Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd eignarnámsbóta

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 20. desember 2004

Mánudaginn 20. desember 2004 var tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 10/2003.

Landsvikjun

gegn

Eigendum Laugavalla, Norður-Héraði

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.  Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

 

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Magnús Leópoldsson, löggiltur fasteignasali, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

 

II.  Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:

 

Með matsbeiðni dags. 30. janúar 2003, sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 19. júní 2003, fór Landsvirkjun, Háaleitisbraut 68, 103 Reykjavík (matsbeiðandi) þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna landnotkunar og efnistöku úr jörðinni Laugavöllum, Norður-Héraði, í tilefni af byggingu Kárahnjúkavirkjunar í landi jarðarinnar.  Matsþolar eru eigendur jarðarinnar Laugavalla.

 

Matsbeiðnin byggði á samkomulagi aðila málsins dags. 21. október 2002 þar sem matsþolar heimiluðu matsbeiðanda notkun á landi sínu í þágu framkvæmda vegna Kárahnjúkavirkjunar.  Náði heimildin skv. samkomulaginu til efnistöku, rannsókna, umferðar, uppsetningar og stöðu vinnubúða og vatnstöku vegna vinnubúða, mannvirkjagerðar og til annarra nota í þágu virkjunarframkvæmdanna.  Í 3. gr. samkomulagsins kemur fram að hafi samningar ekki tekist fyrir 15. janúar 2003 um afmörkun og  tilgreiningu allra réttinda á jörðinni sem nýta þurfi í þágu byggingar og reksturs Kárahnjúkavirkjunar og um greiðslur fyrir þau muni matsbeiðandi, nema samkomulag verði um annað, leita eignarnáms á þeim réttindum sem samkomulagið varði.

 

III.  Málsmeðferð:

 

Fimmtudaginn 19. júní var málið fyrst tekið fyrir hjá Matsnefnd eignarnámsbóta.  Matsbeiðandi lagði fram matsbeiðni og var að því búnu ákveðið að fara á vettvang þann 10. júlí 2003.

 

Fimmtudaginn 10. júlí 2003 var málið tekið fyrir.  Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar.  Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu matsbeiðanda til 1. október 2003.

 

Miðvikudaginn 29. október 2003 var málið tekið fyrir, en þá hafði matsbeiðandi fengið viðbótarfrest til framlagningar greinargerðar í málinu.  Af matsbeiðanda var lögð fram greinargerð ásamt fylgiskjölum og var málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar og annarra gagna af hálfu matsþola til 15. janúar 2004.

 

Lögmenn matsþola óskuðu eftir viðbótarfresti til framlagningar greinargerðar í málinu og var málið því næst tekið fyrir mánudaginn 29. mars 2004.  Þá var lögð fram greinargerð ásamt frekari gögnum af hálfu matsþola  Málinu var að því búnu frestað um ótiltekinn tíma þar sem nauðsynlegt þurfti að fara að nýju á vettvang.

 

Þriðjudaginn 15. júní 2004 var málið tekið fyrir.  Gengið var á vettvang í annað sinn og málinu að því búnu frestað til munnlegs flutnings þess sem fyrirhugaður var um miðjan október.

 

Að beiðni aðila málsins var málflutningi frestað til föstudagsins 10. desember 2004 og var málið þá tekið fyrir og flutt munnlega fyrir nefndinni og tekið til úrskurðar að því búnu.

 

III.  Niðurstaða matsnefndar:

 

Við flutning málsins fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta kom fram grundvallar ágreiningur milli matsbeiðanda og matsþola um forsendur þær sem aðilar telja að matsnefndin eigi að leggja til grundvallar við matið.  Þannig krefst matsbeiðandi þess að land það sem notað verði undir mannvirki, stöðulón o.fl. verði metið sem um eingnarnumið land sé að ræða með öllum gögnum og gæðum.  Af hálfu matsþola er því haldið fram að samkomulag aðila frá 21. október 2002 feli einungis í sér heimild matsbeiðanda til notkunar landsins, en í því felist ekki neitt afsal á eignarétti landsins og því beri matsnefndinni einungis að meta bætur fyrir efnistöku og afnot landsins meðan virkjunin er starfrækt á svæðinu í samræmi við samkomulagið.  Telja matsþolar að til að matsbeiðandi geti gert kröfu um fullkominn eignarrétt á því landi sem hann þurfi á svæðinu verði að koma til formlegt eignarnám en það hafi ekki farið fram.

 

Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms kemur fram að Matsnefnd eignarnámsbóta skeri úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald sem ákveða á samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms. Matsnefndinni hefur þannig með höndum þröngt afmarkað svið í tengslum við eignarnám. Svo sem rakið er að framan hefur rekstur máls þessa fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta ekki byggst á fyrirliggjandi eignarnámi, sbr. 4. gr. laga nr. 11/1973, heldur samkomulagi aðila um að vísa fyrirliggjandi ágreiningi um fjárhæð bóta til nefndarinnar. Undir þeim kringumstæðum er svigrúm nefndarinnar til lagalegs mats, sem ekki fellur beinlínis innan ramma laga nr. 11/1973 og lýtur þannig eingöngu að sjónarmiðum um verðmat, enn þrengra en ella.     Ágreiningur sá sem uppi er milli aðila í máli þessu og opinberaðist skýrlega við flutning málsins er af þeim toga að matsnefndin á ekki úrskurðarvald þar um.  Þá ná heimildir hennar að lögum ekki til þess að túlka fyrirliggjandi samkomulag aðila á annan hvorn veginn.  Til þess að málið sé tækt til efnismeðferðar fyrir matsnefndinni, verða aðilar annað hvort að ná samkomulagi sín á milli um fyrirliggjandi grundvallar ágreining um framtíðarskipan eignarréttar á svæðinu eða fram verður að fara eignarnám á því landi og landsgæðum sem meta á.  Með vísan til þess sem að framan segir er málinu vísað frá Matsnefnd eignarnámsbóta.

 

Rétt þykir að gera matsbeiðanda að greiða kostnað matsþola vegna málsins í samræmi við fram lagðan málskostnaðarreikning auk kostnaðar í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar í málinu.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Máli þessu er vísað frá Matsnefnd eignarnámsbóta.

Landsvirkjun greiði eigendum Laugavalla kr. 4.668.453- í kostnað vegna reksturs málsins fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta.

Þá skal Landsvirkjun greiða kr. 1.000.000- í ríkissjóð vegna starfa matsnefndarinnar í máli þessu.

 

__________________________________

Helgi Jóhannesson

 

____________________________                ________________________________

Vífill Oddsson                                                   Magnús Leópoldsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum