Hoppa yfir valmynd
Yfirfasteignamatsnefnd

Mál nr. 1/2019

Árið 2019, 11.júní, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 1/2019 kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Með bréfi, dags. 20. febrúar 2019, kærði X, álagningu fasteignaskatts fasteignar hans við Vatnsstíg [], fnr. [], fyrir árin 2015 og 2016 til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Með bréfi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. febrúar 2019, var kæran framsend yfirfasteignamatsnefnd.

Með bréfi, dags. 26. febrúar 2019, var kæranda tilkynnt um móttöku kærunnar af starfsmanni yfirfasteignamatsnefndar.

Yfirfasteignamatsnefnd óskaði eftir umsögn Reykjavíkurborgar vegna kærunnar með bréfi, dags. 26. febrúar 2019. Umbeðin umsögn barst frá sveitarfélaginu með bréfi, dags. 25. mars 2019.

Málið var tekið til úrskurðar 13. maí 2019.

  1. Málavextir

    Kærandi festi kaup á íbúð í fjöleignarhúsinu við Vatnsstíg [], Reykjavík á árinu 2014. Fasteignin er skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Þann 29. apríl 2013 fékk þáverandi eigandi eignarinnar, Y, leyfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til reksturs gististaðar samkvæmt flokki II í íbúðinni, í samræmi við ákvæði laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Fyrrgreint leyfi var í gildi til 29. apríl 2017.

    Við álagningu fasteignagjalda fyrir fasteign kæranda vegna áranna 2015-2018 var fasteignaskattur eignarinnar ákvarðaður samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Kærandi fór þess á leit við Reykjavíkurborg á árinu 2018 að álögð fasteignagjöld eignarinnar yrðu leiðrétt þannig að álagning fasteignaskatts yrði í samræmi við a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Vísaði kærandi til þess að íbúðin hefði verið sem nýtt sem íbúðarhúsnæði eftir að hún komst í hans eigu á árinu 2014. Í kjölfar athugasemda kæranda mun Reykjavíkurborg hafi fallist á að leiðrétt álögð fasteignagjöld eignarinnar fyrir árin 2017 og 2018.

    Með bréfi, dags. 16. desember 2018, fór kærandi þess á leit við Reykjavíkurborg að fasteignagjöld áranna 2015 og 2016 yrðu leiðrétt á sama hátt og gert hafði verið vegna áranna 2017 og 2018. Með bréfi, dags. 21. janúar 2019, hafnaði Reykjavíkurborg beiðni kæranda og vísaði m.a. til þess að leyfi til reksturs gististaðar í íbúðinni hafi verið í gildi allt til 29. apríl 2017.

    Kærandi vill ekki una framangreindri ákvörðun sveitarfélagsins og hefur því kært hana til yfirfasteignamatsnefndar líkt og að framan greinir.

  2. Sjónarmið kæranda.

    Kærandi gerir þá kröfu að álagning fasteignaskatts vegna fasteignar hans að Vatnsstíg [], Reykjavík, fnr. [], fyrir árin 2015 og 2016 verði ákvörðuð samkvæmt gjaldflokki a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

    Vísar kærandi til þess að hann hafi keypt eignina á árinu 2014 sem íbúðarhúsnæði og þannig sé eignin skráð í veðmálabókum. Hann hafi átt lögheimili í eigninni frá 24. september 2014 auk þess sem hann hafi enga heimild haft til að nýta eignina til annarra nota en sem íbúðarhúsnæði. Kærandi kveðst ekki hafa átt von á öðru en að álagning fasteignagjalda fyrir eignina yrði miðuð við að um íbúðarhúsnæði væri að ræða.

    Kærandi vísar til þess að synjun Reykjavíkurborgar á leiðréttingu fasteignagjalda hafi byggst á því að fyrri eigandi eignarinnar hafi haft leyfi til útleigu íbúðarinnar sem gististaðar í flokki II og því eigi að greiða fasteignagjöld af eigninni eins og um atvinnuhúsnæði væri að ræða. Kærandi telur að Reykjavíkurborg verði að taka mið af því að rekstrarleyfi til útleigu eignarinnar sé ekki framseljanlegt og því hafi hann enga heimild haft til að nýta íbúðina til atvinnurekstrar eftir að eignin komst í hans eigu.

    Kærandi gerir þá kröfu að álagning fasteignaskatts miðist við notkun fasteignarinnar sem íbúðarhúsnæðis á árunum 2015 og 2016 og fasteignaskattur eignarinnar verði því ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

  3. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

    Í umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 25. mars 2019, koma fram sjónarmið sveitarfélagsins til málsins. Vísað er til bréfs sveitarfélagsins til kæranda, dags. 21. janúar 2019, en þar kom fram að leyfi til reksturs gististaðar í íbúðinni hafi verið í gildi frá 29. apríl 2013 til 29. apríl 2017. Kærandi hafi keypt íbúðina af sínu fyrirtæki og því mátt vita um fyrrgreint leyfi til reksturs gististaðar í eigninni. Í ljósi framangreinds hafi ekki verið ástæða til að leiðrétta álagningu áranna 2015 og 2016 en álagning áranna 2017 og 2018 hafi hins vegar verið leiðrétt.

    Þá vísar Reykjavíkurborg jafnframt til þess að engar tilkynningar hafi borist sveitarfélaginu um að rekstri hefði verið hætt á umræddum tíma, en það hafi verið á ábyrgð leyfishafa að tilkynna um lok rekstrar í eigninni, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 85/ 2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

  4. Niðurstaða

Kveðið er á um álagningu fasteignaskatts í II. kafla laga nr. 4/1995. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna er það í höndum sveitarstjórna að ákveða fyrir lok hvers árs skatthlutfall næsta árs innan þeirra marka sem greinir í stafliðum a til c í ákvæðinu. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga sker yfirfasteignamatsnefnd úr ágreiningi um gjaldskyldu fasteignaskatts.

Samkvæmt gögnum málsins var kæranda tilkynnt um ákvörðun Reykjavíkurborgar varðandi álagningu fasteignagjalda ársins 2015 vegna fasteignar hans að Vatnsstíg [], Reykjavík, fnr. [], með álagningarseðli fasteignagjalda, dags. 23. janúar 2015. Samsvarandi tilkynning var send kæranda vegna fasteignagjalda ársins 2016 með álagningarseðli, dags. 19. janúar 2016. Á bakhlið álagningarseðlanna komu m.a. fram upplýsingar um álagningarprósentu auk þess sem þar komu fram leiðbeiningar um kæruheimild og kærufrest eins og stjórnvöldum ber að gera, sbr. 2. tölulið 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi sendi Reykjavíkurborg erindi í desember 2018 þar sem sett var fram krafa um leiðréttingu fasteignagjalda áranna 2015 og 2016 og var erindinu hafnað með bréfi sveitarfélagsins þann 21. janúar 2019.

Ekki er kveðið á um kærufrest í lögum nr. 4/1995 og fer því um hann eftir 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar segir í 1. mgr. að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg. Kærufrestur vegna fyrrgreindra ákvarðana Reykjavíkurborgar varðandi fasteignaskatt áranna 2015 og 2016 var því löngu liðinn þegar kæra barst yfirfasteignamatsnefnd í febrúar 2019.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er kveðið á um hvernig með skuli fara þegar kæra berst að liðnum kærufresti en þar segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema:

  1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
  2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Þar sem fyrir liggur að meira en ár er liðið frá því að álagning fasteignaskatts vegna fasteignar kæranda fyrir árin 2015 og 2016 lá fyrir og var tilkynnt kæranda er kærunni vísað frá yfirfasteignamatsnefnd með vísan til fyrrgreinds ákvæðis 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

 

Úrskurðarorð

Kæru vegna álagðs fasteignaskatts Vatnsstígs [], Reykjavík, fnr. [], fyrir árin 2015 og 2016, er vísað frá yfirfasteignamatsnefnd.

 

__________________________________

Björn Jóhannesson

 

______________________________           ________________________________

  Ásgeir Jónsson                                  Valgerður Sólnes


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum