Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20F%C3%A6%C3%B0ingar-%20og%20foreldraorlof

Mál nr. 485/2022-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 485/2022

Föstudaginn 18. nóvember 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 28. september 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 25. ágúst 2022, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags 28. júlí 2022, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna væntanlegrar barnsfæðingar 9. september 2022. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 25. ágúst 2022, var umsókn kæranda um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði synjað.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 28. september 2022. Með bréfi, dags. 30. september 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 19. október 2022, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs varðandi synjun á greiðslum úr sjóðnum. Kærandi telur ákvörðunina vera ósanngjarna og að hún setji sig í erfiða fjárhagsstöðu.

Kærandi byggir á vanhæfni starfsmanna Vinnumálastofnunar. Þann 22. apríl 2022 kveðst hún hafa fengið þær upplýsingar hjá Vinnumálastofnun í Reykjavík að þrátt fyrir að eldra mál hennar væri ennþá í afgreiðslu hjá stofnuninni ætti hún samt að tilkynna sumarfrístöku og myndi slíkt ekki hafa áhrif á fæðingarorlofið. Á grundvelli þessara upplýsinga tilkynnti kærandi um töku þriggja vikna sumarfrís í gegnum vefsíðu Vinnumálastofnunar. Vegna breytinga á vefsíðu stofnunarinnar voru frekari upplýsingar sendar í tölvupósti þar sem undirrituð upplýsti um framlengingu sumarfrísins um eina viku.

Eftir að kæranda barst ákvörðun frá Fæðingarorlofssjóði mætti hún til Vinnumálastofnunar á Selfossi þann 5. september 2022 og spurði annan starfsmann þar sömu spurningar og áður: „Frestar sumarfrístaka þátttöku mína sem virks atvinnuleitanda á meðan ég er skráð atvinnulaus á því tímabili sem fríið er tekið?“ Svarið sem kærandi fékk var einnig neitandi. Þá, eftir að hafa lýst fyrir starfsmanninum stöðu sinni á ítarlegan hátt, þurfti hann að hringja í Fæðingarorlofssjóð til að óska eftir upplýsingum. Kærandi fékk ekki þær upplýsingar fyrr en þá að maður mætti einungis taka tíu daga frí. Hefði hún ekki látið vita af ástæðu þess að umsókn hennar um fæðingarorlof væri synjað stæði hún enn í þeirri trú að sumarfrístaka hefði engin áhrif á fæðingarorlof. Þessi tiltekni starfsmaður vissi ekki hvar undirrituð gæti leitað að þessum upplýsingum til að lesa sér til um málið.

Í ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sé vísað til tímabilsins 24. apríl – 8. júlí 2022 án þess að vísa í viðeigandi lagastoð og án þess að upplýsa kæranda um rétt hennar til að kæra ákvörðun sjóðsins.

Þegar kærandi sendi tölvupóst daginn eftir þar sem hún óskaði eftir rökstuðningi á ákvörðuninni fékk hún allt annað tímabil uppgefið en það sem vísað var í í ákvörðuninni.

Kærandi kveðst heldur ekki hafa fengið nein svör við spurningum sínum varðandi umsókn sína um fæðingarorlof þegar hún mætti til Vinnumálastofnunar í viðtal hjá pólskum starfsmanni. Það sýni enn og aftur að um skort á upplýsingum sé að ræða og einnig að erfitt sé fyrir innflytjendur að fá áreiðanlegar upplýsingar.

Hér ber að benda á að aðalástæðan fyrir utanferð kæranda var læknismeðferð og afgreiðsla mála í tengslum við andlát ættingja hennar nokkrum mánuðum fyrr. Erfitt sé að komast til sérfræðings hér á landi vegna vanstarfsemi skjaldkirtils sem kærandi þjáist af en ekki sé um mörg slík tilfelli að ræða á Íslandi. Þá fórst það því miður fyrir hjá ljósmóður sem hafi verið látin vita af sjúkdómi kæranda í fyrstu skoðun að skoða stýrihormónið hjá kæranda. Einungis vegna beiðni hennar hafi kæranda verið vísað í rannsókn en hún ræddi svo niðurstöður rannsóknarinnar við lækni í B. Kærandi tekur fram að séu hormónið TSH og þýroxín fT4  ekki skoðuð á þungunartíma geti það stofnað bæði móður og barni í hættu.

Hefði kærandi fengið þær upplýsingar í viðtalinu [hjá Vinnumálastofnun] hinn 22. apríl 2022 að atvinnuleitandi mætti á sex mánaða tímabili fyrir fæðingarorlofstöku einungis taka tíu virka daga í sumarfrí hefði hún ekki tekið viljandi þá áhættu að missa tekjur og sérstaklega á því tímabili þegar hún gat ekki tekið að sér vinnu. Þá hafi hún einnig vegna fyrri mistaka sinna gagnvart Vinnumálastofnun viljað uppfylla öll skilyrðin. Eftir að hafa unnið á vinnumarkaði í tæplega sex ár hafi kærandi nú misst tekjumöguleika, bæði vegna þess að hún hafi ekki fengið réttar upplýsingar frá starfsmanni Vinnumálastofnunar og vegna þess að sumarfrí hennar var lengra en tíu dagar.

Hefði kærandi fundið þessar upplýsingar á vefsíðu Vinnumálastofnunar hefði hún eflaust farið eftir þeirri reglu um fjölda daga í sumarfríi. Hún fylgdi því miður þeim leiðbeiningum á vefsíðu Vinnumálastofnunar í kaflanum um tilkynningu töku sumarfrís þar sem stendur „Hægt er að skrá sig í sumarfrí til útlanda í allt að einn mánuð.“ En samkvæmt því sem starfsmenn Vinnumálastofnunar segja virðist það ekki eiga við um óléttar konur og karlmenn sem bíða eftir fæðingarorlofi.

Í niðurstöðu ákvörðunar um synjun á fæðingarorlofi hafi ekki verið að finna upplýsingar um umrædda tíu virka daga í fríi. Þessar upplýsingar fékk kærandi ekki fyrr en hún hafði haft samband símleiðis nokkrum sinnum við Fæðingarorlofssjóð, en starfsmaður Vinnumálastofnunar gat ekki útskýrt fyrir henni raunverulega ástæðu fyrir synjuninni.

Kærandi kveðst hvorki hafa fengið viðhlítandi tilvísun í lög né lagastoð sem ákvörðunin byggist á. Hún hafi því reynt að finna þessar upplýsingar upp á eigin spýtur. Þá hafi hún komist að því að munur væri á birtum upplýsingum á ensku og íslensku. Í ensku útgáfunni á vefsíðu Vinnumálastofnunar í flipanum um kærurétt sé að finna upplýsingar um lög nr. [95/2000] en í hinni íslensku er tilvísun í lög nr. 144/2020. Þar er einnig að finna vart sjáanlegan flipa um lagastoð. Erfitt er að sjá hann og í raun og veru ekki hægt að sjá hann í farsímaviðmótinu. Þegar undirrituð leitaði að upplýsingum um umrædda ákvörðun rakst hún einnig á tilvísun í lög nr. [95/2000] á vefsíðunni government.is. Kærandi tekur fram að hvergi á vefsíðu Vinnumálastofnunar hafi verið hægt að finna þær upplýsingar sem fjalla um tíu virka daga á síðustu sex mánuðum sem starfsmaður Vinnumálastofnunar byggði svör sín á í símtali við hana.

Kærandi kveðst hafa leitað til VLFS og hafi starfsmenn þar furðað sig á ákvörðun Vinnumálastofnunar og gefið í skyn að um villu væri að ræða. Það ber vitni um að bæði starfsmenn Vinnumálastofnunar og stéttarfélaga hafi almennt ekki vitneskju um þessa tíu daga reglu sem vísað hefur verið í en um sé að ræða starfsmenn sem innflytjendur leita aðallega til í tengslum við lagamál.

Kærandi kveður það koma á óvart hversu ólík viðhorf séu hjá starfsmönnum í Reykjavík annars vegar og í útibúi á Selfossi hins vegar hvað varðar vilja til að aðstoða beiðendur.

Kærandi fékk ekki réttar upplýsingar og stuðning á þessum erfiða tíma fyrr en hún leitaði til forstjóra Fjölmenningarseturs (www.mcc.is) og til áreiðanlegs og hjálpfúss starfsmanns á skrifstofu Vinnumálastofnunar á Selfossi.

Með hliðsjón af ofangreindu óskar kærandi eftir því að málið verði endurskoðað.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að með umsókn, dags. 28. júlí 2022, hafi kærandi sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar 9. september 2022.

Auk umsóknarinnar barst tilkynning um fæðingarorlof, vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, launaseðlar frá Atvinnuleysistryggingasjóði og staðfesting frá Vinnumálastofnun vegna atvinnuleysisbóta. Enn fremur lágu fyrir upplýsingar úr skrám Ríkisskattstjóra.

Í 1. mgr. 21. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.)  kemur fram að foreldri á innlendum vinnumarkaði öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Þegar foreldri hefur töku fæðingarorlofs fyrir fæðingardag barns, sbr. meðal annars 2. mgr. 8. gr., skal þó miða við þann dag er foreldrið hefur fæðingarorlof að því er það foreldri varðar.

Í 4. tölul. 4. gr. ffl. sé að finna orðskýringu á starfsmanni en samkvæmt ákvæðinu telst starfsmaður sankvæmt lögunum hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði.

Í 1. mgr. 22. gr. ffl. komi fram að þátttaka á innlendum vinnumarkaði  samkvæmt 21. gr. ffl. feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 4. tölul. 4. gr., sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. tölul. 4. gr., eða sem starfsmaður og sjálfstætt starfandi, sbr. 5. tölul. 4. gr. Fullt starf starfsmanns miðast við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skal jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljast fullt starf.

Í 2. mgr. 22. gr. ffl. sé síðan talið upp í eftirfarandi fimm stafliðum hvað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði,

a.         orlof eða leyfi starfsmanns, sbr. 4. tölul. 4. gr., samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti og starfsmaðurinn hafi á því tímabili sem um ræðir verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli,

b.         sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum, hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu eða hefur hætt atvinnuleit tímabundið vegna orlofs erlendis og ekki hafa liðið meira en tíu virkir dagar þar til atvinnuleit hefur hafist að nýju samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,

c.         sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til sjúkratryggingastofnunarinnar samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og lögum um slysatryggingar almannatrygginga, eða fær greiðslur sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóði stéttarfélags, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,

d.         sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slyss, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,

e.         sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%.

Fæðingardagur barns kæranda var 19. september 2022. Kærandi óskaði eftir að hefja fæðingarorlof fyrir þann tíma, eða frá 9. september 2022 í samræmi við 2. mgr. 8. gr. ffl. Ávinnslutímabil kæranda sem starfsmanns sé því frá 9. mars 2022 og fram að upphafsdegi fæðingarorlofs. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þurfti kærandi, samkvæmt framangreindu, að hafa verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli á tímabilinu, sbr. 4. tölul. 4. gr., 1. mgr. 21. gr. og 1. og 2. mgr. 22. gr. ffl.

Samkvæmt skrám Ríkisskattstjóra og gögnum frá Vinnumálastofnun fékk kærandi greiddar atvinnuleysisbætur á framangreindu tímabili til 24. apríl 2022 en þá féllu niður greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði til 9. júlí 2022 þegar greiðslur hófust að nýju. Tímabilið 24. apríl til 22. maí 2022 hafi kærandi verið skráð í orlof en tímabilið 23. maí til 8. júlí 2022 hafi kærandi verið skráð á biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Síðara tímabilið telst því til þátttöku á vinnumarkaði, sbr. b. lið 2. mgr. 22. gr. ffl.

Kemur þá til skoðunar tímabilið 24. apríl til 22. maí 2002 þegar kærandi var skráð í orlof en óumdeilt er að kærandi var erlendis í orlofi umrætt tímabil. Í b-lið 2. mgr. 22. gr. ffl. er atvinnuleitendum veitt ákveðið svigrúm vegna orlofs erlendis þar sem til þátttöku á vinnumarkaði telst sá tími sem foreldri hefur hætt atvinnuleit tímabundið vegna orlofs erlendis og ekki hafa liðið meira en tíu virkir dagar þar til atvinnuleit hefur hafist að nýju samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar. Þann 9. maí höfðu liðið meira en tíu virkir dagar frá upphafi orlofs þann 24. apríl og því geti stafliður b ekki átt við tímabilið 9. maí til 22. maí  þegar atvinnuleit kæranda hófst að nýju. Þá verður ekki séð að aðrir stafliðir 2. mgr. 22. gr. ffl geti átt við um aðstæður kæranda á því tímabili.

Að mati Fæðingarorlofssjóðs liggi þannig skýrt fyrir að á tímabilinu 9. maí til 22. maí 2022 uppfyllti kærandi ekki skilyrði þess að hafa verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. 4. tölul. 4. gr., 1. mgr. 21. gr., 1. mgr. 22. gr. og 2. mgr. 22. gr. ffl., og er því ekki annað unnt en að synja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Í kæru komi fram að kærandi telji sig hafa fengið rangar leiðbeiningar er hún leitaði til Vinnumálastofnunar í Reykjavík 22. apríl 2022 vegna mála sinna er sneru að rétti til atvinnuleysisbóta og skráningar sumarfrístöku og að slík skráning myndi ekki hafa áhrif á rétt hennar til fæðingarorlofs. Af gögnum málsins verður ekki séð að henni hafi verið veittar slíkar upplýsingar. Þá vísar kærandi til upplýsinga af heimasíðu Vinnumálastofnunar um tilkynningu töku sumarfrís. Upplýsingar um rétt til fæðingarorlofs sé að finna á heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs en ekki á heimasíðu Vinnumálastofnunar.

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun - Fæðingarorlofssjóður að kærandi uppfylli ekki skilyrði til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Kærandi eigi þess í stað rétt á fæðingarstyrk samkvæmt 26. gr. ffl.  

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Líkt og rakið er að framan taldi Fæðingarorlofssjóður kæranda ekki hafa uppfyllt skilyrði um þátttöku á innlendum vinnumarkaði í skilningi b-liðar 2. mgr. 22. gr. ffl. þar sem kærandi, sem þegið hafði atvinnuleysisbætur frá upphafi ávinnslutímabils þann 9. mars 2022 til 24. apríl sama ár, hafði þann dag hætt atvinnuleit tímabundið vegna orlofs erlendis og ekki hafið atvinnuleit innan tíu virkra daga frá upphafsdegi orlofs. Að mati sjóðsins geti stafliður b í 2. mgr. 22. gr. ffl. því ekki átt við um tímabilið 9. maí til 22. maí þegar atvinnuleit kæranda hófst að nýju eða aðrir stafliðir lagagreinarinnar.

Í 1. málsl. 1. mgr. 21. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) kemur fram að foreldri öðlist rétt til til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingardag barns. Í 2. málsl. 1. mgr. 21. gr. ffl.  kemur fram að þegar foreldri hefur töku fæðingarorlofs fyrir fæðingardag barns, sbr. 2. mgr. 8. gr., 16. og 17. gr., skal þó miða við þann dag er foreldrið hefur töku fæðingarorlofs.

Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. ffl. felur þátttaka foreldris á innlendum vinnumarkaði samkvæmt 21. gr. í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 4. tölul. 4. gr., sjálfstætt starfandi, sbr. 3. tölul. 4. gr., eða sem starfsmaður og sjálfstætt starfandi, sbr. 5. tölul. 4. gr. Fullt starf starfsmanns miðast við 172 vinnustundir á mánuði en þó skal jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljast fullt starf. Fullt starf sjálfstætt starfandi miðast við að viðkomandi hafi greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt og tryggingagjald af reiknuðu endurgjaldi eða launum er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein eða sem samkvæmt kjarasamningi telst fullt starf.

Samkvæmt a-e liðum 2. mgr. 22. gr. ffl. telst enn fremur til þátttöku foreldris á innlendum vinnumarkaði:

    a. orlof eða leyfi starfsmanns, sbr. 4. tölul. 4. gr., samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti og starfsmaðurinn hafi á því tímabili sem um ræðir verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli,

    b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum, hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu eða hefur hætt atvinnuleit tímabundið vegna orlofs erlendis og ekki hafa liðið meira en tíu virkir dagar þar til atvinnuleit hefur hafist að nýju samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,

    c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til sjúkratryggingastofnunarinnar samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og lögum um slysatryggingar almannatrygginga, eða fær greiðslur sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,

    d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slyss, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%,

    e. sá tími sem foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. lög nr. 22/2006, eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma framangreindra greiðslna verið a.m.k. 25%.

Samkvæmt gögnum málsins hætti kærandi atvinnuleit tímabundið á tímabilinu 24. apríl til 22. maí 2022 þar sem hún var í orlofi erlendis. Forsendur hinnar kærðu ákvörðunar eru, líkt og að framan greinir, þær að aðstæður kæranda teljist ekki falla að b-lið ákvæðisins þar sem kærandi var í orlofi í lengri tíma en tíu virka daga. Síðari málsliður b-liðar 2. mgr. 22. gr. ffl. sem mælir fyrir um að það teljist til þátttöku á innlendum vinnumarkaði þótt foreldri hafi hætt atvinnuleit tímabundið vegna orlofs erlendis og ekki hafi liðið meira en tíu virkir dagar þar til atvinnuleit hefjist að nýju, kom nýr inn í núgildandi lög um fæðingar- og foreldraorlof nr. 144/2020. Í athugasemdum við 22. gr. í frumvarpi til laga um fæðingar- og foreldraorlof segir um b-lið 2. mgr. 22. gr.:

„Þá er lagt til í b-lið 2. mgr. að atvinnuleitendur hafi tök á því að hætta atvinnuleit tímabundið vegna orlofs erlendis og skuli sá tími þá teljast til þátttöku á innlendum vinnumarkaði hafi ekki liðið meira en tíu virkir dagar þar til atvinnuleit hefst að nýju samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Að mati úrskurðarnefndarinnar er orðalag b-liðar 2. mgr. 22. gr. ekki að öllu leyti skýrt um hvort þar sé mælt fyrir um að foreldri skuli hefja atvinnuleit eigi síðar en tíu virkum dögum eftir að orlof hefst, líkt og er túlkun Fæðingarorlofssjóðs, eða eigi síðar en tíu virkum dögum eftir að orlofi lýkur. Ekki er að finna frekari skýringar á ákvæðinu í lögskýringargögnum aðrar en þær sem að framan greinir. Þannig er ekki alfarið ljóst hvort ætlun löggjafans var að marka orlofstöku foreldris þessi tímamörk og tveir lögskýringarkostir því tækir við túlkun ákvæðisins. Sé á hinn bóginn litið til skýringar b-liðar 2. mgr. 22. gr. ffl. samkvæmt orðanna hljóðan kemur þar hvergi fram berum orðum að hefja beri atvinnuleit að nýju innan tíu virkra daga frá upphafsdegi orlofs. Sé litið til orðalags a-liðar 2. mgr. 22. gr. þar sem mælt er fyrir um að til þátttöku á vinnumarkaði teljist ólaunað orlof eða leyfi starfsmanns, sést enn fremur að þar eru engin tímamörk sett. Þykir því rétt í ljósi orðalags b-liðar 2. mgr. 22. gr. ffl., sem og innra samræmis 2. mgr. 22. gr. ffl., að skýra b-lið ákvæðisins kæranda í vil og þá þannig að atvinnuleit skuli hefjast eigi síðar en tíu virkum dögum frá því að orlofstöku lýkur, enda skuli kærandi ekki bera hallann af óskýrleika í löggjöf.

Í ljósi þess sem að framan greinir og samkvæmt orðalagi b-liðar 1. mgr. 22. gr. ffl. verður ekki annað séð en að kærandi hafi verið þátttakandi á vinnumarkaði þar sem hún hóf atvinnuleit að nýju innan tíu virkra daga frá því að orlofi hennar lauk þann 22. maí 2022.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu vísað til Vinnumálastofnunar - fæðingarorlofssjóðs til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 25. ágúst 2022, um synjun á umsókn A, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, er felld úr gildi og vísað til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 Kári Gunndórsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum