Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20h%C3%BAsam%C3%A1la

Mál nr. 122/2021 - Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 122/2021

 

Uppsetning hleðslustöðvar. Frávísun.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með álitsbeiðni, dags. 15. desember 2021, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnd gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 3. janúar 2022, lögð fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 15. febrúar 2022.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið C, alls sex eignarhluta. Aðilar eigi hvor um sig íbúð í húsinu. Ágreiningur er um ákvörðunartöku um uppsetningu hleðslustöðvar.

Kærunefnd telur kröfu álitsbeiðanda vera:

     Að viðurkennt verði að setja beri upp hleðslustöð á bílastæði hússins.

Í álitsbeiðni kemur fram að í húsinu séu fjórar íbúðir en á jarðhæð séu tvær verslanir. Engin bílastæði fylgi eignarhlutum jarðhæðar heldur aðeins íbúðunum.

Álitsbeiðandi hafi haft samband við gagnaðila, sem sé formaður húsfélagsins, og óskað eftir því að beiðni um uppsetningu á hleðslubúnaði yrði sett í ferli, sbr. 2. mgr. 33. gr. a. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994. Gagnaðili hafi sent íbúum tölvupóst 23. september 2021 þess efnis að ofangreindri beiðni hefði verið komið af stað og að tilboð væri komið í verkið. Ekki hafi orðið frekari framgangur á verkinu í kjölfar þessa tölvupósts og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir álitsbeiðanda hafi ekki náðst í gagnaðila vegna málsins. Loks hafi borist svar þar sem fram hafi komið að ekki yrði farið í framkvæmdina fyrr en húsfélagið hefði náð að safna upp í kostnaðinn sem af framkvæmdinni hlytist. Með þessu svari hafi gagnaðili væntanlega verið að vísa í heimild 6. mgr. 33. gr. d. í lögunum, sem heimili ¼ hluta eigenda að krefjast þess að framkvæmdum vegna hleðslubúnaðar verði frestað í allt að tvö ár á meðan safnað sé fyrir þeim í sérstakan framkvæmdasjóð.

Athugasemdir séu gerðar við meðferð málsins þar sem ekki hafi verið farið eftir ákvæðum laga um fjöleignarhús hvað varði boðun fundar, kynningu og atkvæðagreiðslu vegna málsins. Eigi að fresta framkvæmdum á meðan safnað sé í framkvæmdasjóð verði ákvörðun þess efnis að vera tekin á löglegum húsfundi, sbr. 4. tölul. D liðar 1. mgr. 41. gr. laganna. Þá skuli samkvæmt 6. mgr. 33. gr. d. laganna ákvörðun um val á búnaði og útfærslu þess hluta framkvæmda sem sé sameiginlegur, sbr. 2. mgr. 33. gr. d., tekin fyrir á húsfundi.

Frá því að álitsbeiðandi hafi lagt fram beiðni um uppsetningu hleðslubúnaðar hafi aldrei verið boðað til húsfundar og fari athafnaleysi húsfélagsins þannig gegn ofangreindum ákvæðum laganna. Ljóst sé að umrædd beiðni komi ekki til með að hljóta þá meðferð sem lög um fjöleignarhús kveði á um.

Í greinargerð gagnaðila segir að í fyrsta lagi hafi því aldrei verið neitað að setja upp hleðslustöð. Gagnaðili hafi aftur á móti ekki viljað ana út í það og fyrst viljað safna fyrir framkvæmdinni. Stungið hafi verið upp á því að íbúafundur yrði haldinn í janúar þar sem allir möguleikar yrðu skoðaðir en álitsbeiðandi hafi þá orðið ósátt.

Það sé rétt að ekki hafi verið boðað til húsfundar. Þegar gagnaðili hafi stungið upp á því hafi álitsbeiðandi talið það óþarfa og spurt hvort þau gætu ekki farið í þetta þar sem tölvupóstar hefðu farið á milli og hún alveg sátt við þær uppástungur sem hafi verið kynntar þar.

III. Forsendur

Um er að ræða hús sem samanstendur af íbúðum og verslunarrýmum. Fram kemur í álitsbeiðni að bílastæði hússins séu í sameign íbúðaeigenda þess en eignaskiptayfirlýsing er ekki á meðal gagna málsins.

Í 33. gr. a. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, segir að óski eigandi eftir því að hleðslubúnaði fyrir rafbíla verði komið upp við eða á sameiginlegu og óskiptu bílastæði á lóð fjöleignarhúss skuli hann upplýsa stjórn húsfélags um það eða aðra eigendur fjöleignarhúss, sé stjórn ekki fyrir hendi, sbr. 67. gr. Í 1. mgr. síðastnefndu greinarinnar segir að þegar um sé að ræða fjöleignarhús með sex eignarhlutum eða færri sé ekki þörf á að kjósa og hafa sérstaka stjórn og fari þá allir eigendur í félagi saman með það vald og þau verkefni sem stjórnin færi annars með lögum samkvæmt. Í 2. mgr. sömu greinar segir að einnig sé heimilt í slíkum húsum að fela einum eiganda að einhverju leyti eða öllu verkefni stjórnar og skuli þá beita ákvæðum laganna um stjórn eftir því sem við eigi um hann.

Fram kemur að gagnaðili sé formaður húsfélagsins og hefur henni þannig verið falið verkefni stjórnar að einhverju leyti að minnsta kosti, sbr. 2. mgr. 67. gr. laga um fjöleignarhús.

Í 2. mgr. 33. gr. a. laga um fjöleignarhús segir að við móttöku tilkynningar samkvæmt 1. mgr., skuli húsfélagið eins fljótt og verða megi gera úttekt á áætlaðri framtíðarþörf fjöleignarhússins á hleðslubúnaði fyrir rafbíla, til skemmri og lengri tíma litið. Jafnframt skuli húsfélagið gera úttekt á þeim búnaði, þar á meðal álagsstýringarbúnaði, og framkvæmdum sem gera megi ráð fyrir að nauðsynlegar verði til að mæta þeirri þörf.

Í 2. mgr. 8. gr. reglugerðar um kærunefnd húsamála, nr. 1355/2019, segir að áður en nefndin taki mál til meðferðar skuli það að jafnaði hafa hlotið afgreiðslu innan húsfélags. Gagnaðili segir í greinargerð sinni að lagt hafi verið til að haldinn yrði húsfundur í janúar 2022 í því skyni að fara yfir þessi mál. Hefur álitsbeiðandi ekki mótmælt þessu. Telur kæruefnd því ekkert benda til annars en að beiðni álitsbeiðanda hafi verið tekin til vinnslu og sé þegar til úrlausnar innan húsfélagsins. Kröfu álitsbeiðanda í málinu er því vísað frá kærunefnd.

Álit nefndarinnar hindrar ekki aðila í að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti, sbr. 6. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús.


 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að vísa beri kröfu álitsbeiðanda frá.

 

Reykjavík, 15. febrúar 2022

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Valtýr Sigurðsson                                                      Aldís Ingimarsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum