Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Mál nr. 573/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 573/2021

Miðvikudaginn 9. febrúar 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 2. nóvember 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 20. maí 2021 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2020.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2020 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 985.483 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu og innheimtu kröfunnar með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. maí 2021. Með bréfi kæranda til Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 4. október 2021, gerði kærandi athugasemdir við framangreinda ákvörðun og birtingu hennar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. nóvember 2021. Með bréfi, dags. 29. nóvember 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 6. janúar 2022, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. janúar 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 23. janúar 2022, og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi, dags. 27. janúar 2022. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Með kæru fylgdi ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 20. maí 2021, um niðurstöðu endurreiknings og uppgjörs ársins 2020, auk bréfs kæranda til Tryggingastofnunar, dags. 4. október 2021.

Í bréfi kæranda, dags. 4. október 2021, segir meðal annars að þann 27. september 2021 hafi hann fengið smáskilaboð frá Tryggingastofnun um að áríðandi skilaboð biði hans. Við komu kæranda til Tryggingastofnunar þann 28. september 2021 hafi honum verið afhent bréf, dags. 20. maí 2021, þar sem fram komi upplýsingar um gífurlegar skerðingar á ellilífeyri.

Sökum vankunnáttu á tölvumálum hafi kærandi eingöngu fylgst með fjármálum sínum hjá bankanum. Kærandi hafi ekki áttað sig á því þegar hann hafi lesið yfir og samþykkt forskráð skattframtal að þessi ósköp gætu gerst.

Ástæða þessa fjármálagernings sé sú að ævisparnaður þeirra hjóna hafi falist í fasteign sem þau hafi átt skuldlaust og selt stuttu eftir hrun. Stóran hluta af söluverðinu hafi þau lagt inn á verðtryggðan reikning. Þennan sjóð hafi þau fært af þessum reikningi inn á annan óverðtryggðan reikning í þeirra eigu hjá bankanum. Verðtrygging og verðbætur séu ekki sami hluturinn. Staða þeirra hjóna sé sú að þau leigi öryggisíbúð með trúlega dýrustu leigu á landinu. Þegar þau hafi ákveðið að leigja þessa íbúð hafi laun annars þeirra, lífeyrissjóður og ellilaun dugað fyrir leigunni en nú fari það víðs fjarri.

Í athugasemdum kæranda, dags. 23. janúar 2022, kemur fram að þann 21. janúar 2012 hafi kærandi og eiginkona hans keypt verðtryggð sparibréf sem þeim hafi fundist vænleg leið á þeim tíma til að viðhalda verðmæti stórs hlutar af söluverði húss sem þau hafi selt. Starfsmaður bankans hafi fullvissað þau um að þegar þessi bréf yrðu innleyst þyrfti eingöngu að greiða fjármagnstekjuskatt en engan annan kostnað. Kærandi hafi alla tíð staðið í þeirri trú að það stæði og því hafi skerðing Tryggingastofnunar komið á óvart.

Eftir því sem kærandi viti best hafi heimild Tryggingastofnunar til skerðinga vegna verðtryggingar ekki komið fyrr en 2014 með reglugerð eða lögum. Sé það rétt, sé þessi skerðing afturvirk og því óheimil.

Sú staðreynd að Skatturinn skrái þetta sem verðbætur og söluhagnað hljóti að koma frá Landsbankanum. Það breyti engu hvernig skráð sé eftir regluverki frá árinu 2014. Í verðtryggingu felist engar tekjur heldur fjölgi eða fækki krónum eftir opinberri vísitölu. 

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé endurreikningur tekjutengdra bóta ársins 2020.

Í 16. gr. laga um nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar teljast tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.

Í a-lið 2. mgr. 16. gr. sé fjallað um fjármagnstekjur og þar segi: „Ef um hjón er að ræða skiptast tekjur skv. 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.“ Í 16. og 23. gr. laga um almannatryggingar sé kveðið á um áhrif tekna á ellilífeyri.

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laganna. Þar komi fram skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Á árinu 2020 hafi kærandi verið með ellilífeyri allt árið. Uppgjör tekjutengdra bóta ársins hafi leitt til 985.483 kr. ofgreiðslu, að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast sé sú að við samkeyrslu við tekjuupplýsingar [skattyfirvalda] árið 2021 vegna tekjuársins 2020, hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir. Endurreikningur byggist á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega.

Tryggingastofnun hafi sent kæranda tillögu að tekjuáætlun þann 17. janúar 2020. Samkvæmt áætluninni hafi verið gert ráð fyrir að árið 2020 væru lífeyrissjóðstekjur kæranda 2.463.521 kr. og fjármagnstekjur 194.084 kr., sameiginlegar með maka. Athugasemdir hafi ekki borist frá kæranda og hafi hann því fengið greitt samkvæmt þessari áætlun allt árið 2020.

Við bótauppgjör ársins 2020 hafi komið í ljós að á árinu hafi kærandi verið með 2.450.245 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 5.264.038 kr. í fjármagnstekjur, sameiginlegar með maka. Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2020 hafi verið sú að kærandi hafi fengið ofgreitt í bótaflokknum ellilífeyri.

Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest fyrir dómstólum.

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2020 hafi verið sú að kærandi hafi á árinu fengið greitt 2.708.267 kr. en hefði átt að fá greitt 1.191.206 kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 985.483 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Í kæru gerir kærandi meðal annars athugasemdir við það hvernig fjármagnstekjurnar séu tilkomnar. Samkvæmt 16. grein laga um almannatryggingar beri Tryggingastofnun að líta til tekna við útreikning bóta. Í ákvæðinu sé vísað til laga um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna og séu fjármagnstekjur þar tilgreindar. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem komi fram í skattframtölum. Telji kærandi að skattframtal sé ekki rétt geti hann óskað eftir leiðréttingu hjá skattyfirvöldum. Í kjölfar skattbreytinga megi óska eftir endurreikningi á uppgjöri.

Kærð ákvörðun sé í samræmi við þau lög og reglur sem gildi um uppgjör og endurreikning tekjutengdra bóta. Hún sé einnig í samræmi við fordæmi úrskurðarnefndar velferðarmála og forvera hennar, úrskurðarnefndar almannatrygginga. Með vísun til framanritaðs telji Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2020 og innheimtu ofgreiddra bóta.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Kærð ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 20. maí 2021 og barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. nóvember 2021. Í bréfi sem fylgdi kæru kemur fram að kærandi hafi ekki fengið hina kærðu ákvörðun afhenta fyrr en 28. september 2021 þegar hann og eiginkona hans hafi leitað til Tryggingastofnunar ríkisins. Í þeim tilgangi að rannsaka málið frekar óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir upplýsingum frá Tryggingastofnun um hvernig hin kærða ákvörðun hefði verið birt kæranda. Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni var hin kærða ákvörðun eingöngu birt kæranda rafrænt á „Mínum síðum“ 19. maí 2021. Þá upplýsti stofnunin að engin merki væru um að kærandi hefði opnað nokkurt skjal á „Mínum síðum“. Einnig kemur fram að kæranda hafi ekki verið tilkynnt sérstaklega um að uppgjörið yrði einungis birt á „Mínum síðum“ en stofnunin hafi birt frétt á heimasíðu sinni þann 20. maí 2021 um að niðurstöður uppgjörs væru tilbúnar.

Um rafræna meðferð stjórnsýslumála er fjallað í IX. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í athugasemdum við 6. gr. í frumvarpi til laga nr. 51/2003 um breytingu á stjórnsýslulögum þar sem lagt var til að bæta við kafla um rafræna meðferð stjórnsýslumála, kemur fram að aðila er ekki skylt að taka þátt í rafrænni meðferð. Í ljósi framangreinds og með hliðsjón af því að kærandi var ekki upplýstur um að ákvörðunin yrði birt með rafrænum hætti er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ákvörðunin hafi ekki verið tilkynnt kæranda í skilningi 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar fyrr en hann fékk ákvörðunina afhenta í september 2021. Kærufrestur var því ekki liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála.

Kærandi fékk greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun á árinu 2020. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. laganna kemur fram að til tekna skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Sé litið til þeirra laga kemur meðal annars fram að til tekna skuli telja fjármagnstekjur, sbr. C-lið 7. gr. laga um tekjuskatt. Þá segir í 2. málsl. a-liðar 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar að fjármagnstekjur skuli skiptast til helminga á milli hjóna við útreikning bóta. Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar skal ellilífeyrir lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr., uns lífeyririnn fellur niður. Þá segir að ellilífeyrisþegi skuli hafa 300.000 kr. almennt frítekjumark við útreikning ellilífeyris og 1.200.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna.

Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Ef í ljós kemur við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar, ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Tryggingastofnun sendi kæranda tillögu að tekjuáætlun þann 17. janúar 2020 þar sem gert var ráð fyrir 2.463.521 kr. í lífeyrissjóð og 194.084 kr. í vexti, sameiginlegar með maka. Kærandi gerði ekki athugasemdir við þá áætlun og voru bætur greiddar miðað við þær tekjuforsendur út árið 2020.

Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2020 reyndust tekjur kæranda á árinu 2020 vera 2.450.245 kr. í laun og sameiginlegar tekjur kæranda og maka reyndust vera 5.264.038 kr. í vexti og verðbætur og vegna söluhagnaðar. Niðurstaða endurreiknings Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins var sú að kærandi fékk ofgreiddan ellilífeyri og orlofs- og desemberuppbætur og að ofgreiðsla ársins hafi verið samtals að fjárhæð 985.483 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kærandi hefur verið krafinn um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar.

Samkvæmt framangreindu reyndust fjármagnstekjur kæranda vera hærri á árinu 2020 en gert hafði verið ráð fyrir í tekjuáætlun og leiddu til kærðrar ofgreiðslukröfu. Eins og áður hefur komið fram eru fjármagnstekjur tekjustofn sem hefur áhrif á bótarétt samkvæmt lögum um almannatryggingar, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, þar á meðal verðbætur, sbr. 3. tölul. C-liðar. 7. gr., sbr. nánar 8. gr. laga nr. 90/2003, og söluhagnaður, sbr. 8. tölul. C-liðar 7. gr. laganna. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur. Tryggingastofnun hefur því enga heimild til að líta fram hjá fjármagnstekjum sem koma fram á skattframtali kæranda.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun um endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum ársins 2020.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, á árinu 2020, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum