Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtbo%C3%B0sm%C3%A1la

Mál nr. 25/2019. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 18. febrúar 2020

í máli nr. 25/2019:
Öryggismiðstöð Íslands hf.
gegn
Ríkiskaupum
og Sjúkratryggingum Íslands

Með kæru 27. september 2019 kærði Öryggismiðstöð Íslands hf. útboð Ríkiskaupa fyrir hönd Sjúkratrygginga Íslands (hér eftir vísað til sem varnaraðila) nr. V20769 „Sjúkrabifreiðar 2018-2019“. Kærandi gerir þá kröfu að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboði kæranda í hinu kærða útboði. Þá er gerð krafa um að varnaraðilum verði gert að greiða kæranda málskostnað. Varnaraðilum var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Með greinargerð móttekinni hjá kærunefndinni 4. október 2019 kröfust varnaraðilar þess að öllum kröfum kæranda yrði hafnað. Kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við greinargerð varnaraðila en kærandi tilkynnti nefndinni 11. desember 2019 að hann hyggðist ekki gera frekari athugasemdir.

Með ákvörðun kærunefndar útboðsmála 11. október 2019 var kröfu kæranda um stöðvun hins kærða útboðs hafnað.

I

Í júlí árið 2018 auglýstu varnaraðilar útboð nr. V20769 „Sjúkrabifreiðar 2018-2019“ þar sem óskað var eftir 25 nýjum sjúkrabifreiðum. Samkvæmt grein 4.1 í útboðsgögnum skyldu boðnar bifreiðar vera í samræmi við þær tæknikröfur sem kæmu fram í kröfulýsingu undir flipa 9 í tilboðshefti. Flipi 9 nefndist „Tæknilýsing staðfest“ en um var að ræða töflu þar sem fyrsti dálkurinn tilgreindi kröfur í alls 219 töluliðum. Efst í dálkinum sagði: „Tilboð skulu uppfylla eftirfarandi atriðalista sem lágmarkskröfur um hönnun og útbúnað boðinnar sjúkrabifreiðar.“ Við hlið þessa dálks voru tveir dálkar, annars vegar dálkur sem nefnist „Tölulegar upplýsingar“ og hins vegar dálkur sem nefnist „Aðrar lýsandi upplýsingar eða tilvísun sem númer í númeruð tilboðsgögn“. Í skýringum efst í skjalinu sagði eftirfarandi um það hvernig bæri að fylla út skjalið: „Bjóðendur skulu fylla hér út viðeigandi tölulegar upplýsingar eða aðrar lýsandi upplýsingar, eða vísa til merktra fylgigagna þannig að meta megi tilboðið til framangreindrar lágmarkskröfu“. Eftirfarandi krafa var nr. 107 í tæknilýsingunni: „Stóll framan við sjúkrabörurnar (við milliþil) með fjögra punkta belti. Stóllinn skal staðsettur fyrir miðju á sjúkrabörunum og um 20 cm frá fremstu brún á sjúkrabörunum (höfuðgafli) þegar hann er í fremstu stöðu. Stóllinn skal hafa færslu upp á 15 cm. Undir stólnum skal vera geymsluhólf.“ Á fyrirspurnartíma voru gerðar breytingar á kröfunni, en þær lutu ekki að því hvar stóllinn skyldi vera staðsettur.

Tilboð voru opnuð 13. ágúst 2019 og bárust alls sjö tilboð í útboðinu, þar af tvö tilboð frá kæranda. Í báðum tilboðum var merkt „staðfest“ við kröfu nr. 107 í tæknilýsingunni. Þá sagði í þriðja dálkinum: „Sjúkrabílar verða afhentir með stól fyrir framan sjúkrabörur í samræmi við þessa kröfu. Sjá frekari upplýsingar í kafla 9 í skjali Tæknilýsing ítarupplýsingar með myndum.“ Hinn 5. september 2019 sendu varnaraðilar tölvupóst til kæranda þar sem vísað var til kröfu nr. 107 og bent á að í öllum teikningum og myndum í tilboðum kæranda væri stóllinn staðsettur fyrir miðju í sjúkrarýminu, ekki fyrir miðju á sjúkrabörum. Óskað var eftir því að kærandi staðfesti að þetta væri „réttur skilningur“. Kærandi svaraði samdægurs og sagðist staðfesta að boðin útfærsla myndi alltaf uppfylla útboðskröfur. Um væri að ræða tillögur að útfærslu en endanleg útfærsla yrði í samráði við kaupanda. Ef varnaraðilar óskuðu eftir teikningu þar sem stóllinn væri sýndur fyrir miðju á sjúkrabörum væri lítið mál að senda þær. Þá sagðist kærandi staðfesta að boðnir sjúkrabílar væru með stólinn staðsettan fyrir miðjum sjúkrabörum eins og farið væri fram á. Hinn 19. september 2019 tilkynntu varnaraðilar að tilboðum kæranda hefði verið hafnað og var tekið fram að kærandi hefði staðfest að boðnar sjúkrabifreiðar uppfylltu ekki ófrávíkjanlegar kröfur útboðslýsingar.

II

Kærandi vísar til þess að boðnar sjúkrabifreiðar hafi uppfyllt allar þarfir varnaraðila og öryggiskröfur. Í tilboðshefti kæranda hafi komið fram afdráttarlaus staðfesting á því að boðnar sjúkrabifreiðar yrðu afhentar með stól fyrir miðju á sjúkrabörum í samræmi við kröfur útboðsgagna. Í ítargögnum hafi stóllinn aftur á móti verið sýndur fyrir miðju sjúkrarýmis en með því hafi ekki verið vikið frá þeirri skuldbindingu sem kærandi hafi gengist undir með gerð tilboðsins. Þá hafi varnaraðilar óskað eftir skýringum og í kjölfar þeirra hafi kærandi bent á að tilboð hans gerði ráð fyrir að þessari kröfu yrði fullnægt. Kærandi leggur áherslu á að varnaraðila sé heimilt að fara fram á að bjóðandi leggi fram, bæti við, skýri eða fullgeri upplýsingar sem virðist ófullkomnar. Kærandi hafi sent varnaraðilum uppfærðar teikningar 9. september 2019. Kærandi telur að sú ályktun sem varnaraðilar hafi dregið af svörum kæranda hafi verið röng.

III

Varnaraðilar vísa til þess að teikningar sem fylgdu tilboði kæranda hafi sýnt aðra lausn á staðsetningu stóla en krafist var í útboðsgögnum. Til að gæta meðalhófs hafi varnaraðilar gefið kæranda tækifæri til að sýna hvar í tilboðsgögnum hans kæmi fram að krafan um staðsetningu stóls væri uppfyllt. Kærandi hafi ekki getað bent á þann stað í teikningunum sem sýndu rétta framsetningu. Aftur á móti hafi kærandi síðar sent nýjar teikningar sem sýndu rétta framsetningu en varnaraðilar telja að sér hafi ekki verið heimilt að taka við nýjum teikningum. Auk þess að vera skilyrði fyrir gildi tilboðs hafi teikningarnar getað haft áhrif á stigagjöf við mat á boðnum stólum. Svigrúm til að taka á móti viðbótargögnum sé lítið og það raski jafnræði bjóðenda að taka við teikningum, eftir opnun tilboða, þar sem fram komi í raun önnur útfærsla á boðnum bifreiðum. Því hafi ekki verið annað fært en að hafna tilboðinu.

IV

Meðal þeirra tæknilegu krafna sem gerðar voru til boðinna bifreiða í útboðsgögnum, sbr. grein 4.1, var skýr og óundanþæg krafa um staðsetningu stóls. Kom þannig meðal annars fram í kröfu nr. 107 í tæknilýsingu að stóll skyldi staðsettur „fyrir miðju á sjúkrabörunum og um 20 cm frá fremstu brún á sjúkrabörunum (höfuðgafli) þegar hann er í fremstu stöðu“. Samkvæmt útboðsgögnum var ekki nægjanlegt fyrir bjóðendur að fullyrða að kröfur yrðu uppfylltar, heldur skyldi vísað til annarra lýsandi upplýsinga, eftir atvikum merktra fylgigagna „þannig að meta [mætti] tilboðið til framangreindrar lágmarkskröfu“. Var þannig áskilið að tilboði skyldi fylgja upplýsingar eða gögn til að varnaraðilar gætu metið hvort tæknilegar kröfur væru uppfylltar.

Óumdeilt er að þær myndir sem fylgdu með tilboðum kæranda sýndu stólinn ekki á þeim stað sem gerð var krafa um. Eftir opnun tilboða og í kjölfar fyrirspurnar varnaraðila bauðst kærandi til að útfæra tækið eftir þörfum varnaraðila og lagði áherslu á að í reynd uppfylltu boðin tæki kröfuna, auk þess sem hann lagði fram nýjar teikningar. Í samræmi við meginreglu opinberra innkaupa um jafnræði bjóðenda ber kaupendum að meta tilboð bjóðenda á grundvelli þeirra gagna sem fylgja með þeim. Þó getur verið heimilt að gefa bjóðanda kost á að leggja fram, bæta við, skýra eða fullgera upplýsingar eða gögn innan hæfilegs frests, enda feli slíkt ekki í sér breytingar á grundvallarþáttum tilboðs eða sé líklegt til að raska samkeppni eða ýta undir mismunun, sbr. 5. mgr. 66. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Að virtum gögnum málsins telur kærunefndin að varnaraðilum hafi borið að meta tilboð kæranda á grundvelli þeirra gagna sem fylgdu með þeim. Hafi því verið óheimilt að meta tilboðin gild á grundvelli fullyrðinga kæranda og nýrra teikninga sem bárust eftir opnun tilboða.

Með vísan til framangreinds telur nefndin að varnaraðilar hafi ekki brotið gegn lögum um opinber innkaup þegar tekin var ákvörðun um að vísa tilboðum kæranda frá þar sem þau uppfylltu ekki skilyrði útboðsgagna. Verður því að hafna öllum kröfum kæranda.

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda, Öryggismiðstöðvarinnar hf., vegna útboðs nr. V20769 „Sjúkrabifreiðar 2018-2019“, er hafnað.

Reykjavík, 18. febrúar 2020

Ásgerður Ragnarsdóttir

Auður Finnbogadóttir

Sandra Baldvinsdóttir





Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum