Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtbo%C3%B0sm%C3%A1la

Mál nr. 33/2021. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 13. október 2021.
í máli nr. 33/2021:
Ístak hf.
gegn
Vegagerðinni og
Skagfirskum verktökum ehf.

Lykilorð
Stöðvun samningsgerðar aflétt.

Útdráttur
Kærunefnd útboðsmála féllst á kröfu varnaraðila um að stöðvun samningsgerðar vegna útboðs um vega- og brúargerð yrði aflétt, sbr. 2. mgr. 107. gr. og 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 9. september 2021 kærir Ístak hf. útboð Vegagerðarinnar (hér eftir vísað til sem varnaraðila) nr. 20-097 auðkennt „Þverárfjallsvegur (73) í Refasveit og Skagastrandarvegur (74) um Laxá“. Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi hið kærða innkaupaferli um stundarsakir þar til endanlega hefur verið skorið úr um kæru. Þá er þess einnig krafist að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila frá 30. ágúst 2021 að leita samninga við Skagfirska verktaka ehf. Til vara er þess krafist að kærunefnd útboðsmála leggi fyrir varnaraðila að auglýsa útboðið á nýjan leik. Þá er „eftir atvikum“ óskað eftir því að kærunefnd veiti álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda. Einnig er krafist málskostnaðar. Varnaraðili og Skagfirskir verktakar ehf. krefjast þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað og að stöðvun samningsgerðar verði aflétt. Í þessum hluta málsins verður tekin afstaða til kröfu varnaraðila um að stöðvun samningsgerðar verði aflétt.

Í september 2021 bauð varnaraðili út gerð Þverárfjallsvegar í Refasveit og Skagastrandarvegar og gerð nýrrar brúar yfir Laxá. Í grein 1.8 í útboðsgögnum kom fram að bjóðandi skyldi á síðastliðnum sjö árum hafa lokið við a.m.k. eitt sambærilegt verk fyrir verkkaupa eða annan aðila. Með sambærilegu verki væri átt við verkefni svipaðs eðlis og að upphæð verksamnings hefði að lágmarki verið 50% af tilboði í hið útboðna verk. Við þennan samanburð myndi verkkaupi taka tillit til verðbreytinga miðað við byggingarvísitölu. Efnislega sambærileg krafa var gerð til yfirstjórnanda verks. Þá kom einnig fram í greininni að meðalársvelta fyrirtækis bjóðanda skyldi að lágmarki hafa verið sem næmi 80% af tilboði bjóðanda án virðisaukaskatts í hið útboðna verk síðastliðin þrjú ár. Þá kom fram að í þeim tilvikum sem fleiri en einn aðili legðu fram sameiginlegt tilboð skyldi a.m.k. einn af þeim uppfylla kröfur um reynslu af sambærilegu verki. Þá skyldi heimilt að leggja saman veltu hjá allt að þremur bjóðendum sem skiluðu sameiginlegu tilboði til að uppfylla kröfu um lágmarksveltu. Í grein 1.9 kom fram að velja skyldi tilboð á grundvelli lægsta verðs.

Tilboð voru opnuð 17. ágúst 2021 og bárust tilboð frá þremur bjóðendum. Tilboð Skagfirskra verktaka ehf. var lægst að fjárhæð en tilboð kæranda hæst. Með bréfi 30. ágúst 2021 tilkynnti varnaraðili bjóðendum að ákveðið hefði verið að leita samninga við Skagfirska verktaka ehf. á grundvelli tilboðs þess.

Kærandi byggir að meginstefnu á því að Skagfirskir verktakar ehf. fullnægi ekki hæfiskröfum útboðsins. Félagið hafi hvorki lokið verkefni svipaðs eðlis né að tilgreindri fjárhæð. Það verk sem Skagfirskir verktakar ehf. byggi á að fullnægi kröfum útboðsins sé ekki svipaðs eðlis og hið útboðna verk, enda varði það ekki vegagerð heldur lagningu strengs í jörð. Verkið sé allt annars eðlis, krefjist mismunandi þekkingar, mannafla o.s.frv. Þá verði að miða kröfu um lágmarks fjárhæð verks við upphæð verksamnings og að sú upphæð hafi að lágmarki verið 50% af tilboði í hið útboðna verk. Óheimilt sé að taka tillit til hugsanlegra viðbóta eða aukaverka. Jafnframt verði að skilja ákvæði útboðsgagna um veltu svo að ársvelta bjóðenda þurfi að nema 80% af tilboði bjóðanda án virðisaukaskatts í hið útboðna verk öll síðastliðin þrjú ár. Ekki nægi að meðalvelta síðustu þriggja ára nemi 80% af tilboði bjóðanda. Skagfirskir verktaka ehf. fullnægi ekki þessum kröfum.

Varnaraðili byggir að meginstefnu á því að þrjú fyrirtæki standi sameiginlega að Skagfirskum verktökum ehf. og beri þau öll sameiginlega ábyrgð á tilboði fyrirtækisins. Við athugun á hæfiskröfum hafi verið litið til hæfis allra þeirra fyrirtækja sem hafi staðið að Skagfirskum verktökum ehf. Að teknu tilliti til þess hafi fyrirtækið fullnægt öllum kröfum útboðsgagna. Skagfirskir verktakar ehf. byggja einnig á því að þeir hafi fullnægt öllum kröfum útboðsgagna.

Niðurstaða
Áður hefur verið lýst grein 1.8 í útboðsgögnum en samkvæmt þeirri grein þurftu bjóðendur meðal annars að hafa á síðastliðnum sjö árum lokið verki svipaðs eðlis og það verk sem boðið var út og þar sem upphæð verksamnings var að lágmarki 50% af tilboði í hið útboðna verk. Efnislega sambærileg krafa var gerð til yfirstjórnanda verks.

Meginregla laga nr. 120/2016 um opinber innkaup er sú að öll fyrirtæki eigi þess kost að leggja fram tilboð eða sækja um þátttöku í útboðum á vegum opinberra aðila, sbr. 1. tl. og 9. tl. 1. mgr. 2. gr. laganna. Ákvæði 69. gr. laganna heimilar þó kaupanda að setja skilyrði fyrir þátttöku fyrirtækja m.a. á grundvelli fjárhagsstöðu, sbr. 71. gr., og á grundvelli tæknilegrar og faglegrar getu, sbr. 72. gr. Þau skilyrði þurfa þó að tengjast efni samnings með málefnalegum hætti og fullnægja kröfum um jafnræði og meðalhóf, sbr. m.a. 15. gr. laganna. Af þessu leiðir að vafi um inntak skilyrða sem þessara verður að meginstefnu metinn bjóðendum í hag.

Að mati kærunefndar útboðsmála, og m.a. með hliðsjón af þessu, verður orðalagið „svipaðs eðlis“ í greininni ekki túlkað með íþyngjandi hætti fyrir bjóðendur eða með þeim hætti að það verk sem bjóðendur vísi til þurfi að ná til nákvæmlega sömu verkþátta, heldur beri að líta til eðli verksins í heild, sbr. úrskurður kærunefndar útboðsmála frá 28. janúar 2020 í máli nr. 17/2019. Þá verður og að miða við að við mat á upphæð svipaðs verksamnings megi líta til heildargreiðslna fyrir verkið, eftir atvikum að teknu tilliti til hugsanlegra viðbóta og aukaverka. Eins og mál þetta liggur fyrir nú verður að miða við að það verk sem Skagfirskir verktakar ehf. vísa til og nefnt er „Sauðárkrókslína 2“, fullnægi framangreindum kröfum.

Þá verður með sömu rökum að skýra skilyrði um veltu í útboðsgögnum svo að meðalvelta síðustu þriggja ára skuli hafa numið 80% af tilboði bjóðanda í hið útboðna verk. Að virtum gögnum málsins verður að miða við að lægstbjóðandi hafi fullnægt þessari kröfu þegar litið er til veltu þeirra þriggja fyrirtækja sem stóðu að baki honum.

Samkvæmt framansögðu verður ekki talið sýnt að verulegar líkur séu á að brotið hafi verið gegn lögum um opinber innkaup sem leitt getur til ógildingar ákvörðunar eða annarra athafna varnaraðila, sbr. 2. mgr. 107. gr. og 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Er þvífallist á kröfur varnaraðila og Skagfirskra verktaka ehf. um að sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar, sem komst á með kæru í máli þessu, verði aflétt.

Ákvörðunarorð:

Stöðvun samningsgerðar vegna útboðs varnaraðila, Vegagerðarinnar, nr. 20-097 auðkennt „Þverárfjallsvegur (73) í Refasveit og Skagastrandarvegur (74) um Laxá“, er aflétt.


Reykjavík, 13. október 2021

Reimar Pétursson (sign)

Kristín Haraldsdóttir (sign)

Auður Finnbogadóttir (sign)



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum