Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir%20um%20matv%C3%A6li%20og%20landb%C3%BAna%C3%B0

Ákvörðun Matvælastofnunar um synjun innflutnings á hundi af tegundinni American Pit Bull Terrier staðfest

Lykilorð: Synjun, hundategund, Reglugerð nr. 200/2020 um innflutning hunda og katta, lög nr. 54/1990 um innflutning dýra.

 

Efni: Stjórnsýslukæra

            Með erindi, dags. 5. febrúar 2020, kærði [A] ákvörðun Matvælastofnunar frá. 4. febrúar 2020, um synjun innflutnings á hundi að tegundinni American Pit Bull Terrier til Íslands á grundvelli 14. gr. reglugerðar nr. 200/2020, um innflutning hunda og katta.

            Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og barst erindi kæranda innan kærufrests.

 

Krafa

            Þess er krafist að ákvörðun Matvælastofnunar verði ógild og kæranda verði veitt undanþága til þess að flytja inn hund af tegundinni American Pit Bull Terrier.

 

Málsatvik

            Hinn 7. nóvember 2019 barst Matvælastofnun beiðni frá kæranda um undanþágu frá banni við innflutningi hunds af tegundinni American Pit Bull Terrier. Í svari Matvælastofnunar, dags. 4. febrúar, kemur fram að stofnunin hafi ekki heimild til þess að víkja frá ákvæðum um bann við innflutningi tiltekinna hundategunda, þ.á.m. hunda af umræddri tegund.

            Með bréfi, dags. 5. febrúar 2020, var ákvörðun um synjun á innflutningi hunds af framangreindri tegund kærð til ráðuneytisins. Hinn 24. mars 2020 óskaði ráðuneytið eftir umsögn Matvælastofnunar vegna málsins auk annarra gagna sem stofnunin taldi varða málið og veitti frest til 7. apríl 2020.  Umsögn Matvælastofnunar barst ráðuneytinu 3. apríl 2020. Í kjölfarið var kæranda gefinn kostur á að koma andmælum sínum á framfæri vegna umsagnarinnar en engin andmæli bárust frá kæranda.

 

Sjónarmið kæranda

            Kærandi vísar til þess að framangreindur hundur af tegundinni American Pit Bull Terrier, sem óskað sé leyfis til innflutnings á,  veiti kæranda mikinn stuðning vegna andlegra og líkamlegra veikinda. Með vísan til þess óskar kærandi eftir því að veitt verði undanþága frá banni við innflutningi á hundi af tegund sem almennt er óheimilt að flytja til landsins.

 

Sjónarmið Matvælastofnunar

            Í umsögn Matvælastofnunar kemur fram að stofnunin hafi ekki heimild til þess að víkja frá ákvæðum um bann við innflutningi tiltekinna hundategunda. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. a laga nr. 54/1990, um innflutning dýra, sé óheimilt að flytja inn gæludýr sem hætta getur stafað af. Í 1. tl. f. liðar 14. gr. reglugerðar nr. 200/2020, um innflutning hunda og katta, komi jafnframt fram að óheimilt sé að flytja inn hunda af eftirfarandi tegundum: Pit Bull Terrier/Staffordshire Bull Terrier, Fila Brasileiro, Toso Inu og Dogo Argentino. Tegundin Pit bull Terrier sé ýmist nefnd American Pit Bull, American Staffiordshire terrier eða Staffordshire Terrier. Slík tegund sé víða bönnuð, meðal annars í Danmörku, Noregi og Þýskalandi.

            Matvælastofnun vísar til þess að löggjöf og framkvæmd hér á landi byggist á því sjónarmiði að stemma stigu við innflutningi hunda sem séu af tegundum sem taldar séu sérlega hættulegar ef ekki sé rétt staðið að uppeldi og umönnun viðkomandi hunda. Auk þess kemur fram í umsögn Matvælastofnunar  að ekki séu fordæmi fyrir því hér á landi að veita undanþágu frá banni við innflutningi ofangreindrar hundategundar.

 

Forsendur og niðurstaða

            Málið lýtur að ákvörðun Matvælastofnunar um synjun á innflutningi á hundi kæranda af tegundinni American Pit Bull Terrier.

            Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 54/1990, um innflutning dýra, er meginreglan sú að óheimilt er að flytja til landsins hvers konar dýr, tamin eða villt, svo og erfðaefni þeirra. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. a sömu laga er heimilt að víkja frá banninu og getur yfirdýralæknir heimilað innflutning á gæludýrum eða erfðaefni þeirra sem ekki teljast til nýrra dýrategunda eða erlendra stofna tegunda sem hér eru fyrir, sbr. 5. gr. laganna. Forsenda heimildar yfirdýralæknis er að fyrirmælum laganna og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim sé fylgt.

            Í 3. mgr. 4. gr. a laganna kemur fram að óheimilt sé að veita undanþágu til innflutnings á hundum, blendingum af úlfum og hundum, eða öðrum gæludýrum, sem hætta getur stafað af. Nánar er fjallað um innflutning gæludýra í reglugerð nr. 200/2020, um innflutning hunda og katta. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar er innflutningur hunda óheimill nema að fengnu leyfi og að uppfylltum skilyrðum reglugerðarinnar. Í 1. tl. f. liðar 14. gr. reglugerðarinnar eru taldar  upp þær tegundir hunda sem ekki er heimilt að flytja inn til landsins. Í ákvæðinu er skýrlega kveðið á um að óheimilt sé að flytja inn hunda til landsins af tegundinni Pit Bull Terrier.

            Kröfur vegna innflutnings dýra eru strangar og er meginreglan sú að innflutningur dýra er bannaður og skulu undantekningar frá slíku banni túlkaðar þröngt. Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 4. gr. a laga nr. 54/1990, um innflutning dýra, er undanþága frá slíku banni bundin við að ákvæðum laga og reglugerða sé fylgt. Með vísan til umsagnar Matvælastofnunar telur ráðuneytið að hætta geti stafað af innflutningi af hundi af tegundinni American Pit Bull Terrier og sé því óheimilt að veita undanþágu til innflutnings á hundi kæranda, sbr. 3. mgr. 4. gr. a laganna. Auk þess er sérstaklega kveðið á um í 1. tl. f. liðar 14 gr. reglugerðar nr. 200/2020, um innflutning hunda og katta, að óheimilt að flytja inn hunda af umræddri tegund. Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið ljóst að skilyrðum ákvæðis 1. mgr. 4. gr. a laganna og 3. gr. reglugerðarinnar sé ekki fullnægt í málinu og því sé ekki  heimilt að veita undanþágu til innflutnings á hundi kæranda af tegundinni American Pit Bull Terrier.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 4. febrúar 2020, um að synja innflutningi kæranda á hundi af tegundinni Pit Bull Terrier, er hér með staðfest.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum