Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20F%C3%A9lags%C3%BEj%C3%B3nusta%20og%20h%C3%BAsn%C3%A6%C3%B0ism%C3%A1l

Mál nr. 117/2020 - Úrskurður

.

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 117/2020

Fimmtudaginn 4. júní 2020

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R 

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 3. mars 2020, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 13. febrúar 2020, vegna greiðslu húsnæðisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur húsnæðisbóta 8. febrúar 2020. Með ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 13. febrúar 2020, var kæranda tilkynnt að umsóknin hefði verið samþykkt og fékk hann greiddar húsnæðisbætur frá og með þeim mánuði. Kærandi hafði samband við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og óskaði eftir greiðslu húsnæðisbóta vegna janúar þar sem hann hefði einnig greitt húsaleigu vegna þess mánaðar í upphafi febrúar. Kæranda barst svar samdægurs þar sem fram kom að húsnæðisbætur væru greiddar frá umsóknarmánuði og að óheimilt væri að greiða húsnæðisbætur lengra aftur í tímann.

Kærandi lagði inn kæru, sem rituð var á ensku, hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 3. mars 2020. Með bréfi, dags. 4. mars 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir því að kærandi legði inn kæru sína á íslensku. Kæra barst á íslensku 18. mars 2020 og með bréfi, dags. 20. mars 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst úrskurðarnefndinni 25. mars 2020 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 31. mars 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi ekki fengið greiddar húsnæðisbætur fyrir janúar. Leigusamningur hans hafi tekið gildi 10. janúar 2020 og þá hafi kærandi borgað tveggja mánaða leigu og sótt um húsnæðisbætur. Kærandi hafi einungis fengið greiddar bætur fyrir febrúar en ekki janúar. Kærandi óski eftir því að fá greiddar bætur fyrir janúar.

III.  Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) kemur fram að í máli þessu sé deilt um ákvörðun HMS um að hafna beiðni kæranda um greiðslu húsnæðisbóta vegna janúar 2020. Kærandi haldi því fram að hann eigi rétt á greiðslu húsnæðisbóta vegna þess mánaðar þar sem hann hafi greitt húsaleigu fyrir janúar.

Lög nr. 75/2016 um húsnæðisbætur gildi um rétt leigjenda til greiðslu húsnæðisbóta. Í 13. gr. laganna sé fjallað um umsókn um húsnæðisbætur og upplýsingaskyldu. Þar segi í 2. mgr. að umsóknir skuli afgreiddar þegar allar nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir og gögn hafa borist. Eftir að umsókn hafi verið afgreidd og samþykkt skuli haga greiðslu húsnæðisbóta í samræmi við 21. gr. laganna. Þar komi fram í 1. mgr. að húsnæðisbætur greiðist fyrsta dag hvers mánaðar og séu greiddar eftir á fyrir leigutíma undanfarandi mánaðar eða hluta úr mánuði. Samningar aðila um fyrirframgreiðslu húsnæðiskostnaðar breyti engu hér um.

Í [2. mgr. 21. gr.] laganna sé kveðið á um greiðslu húsnæðisbóta og frá hvaða mánuði húsnæðisbætur skuli reiknast. Samkvæmt framangreindu ákvæði sé HMS óheimilt að greiða húsnæðisbætur lengra aftur í tímann en frá umsóknarmánuði. Í kærunni komi fram að kærandi hafi greitt tveggja mánaða leigu vegna janúar og febrúar 2020 og sótt um húsnæðisbætur í framhaldi af því. Með vísan til umsóknar kæranda hafi hann ekki lagt inn umsókn fyrr en 8. febrúar 2020 sem geri það að verkum að hann hafi ekki átt rétt til greiðslu húsnæðisbóta vegna janúarmánaðar. Af þeim sökum hafi ekki verið unnt að verða við beiðni kæranda um afturvirka greiðslu, enda sé HMS óheimilt að greiða húsnæðisbætur lengra aftur í tímann en frá umsóknarmánuði, sbr. [2. mgr. 21. gr.] laga um húsnæðisbætur. HMS geri þá kröfu að ákvörðun stofnunarinnar í málinu verði staðfest.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 13. febrúar 2020 þar sem samþykkt var að greiða kæranda húsnæðisbætur frá og með þeim mánuði. Af kæru má ráða að kærandi sé ósáttur við að hafa ekki fengið greitt fyrir janúar 2020.

Í 2. mgr. 21. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur kemur fram að húsnæðisbætur komi til greiðslu í fyrsta skipti fyrsta dag næsta almanaksmánaðar eftir að réttur til bóta hafi verið staðreyndur. Húsnæðisbætur skuli þó reiknast frá og með þeim almanaksmánuði þegar framkvæmdaraðili móttekur umsókn um húsnæðisbætur vegna leigutíma þess almanaksmánaðar eða hluta úr þeim mánuði, hafi leigutími hafist síðar en fyrsta dag almanaksmánaðar. Óheimilt sé að greiða húsnæðisbætur lengra aftur í tímann. Þrátt fyrir 1. og 2. málsl. verða húsnæðisbætur aðeins greiddar vegna almanaksmánaðar eða hluta úr almanaksmánuði þegar leigutími er hafinn og koma til greiðslu fyrsta dag næsta almanaksmánaðar á eftir.

Kærandi lagði inn umsókn um húsnæðisbætur 8. febrúar 2020 og fékk greiddar húsnæðisbætur frá og með þeim mánuði. Með umsókn sinni lagði kærandi fram húsaleigusamning fyrir tímabilið 10. janúar 2020 til 29. ágúst 2020, en samningnum hafði verið þinglýst. Samkvæmt skýru ákvæði 2. mgr. 21. gr. laga nr. 75/2016 er óheimilt að greiða húsnæðisbætur lengra aftur í tímann en frá umsóknarmánuði. Að því virtu er ákvörðun um að greiða kæranda húsnæðisbætur frá og með febrúar 2020 staðfest.

  


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 13. febrúar 2020, um greiðslu húsnæðisbóta til handa A er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum