Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20h%C3%BAsam%C3%A1la

Mál nr. 101/2021 - Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 101/2021

 

Hugtakið hús: Eitt hús eða fleiri.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með álitsbeiðni, dags. 18. október 2021, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B hf., hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 12. nóvember 2021, lögð fyrir nefndina.

Með tölvupósti kærunefndar, dags. 11. janúar 2022, óskaði nefndin eftir því við álitsbeiðanda að lagðar yrðu fram burðarþolsteikningar af kjallara húsanna Klapparstígur 1 og 1A sem og frárennslisteikningar vegna sömu húsa. Beiðnin var ítrekuð með tölvupóstum nefndarinnar 24. janúar og 8. febrúar 2022 en umbeðin gögn bárust ekki. Með tölvupósti kærunefndar, dags. 2. mars 2022, var óskað eftir sömu gögnum frá gagnaðila. Bárust þær með tölvupósti varnaraðila, dags. 9. mars 2022, og voru þær sendar álitsbeiðanda með tölvupósti kærunefndar, dags. 15. mars 2022.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 7. apríl 2022.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða sameiginlega lóð fyrir matshlutana Klapparstíg 1, 1A, 3, 5, 5A, 7 og einnig Skúlagötu 10. Matshlutarnir eru einnig með sameiginlega bílageymslu og lóð. Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar að Klapparstíg 1. Ágreiningur er um hvort um sé að ræða eitt hús í skilningi laga um fjöleignarhús.

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að húsin Klapparstígur 1, 1A, 3, 5, 5A, 7 sem og Skúlagata 10 séu eitt hús í skilningi laga um fjöleignarhús.

Í álitsbeiðni kemur fram að húsið standi á eignarlóð og á lóðinni séu einnig fjöleignarhúsin Klapparstígur 1A, 3, 5 og 5A og einnig Skúlagata 10. Húsin tengist með sameiginlegri bílageymslu, auk þess sem lóðin sé sameiginleg. Því sé óskað álits nefndarinnar á því hvort öll húsin teljist sameign eins og sameign sé lýst í 6. gr. laga um fjöleignarhús. Ástæða þess að leitað sé til nefndarinnar sé til þess að fá úr því skorið hvort heimilt sé að skipta niður framkvæmdakostnaði á ytra byrði hússins eins og um sameign sumra sé að ræða.

Í greinargerð gagnaðila segir að eignarlóðin sé 5518,0 fermetrar og á henni séu átta matshlutar. Sérstakar eignaskiptayfirlýsingar séu fyrir hvert hús og hafi þau verið byggð á tímabilinu 1989 til 1999. Í hverjum matshluta séu starfræktar húsfélagsdeildir sem stýrt sé af sjálfstæðum stjórnum, skipuðum eigendum eignarhluta viðkomandi matshluta. Deildirnar séu sjálfstæðar um alla hluti sem snúi að hverju húsi. Einnig sé starfrækt heildarhúsfélag um sameiginlega hagsmuni allra eigenda, sameign allra, svo sem lóð og bílakjallara. Frá upphafi byggðar hafi hver húsfélagsdeild annast viðhald síns húss og skipting kostnaðar vegna viðhalds, svo sem gluggaviðgerða og málunar á ytra byrði, aðeins fallið á eigendur í viðkomandi matshluta. Deilt sé um ákvörðun húsfélagsdeildarinnar Klapparstíg 1 um að ráðast í framkvæmdir á þaki hússins. Ákvörðunin hafi verið tekin af eigendum þess matshluta á húsfundi húsfélagsdeildarinnar í samræmi við þá venju sem ríkt hafi frá upphafi.

Klapparstígur 1 sé stakstætt hús og myndi ekki eitt hús í skilningi 3. gr. laga um fjöleignarhús með öðrum húsum á lóðinni. Það sé stakstæð eining á lóðinni og sérstakt hús í skilningi laga um fjöleignarhús. Ákvarðanataka og kostnaðarskipting eigi þannig að fara eins og um eitt hús sé að ræða. Vísað sé til 1. mgr. 3. gr. laga um fjöleignarhús ásamt athugasemdum um ákvæðið í frumvarpi því sem hafi orðið að lögunum og einnig 2. mgr. 6. gr. laganna. Jafnframt beri að hafa í huga það sem fram komi í 2. mgr. 3. gr. laganna. Þegar þessi ákvæði séu lesin saman megi sjá að á einni lóð geti staðið nokkur sjálfstæð hús sem ráði sér sjálf en eigi einhverja sameiginlega hagsmuni sem kunni að lúta sameiginlegu valdi og ákvarðanatöku. Að mati gagnaðila sé það tilfellið í máli þessu. Þá eigi sambærileg sjónarmið við í málinu og í áliti kærunefndar húsamála í máli nr. 10/2019.

Í dómi Hæstaréttar frá 26. janúar 1995 hafi tilgreind hús í Kópavogi verið ákveðin sem sjálfstæð hús, meðal annars með þeim rökstuðningi að það leiði af mismunandi hæð eininganna að þak hverrar einingar sé hannað sjálfstætt og það ótengt þökum aðliggjandi eininga. Sömu rök eigi við í því tilviki sem hér um ræði.

Flest álit kærunefndar sem fjalli um hugtakið hús taki til sambyggðra eigna. Yfirgnæfandi meirihluta álitanna séu á þann veg að um sé að ræða eitt hús í skilningi laganna. Aðstæður eigna á lóðinni sem hér um ræði séu um margt frábrugðnar þeim tilvikum sem hafi ratað fyrir nefndina, enda ekki mörg fjöleignarhús í borgarlandinu sem byggð séu við sambærilegar aðstæður. Tilvikið sé því einstakt og þurfi að lúta sérstöku mati.

Aðstæður á lóðinni uppfylli þá matsþætti sem lög og framkvæmd þeirra byggi á. Hvert hús á lóðinni sé stakstætt og ótengt öðrum húsum, ólíkt að hæð, lögun og gerð og eitt þeirra með frábrugðið ytra byrði. Þau séu byggð á ólíkum tíma af ólíkum aðilum. Í hverju húsi sé starfrækt formleg húsfélagsdeild sem undirstriki sjálfstæði hvers húss en í því felist að eigendur hvers matshluta ráði einir sameiginlegum innri málefnum sínum. Eigendur eigna í öðrum húsum lóðarinnar hafi enda enga lögvarða hagsmuni tengda hefðbundnum innri málefnum á borð við viðgerðir eða viðhald annarra húsa á lóðinni.

Í eignaskiptayfirlýsingu Klapparstígs 1 sé sérstaklega fjallað um sameign allra í ákvæði 6.1 þar sem segi: „Þá er allt burðarvirki hússins, útlit, þak og sameiginlegar lagnir sameign allra í matshlutanum. “ Samhljóða ákvæði sé í eignaskiptayfirlýsingum allra hinna húsanna. Af skýru orðalagi eignaskiptayfirlýsinganna verði ráðið að í öndverðu hafi verið ráðgert að ytra byrði, þak og svo framvegis yrði aðeins á forræði og ábyrgð þeirra sem eigi eignarhlut í viðkomandi húsi. Sé því þakviðgerð á Klapparstíg 1 aðeins viðkomandi íbúum í því húsi. Ytra byrði þess húss sé sameign allra í þeim matshluta einum en að öðrum kosti sameign sumra, sé um eitt hús að ræða.

Verði ekki fallist á að um sé að ræða aðgreind hús í skilningi laga um fjöleignarhús sé á því byggt að hver matshluti sé aðeins sameign þeirra sem þar eigi eignarhlut, sbr. skýrt orðalag í eignaskiptayfirlýsingu. Viðgerðarkostnaður fyrir húsið skuli því greiddur af eignarhlutum þess húss. Á því sé þá byggt að um sé að ræða sameign sumra, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga um fjöleignarhús.

Þá megi í heild sinni segja að það markmið sem 9. gr. laganna stefni að sé að aðgreina í sérstaka eign þá þætti í framkvæmd sem hafi verið í umsjá sömu aðila. Þannig hátti til í málinu, enda hafi ólíkir aðilar byggt ólík hús á reitnum á ólíkum forsendum með ólíka iðnmeistara og undir stjórn ólíkra fagaðila og með ólíkri fjármögnun. Til að mynda hafi Reykjavíkurborg byggt Klapparstíg 1a og nýtt sem félagslegt leiguhúsnæði en Íslandsbanki hafi byggt Klapparstíg 7.

Vegna þessara atriða allra verði að telja sanngjarnt, eðlilegt og í samræmi við lög að matshlutinn Klapparstígur 1 teljist sameign þeirra sem eigi þar eignarhlut. Óeðlilegt sé að eigendur eigna í öðrum matshlutum beri ábyrgð á viðhaldi húsnæðis sem með engum hætti snerti þá. Hver matshluti sé sameign þeirra sem þar eigi eignarhlut samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga um fjöleignarhús, enda endurspeglist sú tilhögun í öllum eignaskiptayfirlýsingum. Styðji þær þá túlkun að í þeim felist að ytra byrði hvers matshluta sé í sameign þeirra sem þar eigi eignarhlut.

Verði ekki fallist á framangreint sé á því byggt að eðli máls leiði til þess að einstaka framkvæmdir og viðhald, sem ekki varði hagsmuni annarra eigenda á lóðinni, séu á ábyrgð og forræði eigenda eignarhluta þeirrar fasteignar.

Meginreglan um hvernig skilja beri hugtakið hús í lögum um fjöleignarhús byggi á ákveðnum samræmingar- og réttaröryggissjónarmiðum en einnig komi til sérstakrar skoðunar sanngirnissjónarmið. Kærunefndin hafi ítrekað byggt afstöðu sína á sanngirnisrökum og sett fram sjónarmið sem hún hafi sjálf bent á að byggi ekki á ýkja traustri lagastoð, svo sem nálgun nefndarinnar um mat á kostnaði vegna eldri viðgerða og þýðingu þeirra, sbr. til dæmis álit í málum nr. 2, 12 og 14 frá 1995, sem hafi ítrekað verið endurtekin í seinni álitum. Nefndinni sé því í lófa lagið að eyða mögulegum ósanngjörnum hliðarverkunum þeirrar afdráttarlausu og ófrávíkjanlegu meginreglu, sem talin sé að gildi við afmörkun og ákvörðun hugtaksins húss í sérstökum tilvikum, eins og því sem hér um ræði, á grundvelli sanngirnisraka og eðli máls.

Kærunefndin hafi margnefnt mikilvægi þess að sem skýrust regla eigi að gilda um það hvenær hús teljist sjálfstæð eining og hvenær sambygging fleiri húsa teljist eitt hús. Slíkt stuðli að samræmingu á úrlausnum ágreiningsmála og leiði til þess að eigendur fjöleignarhúsa búi við sambærilega réttarstöðu innbyrðis. Myndist sinn siður í hverju húsi gæti það leitt til réttaróvissu og öngþveitis. Í þessu samhengi sé á það bent að frá byggingu húsanna hafi myndast rík venja um að hver húsfélagsdeild annist framkvæmdir þeirrar eignar sem falli undir deildina og stjórnskipulag húsanna ávallt gengið út frá því að hvert hús væri sérstakt og ráði málum sínum sjálft. Hver húsfélagsdeild hafi staðið að framkvæmdum og viðhaldi frá byggingartíma hvers húss fyrir sig, án þess að nokkur óvissa hafi ríkt um réttmæti þeirrar framkvæmdar. Því sé til staðar rótgróin venja um hvernig beri að haga ákvarðanatöku og hvernig beri að skilja hvert hús innan hugtakanotkun fjöleignarhúsalaga. Engin hætta sé á að réttaróvissa eða öngþveiti myndist verði sú venja staðfest og álitin lögmæt af kærunefndinni. Í raun megi fremur halda því fram að andstæð niðurstaða muni leiða til réttaróöryggis og öngþveitis.

Óeðlilegt væri að aðilar sem hefðu engra hagsmuna að gæta gætu haldið ákvörðunum um nauðsynlegt viðhald eða aðrar framkvæmdir í gíslingu, enda þyrftu þeir að standa undir kostnaði við viðgerð eða framkvæmd á húsi sem hefði enga þýðingu fyrir þá. Þá sé umtalsvert valdamisræmi á milli húsa þar sem eignarhlutar séu allt frá 12 til 39. Þannig mætti sjá fyrir aðstæður þar sem eigendur Klapparstígs 1A, sem telji 12 íbúðir, vildu fara í tilgreindar og kostnaðarsamar framkvæmdir á húsinu sem varði í engu hagsmuni eigenda hinna 108 eignarhlutanna. Þannig gæti meirihluti íbúa ákveðið að neita þeirri ákvörðun, enda þyrftu þeir að taka þátt í greiðslu hennar en hefðu enga hagsmuni af henni.

III. Forsendur

Í 1. gr. laga um sameign fjölbýlishúsa nr. 19/1959 sagði að fjölbýlishús teldist hvert það hús sem í væru tvær eða fleiri íbúðir. Í lögunum var enn fremur sérstaklega lögfest að allt viðhald ytra byrðis húss væri sameiginlegt. Í lögum um fjölbýlishús nr. 59/1976 var bætt við framangreinda skilgreiningu eldri laga en í 1. mgr. 2. gr. laganna sagði að þau giltu um fjölbýlishús þar sem íbúðirnar væru í eigu fleiri en eins aðila. Einnig giltu þau um raðhús og önnur samtengd hús eftir því sem við gæti átt. Á gildistíma laga nr. 59/1976 mótaðist sú meginregla að sambyggingar voru skoðaðar sem eitt hús í þessum skilningi. Nokkrir héraðsdómar hafa gengið sem allir hafa rennt stoðum undir þessa meginreglu. Mikilvægastur í þessu sambandi er þó dómur Hæstaréttar frá 26. janúar 1995 í málinu nr. 239/1992.

Með setningu laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, var stefnt að því að festa umrædda meginreglu um víðtæka túlkun hugtaksins húss enn frekar í sessi. Þetta má þegar ráða af 1. gr. laganna þar sem meðal annars er vikið að skilgreiningu hugtaksins fjöleignarhús, en þar segir í 4. tölul. 3. mgr. að lögin gildi meðal annars um raðhús og önnur sambyggð og samtengd hús, bæði eingöngu til íbúðar og að einhverju leyti eða öllu til annarra nota, allt eftir því sem við geti átt. Í greinargerð frumvarps um nefnda 1. gr. er vikið nánar að hugtakinu sambyggð hús þar sem segir: „Með öðrum sambyggðum húsum er átt við hús, sem eru í enn minni eða lausari tengslum hvert við annað en raðhús og sambyggingar. Hér er þó fyrst og fremst verið að undirstrika hið víðtæka gildissvið frumvarpsins og varna gagnályktun.“

Í 3. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, er síðan enn frekari grunnur lagður að skilgreiningu hugtaksins, en 2. mgr. 3. gr. er svohljóðandi: „Þótt sambyggð eða samtengd hús teljist tvö sjálfstæð hús eða fleiri skv. 1. mgr. þá gilda ákvæði laganna eftir því sem við getur átt um þau atriði og málefni sem sameiginleg eru, svo sem lóð ef hún er sameiginleg að öllu leyti eða nokkru og um útlit og heildarsvip ef því er að skipta. Sama gildir einnig ef því er að skipta um sameiginleg málefni sjálfstæðra ótengdra fjöleignarhúsa og/eða annars konar húsa.“ Á þessu er síðan hnykkt í 2. mgr. 6. gr. laganna þar sem segir: „Þótt fjöleignarhús samanstandi af einingum eða hlutum (stigahúsum) sem eru sjálfstæðar eða aðgreindar að einhverju leyti og hvort sem þau standa á einni lóð eða fleirum er allt ytra byrði hússins alls staðar, þak, útveggir og gaflar, í sameign allra eigenda þess.“

Kærunefnd telur að með lögfestingu umræddra lagareglna, og að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða sem fest höfðu sig í sessi í gildistíð eldri laga, séu jafnan löglíkur fyrir því að sambyggingar, sem að öðrum skilyrðum uppfylltum falla undir ákvæði fjöleignarhúsalaganna, teljist eitt hús í skilningi þeirra laga og lúti reglum þeirra, að minnsta kosti hvað tekur til alls ytra byrðis og eignarumráða yfir því. Meginregla sú sem hér hefur verið lýst er ekki án undantekninga. Þannig eru vissulega til dæmi um hús í sambyggingu sem skilja sig svo frá öðrum húsum, bæði lagalega og á annan hátt, að með öllu sé óeðlilegt að viðhald á einstökum húsum sé lagt á alla eigendur. Í hverju einstöku tilviki þarf því raunar að fara fram mat þar sem til skoðunar koma fjölmörg atriði, svo sem úthlutunarskilmálar, lóðarleigusamningar, hönnun, þar með talið burðarþol og lagnakerfi, byggingaraðilar, byggingar- og viðhaldssaga, þinglýstar heimildir, þar með taldar eignaskiptayfirlýsingar, útlit húss og eðli máls. Benda má á 9. gr. laga nr. 26/1994 þar sem kveðið er á um að við aðgreiningu séreignar og sameignar megi meðal annars líta til þess hvernig staðið var að byggingu húss og hvernig byggingarkostnaði var skipt. Ekkert eitt atriði getur ráðið úrslitum í þessu sambandi heldur verður að skoða heildstætt hvert tilvik fyrir sig.

Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 26/1994 segir í athugasemdum um 9. gr. að þar sé aðeins tilgreint eitt af fleiri atriðum sem til greina geti komið í þessu efni og á það í sjálfu sér við um þau atriði önnur sem fjallað hefur verið um hér að framan. Þannig er ljóst að reglu 9. gr. laganna hlýtur að verða að túlka mjög þröngt í þessu sambandi þegar litið er til hinna víðtæku ákvæða sem veita meginreglunni stoð og hafa verið tilgreind. Benda má á að eigendur sambyggðra húsa geti verið skyldugir til að hafa samráð á grundvelli laga um fjöleignarhús um útlitsatriði, enda þótt húsin teljist að öðru leyti sjálfstæð hús í skilningi laganna, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna. Aftur á móti geta útlitsatriði og viðhaldsatriði blandast saman. Getur sú spurning vaknað hvort allir eigi að ráða útliti viðgerðar en einungis sumir að borga fyrir hana. Þá ber þess að geta að atriðum eins og viðhaldssögu húss er jafnan ekki þinglýst á eignina. Með hliðsjón af framangreindu og eðlisrökum telur kærunefnd að sem skýrust regla eigi að gilda um það hvenær hús teljist sjálfstæð eining og hvenær sambygging fleiri húsa telst eitt hús. Því beri að túlka þröngt undantekningar frá framangreindri meginreglu. Slíkt stuðlar að samræmingu á úrlausnum ágreiningsmála og leiðir til þess að eigendur fjöleignarhúsa búi við sambærilega réttarstöðu innbyrðis. Annað leiðir til réttaróvissu og öngþveitis ef sinn siður myndast í hverju húsi.

Í 1. mgr. 3. gr. laga um fjöleignarhús segir að með húsi í lögum þessum sé átt við byggingu sem varanlega sé skeytt við land og standi sjálfstæð og aðgreind frá öðrum húsum eða skilji sig þannig frá þeim þótt sambyggð eða samtengd séu að eðlilegt og haganlegt sé að fara með hana samkvæmt lögum þessum sem sjálfstætt hús. Í 2. mgr. sömu greinar segir að þótt sambyggð eða samtengd hús teljist tvö sjálfstæð hús eða fleiri samkvæmt 1. mgr. þá gildi ákvæði laganna eftir því sem við geti átt um þau atriði og málefni sem sameiginleg séu, svo sem lóð sé hún sameiginleg að öllu leyti eða nokkru og um útlit og heildarsvip sé því að skipta. Sama gildi einnig sé því að skipta um sameiginleg málefni sjálfstæðra ótengdra fjöleignarhúsa og/eða annars konar húsa.

Í 1. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús segir að greini eigendur fjöleignarhúsa á um réttindi sín og skyldur samkvæmt lögum þessum geti þeir, einn eða fleiri, leitað til kærunefndar og óskað eftir álitsgerð um ágreiningsefnið.

Af gögnum málsins verður ráðið að ágreiningur málsins snúi að því hvort kostnaður við endurnýjun á þaki Klapparstígs 1 sé sameiginlegur með eigendum að Klapparstígi 1A, 3, 5, 7 og síðan Skúlagötu 10. Þar sem nefndin hefur aðeins burðarþols- og frárennslisteikningar vegna Klapparstígs 1 og 1A og ágreiningur er bundinn við kostnað við endurnýjun á þaki í húsi nr. 1 tekur nefndin aðeins afstöðu til þess hvort það hús teljist sjálfstætt í skilningi laganna, þótt ætla megi að sömu sjónarmið geti átt við um aðra nefnda matshluta.

Í málinu er um að ræða átta matshluta sem standa á lóðinni Klapparstígur 1-7 og Skúlagata 10. Sér eignaskiptayfirlýsing gildir fyrir hvern matshluta. Sameiginlegur bílakjallari er á milli húsa og tilheyrir öllum matshlutum. Útlit matshlutanna er samræmt að undanskildum Klapparstíg 7.

Gagnaðili byggir á því að hver matshluti sé stakstæður. Þeir séu ótengdir og ólíkir að hönnun, lögun og gerð. Þrátt fyrir að ytra yfirbragð þeirra sé samræmt beri þeir merki þess að vera byggðir á ólíkum tímum, þ.e. á tímabilinu 1989 til 1999.

Í eignaskiptayfirlýsingu fyrir Klapparstíg 1 segir að allt burðarvirki hússins, útlit, þak og sameiginlegar lagnir sé í sameign allra í matshlutanum. Fram kemur í gögnum málsins að samhljóða ákvæði sé í öllum eignaskiptayfirlýsingum. Í fyrrnefndri eignaskiptayfirlýsingu segir einnig að tíu geymslur í kjallara og gangur merktur 00-57 á teikningu tilheyri Skúlagötu 10. Jafnframt segir að einn hitamælir sé fyrir matshlutann en geymslur sem tilheyri Skúlagötu 10 taki ekki þátt í hitakostnaði matshlutans.

Klapparstígur 1 stendur sjálfstætt frá öðrum matshlutum að öðru leyti en því að vera byggður við bílakjallara sem tengir saman alla matshlutana. Gagnaðili sendi kærunefnd burðarþolsteikningar af kjallara húsanna Klapparstígur 1 og 1A, sem og frárennslisteikningar af grunnum sömu húsa vegna beiðni kærunefndar þar um. Eftir yfirferð á þeim teikningum er ljóst að burðarþol Klapparstígs 1 er sjálfstætt sem og lagnakerfi hússins. Telur kærunefnd að hafa beri hliðsjón af framangreindu við úrlausn málsins sem þar að auki á sér stoð í eignaskiptayfirlýsingu hússins þar sem segir að allt burðarvirki hússins, útlit, þak og sameiginlegar lagnir sé í sameign allra í matshlutanum.

Að framangreindu virtu telur kærunefnd gögn málsins benda til þess að Klapparstígur 1 sé sjálfstætt hús í skilningi 1. mgr. 3. gr. laga um fjöleignarhús, þrátt fyrir að ákvarðanir um til að mynda útlit hússins og rekstur bílakjallarans geti verið sameiginlegar með öðrum matshlutum, sbr. 2. mgr. sömu greinar, eftir því sem við geti átt. Verður því að hafna kröfu álitsbeiðanda í málinu.

Álit nefndarinnar hindrar ekki aðila í að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti, sbr. 6. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús.


 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að Klapparstígur 1 sé sjálfstætt hús í skilningi 1. mgr. 3. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

 

Reykjavík, 7. apríl 2022

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Valtýr Sigurðsson                              Eyþór Rafn Þórhallsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum