Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Mál nr. 467/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 467/2020

Miðvikudaginn 13. janúar 2021

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 24. september 2020, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 20. júlí 2020 um bætur úr sjúklingatryggingu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn sem barst Sjúkratryggingum Íslands 19. júlí 2019 vegna meðferðar sem fór fram á Landspítala þann 23. september 2009 og eftir atvikum 4. febrúar 2015.

Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 20. júlí 2020, á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 24. mars 2020. Með bréfi, dags. 1. október 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 28. október 2020, og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi, dags. 29. október 2020. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 10. nóvember 2020, og voru þær sendar Sjúkratryggingum Íslands með bréfi samdægurs. Með tölvupósti 11. nóvember 2020 tilkynntu Sjúkratryggingar Íslands að ekki væri tilefni til frekari athugasenda af hálfu stofnunarinnar.

 

 

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi óski eftir endurskoðun á hinni kærðu ákvörðun og að viðurkennt verði að kærandi eigi rétt til bóta sem að öllum líkindum megi rekja til þátta sem falli undir gildissvið sjúklingatryggingarlaga, aðallega 1. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi fundið fyrir einkennum frá höfði, þ.e. sjóntruflunum og ósjálfráðum hreyfingum svo sem skjálfta, árið 2009. Kærandi hafi leitað til heimilislæknis vegna þessa sem hafi vísað henni til C, taugalæknis á Landspítala, sem hafi talið að einkenni hennar gæti verið að rekja til taugakerfisins, þ.e. vöðvaspennutruflunar. Kærandi hafi verið send í segulómun af heila og hálshrygg, þó án skuggaefnis í æð, þann 23. september 2009. C læknir hafi lesið úr myndunum og komist að þeirri niðurstöðu að rannsóknin hefði ekki sýnt fram á sjúklegar breytingar í heila eða hálshrygg. D, læknir á E, hafi tilkynnt kæranda framangreinda niðurstöðu, þ.e. að allt hefði komið vel út úr segulómuninni og engar breytingar sést á höfði. Þann 4. febrúar 2015 hafi kærandi svo leitað á bráðamóttöku Landspítala vegna einkenna frá höfði. Í bráðamóttökuskrá þann dag komi eftirfarandi fram:

„Nær yfirlið, dofi og slappleiki. Einkenni byrjuðu fyrir 5 dögum þegar hún fær höfuðverk sem er dreifður yfir höfuð með verkjapílum. Rakti það þá til einkenna vegna vöðvabólgu. Í gærkvöldi versna einkenni til muna, með dofa og nær yfirliðstilfinningu við að standa upp og ganga um. Einnig nefnir hún dofa í útlimum upp að hnjám og olnbogum, suð fyrir eyrum og skjálfta. Ekki tvísýni þvoglumælgi eða kyngingarvandamál.“

Ekki hafi þótt tilefni til að senda kæranda í segulómun og eftir læknisskoðun þar sem læknar töldu einkenni hennar væri að rekja til spennuhöfuðverks, hafi kærandi því verið send heim.

Dofinn, sem kærandi hafi fundið fyrir undir auga á hægri kinn, hafi breiðst út í helming hægra hluta andlits og höfuðs. Hann hafi haldið áfram að ágerast og horfið í byrjun árs 2018 en gert aftur vart við sig í júní 2018. Í september 2018 hafi dofinn enn farið að ágerast og sjóntruflarnir þá bæst við ásamt þrýstingi á hægra gagnauga, höfuðverkjum og ógleði. Þann 30. september 2018 hafi kærandi leitað á bráðamóttöku Landspítala og gengist undir tölvusneiðmynd daginn eftir, eða þann 1. október sama ár og í segulómsskoðun 2. október [2018]. Eftir það hafi kærandi greinst með heilaæxli hægra megin í höfðinu sem hafi þrýst á sjóntaug og andlitstaugar og hafi þannig truflað sjón ásamt því að valda dofa í andliti.

F, læknir á Landspítala, hafi sagt æxlið óskurðtækt. Æxlið hafi verið á hættulegum stað og ekki hægt að skera það í burtu án þess að valda miklum skaða. Þá hafi kæranda verið tjáð að æxlið hafi verið að sjá á segulómsrannsókn þeirri sem hafi farið fram þann 23. september 2009. Í framhaldinu hafi kærandi verið send til G þar sem hún hafi gengist undir geislameðferð í því skyni að reyna draga úr þeim miklu afleiðingum sem fylgi svo stóru og óskurðtæku æxli. Kærandi hafi haft viðvarandi taugaeinkenni, svo sem höfuðverk, ógleði, dofa í andliti, sjóntruflanir, þrýsting í gagnauga og stundum í höfðinu öllu, afar mikla þreytu, ójafnvægi, minnisleysi og svimaköst ásamt orkuleysi.

Kærandi sé ósammála þeirri niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands að rannsókn hafi verið hagað eins vel og unnt hafi verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á umræddu sviði. Þvert á móti sé atvikið og tjón kæranda að rekja til rangra viðbragða þess læknis sem ekki hafi greint heilaæxlið á þeim myndum sem teknar hafi verið af heila hennar þann 23. september 2009, en ljóst sé að æxlið sé greinanlegt á þeirri mynd og hafi stækkað töluvert á þeim tíma sem hafi liðið fram að réttri greiningu með tilheyrandi tjóni.

Þá hafi greiningu og eftirfylgni vegna heimsóknar kæranda á Landspítala þann 4. febrúar 2015 einnig verið ábótavant. Kærandi telji að miðað við þau einkenni í segulómun hafi sá læknir sem lesið hafi úr niðurstöðu þeirrar rannsóknar væntanlega komið auga á æxlið. Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 111/2000 komi fram um 1. tölul. 2. gr. að hafi sjúkdómur dregist á langinn vegna þess að sjúklingur hafi ekki fengið viðeigandi meðferð, til dæmis af því að sjúkdómsgreining hafi verið röng, geti sjúklingur átt rétt á bótum samkvæmt 1. eða 2. tölul. 2. gr. laganna. Þá komi fram um 1. tölul. 2. gr. að ákvæði þess töluliðar taki til allra mistaka sem verði við rannsókn, meðferð og svo framvegis en átt sé við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem ekki eigi læknisfræðilega rétt á sér eða látið hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í tilviki kæranda verði hér að telja að það síðarnefnda eigi við, þ.e. að vegna þeirra mistaka sem hafi orðið við greiningu myndanna hafi ekki verið hægt að grípa til viðeigandi meðferðar. Ljóst sé að þegar kærandi hafi loksins greinst með sjúkdóminn hafi hann verið orðinn langt genginn, æxlið stækkað mikið og verið óskurðtækt. Auk þess hafi það valdið miklu tjóni og lífsgæðaskerðingu þau ár sem liðu frá vangreiningunni og til þess tíma sem kærandi hafi loks fengið rétta greiningu.

Hugtakið „mistök“ sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkast og þannig sé það ekki skilyrði að sá læknir sem í hlut átti hafi sýnt af sér vanrækslu eða handvömm. Þá sé ljóst að lögunum hafi verið ætlað að ná til fleiri tjónsatvika en þeirra sem leiði til bótaskyldu samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins og veiti þannig tilteknum hópi tjónþola víðtækari rétt til bóta vegna líkamstjóns sem þeir verði fyrir í tengslum við rannsókn eða læknismeðferð sem þeir þurfi að sækja til heilbrigðiskerfisins. Þá hafi með lögunum verið slakað á sönnunarkröfum tjónþola um orsakatengsl, en í frumvarpi því sem varð að lögunum komi það skýrt fram að sá mikli sönnunarvandi sem til staðar sé í slíkum málum krefðist þess að slakað yrði á sönnunarkröfum tjónþola. Verði því í öllu falli að túlka allan vafa um það hvort meðferð hafi verið hagað eins vel og unnt hafi verið, tjónþola í hag.

Í bréfi prófessors H á sjúkrahúsinu I í G, dags. 18. desember 2018, til F komi fram að samkvæmt mati læknisins sé ljóst að æxlið hafi verið sjáanlegt á segulómunarmyndinni sem hafi verið tekin árið 2009. Þá bendir hann á að það sé óheppilegt að hafa ekki fengið sjúklinginn mun fyrr í geislameðferð. Þannig sé ljóst að kærandi hafi ekki fengið þá meðhöndlun sem hún hefði átt að fá í ljósi bestu þekkingar og reynslu á viðkomandi sviði fyrr en alltof seint, þ.e. vegna vangreiningar á sjúkdómi hennar. Ef kærandi hefði verið greind með fullnægjandi hætti þegar hún hafi leitað sér fyrst aðstoðar lækna árið 2009, eða í síðasta lagi árið 2015, hefði það að öllum líkindum takmarkað tjón hennar verulega, enda hefði hún þá gengist undir geislameðferð mun fyrr og æxlið þar með ekki orðið jafn stórt með tilheyrandi tjóni.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands sé því haldið fram að engin ástæða hafi verið til þess að skoða kæranda frekar þegar hún hafi leitað á Landspítala þann 4. febrúar 2015.

Kærandi vilji í þessu sambandi í fyrsta lagi benda á að hún hefði fundið fyrir einkennum frá höfði 2009 og C taugalæknir hafi talið á þeim tíma tilefni til að senda hana í segulómun af heila og hálshrygg vegna gruns um að einkenni þau sem kærandi hafi fundið fyrir væri að rekja til taugakerfis. Hins vegar hafi verið gerð þau afdrifaríku mistök að sá læknir sem hafi lesið úr myndunum hafi ekki komið auga á sjúklegar breytingar í heila, sem hafi vissulega verið staðar á þeim tíma sem myndirnar hafi verið teknar. enda hafi æxlið verið greinanlegt á myndinni sem hafi verið tekin árið 2009.

Í öðru lagi vilji kærandi benda á að hún sé ósammála fullyrðingu Sjúkratrygginga Íslands um að þau einkenni sem lýst séu í bráðamóttökuskrá þann 4. febrúar 2015 hafi ekki gefið tilefni til að mynda kæranda að nýju eða skoða eldri myndir sem teknar höfðu verið af höfði hennar. Sjúkrasaga kæranda hafi átt að gefa heilbrigðisstarfsmönnum á bráðamóttöku Landspítala fullt tilefni til þess að taka alvarlega þau einkenni sem kærandi lýsti. Eins og rakið hafi verið hafi taugalæknir talið tilefni til að mynda heila kæranda árið 2009. Þegar kærandi hafi leitað sér síðar læknishjálpar með sambærileg einkenni árið 2015 hafi ekki verið minni ástæða til að rannsaka orsök þeirra. Fyrir liggur að æxlið var greinanlegt á þeirri mynd sem tekin var af heila kæranda árið 2009, en vegna mistaka við lestur myndanna greindist æxlið ekki. Hefði kærandi undirgengist fullnægjandi læknisrannsókn 2015 má leiða að því líkur að æxlið hefði greinst þá. Eins og farið hafi verið ítarlega yfir í kæru til nefndarinnar hafi æxlið stækkað mikið á þeim tíma sem hafi liðið frá því að mistök voru gerð og til þess tíma sem æxlið greindist loks árið 2018.

Kærandi ítreki að ef hún hefði verið greind með fullnægjandi hætti þegar hún hafi leitað sér fyrst aðstoðar lækna 2009 eða í síðasta lagi 2015 þegar hún hafi aftur leitað læknishjálpar vegna einkenna frá höfði, hefði að öllum líkindum mátt takmarka tjón hennar verulega, enda hefði hún þá gengist undir geislameðferð mun fyrr og æxlið þar með ekki orðið jafn stórt með tilheyrandi tjóni fyrir kæranda.

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands kemur fram að varðandi heimsókn kæranda á Landspítala vegna höfuðverkja þann 4. febrúar 2015 vilji Sjúkratryggingar Íslands benda á að við greiningu á höfuðverk, ef hann sé til dæmis dæmigerður fyrir ákveðna tegund höfuðverkjar svo sem mígreni, sé í klínískum leiðbeiningum ekki gerð krafa um myndgreiningu nema þegar staðbundin taugaeinkenni séu einnig til staðar. Kærandi hafi ekki sýnt nein merki um taugaeinkenni þegar hún hafi leitað á Landspítala þann 4. maí 2015. Því hafi ekki verið ástæða til að mynda kæranda að nýju eða skoða eldri myndir sem höfðu verið teknar af höfði hennar.

Að öðru leyti hafi afstaða Sjúkratrygginga Íslands nú þegar komið fram í hinni kærðu ákvörðun frá 20. júlí 2020 og vísi Sjúkratryggingar Íslands til þeirrar umfjöllunar.

Í forsendum hinnar kærðu ákvörðunar segir:

„Við ákvörðun um hvort einstaklingur eigi rétt til bóta samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er litið til þess hvort tjón megi rekja til þess að ekki hafi verið rétt staðið að meðferð sjúklings, mistaka heilbrigðisstarfsmanna, vangreiningar, tækjabúnaðar og/eða áhalda, hvort beita hefði mátt annarri meðferðaðferð eða tækni eða hvort heilsutjón hafi orðið vegna sýkingar eða annars fylgikvilla sem ósanngjarnt þykir að sjúklingur þoli bótalaust. Fylgikvilli þarf að vera alvarlegur í samanburði við veikindi sjúklings og tiltölulega sjaldgæfur svo skilyrði séu fyrir greiðslu bóta.

Að mati SÍ var sú rannsókn sem röntgenlæknir á LSH framkvæmdi á umsækjanda þegar hún gekkst undir segulómskoðun á spítalanum hagað eins vel og unnt var og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Taugalæknir utan LSH óskaði eftir segulómskoðun fyrir umsækjanda, bað hann um að ákveðið svæði í heila umsækjanda yrði skoðað. Beiðni hans var grundvölluð á skoðun hans á umsækjanda og beindist að því svæði sem hann taldi að einkenni hennar gætu stafað frá. Rannsóknarspurning taugalæknisins beindist að því hvort um sjúkleika væri að ræða í basal ganglia og hálshluta mænu en segulómskoðunin sýndi ekkert óeðlilegt á þessum svæðum. Röntgenlæknir LSH svaraði því spurningu viðkomandi taugalæknis.

Í greinargerð meðferðaraðila kemur fram að þegar horft til þess hver rannsóknarspurning taugalæknisins var, þá sé ekki tækt að gera þá kröfu að röntgenlæknir sem fáist við reglubundin úrlestur segulómunarrannsókna greini þær breytingar sem finna var á myndum af höfði umsækjanda árið 2009 og voru utan þeirra svæða sem rannsóknarspurning taugalæknis beindist að. Læknar SÍ taka undir þetta mat í greinargerð meðferðaraðila.

Ljóst er að þegar myndir úr segulómun eru skoðaðar eftir að greining á sér stað, þá á greiningaraðili mun auðveldara með greiningu. Ekki er hægt að líkja slíkri greiningu við þá greiningu sem fer fram við reglubundinn úrlestur segulómrannsókna á svæðum sem rannsóknarspurning beinist ekki að. Þegar myndirnar úr segulómskoðuninni 2009 eru skoðaðar eftir að æxlið greinist í heila umsækjanda árið 2018 er verið að skoða myndirnar með afturvirkum hætti og vita læknar eftir hverju er leitað og eiga mun hægara um vik með að greina breytingar í heila umsækjanda. Æxli umsækjanda var lítið árið 2009 og beindist rannsóknarspurning röntgenlæknis ekki að því svæði sem æxlið var en svæðið þar sem æxlið fannst er líffræðilega flókið og myndrænt. Því líklegra en ella að æxli eða breytingar í heila yfirsjáist á þessu svæði heilans. Margt getur valdið því að vangreining á sér stað við röntgenlækningar en við flókna túlkun mynda koma ýmsar aðrar breytur fram sem eru ekki vegna sjúklegs ástands, s.s. vegna mismunandi myndtækni, galla við myndatöku og breytur vegna líffræðilegs munar milli einstaklinga.

Með vísan til ofangreinds er það mat SÍ að rannsókn hafi verið hagað eins vel og unnt var og í samræmi við þekkingu og reynslu á umræddu sviði. Því er skilyrði 1. tl. 2. gr. laganna ekki uppfyllt. Aðrir bótaliðir laga um sjúklingatryggingu koma ekki til álita að mati SÍ.“

Með vísan til ofangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar kröfu um bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu vegna myndgreiningar sem fór fram á Landspítala þann 23. september 2009.

Í kæru er einnig vísað til þess að eftirfylgni vegna heimsóknar kæranda á Landspítala þann 4. febrúar 2015 hafi verið ábótavant. Umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu varðar einungis meint sjúklingatryggingaratvik þann 23. september 2009 og tekur efni hinnar kærðu ákvörðunar einungis til um það atvik. Þar sem kærandi hefur ekki sótt um bætur úr sjúklingatryggingu og ekki liggur fyrir stjórnvaldsákvörðun um meint atvik sem átti sér stað árið 2015 getur úrskurðarnefnd velferðarmála ekki úrskurðað um það atvik. Með vísan til þess er kröfu um bætur vegna eftirfylgni heimsóknar kæranda á Landspítala þann 4. febrúar 2015 vísað frá úrskurðarnefndinni.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtalinna atvika:

1.    Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2.    Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3.    Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4.    Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hlýst af sjúkdómi sem sjúklingur er haldinn fyrir. Afleiðingar, sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eru þannig ekki bótaskyldar, en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar á greiningu eða við meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Ef niðurstaðan sé hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Kærandi telur tjón sitt komið til vegna vangreiningar og ófullnægjandi læknismeðferðar samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkast í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu. Átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka þá skal að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Í greinargerð meðferðaraðila sem barst Sjúkratryggingum Íslands þann 5. september 2019 segir:

„A kom á röntgendeild LSH í segulómrannsókn af höfði 23.09.2009. Ábending fyrir rannsókn var cervical dystonia, skjálfti og tilhneiging til torticollis. Spurning til læknaröntgendeildar var breytingar í basal ganglia eða hálsmænu. Framkvæmd var seguómun af heila og hálshrygg án skuggaefnisgjafar í æð en með sérstakri myndaröð yfir basal ganglía. Niðurstaða rannsóknarinnar var að ekki sæjust sjúklegar breytingar í basal ganglia eða hálsmænu.

Í ljósi æxlis sem sést á rannsóknum í október 2018 má sjá örlitla breytingu á sama stað níu árum áður. Spurningin er hvort vænta má að röntgenlæknir sem stundar reglubundið úrlestur segulómrannsókna greini breytinguna á þeim tíma. Það er álit mitt að höfðu samráði við sérfræðing í myndgreiningu taugasjúkdóma að svo sé ekki. Það er staðreynd að við venjubundinn úrlestur rannsókna uppgötvast ekki hluti sjúklegra breytinga. Hvort breyting sem þessi lítil að vöxtum, sem fyrst og fremst sést við skoðun í ljósi vitneskju aflað með seinni tíma rannsóknum, greinist við fyrstu skoðun er háð nokkurri tilviljun.“

Í læknabréfi prófessors H á I í G til F, dags. 18. desember 2018, segir:

„An MRI performed 9 years ago was already demonstrating the presence of a meningloma In the Mecel cave and the petro-clival structure. Of course it isn´t fortunate a radiosurgery was not performed 9 years age.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem er meðal annars skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Að mati úrskurðarnefndar bera gögn málsins með sér að við skoðun á segulómmynd þann 23. september 2009 hafi skoðun beinst að breytingu í basal ganlía eða hálsnæmu. Ekki sáust sjúklegar breytingar þar við þá skoðun. Við skoðun á rannsóknum frá 2018 þar sem æxli er staðsett, liggur fyrir að litlar breytingar voru til staðar árið 2009, en sú staðsetning er utan þess svæðis sem spurningar tilvisandi læknis gáfu tilefni til að skoðað væri sérstaklega. Greining á slíku hefði á þeim tíma verið mikilli tilviljun háð.

Kærandi leitaði síðan 4. febrúar 2015 á bráðamóttöku vegna höfuðverkja og dofa frá olnbogum og niður í fingur og frá hnjám niður í tær. Ekki var um að ræða ljósfælni en væg ógleði var til staðar. Lýst er sögu um spennuhöfuðverki  tvisvar til þrisvar sinnum í mánuði. Ítarleg taugaskoðun reyndist eðlileg og var ástand kæranda greint sem spennuhöfuðverkur. Gert var ráð fyrir eftirfylgd heimilislæknis.

Næsta skoðun fór fram þann 10. júní 2016 vegna bakverkja kæranda. Hún var þá skýr, með eðlilegar slímhúðir og ljóssvörun augna.

Síðan er lýst í nótu frá 30. september 2018 að kærandi hafi fengið dofa í hægri hluta andlits, tvísýni, þrýstingsverk í hægra gagnauga, höfuðverk á bak við augu og á bak við hægra eyra.  Því er lýst að einkenni hafi byrjað í júní 2017 með skertu snertiskyni í allri hægri hlið andlits en einkennin hafi látið undan í febrúar 2018.

Af gögnum málsins fær úrskurðarnefnd því ekki annað ráðið en að rannsóknum og meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hafi verið hagað eins vel og unnt hafi verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að bótaskylda sé ekki fyrir hendi á grundvelli 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Að öllu því virtu, sem rakið hefur verið hér að framan, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta hina kærðu ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands þar sem kæranda var synjað um bætur á grundvelli laga um sjúklingatryggingu.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um bætur til A, samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er staðfest.

Kröfu kæranda um bætur vegna meints sjúklingatryggingaratviks þann 4. febrúar 2015 er vísað frá úrskurðarnefndinni.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum