Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 475/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 7. október 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 475/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21060002

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 31. maí 2021 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Venesúela (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. maí 2021, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar. Einnig að lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka málið til efnismeðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.         Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 3. mars 2021. Við umsókn framvísaði kærandi m.a. dvalarleyfisskírteini útgefnu af yfirvöldum í Síle með gildistíma frá 11. nóvember 2019 til 11. október 2024. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun, m.a. þann 16. mars 2021, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað þann 12. maí 2021 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 18. maí 2021 og kærði kærandi ákvörðunina þann 31. maí 2021 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 16. júní 2021 ásamt fylgigögnum. Þá bárust viðbótargögn þann 25. júní 2021.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi sé með gilt dvalarleyfi í Síle. Umsókn hans um alþjóðlega vernd yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Síle ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Síle.

IV.          Málsástæður og rök kæranda

Kærandi vísar í greinargerð sinni til greinargerðar sinnar til Útlendingastofnunar, dags. 31. mars 2021, og gagna málsins er varðar málavexti og landaupplýsingar. Þar fjalli kærandi um aðstæður sínar í heimaríki sem hafi verið bágar og ástæður þess að hann hafi ákveðið að flýja. Í Síle hafi kærandi gengið í hjúskap með konu sem sé ríkisborgari Síle en í október 2020 hafi þau skilið að borði og sæng. Eftir skilnaðinn hafi kærandi lifað á götunni við slæmar aðstæður. Kærandi hafi lýst fordómum og útlendingahatri af hálfu almennings og yfirvalda í Síle. Þá hafi kærandi orðið fyrir hótunum af hálfu glæpagengis þar í landi. Í greinargerð kæranda til Útlendingastofnunar kemur m.a. fram að öryggisástand í heimaríki kæranda sé alvarlegt og ótryggt og vísar kærandi til nýlegra heimilda máli sínu til stuðnings.

Kærandi gerir í greinargerð sinni margvíslegar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun. Kærandi gerir athugasemd við beitingu Útlendingastofnunar á ákvæði a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og telur ekki ljóst af hinni kærðu ákvörðun á grundvelli hvaða málsliðar a-liðar ákvæðisins Útlendingastofnun byggi niðurstöður sína. Kærandi vísar til athugasemda við 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga í frumvarpi því sem varð að lögum um útlendinga og færir rök fyrir því að a-liður 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga geti ekki átt við um kæranda þar sem hann hafi hvorki sótt um né hlotið alþjóðlega vernd í Síle. Þá vísar kærandi til 1. mgr. 35. gr. og 38. gr. tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2013/32/EU og umfjöllunar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna er varðar hugtakið fyrsta griðland. Það sé mat kæranda að Útlendingastofnun hafi ekki skýrt grundvöll ákvörðunar sinnar nægilega vel og að sá óskýrleiki geri honum erfiðara um vik að verjast hinni kærðu ákvörðun. Þá vekur kærandi athygli á því að nær engin reynsla sé af beitingu a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga í framkvæmd á Íslandi. Þá telur kærandi að taka beri umsókn sína um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga með vísan til fjölskyldutengsla hans hér á landi. Kærandi hafi sýnt fram á að hann eigi sannanlega ættingja sem hafi heimild til dvalar hér á landi og að tengslin á milli þeirra séu raunveruleg og náin. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til athugasemda við 36. gr. laga um útlendinga í frumvarpi því sem varð að lögum um útlendinga.

Þá gerir kærandi athugasemd við málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli sínu. Þann 16. mars 2021 hafi kærandi mætt í svokallað efnismeðferðarviðtal hjá Útlendingastofnun. Hinn 13. apríl 2021 hafi kæranda borist tölvubréf frá Útlendingastofnun þar sem fram hafi komið að Útlendingastofnun hefði tekið til skoðunar hvort skilyrði fyrir því að umsækjandi skuli sendur aftur til Síle á grundvelli 36. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt í málinu. Kærandi hafi þó ekki litið svo á að með þessu tölvubréfi lægi ljóst fyrir að mál kæranda væri komið í nýjan farveg og væri þar með ekki lengur í efnismeðferð hjá stofnuninni. Ef svo hefði verið hefði kærandi átt von á afdráttarlausri ákvörðun um að mál hans væri ekki lengur til efnismeðferðar, að kærandi yrði boðaður í annað viðtal í samræmi við það og honum sérstaklega gefinn kostur á að neyta andmælaréttar í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi leggur í greinargerð sinni áherslu á að í flestum tilvikum hafi talsmönnum og umsækjendum verið gert ljóst í hvaða farveg mál sé tekið og vísar í því samhengi til dóms héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-3366/2018 frá 14. febrúar og tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2013/32/EU máli sínu til stuðnings.

Þá gerir kærandi athugasemd við umfjöllun Útlendingastofnunar um sérstök tengsl kæranda hér á landi. Af hinni kærðu ákvörðun megi sjá að Útlendingastofnun hafi ekki talið hin framlögðu gögn vera fullnægjandi sönnun á tengslum kæranda hér á landi. Að mati kæranda hefði verið rétt að upplýsa hann um afstöðu stofnunarinnar og leiðbeina honum um frekari gagnaframlagningu. Kærandi telur þessa málsmeðferð Útlendingastofnunar fela í sér brot á rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og leiðbeiningarskyldu 7. gr. sömu laga.

Í viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun hafi verið spurt um leyfi kæranda til að hafa samband við yfirvöld í Síle og óska eftir upplýsingum um dvalarleyfi hans þar í landi. Með tölvubréfi, dags. 25. mars 2021, hafði kærandi spurt Útlendingastofnun hvort slík upplýsingabeiðni hefði verið send og barst þann 26. mars 2021 svar þar sem fram kom að það hefði verið mat stofnunarinnar að það væri óþarft. Að mati kæranda sé uppi óvissa um dvalarleyfi kæranda í Síle vegna skilnaðar við fyrrum eiginkonu hans þar í landi. Í hinni kærðu ákvörðun sé lagt til grundvallar að dvalarleyfi kæranda geti ekki fallið niður vegna skilnaðar hans en af ákvörðuninni sé ekki að sjá að Útlendingastofnun hafi sjálf fundið öruggar heimildir fyrir því. Vegna þessarar óvissu hafi Útlendingastofnun borið að nota heimild sína til að afla upplýsinga frá Síle um dvalarleyfið og þær reglur sem um það gilda. Kærandi telur framangreint fela í sér brot á rannsóknarreglunni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga.

Þann 16. mars 2021 hafi farið fram efnismeðferðarviðtal kæranda þar sem fyrst og fremst hafi verið spurt um aðstæður hans í heimaríki. Viðtalið hafi fyrirfram verið kynnt fyrir kæranda með þeim hætti að spurt yrði um aðstæður hans í heimaríki. Til samanburðar séu viðtöl við umsækjendur í hefðbundnu verndarferli kynnt með þeim hætti að spurt verði um aðstæður í móttökuríki. Þá hafi kærandi ekki verið spurður jafn ítarlega út í aðstæður sínar í Síle líkt og gert hefði verið í hefðbundnu verndarviðtali. Að mati kæranda geti það efnismeðferðarviðtal sem hann hafi farið í ekki talist vera fullnægjandi grundvöllur fyrir Útlendingastofnun til að taka ákvörðun á grundvelli 36. gr. laga um útlendinga. Mál kæranda hafi því ekki verið nægjanlega rannsakað í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga.

V.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í greinargerð kæranda gerir hann m.a. kröfu um að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar. Krafa kæranda sé byggð á því að slíkir annmarkar hafi verið á málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda að rétt sé að ógilda ákvörðunina.

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann beri fyrir sig. Í athugasemdum við 10. gr. stjórnsýslulaga er tekið fram að því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verði almennt að gera til stjórnvalda um, að það gangi úr skugga um að upplýsingar, sem búa að baki ákvörðun, séu sannar og réttar. Í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga segir að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laga um útlendinga skal viðtal við umsækjanda um alþjóðlega vernd hagað þannig að sem mestar líkur séu á að aðstæður sem geta haft þýðingu fyrir umsókn umsækjanda upplýsist. Í 3. mgr. 28. gr. kemur fram að við upphaf viðtals þurfi að upplýsa umsækjanda um að þær upplýsingar sem hann láti í té verði lagðar til grundvallar við ákvörðun umsóknar hans. Í IV. kafla stjórnsýslulaga eru lögfestar meginreglur um andmælarétt en þær fela í sér að málsaðili eigi þess kost að gæta réttar síns og hagsmuna með því að kynna sér gögn máls, tjá sig um framkomnar upplýsingar og koma að frekari upplýsingum og viðhorfum áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli hans. Rannsóknarreglan tengist náið andmælareglunni sem fram kemur í 13. gr. stjórnsýslulaga þótt markmið reglnanna sé ekki að öllu leyti hið sama. Rannsóknarreglunni er aðallega ætlað að veita öryggi fyrir því að efni ákvörðunar verði bæði löglegt og rétt en andmælareglunni er ætlað að veita aðila máls rétt til að hafa áhrif við meðferð og úrlausn máls og verja hagsmuni sína.

Í 7. gr. stjórnsýslulaga er mælt fyrir um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda en samkvæmt ákvæðinu er stjórnvaldi skylt að leiðbeina og aðstoða þá sem til þess leita um þau málefni sem eru á starfssviði þess. Í leiðbeiningarskyldu stjórnvalda felst ekki aðeins skylda til að svara fyrirspurnum heldur einnig skylda til þess að leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði, s.s. ef stjórnvaldi má ljóst vera að aðili hafi misskilið réttarreglur, ekki skilað inn nauðsynlegum gögnum, ekki veitt nægjanlega ítarlegar upplýsingar eða hefur að öðru leyti bersýnilega þörf fyrir leiðbeiningar, beri stjórnvaldi að gera aðila viðvart og veita viðkomandi viðeigandi leiðbeiningar. Í 2. mgr. 11. gr. laga um útlendinga segir að í máli vegna umsóknar um alþjóðlega vernd skuli útlendingi þegar í upphafi máls leiðbeint um réttindi sín og meðferð málsins á tungumáli sem ætla má með sanngirni að hann geti skilið. Að öðru leyti gildi almenn leiðbeiningarskylda samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga um framkvæmd laganna, sbr. 3. mgr. 11. gr. laga um útlendinga.

Af yfirliti yfir feril máls kæranda hjá Útlendingastofnun má sjá að efnisviðtal hafi farið fram þann 16. mars 2021. Í formála viðtalsins má sjá að kærandi hafi verið upplýstur um ástæðu viðtalsins, þ.e. að fá frásögn hans af því hvers vegna hann teldi sig vera flóttamann og hvaða atburður/atburðir hafi valdið flótta hans frá heimaríki. Þá má af lestri viðtalsins sjá að spurningar Útlendingastofnunar hafi fyrst og fremst beinst að aðstæðum kæranda í heimaríki en ekki í Síle. Meðal gagna málsins eru tölvupóstsamskipti kæranda við Útlendingastofnun. Af tölvubréfi Útlendingastofnunar, dags. 26. mars 2021, má sjá að kærandi hafi verið upplýstur um að dvalarleyfi hans í Síle komi til skoðunar við mat á því hvort kærandi hafi þörf fyrir alþjóðlega vernd hér á landi. Þann 31. mars 2021 hafi kærandi lagt fram greinargerð í máli sínu þar sem byggt hafi verið á 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga auk 1. mgr. 74. gr. sömu laga og aðallega fjallað um aðstæður hans í heimaríki. Þá er í greinargerð að finna umfjöllun um dvalarleyfi kæranda í Síle og færð fram rök fyrir því að ekki komi til greina að kæranda verði synjað um alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða á Íslandi með vísan til þess að hann hafi haft dvalarleyfi í Síle. Af gögnum málsins má sjá að þann 13. apríl 2021 hafi kæranda borist tölvubréf frá Útlendingastofnun þar sem m.a. kemur fram að í frásögn kæranda og gögnum málsins hafi komið fram að hann sé handhafi gilds dvalarleyfis í Síle og vegna þessa hafi Útlendingastofnun tekið til skoðunar hvort skilyrði 36. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt í máli hans.

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að upphaflega hafi málið verið rekið sem svokallað efnismál hjá Útlendingastofnun og að málsmeðferð stofnunarinnar hafi lotið að því að meta hvort kærandi uppfylli skilyrði laga um útlendinga til þess að fá réttarstöðu flóttamanns, viðbótarvernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Greinargerð kæranda til Útlendingastofnunar ber með sér að hann hafi talið mál sitt vera í þeim farvegi en hvergi í greinargerð hans eru færð fram rök fyrir því að taka skuli mál hans til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, og hvergi er fjallað um aðstæður hans í Síle í því samhengi. Af gögnum málsins verður ekki séð að kærandi hafi verið upplýstur með formlegum hætti um breytta afstöðu Útlendingastofnunar til umsóknar hans og þá hafi kæranda ekki verið gefið færi á að leggja fram viðbótargreinargerð eða koma á framfæri athugasemdum eftir að Útlendingastofnun upplýsti kæranda með tölvubréfi, þann 13. apríl 2021, að til skoðunar kæmi hvort skilyrði 36. gr. laga um útlendinga væru uppfyllt í máli hans. Áður en ákvörðun var tekin í máli kæranda lá afstaða kæranda í málinu að þessu leyti ekki fyrir.

Með hliðsjón af framangreindu var að mati kærunefndar fullt tilefni til að leiðbeina kæranda með fullnægjandi hætti um breytta afstöðu Útlendingastofnunar til umsóknar kæranda, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga, og leita eftir sjónarmiðum og afstöðu kæranda í málinu áður en ákvörðun var tekin í máli hans, sbr. 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga, einkum þegar haft er í huga hve miklir hagsmunir voru í húfi fyrir kæranda. Þegar litið er til málsmeðferðar Útlendingastofnunar í máli kæranda telur kærunefnd að rannsókn málsins hafi verið áfátt, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga.

Meginmarkmið með stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Eins og að framan greinir telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda og að ekki hafi farið fram viðhlítandi mat á máli hans. Kærunefnd telur jafnframt að ekki sé unnt að bæta úr þeim annmörkum á kærustigi og því rétt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.

Með vísan til alls þess sem framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar.Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er, að mati kærunefndar, ekki tilefni til umfjöllunar um aðrar málsástæður kæranda.

 

 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

 

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the case.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                                     Sandra Hlíf Ocares

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum