Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20F%C3%A9lags%C3%BEj%C3%B3nusta%20og%20h%C3%BAsn%C3%A6%C3%B0ism%C3%A1l

Mál nr. 196/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 196/2017

Þriðjudaginn 15. ágúst 2017

Agegn Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 16. maí 2017, kærir B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, afgreiðslu Reykjavíkurborgar á umsókn hans um sértækt húsnæðisúrræði.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um sértækt húsnæðisúrræði með umsókn móttekinni í mars 2007. Eftir að málaflokkur fatlaðs fólks var færður frá ríki yfir til sveitarfélaga sótti kærandi um sértækt húsnæðisúrræði hjá Reykjavíkurborg í febrúar 2012 og var settur á biðlista. Kærandi hefur enn ekki fengið úthlutað húsnæði sem hentar hans þjónustuþörf og kærir því drátt á afgreiðslu málsins, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls.

Með bréfi, dags. 7. júní 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 30. júní 2017. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. júlí 2017, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á að úrskurðarnefnd velferðarmála taki ákvörðun í málinu og geri Reykjavíkurborg að veita honum þá þjónustu sem hann þurfi á að halda og eigi rétt á samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks. Kærandi tekur fram að hann hafi sótt um sértækt búsetuúrræði hjá Svæðisskrifstofu málefna fatlaðs fólks í Reykjavík um X ára aldur en sú umsókn finnist ekki hjá þjónustuaðila. Elsta skjalfesta heimild sem finnist hjá svæðisskrifstofunni sé frá mars 2007 en þá hafi kærandi verið X ára gamall. Við flutning málefna fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga í janúar 2011 hafi umsókn kæranda flust til Reykjavíkurborgar en hann hafi undirritað nýja umsókn í febrúar 2012.

Kærandi bendir á að frá fyrstu umsókn hafi verið ljóst að hann þyrfti umfangsmikla þjónustu fötlunar sinnar vegna en hann hafi ávallt þurft sérhæfða þjónustu. Kærandi sé nú orðinn fullorðinn og búsettur á heimili aldraðra foreldra sinna. Annað þeirra eigi við heilsubrest að stríða. Reykjavíkurborg hafi haft sex ár til að bregðast við umsókn kæranda með viðunandi hætti en engin áætlun liggi fyrir þess efnis að hann fái þá sértæku búsetuþjónustu sem hann hafi sótt um. Kærandi hafi verið á virkri bið eftir sértæku búsetuúrræði svo sem skjalfest sé frá árinu 2007 eða í 10 ár. Kærandi vísar til þess að það sé í höndum Reykjavíkurborgar að gera kæranda kleift að flytja úr foreldrahúsum og veita honum þá þjónustu sem hann eigi rétt á lögum samkvæmt.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá fötlun kæranda og aðstæðum hans. Tekið er fram að umsókn kæranda um sértækt húsnæðisúrræði sé á virkri bið en ekki liggi fyrir hvenær úthlutun verði. Sérstakt úthlutunarteymi, skipað fagfólki á velferðarsviði Reykjavíkurborgar, forgangsraði umsóknum með tilliti til þjónustuþarfar umsækjenda og flokkunar sértækra húsnæðisúrræða. Kærandi hafi verið tilnefndur til búsetu í sértæku húsnæðisúrræði á árunum 2012 til 2014 en ekki fengið úthlutað, auk þess sem umsókn um búsetu í C hafi verið send í janúar 2016. Reykjavíkurborg bendir á að með bréfi, dags. 29. júní 2016, hafi kærandi verið upplýstur um að það væri fyrirséð að afgreiðsla máls um úthlutun sérstaks húsnæðisúrræðis myndi tefjast.

Reykjavíkurborg tekur fram að kærandi hafi þegar verið metinn í þörf fyrir sértækt húsnæðisúrræði og sveitarfélagið hafi tekið stjórnvaldsákvörðun um rétt hans til að vera á biðlista eftir slíku úrræði á grundvelli þess mats. Úthlutun í sértæk húsnæðisúrræði sé forgangsraðað með tilliti til þjónustuþarfa og aðstæðna umsækjanda á þeim biðlista. Reykjavíkurborg vísar til þess að samþykki á umsókn kæranda um sértækt húsnæðisúrræði sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sveitarfélagið hafi því þegar viðurkennt rétt kæranda til að fá úthlutað sértæku húsnæðisúrræði, enda hafi hann verið settur á biðlista eftir slíku úrræði. Jafnvel þótt sveitarfélagið hafi viðurkennt rétt kæranda til að fá úthlutað sértæku húsnæðisúrræði þá felist ekki í þeirri stjórnvaldsákvörðun að veita beri honum umrætt úrræði með skilyrðislausum og tafarlausum hætti. Engin lagaákvæði mæli fyrir um slíka skyldu eða um viðmiðunarfresti í því sambandi, enda verði að telja að slíkt fyrirkomulag væri með öllu óraunhæft. Í ákvæði 1. mgr. 10. gr. laga nr. 59/1992 sé einungis kveðið á um að sveitarfélög skuli bjóða fötluðu fólki upp á húsnæðisúrræði í samræmi við þarfir þess og óskir eftir því sem kostur er. Af orðalagi ákvæðisins leiði að fatlað fólk, sem uppfylli skilyrði sveitarfélags til að fá sértækt húsnæðisúrræði, kunni að þurfa að bíða í nokkurn tíma eftir því að fá úthlutað slíku úrræði. Í samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga hafi kærandi verið upplýstur um fyrirséða töf á úthlutun.

Reykjavíkurborg vísar til þess að lög nr. 59/1992 veiti sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau veiti fötluðu fólki í samræmi við markmið laganna og hvernig aðgengi fatlaðra einstaklinga að þeirri þjónustu skuli tryggt. Ekki sé unnt að ráða af lögunum nema að litlu leyti hver hinn efnislegi réttur íbúa sveitarfélags sé í þeim efnum þar sem hann ráðist aðallega af ákvörðun hvers sveitarfélags. Í samræmi við 78. gr. stjórnarskrárinnar sé sveitarfélögum tryggður sjálfstjórnarréttur og í honum felist meðal annars það að sveitarfélög ráði hvernig útgjöldum sé forgangsraðað í samræmi við lagaskyldur og áherslur hverju sinni. Stjórnarskráin leggi ekki ríkari eða víðtækari skyldur á herðar sveitarfélögum í þessum efnum heldur en mælt sé fyrir um í fyrrgreindum sérlögum. Í ljósi úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 148/2016 vinni velferðarsvið Reykjavíkurborgar nú að því að breyta verklagi vegna umsækjenda á biðlista eftir sértæku húsnæðisúrræði. Unnið sé markvisst í málum einstaklinga á biðlista ásamt því að þeim sé skýrt frá fyrirséðum töfum með reglubundnum hætti, líkt og hafi verið gert í máli kæranda.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um afgreiðslu Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda frá mars 2007, sem var endurnýjuð í febrúar 2012, um sértækt húsnæðisúrræði. Kærandi hefur enn ekki fengið húsnæði sem hentar hans þjónustuþörf og kærir því drátt á afgreiðslu málsins, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fjallað er um réttindi fatlaðs fólks í lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Markmið laganna er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Samkvæmt 7. gr. laganna skal fatlað fólk eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Ávallt skal leitast við að veita fötluðu fólki þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði menntunar og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Reynist þjónustuþörf fatlaðs einstaklings meiri en svo að henni verði fullnægt innan almennrar þjónustu skal hann fá þjónustu samkvæmt lögunum. Við framkvæmd laganna skal tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Í 4. gr. laganna kemur fram að sveitarfélög beri ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar sem og kostnaði vegna hennar, samkvæmt lögunum nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum.

Í VI. kafla laga nr. 59/1992 er fjallað um búsetu en þar segir í 1. mgr. 10. gr. að fatlað fólk skuli eiga kost á félagslegri þjónustu sem geri því kleift að búa á eigin heimili og húsnæðisúrræðum í samræmi við þarfir þess og óskir eftir því sem kostur er. Þá kemur einnig fram í 2. mgr. 10. gr. að sveitarfélag eða sveitarfélög sem standa saman að þjónustusvæði skuli tryggja að framboð á húsnæðisúrræðum samkvæmt 1. mgr. sé til staðar jafnframt því að veita þjónustu samkvæmt 1. mgr. Samkvæmt 6. mgr. sömu lagagreinar er ráðherra heimilt að setja nánari reglur í reglugerð um húsnæðisúrræði samkvæmt ákvæðinu í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, þar á meðal hvernig ákveða skuli fjárhæð húsaleigu í húsnæðisúrræðum og breytingar á þeirri fjárhæð, um rekstur heimilissjóða og greiðslur til þeirra og nánar um skipulag húsnæðisúrræða. Reglugerðir nr. 1054/2010 um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu og 370/2016 um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk hafa verið settar með stoð í ákvæðinu.

Í 3. mgr. 5. gr. laga nr. 59/1992 kemur fram að sveitarfélög skuli starfrækja teymi fagfólks sem metur heildstætt þörf fatlaðs einstaklings fyrir þjónustu og hvernig koma megi til móts við óskir hans. Teymin skuli hafa samráð við einstaklinginn við matið og skuli það byggt á viðurkenndum matsaðferðum. Enn fremur skuli hafa samráð við fatlaðan einstakling og væntanlegt sambýlisfólk hans, ef við á, áður en tekin sé ákvörðun um þjónustu á grundvelli 10. gr. laganna. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu var þörf kæranda metin og niðurstaðan sú að hann væri í þörf fyrir sértækt húsnæðisúrræði vegna fötlunar sinnar.

Í lögum nr. 59/1992 er ekki kveðið á um lögbundinn frest fyrir sveitarfélög til að úthluta fötluðu fólki húsnæði í samræmi við þarfir þess og óskir. Þá er í reglugerðum nr. 1054/2010 og 370/2016 ekki að finna slíkt ákvæði að frátöldum ákvæðum 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 1054/2010 um að mat á þjónustuþörf skuli gert innan tveggja mánaða frá því að umsókn berst og að niðurstaða teymis um mat á þörf og úrræði skuli liggja fyrir eigi síðar en þremur mánuðum eftir að umsókn berst. Að mati úrskurðarnefndarinnar ber því að líta til málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við mat á því hvort afgreiðsla á máli kæranda hefur dregist. Þar kemur fram sú meginregla að ákvarðanir í málum innan stjórnsýslunnar skuli teknar eins fljótt og auðið er. Í ákvæðinu kemur ekki fram hvaða tímafrest stjórnvöld hafa til afgreiðslu mála en af því leiðir að aldrei má vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Með hliðsjón af þessari meginreglu verður að telja að stjórnvöldum sé skylt að haga afgreiðslu þeirra mála sem þau fjalla um í samræmi við þessa meginreglu og gera eðlilegar ráðstafanir til þess að þau séu til lykta leidd af þeirra hálfu eins fljótt og unnt er. Hvað talist getur eðlilegur afgreiðslutími verður að meta í hverju tilviki fyrir sig. Þannig verður að líta til umfangs máls og atvika hverju sinni, auk þess sem mikilvægi ákvörðunar fyrir aðila getur einnig haft þýðingu í þessu sambandi.

Ljóst er að kærandi hefur ekki enn fengið húsnæði sem hentar hans þjónustuþörf. Reykjavíkurborg hefur vísað til þess að kærandi hafi verið tilnefndur til búsetu í sértæku húsnæðisúrræði á árunum 2012 til 2014, auk þess sem umsókn um búsetu í C hafi verið send í janúar 2016. Umsókn hans sé á virkri bið en ekki liggi fyrir hvenær úthlutun verði.

Úrskurðarnefndin getur fallist á að skortur á viðeigandi húsnæði fyrir kæranda valdi töf á úthlutun en að mati nefndarinnar getur það ekki réttlætt bið um ókomna tíð án þess að fyrir liggi einhver áætlun í þeim efnum. Verður þannig að gera þá kröfu til sveitarfélagsins að markvisst sé unnið að lausn í máli kæranda og gerðar séu ráðstafanir til að hann fái viðeigandi búsetuúrræði eins fljótt og unnt er. Reykjavíkurborg hefur vísað til þess að í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 148/2016 sé nú unnið markvisst í málum einstaklinga á biðlista eftir sértæku húsnæðisúrræði og þeim skýrt frá fyrirséðum töfum með reglubundnum hætti, líkt og eigi við í máli kæranda. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi upplýstur um töf á úthlutun sértæks húsnæðisúrræðis með bréfi, dags. 29. júní 2017, eða eftir að kæra hafði borist úrskurðarnefndinni. Kæranda er þar greint frá því að á árinu 2018 stefni Reykjavíkurborg á að opna nýjan íbúðakjarna í hans þjónustuflokki en einnig sé unnið að uppbyggingaráætlun í sértækum húsnæðisúrræðum sem þó hafi ekki verið samþykkt. Því sé ekki fyrirséð hvenær geti komið til úthlutunar sértæks húsnæðisúrræðis. Úrskurðarnefndin getur ekki fallist á að Reykjavíkurborg hafi með þessu verið að vinna markvisst í máli kæranda sérstaklega og gert ráðstafanir til að veita honum viðeigandi búsetuúrræði.

Á grundvelli þess að sveitarfélagið hefur ekki áætlað hvernig og hvenær leyst verði úr máli kæranda er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að afgreiðsla máls kæranda hafi dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Lagt er fyrir sveitarfélagið að hraða afgreiðslu málsins og taka ákvörðun um búsetuúrræði svo fljótt sem auðið er. Ef fyrirséð er að á afgreiðslu málsins verði frekari tafir ber sveitarfélaginu að skýra kæranda með reglubundnum hætti frá því og upplýsa um ástæður tafanna auk þess hvenær ákvörðunar um búsetuúrræði sé að vænta, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Afgreiðsla Reykjavíkurborgar í máli A, var ekki í samræmi við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Lagt er fyrir Reykjavíkurborg að hraða afgreiðslu máls kæranda og taka ákvörðun um búsetuúrræði svo fljótt sem auðið er.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum