangreindu hafi, að mati umboðsmanns skuldara, ekki verið séð að kærandi hefði greiðslugetu til þess að takast á hendur skuldbindingar eftir júlí 2018 þar sem mánaðarleg greiðslugeta dugði ekki til. Auk þess hafi kærandi stofnað til skuldbindinga eftir að vanskil hófust á öðrum kröfum. Af fyrirliggjandi gögnum hafi heldur ekki fengist séð, að mati umboðsmanns skuldara, að lántaka vegna kaupa á vörum frá ELKO og lántaka hjá Valitor vegna pakkaferðar erlendis, hafi verið nauðsynleg kæranda til framfærslu.

Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé fjallað um þau tilvik þegar skuldari hafi ekki staðið í skilum með skuldbindingar sínar eftir því sem honum framast var unnt. Samkvæmt gögnum málsins hafi skuldbindingar kæranda flestar verið í vanskilum frá byrjun árs 2019 og allar skuldbindingar hafa verið í vanskilum frá desember 2019. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi heildartekjur kæranda frá janúar til ágúst 2020 numið samtals 3.097.412 krónum, eða 387.177 krónum að meðaltali á mánuði.

Framfærslukostnaður kæranda á árinu 2020 hafi samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara verið áætlaður 320.885 krónur. Greiðslugeta kæranda til greiðslu lána og annarra skuldbindinga, hafi því numið 66.292 krónum á mánuði á tímabilinu janúar til ágúst 2020, eða samtals 530.332 krónur það sem af er ári. Þrátt fyrir það hafi kærandi ekkert greitt af skuldbindingum sínum frá og með desember 2019 samkvæmt upplýsingum frá kröfuhöfum. Hafi þá ekki verið tekið tillit til innborgana frá sambýliskonu hans sem virðast vera innborganir á bankareikninga kæranda frá ættingjum og vinum.

Ábyrgðarbréf hafi verið sent kæranda, dags. 25. september 2020, þar sem greint hafi verið frá því að mikilvægt hafi verið að óska skýringa og bent á mikilvægi þess að skýra þar til greind álitaefni og leggja fram gögn. Afrit af bréfinu hafi jafnframt verið sent á kæranda í tölvupósti þann 25. september 2020. Umboðsmaður skuldara telur að kæranda hafi verið veitt færi á að andmæla fyrirsjáanlegri synjun umsóknar greiðsluaðlögunar, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með fyrrgreindu ábyrgðarbréfi og tölvupósti. Í ljósi þess að engin svör eða gögn hafi borist frá kæranda hafi embættið þurft að taka ákvörðun á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga. Það hafi verið mat embættisins að synja bæri umsókninni á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. og b-, c- og f-liða 2. mgr. 6. gr. lge, sbr. það sem rakið hafi verið.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara, dags. 27. október 2020, kemur fram að hin kærða ákvörðun hafi byggt á heildstæðu mati á aðstæðum kæranda, miðað við þau gögn sem lágu fyrir, en við mat á umsókn geti umboðsmaður skuldara aðeins byggt á fyrirliggjandi gögnum. Ekkert hafi komið fram á síðari stigum sem breytt hafi getað þeim forsendum sem synjun á heimild kæranda til greiðsluaðlögunar hafi verið byggð á.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fari umboðsmaður skuldara fram á hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. og b, c- og f-liðum 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Við mat á því hvað teljist vera nægjanlega glögg mynd af fjárhag skuldara í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. telur úrskurðarnefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge.

Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir því hvernig umsókn um greiðsluaðlögun skuli vera úr garði gerð. Í 1. mgr. 4. gr. er upptalning í 11 töluliðum á því sem koma skal fram í umsókninni. Í 4. tölul. lagaákvæðisins segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum.

Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi til lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir að skuldari, eftir atvikum með aðstoð umboðsmanns skuldara, leggi mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa skil á skuldbindingum sínum. Upptalning í 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en þeirra sem tilgreindar séu í ákvæðinu.

Í 5. gr. lge. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur þýðingu við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.

Í skýringum við frumvarp til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni skuldara sé skylt að hafna umsókn, gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal þannig veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn, sbr. 4. og 5. gr. lge. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda stjórnvalda leysir umsækjanda um greiðsluaðlögun ekki undan þeirri skyldu.

Í málinu hefur komið fram að kærandi fékk hærri greiðslur inn á bankareikninga sína á árunum 2019 og 2020 en hann gaf upp til skatts sem tekjur. Í beiðni umboðsmanns skuldara um upplýsingar frá kæranda, dags. 25. september 2020, var óskað skýringa á millifærslum inn á reikninga kæranda árin 2019 og 2020 hjá Landsbankanum og Arion banka, samtals að fjárhæð 1.504.900 krónur. Engar skýringar bárust frá kæranda.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hefur kærandi hvorki lagt fram viðhlítandi gögn um þessar greiðslur né veitt fullnægjandi skýringar á þeim. Þá hefur hann ekki talið þær fram til skatts, hvorki sem lán né tekjur. Ekki liggur því fyrir hverjar tekjur kæranda eru og af því leiðir að óvíst er hvaða fjármuni hann hefur sér til framfærslu og til greiðslu skulda. Fjárhagur hans verður því að teljast óljós að þessu leyti.

Það er markmið lge. að gera einstaklingum kleift að endurskipuleggja fjárhag sinn með samningum við kröfuhafa og eftir atvikum með niðurfellingu skulda að einhverju eða öllu leyti. Samkvæmt reglum lge. er skuldara gert að greiða eins hátt hlutfall af kröfum og sanngjarnt er þar sem í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils. Hér verður að hafa í huga að skuldari hefur sjálfur óskað þess að fá heimild til greiðsluaðlögunarsamnings við kröfuhafa.

Að mati úrskurðarnefndarinnar eru þær upplýsingar sem tilgreindar eru í ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. grundvallarupplýsingar til þess að unnt sé að taka umsókn um greiðsluaðlögun til afgreiðslu, enda er ómögulegt án þeirra upplýsinga að átta sig á greiðslugetu skuldara þegar gerður er samningur um greiðsluaðlögun, sbr. ákvæði 2. mgr. 16. gr. lge. um gerð frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun.

Eins og rakið er hér að framan liggur ekki fyrir með fullnægjandi hætti hverjar ráðstöfunartekjur kæranda eru. Þá er enn fremur óljóst hvaða tekjur kærandi myndi hafa á tímabili greiðsluaðlögunar. Af þeim sökum er ekki unnt að leggja mat á fjárhag hans að því marki sem nauðsynlegt er samkvæmt ákvæðum lge. Með vísan til þess er það mat úrskurðarnefndarinnar að fjárhagur kæranda sé óljós í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. og því hafi verið rétt að synja honum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist einnig á b-, c- og f-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt b-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið ákvæðisins er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Kærandi sótti um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 23. september 2020. Að mati úrskurðarnefndarinnar þykir rétt að líta til ársins 2018 að því er varðar tekjur og framfærslukostnað kæranda í aðdraganda þess að hann sótti um greiðsluaðlögun.


 

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtali ársins 2019 vegna tekna ársins 2018 og öðrum gögnum málsins var fjárhagsstaða kæranda eftirfarandi á árinu 2018 í krónum:

Tímabilið 1. janúar til 31. desember 2018: 12 mánuðir

Nettótekjur alls

4.097.313

Alls til ráðstöfunar

4.097.313

Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali

341.443

Mánaðarleg útgjöld samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara

221.737

Greiðslugeta kæranda á mánuði að meðaltali

119.706

 

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var greiðslubyrði kæranda vegna skuldbindinga í árslok 2017 63.405 krónur. Á tímabilinu janúar til desember 2018 tók kærandi ný lán hjá ýmsum aðilum,  samtals að höfuðstólsfjárhæð 1.914.565 krónur og nam greiðslubyrði af höfuðstól þessara lána  94.561 króna á mánuði. Samtals var greiðslubyrði kæranda við lok árs 2018 vegna þessara skuldbindinga alls 157.966 krónur. Greiðslugeta kæranda var því að meðaltali neikvæð um 38.260 (157.966-119.706) krónur á mánuði.

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Í því lagaákvæði eru í sjö stafliðum rakin þau atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Þetta eru ástæður sem eiga það sameiginlegt að byggjast á því að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun, verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi til lge. Meðal þeirra atriða eru b- og c- liðir 2. mgr. 6. gr. lge., sem þegar hefur verið gerð grein fyrir, en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar, meðal annars á grundvelli þessara ákvæða.

Eins og að framan er rakið var greiðslugeta kæranda neikvæð um 38.260 krónur að meðaltali á mánuði við árslok 2018. Fyrir liggur að kærandi stofnaði til skulda sem voru langt umfram greiðslugetu hans á þeim tíma. Úrskurðarnefndin telur því, með vísan til þess sem greinir hér að framan, að kærandi hafi stofnað til skuldbindinga á árinu 2018 sem hann var greinilega ófær um að standa við. Með þessu hagaði hann jafnframt fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt, enda átti honum ekki að geta dulist að hann gæti ekki greitt hluta af þeim lánum sem hann tók á árinu 2018.

Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Samkvæmt gögnum málsins voru heildartekjur kæranda frá janúar 2020 til ágúst 2020 samtals 3.097.412 krónur, eða 387.177 krónur á mánuði. Að teknu tilliti framfærslukostnaðar kæranda á árinu 2020, sem áætlaður var 320.885 krónur, hafði kærandi 66.292 krónur (320.885-387.177) til ráðstöfunar að meðaltali á mánuði til að greiða af skuldbindingum sínum á tímabilinu janúar 2020 til ágúst 2020. Þrátt fyrir greiðslugetu hefur kærandi ekkert greitt af skuldbindingum sínum frá desember 2019. Kærandi sótti um heimild til greiðsluaðlögunar með umsókn 23. september 2020.

Í 2. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar sé óhæfilegt að veita hana. Við mat á slíku skuli sérstaklega taka tillit til þess hvort atriði sem rakin eru í liðum a til g eigi við. Eins og þegar hefur verið rakið taldi umboðsmaður skuldara að f-liður 2. mgr. 6. gr. lge. ætti við um háttsemi kæranda. Ákvæðið varðar þá hegðun skuldara að standa ekki við skuldbindingar sínar með ámælisverðum hætti eftir því sem honum er unnt.

Gera verður þá kröfu til einstaklinga, sem glíma við svo verulega fjárhagserfiðleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi úr útgjöldum sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta og noti þá fjármuni sem þeir hafa til að greiða skuldir. Þetta gerði kærandi ekki, en eins og að framan er lýst hafði hann nægilegt fé á árinu 2020 til að greiða af skuldbindingum sínum. Af framangreindum ástæðum verður því að telja óhæfilegt að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar.

Með vísan til alls þess, sem hér hefur verið rakið, bar að synja umsókn kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. og b-,c- og f-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er samkvæmt því staðfest.


 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja umsókn A, um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira