Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 290/2021 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 22. júní 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 290/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21040065

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 28. apríl 2021 kærði […], kt. […], ríkisborgari Víetnams (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. apríl 2021, um að synja honum dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla, sbr. 78. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi kom fyrst til landsins árið 2016 og fékk útgefið dvalarleyfi fyrir námsmenn hinn 6. október 2016 með gildistíma til 15. febrúar 2017. Leyfið var endurnýjað fjórum sinnum, síðast með gildistíma til 15. júlí 2020. Kærandi lagði fram umsókn um dvalar- og atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki hinn 6. september 2019. Vinnumálastofnun hætti við vinnslu atvinnuleyfisumsóknar kæranda með tilkynningu, dags. 28. nóvember 2019. Í kjölfarið var dvalarleyfisumsókn kæranda afturkölluð þar sem hann var með dvalarleyfi fyrir námsmenn í gildi. Kærandi lagði fram umsókn um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið hinn 24. júní 2020. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. apríl 2021, var umsókninni synjað. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina hinn 15. apríl 2021 og þann 28. apríl 2021 kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd hinn sama dag.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er fjallað um 78. gr. laga um útlendinga og 19. gr. reglugerðar um útlendinga, með síðari breytingum. Var það mat Útlendingastofnunar þegar litið væri á gögn málsins og aðstæður kæranda í heild að skilyrði fyrir dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið væru ekki uppfyllt. Var umsókn hans því synjað.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð byggir kærandi á því að hann hafi dvalið á Íslandi í fjögur ár og myndað sterk tengsl við landið. Kærandi sé einnig með fjölskyldutengsl hér á landi en systir hans, tvær systurdætur og mágur séu íslenskir ríkisborgara sem séu búsett hér á landi. Systir hans sé óvinnufær vegna veikinda en hún sé greind með alvarlegt þunglyndi, kvíða og vefjagigt. Vegna þessa sofi hún illa og sé rúmliggjandi marga daga í senn. Eldri systurdóttir hans eigi einnig við vanheilsu að stríða en hún sé greind með […]. Þá þarfnist yngri systurdóttir hans töluverðar umönnunar vegna veikinda móður og systur hennar en hún sé einnig félagslega einangruð. Mágur kæranda vinni langa vinnudaga og geti ekki verið til staðar heima eins og þörf krefur. Að auki hafi mágur kæranda takmarkaða orku en hann sé orðinn […] ára gamall og með sykursýki. Kærandi sé fjölskyldunni afar mikilvægur stuðningur og hann hafi veitt fjölskyldunni aðstoð sem félagsleg aðstoð á vegum hins opinbera geti ekki komið til jafns við. Þótt kærandi eigi börn og aldraða móður í heimaríki sé hann skilinn við barnsmóður sína og dvelji börnin hjá henni. Þá sé móður hans búsett með tveimur systrum hans sem hugsi vel um hana. Því hafi systir og systurdætur kæranda meiri þörf fyrir umönnun kæranda heldur en fjölskylda hans í heimaríki.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr., sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra.

Til sérstakra tengsla geti m.a. talist tengsl sem útlendingur hafi stofnað til meðan á dvöl hans hér á landi hafi staðið samkvæmt útgefnu dvalarleyfi sem verði ekki endurnýjað eða hafi verið afturkallað vegna breyttra aðstæðna eða annarra atvika, sbr. 2. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Í 3. mgr. 78. gr. er kveðið á um að heildstætt mat skuli fara fram á tengslum umsækjanda við landið. Við það mat skuli að jafnaði horft til lengdar lögmætrar dvalar. Jafnframt sé heimilt að líta til fjölskyldutengsla, þ.e. fjölskyldusamsetningar umsækjanda með tilliti til umönnunarsjónarmiða, sbr. a-lið 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, og félagslegra og menningarlegra tengsla við landið á grundvelli atvinnuþátttöku eða annarra sambærilegra tengsla, sbr. b-lið 3. mgr. 78. gr. laganna.

Í 19. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, er fjallað um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla þegar umsækjandi hefur áður búið á Íslandi. Þar segir m.a. að áhersla skuli lögð á heildarmat á aðstæðum umsækjanda en að sérstaklega skuli horfa til lengdar lögmætrar dvalar, hversu langt sé liðið frá dvalartíma, fjölskyldutengsla, fjölskyldumynsturs og annarra atriða í því sambandi auk umönnunarsjónarmiða.

Að því er varðar lengd lögmætrar dvalar segir í a-lið 19. gr. reglugerðarinnar að dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla skuli almennt ekki veitt nema umsækjandi hafi dvalist hér á landi lengur en tvö ár, eða þá að önnur tengsl við landið séu mjög sterk. Í b-lið kemur fram að hafi umsækjandi dvalist erlendis lengur en 18 mánuði samfellt frá útgáfu síðasta dvalarleyfis sé dvalarleyfi almennt ekki veitt vegna sérstakra tengsla nema önnur tengsl við landið séu mjög sterk. Samkvæmt d-lið skal m.a. horfa til fjölskyldutengsla, fjölskyldumynsturs og fjölskyldustærðar, fjölskylduaðstæðna og skyldleika. Líta beri til þess hvort umönnunarsjónarmið, félagsleg og menningarleg tengsl styðji umsókn á grundvelli fjölskyldutengsla. Vegna umönnunarsjónarmiða skal horft til þess hvort umsækjandi sé háður einhverjum hérlendis, sem er tengdur honum fjölskylduböndum, eða hvort aðstandandi umsækjanda hér á landi sé honum háður, sbr. e-lið 19. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga skal eins og áður segir fara fram heildstætt mat á tengslum umsækjanda við landið. Við matið skal að jafnaði horft til lengdar lögmætrar dvalar en jafnframt er heimilt að líta til fjölskyldu-, félags- og menningarlegra tengsla við landið. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi er varð að lögum um útlendinga kemur fram að við þetta mat þurfi að líta til þess tíma sem útlendingur hafi dvalist hér og hvernig hann hafi aðlagast samfélaginu og tekið þátt í því. Þá segir enn fremur í umræddum athugasemdum að skoða skuli hvert mál sjálfstætt og tengsl útlendings við Ísland metin í samhengi við tengsl hans við önnur lönd, t.d. heimaland eða fyrra dvalarland, í því skyni að meta hvort tengsl hans við Ísland séu orðin meiri en við viðkomandi land.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi, sem er […] ára, með útgefið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 65. gr. laga um útlendinga á tímabilinu 6. október 2016 til 15. júlí 2020. Þannig hefur kærandi dvalist hér á landi á grundvelli dvalarleyfis fyrir námsmenn í tæplega fjögur ár. Á umræddu tímabili hafi kærandi fengið útgefið atvinnuleyfi, sbr. 13. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002 með gildistíma frá janúar 2017 til júlí 2019 en kærandi starfaði hjá […] og hefur kærandi lagt fram ótímabundinn ráðningarsamning við fyrirtækið sem hann hyggst starfa hjá í fullu starfi, fái hann útgefið dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla.

Líkt og að framan greinir er kveðið á um í 2. mgr. 78. gr. laga um útlendinga að til sérstakra tengsla geti m.a. talist tengsl sem útlendingur hafi stofnað til meðan á dvöl hans hér á landi hafi staðið samkvæmt útgefnu dvalarleyfi sem verði ekki endurnýjað eða hafi verið afturkallað vegna breyttra aðstæðna eða annarra atvika. Í 4. mgr. segir að til sérstakra tengsla við landið skv. 2. mgr. geta ekki talist þau tengsl sem útlendingur myndar við dvöl hér á landi skv. 64., 65., 66., 67., 68., 75., 76. og 77. gr. Með sérstökum tengslum sé heldur ekki átt við fjölskyldutengsl viðkomandi útlendings, en um þau fer skv. VIII. kafla. Þar sem dvöl kæranda hér á landi hefur grundvallast á 65. gr. laganna er ljóst að dvalarleyfi hans er undanþegið þeim dvalarleyfum sem geta leitt til þess að dvöl kæranda hafi myndað sérstök tengsl við landið, sbr. 2. mgr. 78. gr. laganna.

Kemur því til skoðunar hvort kærandi hafi myndað sérstök tengsl við landið með vísan til 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, sbr. 19. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, m.a. vegna fjölskyldutengsla og umönnunarsjónarmiða.

Í 16. tölul. 3. gr. og 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að nánustu aðstandendur séu maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldrar 67 ára eða eldri. Í gögnum málsins, þ. á m. greinargerð kæranda, kemur fram að kærandi eigi tvö ung börn í heimaríki og foreldra sem séu eldri en 67 ára. Hér á landi séu systir kæranda, systurdætur og mágur hans búsett. Ljóst er að fjölskyldumeðlimir kæranda sem séu búsett hér á landi flokkist ekki sem nánustu aðstandendur í skilningi laga um útlendinga. Á hinn bóginn séu fjölskyldumeðlimir kæranda í heimaríki nánustu aðstandendur hans í skilningi laganna. Er það þó mat kærunefndar að kærandi hafi töluverð tengsl við Ísland vegna þeirra fjölskyldumeðlima sem dvelji hér á landi.

Kærandi byggir kröfu sína að auki á umönnunarsjónarmiðum en fjölskyldumeðlimir hans hér á landi hafi þörf fyrir aðstoð hans. Í e-lið 19. gr. reglugerðar um útlendinga segir að horft skuli til umönnunarsjónarmiða, þ.e. hvort umsækjandi er háður einhverjum hérlendis, sem er tengdur honum fjölskylduböndum, eða hvort einhver aðstandandi umsækjanda hér á landi sé honum háður, við mat á því hvort dvalarleyfi verði veitt á grundvelli sérstakra tengsla. Af framlögðum gögnum má ráða að kærandi hafi starfað hér á landi sem starfsmaður fyrirtækisins […] og hafi í hyggju að starfa áfram hjá umræddu fyrirtæki í fullu starfi fái hann dvalarleyfi hér á landi. Lagði kærandi m.a. fram ótímabundinn ráðningarsamband því til stuðnings. Þá segir kærandi í greinargerðinni sinni að hann vilji ekki vera samfélaginu til byrði. Með hliðsjón af framangreindu er það mat kærunefndar að ekkert í máli kæranda bendi til þess að hann sé háður einhverjum hérlendis líkt og kveðið er á um í e-lið 19. gr. reglugerðar um útlendinga. Af gögnum málsins, þ. á m. heilsufarsgögnum, megi þó ráða að systir kæranda og fjölskylda hennar hafi og muni koma til með að þurfa á umönnun að halda. Systir kæranda og fjölskylda hennar eru öll íslenskir ríkisborgarar sem eru búsett hér á landi. Allir meðlimir fjölskyldunnar hafa því greitt aðgengi að heilbrigðisþjónustu og aðstoð félagsmálayfirvalda hér á landi. Fær kærunefnd því ekki séð að kærandi eigi aðstandanda hér á landi sem sé háður honum, sbr. e-lið 19. gr. reglugerðar um útlendinga.

Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að kærandi uppfylli ekki skilyrði fyrir dvalarleyfi á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga, sbr. 19. gr. reglugerðar um útlendinga. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

 

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum