Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 135/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 23. mars 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 135/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22010020

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 29. janúar 2022 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Filippseyja (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. janúar 2022, um afturköllun dvalarleyfis, sbr. 59. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að útgefið dvalarleyfi haldist með því óbreytt.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk útgefið dvalarleyfi vegna vistráðningar hinn 15. maí 2021 með gildistíma til 15. maí 2022. Samkvæmt gögnum málsins kom fljótlega upp ágreiningur á milli kæranda og vistfjölskyldu varðandi aðstæður kæranda hjá vistfjölskyldu og vinnufyrirkomulag. Yfirgaf kærandi heimilið í kjölfarið og er í dag hjá annarri vistfjölskyldu. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. janúar 2022, var dvalarleyfi hennar afturkallað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála hinn 29. janúar 2022 en meðfylgjandi kæru voru greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðuninni kemur fram að Útlendingastofnun hafi sent kæranda bréf, dags. 30. nóvember 2021, þar sem raktar hafi verið ástæður þess að stofnunin hefði til skoðunar að afturkalla dvalarleyfi hennar. Núverandi vistmóðir kæranda hafi sent Útlendingastofnun bréf, dags. 13. desember 2021, þar sem m.a. hafi komið fram að heimilisaðstæður kæranda hjá fyrri vistfjölskyldu hafi verið ófullnægjandi auk þess sem hún hafi verið látin vinna of mikið.

Vísar Útlendingastofnun til og fjallar um ákvæði 59. og 68. gr. laga um útlendinga og 17. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Kærandi hefði lagt fram yfirlýsingu um riftun vistráðningarsamnings sem Útlendingastofnun hefði móttekið hinn 10. ágúst 2021 en yfirlýsingin hefði einungis verið undirrituð af kæranda og því væri um einhliða yfirlýsingu að ræða. Komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að framangreind riftun uppfyllti ekki skilyrði 17. gr. reglugerðar um útlendinga enda hefði riftunartilkynning ekki verið sannanlega birt vistfjölskyldu og þeim ekki veittur lágmarksfrestur. Er vísað til þess að þrátt fyrir að starfsmanni Útlendingastofnunar hafi yfirsést að riftunin væri einhliða kæmi það ekki í veg fyrir það að stofnuninni bæri að fara eftir lögum og reglugerðum sem sett væru með stoð í lögum. Að mati stofnunarinnar væru skilyrði fyrir veitingu útgefins dvalarleyfis ekki lengur uppfyllt og var dvalarleyfi hennar því afturkallað, sbr. 59. gr. laga um útlendinga.

IV.    Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð er vísað til þess að kærandi hafi komið til Íslands hinn 15. maí 2021 til að vera í vistráðningu hjá fyrri vistfjölskyldu. Áður en hún kom til landsins hafi hún nær eingöngu verið í samskiptum við vistmóður sem hafi m.a. tjáð henni að hún fengi sitt eigið herbergi. Þegar hún hafi komið til landsins hafi þó annað komið í ljós, ekki hafi verið um að ræða hefðbundið herbergi heldur litla geymslu sem ekki hafi verið hurð á heldur eins konar bráðabirgðatjald sem hægt hafi verið að sjá og heyra í gegnum. Þá hafi öll vistfjölskylda hennar gengið inn í herbergið í tíma og ótíma. Rætt hafi verið við kæranda um að vinna hennar myndi felast í umönnun barnanna og léttum heimilisstörfum. Annað hafi þó komið á daginn, hún hafi sinnt nær öllum hreingerningum í húsinu, þrifið bifreiðar fjölskyldunnar og unnið í fyrirtæki þeirra. Til þess að klára þessi húsverk hafi kærandi þurft að vakna kl. 8 á morgnana og vinna til kl. 14. Hafi vistfaðir kæranda oftast komið heim með þrjú yngstu börnin um kl. 16 og hafi kærandi annast þau fram að kvöldmat en að honum loknum hafi kærandi átt að taka til eftir kvöldmatinn og sjá til þess að húsið væri hreint. Hafi vinnudegi hennar því lokið um kl. 20-20:30. Auk framangreinds hafi verið gerð sú krafa að kærandi gætti barnanna ef vistforeldrar fóru út á kvöldin og/eða um helgar. Hafi kærandi rætt við vistmóður um að vinnuálagið væri allt of mikið og hafi viðbrögð hennar verið þau að ef þetta væri erfitt fyrir hana þá gæti hún komið sér út og endurgreitt allan kostnað vegna vistráðningarinnar. Hafi kærandi tilkynnt vistmóður að hún gæti ekki starfað við þessar aðstæður og í framhaldi af því haft samband við vistmóður vinkonu sinnar sem hafi boðið sér húsaskjól.

Í kjölfarið hafi kærandi verið í samskiptum við núverandi vistmóður og óskað eftir því að hún fengi að vera í vistráðningu hjá henni. Hafi núverandi vistmóðir kæranda haft samband við Útlendingastofnun og upplýst um stöðuna og hafi henni verið tjáð að það væri ekkert því til fyrirstöðu að kærandi gæti flutt til hennar og lokið vistráðningu hjá henni. Þar sem núverandi vistmóðir hafi verið hikandi við að koma sér inn í þessar aðstæður hafi hún margspurt Útlendingastofnun að því hvort það væri eitthvað sem hún þyrfti að gera áður en hún myndi sækja kæranda. Hafi stofnunin hvatt hana eindregið til þess að sækja kæranda þegar í stað og veita henni húsaskjól í gegnum vistráðningu. Hafi kærandi eftir þetta verið í samskiptum við fyrrum vistmóður m.a. vegna uppgjörs þeirra á milli en hún hafi viljað að kærandi myndi endurgreiða allan kostnað vegna vistráðningarinnar. Hvað varðar riftun kæranda á vistráðningarsamningi séu fyrirliggjandi samskipti milli kæranda og fyrrum vistmóður í tengslum við riftunina, sbr. fyrirliggjandi skilaboð sem kærandi hafi sent á hana hinn 27. júlí 2021. Einnig hafi fyrrum vistmóðir hennar sent núverandi vistmóður skilaboð hinn 28. júlí 2021 þar sem fram komi að hún myndi ekki skrifa undir riftun á samningnum fyrr en allur kostnaður hafi verið fullgreiddur. Liggi því fyrir óumdeild riftun í málinu, bæði munnleg og skrifleg, sem fyrrum vistmóðir hafi neitað að rita undir. Sé ekki hægt að gera þá kröfu að ung stúlka sem komi hingað til lands í vistráðningu frá Filippseyjum birti slíka riftun með stefnuvotti eða öðrum sambærilegum hætti. Þá verði einnig að taka tillit til þess að fyrrum vistmóðir hennar hafi sjálf sett kæranda þá afarkosti að hún skyldi sætta sig við vinnutíma, verkefni og annað sem brjóti gegn vistsamningnum, lögum og reglum eða ella koma sér út af heimilinu. Þá hafi hún viljað að kærandi kæmi sér út af heimilinu þegar í stað. Hafi aðstæður kæranda verið með þeim hætti að henni hafi verið heimilt að rifta samningnum án tafar og beri því að ógilda hina kærðu ákvörðun.

V.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga um útlendinga er Útlendingastofnun heimilt að afturkalla dvalarleyfi og ótímabundið dvalarleyfi ef útlendingur hefur við umsókn, gegn betri vitund, veitt rangar upplýsingar eða leynt atvikum sem hefðu getað haft verulega þýðingu við leyfisveitinguna eða ekki eru lengur uppfyllt skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis eða ótímabundins dvalarleyfis eða það leiðir að öðru leyti af almennum stjórnsýslureglum.

Kærandi fékk útgefið dvalarleyfi vegna vistráðningar hinn 15. maí 2021 til 15. maí 2022, sbr. 68. gr. laga um útlendinga. Nánari ákvæði um vistráðningar og dvalarleyfi á grundvelli þeirra er að finna í 68. gr. laga um útlendinga. Þar á meðal segir í 6. mgr. 68. gr. kemur fram að verði slit á vistráðningu áður en vistráðningartíma samkvæmt samningi aðila er lokið skuli bæði hinn vistráðni og vistfjölskyldan tilkynna það Útlendingastofnun eða þeim aðila sem hafði milligöngu um gerð samningsins ef við á. Hinum vistráðna er heimilt að gera samning um nýja vistráðningu við nýja vistfjölskyldu að uppfylltum öllum skilyrðum ákvæðisins. Samanlagður dvalartími hjá vistfjölskyldum skal þá ekki vera lengri en eitt ár. Í reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, er með stoð í 11. mgr. 68. gr. settar frekari reglur um vistráðningar. Í 17. gr. reglugerðarinnar er fjallað um riftun samninga um vistráðningu og er þar meðal annars áskilið að slík riftun skuli vera skrifleg og taki gildi þegar hún hafi verið birt gagnaðila. Þá skuli samningsaðilar veita hvor öðrum tiltekið langan frest nema í tilvikum, sem tiltekin eru í ákvæðinu, þar sem heimilt er að rifta samning án tafar. Hvorki í lögum né reglugerð um útlendinga er vikið að því hvaða réttaráhrif það skuli hafa ef annar samningsaðila virði ekki ákvæði reglugerðarinnar um riftun vistsamnings.

Ljóst er að í síðari hluta júlímánaðar 2021 var það upplifun kæranda að aðstæður hennar á heimili þáverandi vistfjölskyldu hennar væru óviðunandi. Bárust Útlendingastofnun upplýsingar frá ótilgreindum aðila, núverandi vistmóður kæranda og kæranda sjálfri um þessa afstöðu kæranda sem og að kærandi hygðist flytja til nýrrar vistfjölskyldu og að hún hefði leitast við að tilkynna fyrrum vistfjölskyldu um riftun vistsamnings.

Með tölvubréfi Útlendingastofnunar, dags. 5. ágúst 2021, var kæranda leiðbeint um að fylla út tilgreint form um riftun á vistráðningarsamningi ásamt því að skila inn til stofnunarinnar nýjum vistráðningarsamningi ásamt nauðsynlegum fylgigögnum, m.a. að ný vistfjölskylda uppfylli framfærsluskilyrði. Þá var kæranda leiðbeint um að hún þyrfti ekki að rita undir nein skjöl hjá fyrrverandi vistfjölskyldu ef hún vildi ekki auk þess sem henni var leiðbeint um að leggja fram gögn til stuðnings því að samningurinn hefði verið vanræktur. Hinn 11. ágúst 2021 lagði kærandi fram riftun á vistráðningarsamningi til Útlendingastofnunar. Með tölvubréfi, dags. 29. október 201, var kæranda tjáð að ekki væri þörf á sérstöku samþykki Útlendingastofnunar vegna riftunarinnar. Loks fer ekki milli mála af gögnum málsins að fyrri vistfjölskyldu varð kunnugt um riftun samningsins áður en hin kærða ákvörðun var tekin.

Hvað svo sem líður aðstæðum kæranda á heimili fyrri vistfjölskyldu er ljóst að kærandi sleit samningi sínum við fjölskylduna dagana 27. eða 28. júlí 2021. Þrátt fyrir að ágreiningur sé milli kæranda og vistfjölskyldunnar um það hvort ástæða hafi verið til þess að vistinni yrði slitið án tafar er ljóst að með ákvörðun kæranda urðu slit á vistráðningu kæranda í skilningi 6. mgr. 68. gr. laga um útlendinga og að vistfjölskyldunni var gert kunnugt um slitin. Þá var skýrt af hálfu Útlendingastofnunar í samskiptum stofnunarinnar við kæranda að ekki væri þörf á frekara samþykki stofnunarinnar vegna vistaskiptanna. Eins og að framan greinir er mælt fyrir um það í 6. mgr. 68. gr. laga um útlendinga að við slíkar aðstæður sé hinum vistráða heimilt að gera samning um nýja vistráðningu við nýja vistfjölskyldu að uppfylltum öllum skilyrðum ákvæðisins. Skal samanlagður dvalartími hjá vistfjölskyldum þá ekki vera lengri en eitt ár. Af gögnum málsins er ljóst að kærandi dvelst nú hjá nýrri vistfjölskyldu en vistaskiptin voru samkvæmt gögnum málsins skráð frágengin í málaskrá Útlendingastofnunar hinn 23. ágúst 2021.

Með vísan til alls framangreinds var hin kærða ákvörðun ekki í samræmi við 6. mgr. 68. gr. laga um útlendinga og verður hún því felld úr gildi.

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                  Sandra Hlíf Ocares

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum