Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 170/2021 úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 20. apríl 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 170/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21030024

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.         Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 5. mars 2021 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. febrúar 2021, um að synja umsókn hans um ótímabundið dvalarleyfi.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt ótímabundið dvalarleyfi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi kom fyrst til Íslands árið 2012 og sótti um alþjóðlega vernd hinn 16. maí 2012. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. ágúst 2012, var umsókn hans ekki tekin til efnismeðferðar enda bæru þýsk stjórnvöld ábyrgð á umsókn hans á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Með úrskurði innanríkisráðuneytisins, dags. 22. júlí 2013, var sú ákvörðun staðfest. Kærandi gekk í hjúskap með íslenskum ríkisborgara hinn 19. maí 2014 og fékk útgefið dvalarleyfi á grundvelli þess hjúskapar hinn 1. mars 2015 með gildistíma til 1. febrúar 2016. Var leyfið svo endurnýjað til 1. febrúar 2017. Hinn 22. desember 2016 sótti kærandi um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki og var umsókninni synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. maí 2017. Lagði kærandi því næst fram umsókn um dvalarleyfi vegna sambúðar við íslenskan ríkisborgara hinn 3. júlí 2017 og fékk útgefið dvalarleyfi hinn 7. febrúar 2018 með gildistíma til 29. janúar 2019. Hinn 4. desember 2018 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi sem foreldri barns sem er íslenskur ríkisborgari og var leyfið útgefið þann 28. júní 2019 með gildistíma til 2. júní 2020. Hefur leyfið verið endurnýjað, með gildistíma til 21. maí 2021. Hinn 2. október 2020 sótti kærandi um ótímabundið dvalarleyfi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. febrúar 2021, var umsókninni synjað. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála hinn 5. mars 2021 en meðfylgjandi kæru voru athugasemdir kæranda.

III.         Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er fjallað um ákvæði 58. gr. laga um útlendinga. Væri ljóst að kærandi hefði ekki dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Þá ættu aðstæður kæranda ekki undir undanþáguákvæði 3. mgr. 58. gr. Var umsókn kæranda því synjað.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til þess að hann sé faðir barns sem sé íslenskur ríkisborgari og sé honum því mikilvægt að dvelja á Íslandi til að sinna forsjárskyldum sínum, en sonur hans sé [...] ára gamall. Þótt kærandi búi ekki lengur með móður drengsins beri að líta til þess að hann hafi ríkar skyldur gagnvart syni sínum sem forsjárforeldri og sé því harkalegt að fallast ekki á umsókn hans um ótímabundið dvalarleyfi þar sem hann virðist uppfylla önnur skilyrði, s.s. lengd dvalar í landinu, íslenskunám o.fl. Þá vísar kærandi til þess að hann hafi orðið fyrir alvarlegri líkamsárás og sé hann nú óvinnufær, fái endurhæfingarlífeyri og sé í endurhæfingu. Sé því ekki eðlilegt að hafna umsókn hans á þeim forsendum að hann fái greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Um nánari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis er m.a. mælt fyrir um í a - e-liðum 1. mgr. 58. gr. laganna. Í undantekningartilvikum er heimilt að víkja frá skilyrðum um fjögurra ára samfellda dvöl, sbr. b-lið 2. mgr. og 3. mgr. 58. gr.

Dvalarleyfissaga kæranda á Íslandi er rakin í II. kafla úrskurðarins. Kærandi var með útgefið dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara á tímabilinu 1. mars 2015 til 1. febrúar 2017. Því næst fékk kærandi útgefið dvalarleyfi á grundvelli sambúðar með íslenskum ríkisborgara þann 7. febrúar 2018 og hefur kærandi verið með útgefið dvalarleyfi samfellt síðan, síðast dvalarleyfi á grundvelli 72. gr. laga um útlendinga með gildistíma til 21. maí 2021. Öll framangreind dvalarleyfi geta verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, sbr. 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga.

Þar sem rof kom í samfellda dvöl kæranda á tímabilinu 1. febrúar 2017 til 8. febrúar 2018 reiknast samfelldur dvalartími hans frá síðastnefndri dagsetningu. Með hliðsjón af því er ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. 58. gr. um samfellda dvöl síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis en uppfyllir það skilyrði að óbreyttu þann 7. febrúar 2022. Þá eiga þau undantekningartilvik sem fram koma í b-lið 2. mgr. og 3. mgr. 58. gr. laganna um fyrri dvöl útlendings bersýnilega ekki við í máli hans.

Með vísan til framangreinds verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi með útgefið dvalarleyfi á grundvelli 72. gr. laga um útlendinga með gildistíma til 21. maí 2021. Kærunefnd ítrekar leiðbeiningar Útlendingastofnunar þess efnis að sótt sé um endurnýjun leyfisins ekki síðar en fjórum vikum fyrir það tímamark, sbr. 2. mgr. 57. gr. laga um útlendinga, ella kann að koma rof í samfellda dvöl hans, sbr. 3. mgr. 57. gr. laganna.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum