Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 365/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 365/2020

Þriðjudaginn 27. október 2020

Barnavernd B

gegn

Barnaverndarstofu

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Björn Jóhannesson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 24. júlí 2020, kærði A lögfræðingur, f.h. Barnaverndar B, kt. X, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndarstofu frá 10. júní 2020 vegna umsóknar um leyfi til vistunar barns samkvæmt 84. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.).

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 12. mars 2020, lagði Barnavernd B fram beiðni um vistun barns samkvæmt 84. gr. bvl. Með bréfi Barnaverndarstofu, dags. 10. júní 2020, var beiðni barnaverndar um leyfi til vistunar B, hjá föður sínum, synjað.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 24. júlí 2020. Með bréfi, dags. 28. júlí 2020, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarstofu ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarstofu barst með bréfi, dags. 4. september 2020, og með bréfi úrskurðarnefndar, 8. september 2020, var hún send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun Barnaverndarstofu, dags. 10. júní 2020, um synjun á leyfi samkvæmt 84. gr. bvl. Kærandi biðli því til úrskurðarnefndar um að skoða þann ómöguleika sem forsjárlausir foreldrar standi frammi fyrir þegar vista þurfi börnin frá forsjárforeldrum, fái barnaverndarnefnd ekki leyfi Barnaverndarstofu samkvæmt 84. gr. bvl.

Drengurinn M, sem lúti forsjá móður sinnar, hafi frá mars 2020 verið vistaður hjá föður sínum, C. Móðir drengsins hafi samþykkt tímabundna vistun drengsins samkvæmt 25. gr. bvl. á meðan hún leiti sér meðferðar vegna áfengis-, vímuefna- og geðvanda og bætir aðstæður sínar. Með bréfi, dags. 12. mars 2020, hafi verið sótt um leyfi til Barnaverndarstofu til að vista drenginn hjá föður sínum samkvæmt 84. gr. bvl. Fram komi í bréfi barnaverndar að faðir drengsins þekki vel til hans og aðstæðna hans en drengurinn sé hans eina barn. Drengurinn hafi átt umgengni við föður, viku og viku, og hafði því mánuðina fyrir vistun verið jafnt hjá báðum foreldrum. Á þeim tíma sem sótt var um leyfi hafi faðir drengsins verið á heimili drengsins og ætlað að vera þar áfram á meðan drengurinn yrði vistaður utan heimilis en móðir dvaldi annars staðar. Það hafi verið talið vera drengnum fyrir bestu að vera áfram á sínu heimili og halda áfram í sama leikskóla. Það hafi verið farið á heimilið 4. mars síðastliðinn og drengurinn verið heima ásamt foreldrum sínum og föðurafa. Drengurinn hafi leitað til föður síns í heimsókninni og þegar starfsmenn hafi farið af heimilinu voru þeir feðgar að leika sér. Íbúðin hafi verið snyrtileg og vel útbúin. Í bréfi barnaverndar komi fram að faðir sé […]. Enn fremur kemur fram að faðir eigi sögu um vímuefnaneyslu en hafi verið edrú síðan í X. Faðir drengsins hafi verið í neyslu harðra efna til X ára aldurs. Hann hafi verið í meðferð á D X vegna kannabisneyslu. Í upplýsingum frá lögreglu komi fram að engin afskipti hafi verið af föður síðan í X en þá hafi hann verið stöðvaður undir áhrifum vímuefna. Faðir hafði þegar upplýst ráðgjafa sinn um þetta tiltekna atvik. Faðir hafi verið í góðum samskiptum við barnavernd um hagsmuni drengsins og ljóst sé að hann beri hag drengsins fyrir brjósti og geri allt til að hann geti notið sín í leik og starfi. Faðir eigi kærustu sem búi ekki hjá honum en hún sé inn á heimili þeirra inn á milli. Meðfylgjandi beiðni um leyfi hafi verið leyfi til að óska eftir fullu sakavottorði þeirra aðila sem búsettir séu á heimilinu, auk læknisvottorðs föður drengsins.

Í kjölfarið barst Barnavernd BB bréf vegna leyfisveitingarinnar frá Barnaverndarstofu, dags. 17. apríl 2020, þar sem óskað hafi verið eftir upplýsingum um umrædd brot og frekari rökstuðningi barnaverndar fyrir leyfisveitingu. Barnavernd BB hafi svarað þessu með bréfi, dags. 29. apríl 2020, þar sem meðal annars komi fram að faðir væri nú kominn með eigin íbúð. Fram komi að faðir sé með brot skráð á sakaskrá. Samkvæmt gögnum frá lögreglu hafi faðir verið stöðvaður árið X fyrir of hraðan akstur og mælst jákvæður fyrir THC. Árið X hafi faðir verið handtekinn vegna kannabis sem fannst við leit á honum. Árið X hafi faðir verið tekinn vegna […] og lauk málinu með héraðsdómi. Snemma árs X hafi faðir verið stöðvaður við akstur og mælst jákvæður fyrir THC. Einnig hafði hann ekki endurnýjað ökuskírteini sitt. Í X hafi faðir verið stöðvaður við akstur undir áhrifum vímuefna og hann mælst jákvæður fyrir THC. Einnig hafi verið óskað eftir upplýsingum frá lögreglu. Um miðjan X hafi verið tekin mynd af föður í akstri en á þeim tíma hafi hann verið sviptur ökuréttindum. Í lok X hafi kærandi verið handtekinn grunaður um heimilisofbeldi gegn móður drengsins. Í X hafi faðir verið stöðvaður við akstur undir áhrifum vímuefna. Þá komi fram að rætt hafi verið við föður vegna málsins. Faðir segist hafa verið án allra vímuefna frá því í X. Aðspurður um innfærslurnar á sakavottorði hafi faðir drengsins getað svarað fyrir þær og þær passað við þær upplýsingar sem fram komi frá lögreglu. Engin afskipti hafi verið af föður síðan í X. Faðir hafi ávallt komið hreint fram við ráðgjafa varðandi sögu sína um neyslu vímuefna. Þá hafi gengið vel með drenginn í umsjá föður og sé þar vísað í upplýsingar frá leikskóla drengsins. Út frá samskiptum starfsmanns við föður virðist hann eiga í afar góðum samskiptum við drenginn og bera hag hans fyrir brjósti. Þá komi fram að starfsmenn Barnaverndar BB telji það drengnum fyrir bestu að vera í umsjá föður þann tíma sem móðir taki á vanda sínum, enda hafi faðir tekið á vanda sínum og verið án vímuefna nú í tæplega átta mánuði.

Með bréfi Barnaverndarstofu, dags. 10. júní 2020, hafi Barnavernd B verið synjað um leyfi samkvæmt 84. gr. bvl. Með bréfi Barnaverndar B, dags. 3. júlí 2020, hafi verið óskað eftir því að ákvörðun Barnaverndarstofu yrði endurskoðuð. Þar komi fram að faðir hafi ávallt komið hreint fram við ráðgjafa varðandi sögu sína um neyslu vímuefna. Þá hafi gengið vel með drenginn í umsjá föður og sé þar vísað í upplýsingar frá leikskóla drengsins, en vel virðist haldið utan um hann þann tíma sem hann hafi verið í umsjá föður. Út frá samskiptum starfsmanns barnaverndar við föður virðist hann eiga í afar góðum samskiptum við drenginn og bera hag hans fyrir brjósti. Þegar starfsmaður hafi hitt feðgana saman leiti drengurinn mikið til föður og virðast mikil tengsl vera þeirra á milli. Móðir hafi einnig hitt feðgana saman og lýst góðum tengslum þeirra á milli og segist hún sjá að honum líði vel hjá föður. Eftir að vistun hófst fór faðir í það að finna húsnæði fyrir sig og drenginn til að veita honum meiri stöðugleika og hafi þeir flutt í nýtt húsnæði í byrjun maí síðastliðinn. Aðstæður föður séu til fyrirmyndar. Starfsmenn Barnaverndar B telji að það sé drengnum fyrir bestu að vera í umsjá föður þann tíma sem móðir sé að taka á vanda sínum, enda hafi hann tekið á vanda sínum og verið án vímuefna í tæplega níu mánuði. Starfsmenn telji barninu fyrir bestu að vera áfram hjá föður í stað þess að vera vistaður hjá ókunnugum. Áætlað sé að drengurinn fari aftur í umsjá móður X næstkomandi.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. bvl. skuli hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda, sbr. og 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Áhersla sé lögð á það mat starfsmanna Barnaverndar B, sem ítrekað hafi komið fram við vinnslu málsins, að það sé barninu fyrir bestu að dvelja hjá föður sínum á meðan móðir vinni að bættum uppeldisaðstæðum hans í sinni umsjá. Forsjárlaus faðir drengsins hafi verið edrú frá haustinu 2019 og sýnt það í verki að hann sé til staðar fyrir drenginn og hafi tekið ábyrgð á honum og sinnt því hlutverki vel. Ekki verði annað séð en að heildaraðstæður séu þannig að skilyrði 84. gr. bvl. séu uppfyllt. Starfsmenn Barnaverndar B telji það engan veginn hagsmuni drengsins að honum verði komið annað í fóstur þann stutta tíma sem vonandi sé eftir af vistun hans utan heimilis móður, en eins og fyrr greini sé áætlað að vistun ljúki í október næstkomandi. Tengsl barnsins við föður séu óumdeild og hjá föður hafi drengurinn það öryggi og stöðugleika sem sé honum nauðsynlegt til að þroskast og eflast.

 

 

III.  Sjónarmið Barnaverndarstofu

Í greinargerð Barnaverndarstofu kemur fram að í 1. mgr. 84. gr. bvl. komi fram að barnaverndarnefndir skuli hafa tiltæk úrræði til að veita börnum móttöku, hvort heldur sem sé í bráðatilvikum eða til að tryggja öryggi þeirra, greina vanda eða vegna ófullnægjandi heimilisaðstæðna. Barnaverndarnefnd geti falið öðrum aðilum rekstur heimila á grundvelli ákvæðisins með þjónustusamningi, sbr. 2. mgr. 84. gr. bvl. Samkvæmt 3. mgr. 84. gr. bvl. veiti Barnaverndarstofa barnaverndarnefndum leyfi til að reka heimili og önnur úrræði samkvæmt 1. mgr. Um skilyrði fyrir leyfisveitingu gildi reglugerð um úrræði á ábyrgð sveitarfélaga samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga nr. 652/2004.

Í umræddu máli hafi verið um að ræða umsókn til reksturs annars úrræðis, en með því sé átt við að ákveðnum aðilum, svonefndum vistforeldrum, sé falið að taka barn til dvalar í ákveðinn tíma. Hér geti verið um að ræða ættingja, svo sem forsjárlaust foreldri, afa og ömmu og fleira, eða aðila sem barnið þekki ekki. Vistun af þessu tagi sé að jafnaði ekki ætlað að vara lengur en í þrjá mánuði. Ef vistun sé ætlað að vara í lengri tíma fari það að jafnaði eftir ákvæðum barnaverndarlaga um fóstur, sbr. 2. mgr. 36. gr. reglugerðarinnar.

Með bréfi Barnaverndarstofu, dags. 10. júní síðastliðinn, sé ítarlega rakið hvaða skilyrði skuli vera fyrir hendi til þess að leyfi til reksturs úrræðis samkvæmt 84. gr. bvl. sé veitt.

Við mat á því hvort leyfi til reksturs úrræðis samkvæmt 84. gr. bvl. skuli veitt hafi Barnaverndarstofa talið að sömu sjónarmið skuli höfð að leiðarljósi og þegar um sé að ræða mat á hæfni fósturforeldra, ekki aðeins í ljósi þess að um sambærilegar ráðstafanir sé að ræða, heldur einnig með tilliti til þess að vistun einstakra barna í úrræðum á grundvelli 84. gr. bvl. sé í mörgum tilfellum undanfari fósturs samkvæmt áðurnefndri reglugerð. Einnig hafi verið litið til 6. gr. reglugerðar nr. 804/2004 um fóstur varðandi þau sjónarmið sem litið sé til við þetta mat. Þar komi fram í 1. mgr. að fósturforeldrar skuli vera í stakk búnir til þess að veita barni trygga umönnun og öryggi og til að mæta þörfum barns sem búið hafi við ótryggar aðstæður eða átt við erfiðleika að etja. Fósturforeldrar þurfi að vera við góða almenna heilsu, búa við stöðugleika, auk fjárhagslegs og félagslegs öryggis sem stuðlað geti að jákvæðum þroskamöguleikum barns.

Ekki sé hægt að meta eingöngu einn einstakling á heimilinu sem beri ábyrgð á barninu heldur verði heildaraðstæður að vera þannig að framangreind skilyrði séu uppfyllt. Við mat á umsóknum um leyfi samkvæmt 84. gr. bvl. beri Barnaverndarstofu jafnframt að líta til 4. gr. bvl. um meginreglur barnaverndarstarfs. Í 1. mgr. ákvæðisins komi fram að hagsmunir barna skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Jafnframt sé Barnaverndarstofu skylt að hafa hliðsjón af 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Í ákvæðinu komi fram að það sem barni sé fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar stjórnvöld geri ráðstafanir sem varði börn.

Barnaverndarstofa bendi á að samkvæmt ákvæðinu, sem nái til bæði tiltekinna barna jafnt sem ótiltekinna, beri stjórnvöldum að tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefjist, sbr. 2. mgr. ákvæðisins, og 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

Barnaverndarstofa bendir sérstaklega á að samkvæmt 1. mgr. 42. gr. reglugerðar nr. 652/2004 skuli leyfi til að reka annað úrræði veitt til eins árs í senn og sé umsókn ekki bundin við einstaka börn heldur sé leyfið almenns eðlis. Stofunni sé því ekki gert kleift að líta til sérstakra tengsla vistforeldra við börn sem mögulega kunni að vera vistuð í úrræðinu, enda séu vistanir einstaka barna alfarið á forræði og ábyrgð barnaverndarnefndar og séu leyfi til slíkra vistana ekki veitt af Barnaverndarstofu. Líkt og rakið hafi verið sé almennt miðað við að vistun í úrræði samkvæmt 84. gr. bvl. vari ekki lengur en þrjá mánuði. Þegar leyfi hefur verið veitt gildi það í eitt ár og sé barnaverndarnefndum frjálst að vista börn í úrræðinu á gildistímanum, jafnvel fleiri en eitt á hverjum tíma, kveði leyfi á um það. Leyfisveiting sé því almenns eðlis og geti Barnaverndarstofa ekki litið til mögulegra hagsmuna einstakra barna við mat á því hvort leyfi skuli veitt, enda fái stofan alla jafna ekki upplýsingar um þau börn sem vistuð séu í hverju úrræði fyrir sig. Jafnframt komi þetta fram í verklagsreglum vegna umsókna um leyfi samkvæmt 84. gr. bvl. sem birt sé á heimasíðu Barnaverndarstofu. Við mat á því hvort leyfi skuli veitt líti Barnaverndarstofa þannig á hagsmuni ótiltekins hóps barna og hvort þeim sé með úrræðinu tryggð sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefjist. Þá sé einkum litið til þess að um sé að ræða börn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem vistuð hafi verið utan heimilis á vegum barnaverndaryfirvalda. Því séu ríkar kröfur gerðar til úrræða sem tiltæk séu í þeim tilgangi.

Samkvæmt því sem fram komi í umsókn nefndarinnar og rannsókn Barnaverndarstofu í kjölfarið, meðal annars með öflun þeirra gagna sem kveðið sé á um í 40. gr. reglugerðar um úrræði á ábyrgð sveitarfélaga, sé ljóst að faðir drengsins hafi verið með alls fimm innfærslur á sakavottorði á þeim tíma er umsókn hafi verið metin. Auk þess komi fram að lögregla hefði haft afskipti af honum í fjölda skipta. Flest tilfellin hafi mátt rekja til fíkniefnaneyslu en í eitt skipti hafi faðir drengsins verið handtekinn grunaður um heimilisofbeldi gagnvart barnsmóður sinni. Í umsókn nefndarinnar komi fram að hann hefði leitað sér meðferðar á D í X og verið án vímuefna frá þeim tímapunkti. Ekkert komi fram í gögnum málsins eða erindum nefndarinnar í kjölfarið um frekari meðferðir, svo sem hvort faðir hefði sótt langtímameðferð við fíknivanda sínum og gerði stofan þar af leiðandi ráð fyrir að svo væri ekki. Þá komi einnig fram að faðir drengsins væri án atvinnu.

Við mat á því hvort umrætt leyfi skyldi veitt taldi Barnaverndarstofa ljóst að meta yrði sérstaklega hvort áðurnefndar innfærslur á sakavottorði föður drengsins og saga hans um fíkniefnaneyslu væru þess eðlis að umsóknin í heild og úrræðið sem slíkt uppfyllti þær kröfur sem gerðar séu til vistforeldra og úrræða sem rekin séu af barnaverndaryfirvöldum, í samræmi við þau sjónarmið sem rakin hafi verið. Barnaverndarstofu hafi borið að leggja heildarmat á þær aðstæður sem fyrir hendi voru á umsóknardegi og hvort þau skilyrði og sjónarmið, auk meginreglu 4. gr. bvl. og 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, væru fyrir hendi. Barnaverndarstofa hafi ekki getað litið fram hjá því að faðir drengsins hefði ekki sótt sér annars konar aðstoð við fíknivanda sínum en afvötnun á D. Barnaverndarstofa bendi á að umsókn nefndarinnar hafi borist þann 31. mars 2020 og hafði þá rétt um hálft ár liðið frá síðustu lögregluafskiptum.

Eftir heildarmat á aðstæðum föður drengsins taldi Barnaverndarstofa að þær væru þess eðlis að þær stæðust ekki þær almennu kröfur sem gera þurfi til vistforeldra og því hafi leyfi um rekstur úrræðis á heimili hans á grundvelli 84. gr. bvl. verið synjað.

Barnavernd B vísi í greinargerð sinni til þess að viss ómöguleiki sé til staðar sem forsjárlausir foreldrar standi frammi fyrir þegar vista þurfi börn frá forsjárforeldrum. Barnaverndarstofa bendi á í því sambandi að ekkert standi því í vegi að börn dvelji hjá forsjárlausum foreldrum sínum um tíma án atbeina barnaverndarnefndar. Hins vegar búa barnaverndarnefndir við þann veruleika sem barnaverndarlög og reglugerðir bjóði upp á. Sé barn vistað utan heimilis forsjárforeldris á vegum barnaverndarnefndar sé það fortakslaust skilyrði að þau séu vistuð á stað sem hafi til þess sérstakt leyfi samkvæmt lögunum. Barnaverndarstofa bendi jafnframt á að samkvæmt því sem fram komi í kæru nefndarinnar sé ljóst að umrætt barn hafi dvalið á heimili föður síns frá því í X síðastliðnum. Af erindi nefndarinnar megi ráða að barnið dvelji þar enn. Þar sem heimilið sé ekki með leyfi til þess að vista barn samkvæmt barnaverndarlögum hafi barnið ekki verið löglega vistað af hálfu nefndarinnar frá þeim tímapunkti.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Barnaverndarstofu frá 10. júní 2020 um að synja Barnavernd B um leyfi til vistunar M, hjá föður sínum, samkvæmt 84. gr. bvl.

Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefnd velferðarmála barst tölvupóstur frá Barnavernd B þess efnis að drengurinn muni fara á næstu dögum til móður sinnar og að áætlun verði gerð um meðferð máls samkvæmt 23. gr. bvl. með móður. Við frekari eftirgrennslan um stöðu málsins hjá Barnavernd B kom fram drengurinn væri þegar kominn í umsjón móður og unnið væri að áætlun í málinu. Í ljósi þess að drengurinn er kominn í umsjón forsjárforeldris er það mat úrskurðarnefndarinnar að lögvarðir hagsmunir kæranda af efnislegri úrlausn málsins séu ekki til staðar. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru Barnaverndar B, kt. X, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum