Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 12/2021-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 12/2021

Miðvikudaginn 28. apríl 2021

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, móttekinni 8. janúar 2021, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 16. desember 2020 vegna umgengni kæranda við dóttur sína, D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan D er X ára gömul. Kærandi er móðir stúlkunnar og fer ein með forsjá hennar.

Stúlkan hefur verið vistuð utan heimilis frá 22. september 2020 eftir að tilkynningar bárust barnavernd um áhyggjur af ofbeldi af hendi kæranda. Með úrskurði Barnaverndarnefndar B 4. nóvember 2020 ákvað barnaverndarnefnd áframhaldandi vistun stúlkunnar í tvo mánuði og var lögmanni nefndarinnar falið að gera kröfu fyrir dómi um vistun stúlkunnar utan heimilis í allt að 12 mánuði með vísan til 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) Með úrskurði Héraðsdóms E 29. desember 2020 var fallist á kröfu barnaverndarnefndarinnar um áframhaldandi vistun.

Mál stúlkunnar vegna umgengni við kæranda á tímabili vistunar var tekið fyrir á fundum barnaverndarnefndar 26. nóvember 2020 og 16. desember 2020. Þar sem ekki náðist samkomulag við kæranda um umgengni var málið tekið til úrskurðar.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd B ákveður að umgengni A við stúlkuna D verði aðra hverja viku í eina klukkustund í senn, undir eftirliti starfsmanna barnaverndar og með túlki. Umgengni verður á heimili móður.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 8. janúar 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. janúar 2021, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst 21. janúar 2021 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. janúar 2021, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess aðallega að umgengni hennar við dóttur sína verði aukin þannig hún verði aðra hvora helgi frá kl. 16:30 á föstudegi til 16:30 á sunnudegi án eftirlits. Til vara geri kærandi þá kröfu að umgengni hennar við dóttur sína verði aukin og lengri hverju sinni.

Í kæru kemur fram að kærandi telji sig njóta of lítillar umgengni og í of skamman tíma í senn og að svo lítil umgengni sé til þess fallin að skaða tengslin og sambandið á milli hennar og dóttur sinnar. Þó að héraðsdómur hafi nú úrskurðað um áframhaldandi vistun utan heimilis í allt að 12 mánuði sé ljóst að það sé stefnt að því að stúlkan snúi aftur heim, enda sé ennþá um að ræða tímabundna vistun. Af þessum sökum sé nauðsynlegt að viðhalda og styrkja tengsl kæranda og dóttur hennar. Með eins lítilli umgengni og sé í gildi samkvæmt hinum kærða úrskurði sé veruleg hætta á að tengsl þeirra rofni. Ef tengslin rofni eða skerðist frekar séu auðvitað litlar líkur á að stúlkan snúi aftur heim. Einnig sé veruleg hætta á að tengsl stúlkunnar við systkini sín rofni líka. Það fyrirkomulag sem nú hafi verið úrskurðað um gæti því jafnvel skaðað hagsmuni barnsins þegar til lengri tíma sé litið, enda séu tengsl hennar við fjölskyldu sína henni mikils virði.

Í málinu liggi fyrir að stúlkan hafi aðeins verið nokkurra mánaða gömul þegar kærandi hafi flutt til Íslands í leit að betra lífi fyrir sig og fjölskyldu sína. Stúlkan hafi orðið eftir í F þar sem amma hennar hafi séð um hana þar til hún hafi orðið X ára gömul. Þá hafi kæranda tekist að koma henni til Íslands ásamt X systkinum hennar. Þetta hafi án vafa áhrif á tengsl stúlkunnar og kæranda þar sem frumtengsl barna séu mjög mikilvægur þáttur í tengslamyndun við foreldra sína. Það hafi gengið hægar en ella fyrir þær mæðgur að tengjast, bæði vegna skorts á frumtengslum og vegna þess að kærandi sé einstæð móðir með X börn á heimilinu. Það sé því mikið að gera á heimilinu og mörgum sem þurfi að sinna. Þrátt fyrir þetta hafi kærandi ávallt reynt að búa dóttur sinni gott og öruggt heimili.

Í máli stúlkunnar sé fátt sem gefi til kynna að stúkan sé vannærð eða að aðstæður á heimilinu séu óviðunandi en stúlkan hafi þó greint frá meintu ofbeldi af hendi kæranda. Að sjálfsögðu beri að taka slíka frásögn alvarlega og skoða hvort ofbeldi sé fyrir hendi á heimilinu. Kærandi hafi ávallt neitað því að hafa beitt dóttur sína eða önnur börn sín ofbeldi. Systkini stúlkunnar kannist ekki við frásagnir hennar af ofbeldi á heimilinu og líkamsskoðun, sem hafi verið framkvæmd á stúlkunni skömmu eftir að hún hafi verið tekin af heimilinu, hafi ekki leitt í ljós nein áverkamerki eða áhyggjur af vanrækslu að öðru leyti.

Eftir standi frásögn stúlkunnar og hennar vilji til að búa annars staðar en á heimilinu. Sem standi sé hún vistuð utan heimilis en samkvæmt gildandi meðferðaráætlun skuli á tímabili vistunar vinna að tengslavanda hennar og kæranda. Kærandi telji að til að tengsl þeirra styrkist þurfi umgengni þeirra að vera meiri en raun beri vitni. Samkvæmt núverandi fyrirkomulagi fái kærandi aðeins að hitta dóttur sína aðra hvora viku í eina klukkustund í senn. Svo lítill tími nýtist í sama og ekki neitt. Sem dæmi sé þessi tími ekki einu sinni nægur fyrir kæranda til að greiða dóttur sinni, en það sé ein af þeim athöfnum sem þær hafi gert saman og sé kjörin leið fyrir þær til að eyða tíma saman og að styrkja tengslin. Stúlkan sé með […] og því ekki á allra færi að […] það með réttum hætti. Kærandi sé vön að [..] barna sinna sjálf en þetta taki talsverðan tíma. Eins og sjá megi af greinargerð barnaverndar hafi ein klukkustund ekki verið nægur tími til að klára þetta verk. Með eins lítilli umgengni og um ræði sé því búið að taka þetta af mæðgunum, athöfn þar sem þær geti setið saman og myndað tengsl með væntumþykju og spjalli. Að auki hafi […] stúlkunnar oft verið tætt og illa meðhöndlað vegna þess að núverandi umsjáraðilar kunni ekki nægilega vel að meðhöndla […] stúlkunnar.

Kærandi telji hinn kærða úrskurð illa rökstuddan og engin rök sé þar að finna sem styðji eins litla og skamma umgengni hverju sinni og nú sé í gildi. Vísað sé til vilja stúlkunnar og auðvitað beri að taka tillit til hans eins og kostur er með tilliti til aldurs og þroska stúlkunnar. Kærandi fái á hinn bóginn ekki séð að meiri umgengni og lengri raski stöðugleika og ró barnsins. Þvert á móti gæti það raskað hagsmunum barnsins ef móður hennar og systkinum sé því næst sem kippt út úr lífi hennar. Engin ástæða sé til að víkja frá því sem barnavernd hafi upphaflega stungið upp á á meðferðarfundi 26. nóvember 2020, þ.e. að umgengni yrði tvær klukkustundir í hvert sinn. Kærandi telji svigrúm til að haga málum þannig að fjölskyldan fái að lágmarki þrjár til fjórar klukkustundir aðra hvora helgi svo að þau hafi möguleika á að gera eitthvað saman reglulega. Ein klukkustund sé varla nóg til að borða fjölskyldumáltíð, hvað þá að sinna einhverri afþreyingu.

Þetta fyrirkomulag taki mikið á kæranda og umgengni hafi ekki alltaf gengið hnökralaust fyrir sig. Það hafi þó gengið betur eftir því sem liðið hafi á vistun stúlkunnar. Ákvörðun um eins litla umgengni og raun beri vitni sé ekki til þess fallin að bæta samskiptin, þvert á móti geti þetta haft slæmt áhrif. Kærandi sé af öðrum menningarheimi og upplifi þessar aðstæður sem svo að verið sé að taka dóttur hennar og eigi erfitt með að sýna því skilning. Það sé nauðsynlegt að taka tillit til þessa líka, enda sé það barninu fyrir bestu að móðir þess sé í góðu jafnvægi þegar umgengni fari fram og það megi stuðla að því með rýmri umgengni heldur en ákvörðuð hafi verið.

Eðli málsins samkvæmt eigi það sem að framan sé rakið við bæði aðal- og varakröfu kæranda en fari svo að ekki verði fallist á aðalkröfu vísi kærandi sérstaklega til þess að ekkert sé til staðar sem mæli [gegn] rýmri umgengni en nú sé í gildi. Stúlkan hafi verið vistuð utan heimilis til að leyfa henni að njóta vafans hvað varði meint ofbeldi og þannig tryggja öryggi hennar. Umgengni fari að sama skapi fram undir eftirliti en það væri hægur leikur til dæmis að lengja umgengni hverju sinni með sama fyrirkomulagi án þess að það fari gegn hagsmunum barnsins. Þvert á móti mæli hagsmunir barnsins með rýmri umgengni en nú sé við móður sína og systkini.

Kærandi byggi kröfur sínar á því að barn eigi rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem séu þeim nákomnir, sbr. 1. mgr. 74. gr. bvl. Sá réttur sé í samræmi við mannréttindaákvæði og alþjóðasamninga sem Ísland hafi fullgilt. Kærandi byggi jafnframt á því að kynforeldrar eigi rétt á umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barns samkvæmt 2. mgr. 74. gr. bvl. Kærandi bendi á að réttur barns til að njóta umgengni við kynforeldra sína sé sérstaklega ríkur, enda komi fram í greinargerð með frumvarpi sem varð að barnaverndarlögum að „ef neita á um umgengnisrétt með öllu eða takmarka hann verulega verður þannig að sýna fram á að hann sé bersýnilega andstæður hagsmunum barnsins“. Kærandi telji að ekkert sé fram komið sem sýni að umgengni sé sérstaklega andstæð hagsmunum barnsins.

Þá telji kærandi að markmið fósturs standi ekki í vegi fyrir kröfum hennar þar sem krafan feli í sér mjög hóflega aukningu á umgengni og sé ekki til þess fallin að raska markmiðum þess fósturs sem nú standi yfir. Það sé mikilvægt að hafa í huga að barnið sé enn í tímabundnu fóstri og mjög mikilvægt sé að raska ekki tengslum kæranda og barnsins þar sem enn sé stefnt að því að styrkja tengsl kæranda og stúlkunnar til að hún geti snúið aftur á heimilið. Kröfur kæranda byggi enn fremur á meginreglu barnaverndarlaga um að hagsmunir barnsins skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi, sbr. 1., 3. og 4. mgr. 4. gr. laganna, og vísast til ríkra hagsmuna barnsins af því að njóta tengsla við kynforeldri og systkini sín hvað það varði.

Kærandi telji sig hafa getu og hæfni til að sinna dóttur sinni í umgengni. Hún sé reglusöm og njóti góðs stuðnings frá systur sinni sem búi einnig hér á landi og öðrum fjölskylduvinum. Fjölskyldur þeirra systra hittist reglulega og dóttir kæranda hefði gott af samvistum við stórfjölskyldu sína. Kærandi elski dóttur sína og vilji gera allt sem í hennar valdi standi til að hún geti snúið aftur á heimilið. Það hafi reynst kæranda erfitt að vera svo mikið frá dóttur sinni og það sé einlægur vilji hennar að fá að umgangast dóttur sína meira en hún geri nú. Þrátt fyrir það sem komi fram um vilja stúlkunnar í talsmannsskýrslu telji kærandi að stúlkan geri sér ekki fullkomlega grein fyrir því hversu lítinn tíma hún óski eftir umgengni við fjölskyldu sína. Kærandi vilji í þessum efnum vera í fullu samstarfi við barnavernd og vistforeldra.

Kærandi telji með vísan til alls framangreinds að ekkert sé því til fyrirstöðu að fallist verði á kröfur hennar, enda sé um að ræða hóflega aukningu á umgengni sem sé ekki til þess fallin að raska markmiðum þess tímabundna fósturs sem sé enn í gildi eða hagsmunum barnsins.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Barnaverndarnefnd B krefst þess að úrskurður nefndarinnar frá 16. desember 2020 verði staðfestur.

Fyrir liggi að Héraðsdómur E hafi fallist á kröfu barnaverndar um að dóttir kæranda yðri vistuð utan heimilis í allt að 12 mánuði. Þá liggi jafnframt fyrir að á vistunartíma hafi barnavernd áform um að bæta samskipti og tengsl kæranda og dóttur hennar sem séu brotin. Stúlkan greini frá ofbeldi af hendi móður og fyrir dómi hafi verið talið nægilega leitt í ljós að stúlkan hafi búið við tengslaleysi, afskiptaleysi og kulda af hálfu kæranda sem hafi valdið henni vanlíðan og hamlað möguleikum hennar og skilyrðum til heilbrigðs uppvaxtar. Lágmarksþörfum hennar fyrir vernd, umönnun og umhyggju hafi ekki verið mætt segi í úrskurði héraðsdóms. Afstaða stúlkunnar til umgengni við móður þurfi því ekki að koma á óvart.

Stúlkan sé mjög skýr í þeirri afstöðu sinni að hún vilji ekki búa á heimili móður og í síðasta viðtali við talsmann, 6. desember 2020, komi fram að stúlkan hafi alls ekki viljað vera ein með kæranda og að hún vilji ekki að umgengni væri lengri en ein klukkustund í senn. Í ljósi þeirra aðstæðna sem stúlkan hafi búið við um árabil sé mikilvægt, að mati barnaverndar, að hún fái að upplifa að hlustað sé á hana og að skoðanir hennar séu virtar en ekki síður að það megi treysta fullorðna fólkinu.

Á barnavernd hvíli sú skylda að gæta meðalhófs en jafnframt virða skoðanir þeirra barna sem barnavernd hafi afskipti af og gæti hagsmuna. Í máli þessu hafi talið vega sterkar skýr afstaða stúlkunnar til umgengni en sú skoðun starfsmanna barnaverndar að umgengni ætti að vera í tvær klukkustundir í senn. Að því sögðu komi skýrt fram í hinum kærða úrskurði að endurskoða skuli fyrirkomulag umgengni á vistunartímanum eftir því hvernig vinnu sérfræðings, sem hafi verið falið að vinna með tengsl mæðgnanna, miði. Sá tími sem mæðgurnar hittist í þeim viðtölum sé fyrir utan skipulagða umgengni. Þá megi að sjálfsögðu óska eftir lengri umgengni þegar eitthvað standi til, afmæli eða hár fléttað eins og nefnt sé í greinargerð. Mörg fordæmi séu fyrir slíkum tilslökunum innan Barnaverndar B.

Með hliðsjón af ofangreindu sé það mat Barnaverndar B að umgengni eins og hún hafi verið ákveðin í hinum kærða úrskurði sé hæfileg og í samræmi við hagsmuni dóttur kæranda.

IV.  Sjónarmið stúlkunnar

Í málinu liggja fyrir tvær skýrslur talsmanns þar sem aflað var upplýsinga um afstöðu stúlkunnar til umgengni við kæranda. Í þeim kemur meðal annars fram að afstaða stúlkunnar sé mjög skýr og að hún vilji ekki flytja aftur til kæranda. Varðandi umgengni sé áhersla stúlkunnar á að fá að hitta systkini sín frekar en kæranda. Stúlkan sé mjög skýr og með það á hreinu hversu oft, hve lengi, hvar, hverjir eigi að vera viðstaddir umgengni og að hún vilji hafa annan fullorðinn á staðnum. Hún vilji að umgengni sé aðra hvora viku, í eina klukkustund í senn og helst að umgengni fari fram á fósturheimili en annars á heimili kæranda. Þá vilji stúlkan ekki undir neinum kringumstæðum vera ein með kæranda í umgengni.

V.  Niðurstaða

Stúlkan D er fædd árið X. Kærandi er móðir stúlkunnar. Mál stúlkunnar vegna umgengni var tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar 16. desember 2020. Þar sem ekki náðist samkomulag við kæranda var málið tekið til úrskurðar.

Með hinum kærða úrskurði frá 16. desember 2020 var ákveðið að umgengni stúlkunnar við kæranda yrði aðra hvoraa viku, í eina kukkustund í senn, undir eftirliti starfsmanna barnaverndar og með túlki. Umgengni fari fram á heimili móður.

Kærandi krefst þess aðallega að umgengni hennar við dóttur sína verði aukin þannig hún verði aðra hvora helgi frá kl. 16:30 á föstudegi til 16:30 á sunnudegi án eftirlits. Til vara geri kærandi þá kröfu að umgengni hennar við dóttur sína verði aukin og lengri hverju sinni. Barnaverndarnefnd B krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 81. gr. bvl. á barn sem vistað er á heimili eða stofnun samkvæmt 79. gr. bvl. rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með vistun. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal barnaverndarnefnd leitast við að ná samkomulagi við þá sem umgengni eiga að rækja að teknu tilliti til þeirra reglna sem gilda á viðkomandi heimili eða stofnun. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber að líta til þeirrar stöðu sem stúlkan er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hennar við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hennar best.

Að mati úrskurðarnefndarinnar ber því fyrst og fremst að líta til hvaða hagsmuni stúlkan hefur af umgengni við kæranda. Í greinargerð starfsmanna Barnaverndar B kemur fram að í talsmannsskýrslu G frá 6. desember 2020 komi fram að stúlkan hafi verið skýr með það að hún vilji ekki hitta móður sína lengur en í klukkutíma í senn og að hún vilji alls ekki vera ein með kæranda. Stúlkan sé komin til vistforeldra í H og byrjuð í Grunnskólanum í H. Starfsmennirnir telji mikilvægt að stúlkan aðlagist vel og tengist vistforeldrum. Á meðan stúlkan sé vistuð utan heimilis verði unnið með tengsl hennar við móður hjá listmeðferðarfræðingi. Verði árangur af þeirri vinnu verði umgengni endurskoðuð.

Samkvæmt því, sem hér að framan greinir, fellst úrskurðarnefndin á ofangreind sjónarmið Barnaverndarnefndar B og telur að það þjóni hagsmunum stúlkunnar best við núverandi aðstæður að umgengni hennar við kæranda verði takmörkuð á þann hátt sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði. Er þá litið til þeirrar stöðu sem stúlkan er í samkvæmt því sem fram kemur í gögnum máls og lýst er hér að framan. Með því að takmarka umgengni er tilgangurinn að tryggja hagsmuni stúlkunnar og öryggi hennar.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umgengni við kæranda hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja beri til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 81. gr. bvl. þegar umgengni barna í vistun við foreldra og nákomna er ákveðin. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B er varðar umgengni stúlkunnar við kæranda.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 16. desember 2020 varðandi umgengni A, við D, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum