Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtbo%C3%B0sm%C3%A1la

Mál nr. 12/2019. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 17. maí 2019
í máli nr. 12/2019:
Klæðir ehf.
gegn
Vegagerðinni og
Munck Asfalt A/S

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 3. maí 2019 kærir Klæðir ehf. útboð Vegagerðarinnar (hér eftir vísað til sem varnaraðila) auðkennt „Yfirlagnir á Austursvæði, 2019-2020, klæðning“. Kærandi krefst þess aðallega að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun varnaraðila 30. apríl 2019 um að semja við Munck Asfalt A/S í hinu kærða útboði. Til vara er þess krafist að kærunefnd láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda. Þá er krafist málskostnaðar. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu varnaraðila um að aflétta sjálfkrafa stöðvun sem komst á með kæru í þessu máli.

Í mars 2019 óskaði varnaraðili eftir tilboðum í yfirlagnir klæðninga á vegum á Austursvæði árin 2019-2020. Í grein 1.8 í útboðsgögnum kom meðal annars fram að bjóðandi skyldi á síðastliðnum sjö árum hafa lokið við a.m.k. eitt sambærilegt verk fyrir verkkaupa eða annan aðila. Með sambærilegu verki væri átt við verkefni svipaðs eðlis og að upphæð verksamnings hafi að lágmarki verið 50% af tilboði í þetta verk. Þá var jafnframt gerð sams konar krafa um reynslu yfirstjórnanda verksins. Jafnframt voru settar fram kröfur til fjárhagslegrar stöðu bjóðanda, þ.e. að meðalársvelta fyrirtækisins hefði síðastliðin þrjú ár að lágmarki verið sem nemur 50% af tilboði bjóðanda í viðkomandi verk án virðisaukaskatts, að eigið fé bjóðanda væri jákvætt samkvæmt ársreikningi og að bjóðandi væri í skilum með opinber gjöld og lífeyrissjóðsiðgjöld vegna starfsmanna við skil tilboðs. Í grein 1.9 kom fram að verkkaupi myndi velja fjárhagslega hagkvæmasta tilboðið á grundvelli lægsta verðs að uppfylltum þeim skilyrðum og kröfum sem fram kæmu í útboðslýsingu. Í grein 2.2.2 var fjallað um upplýsingar sem skyldu fylgja tilboðum og kom meðal annars fram að bjóðendur skyldu leggja fram ársreikninga fyrir árin 2017 og 2018, sem og skriflega yfirlýsingu frá innheimtuaðilum og lífeyrissjóðum til staðfestu því að ofangreindum kröfum væri fullnægt.

Af fundargerð opnunarfundar 9. apríl 2019 og öðrum gögnum málsins verður ráðið að upphaflega hafi fulltrúi varnaraðila tilgreint að borist hefði tilboð frá Munck Íslandi ehf., en síðar hafi verið miðað við að tilboðið hefði borist frá Munck Asfalt A/S og það leiðrétt í fundargerð. Af fundargerðinni verður jafnframt ráðið að borist hafi þrjú tilboð í verkið og þar af hafi tilboð Munck Asfalt A/S verið lægst að fjárhæð en tilboð kæranda hafi verið næst lægst að fjárhæð.

Málatilbúnaður kæranda byggir að meginstefnu til á því að ekki hafi borist tilboð frá Munck Asfalt A/S í hinu kærða útboði. Þá hafi ársreikningum fyrir 2017 og 2018 og skriflegri yfirlýsingu innheimtuaðila og lífeyrissjóða um skil á gjöldum ekki verið skilað með tilboði lægstbjóðanda. Hafi tilboðið því verið ógilt. Jafnframt hafi Munck Ísland ehf. ekki uppfyllt kröfur útboðsgagna um jákvætt eigið fé og Munck Asfalt A/S ekki uppfyllt kröfur um reynslu af sambærilegum verkum.

Niðurstaða

Kærunefnd útboðsmála hefur kynnt sér tilboð það sem varnaraðili valdi í hinu kærða útboði. Af tilboðseyðublaði verður ráðið að þau mistök hafi orðið við útfyllingu þess að þar sem tilgreina skyldi nafn bjóðanda var að finna undirritun umboðsmanns bjóðanda. Af skjalinu verður hins vegar ráðið að tilboðið hafi verið gert af hálfu Munck Asfalt A/S sem hafi því réttilega verið tilgreindur sem bjóðandi af varnaraðila. Þá verður ekki annað séð en að umbeðnir ársreikningar hafi fylgt tilboði Munck Asfalt A/S og að varnaraðila hafi verið heimilt að gefa fyrirtækinu færi á að leggja fram yfirlýsingar innheimtuaðila og lífeyrissjóða um skil á gjöldum eftir að tilboðum var skilað, sbr. 5. mgr. 66. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup, enda verður ekki talið að með því hafi verið gerðar breytingar á grundvallarþáttum tilboðsins eða það líklegt til að raska samkeppni eða ýta undir mismunun. Jafnframt verður ekki annað ráðið, eins og mál þetta liggur fyrir nú, en að Munck Asfalt A/S og boðinn yfirstjórnandi þess fyrirtækis hafi uppfyllt kröfur útboðsgagna um reynslu af sambærilegum verkum.

Samkvæmt þessu hefur kærandi ekki leitt verulegar líkur að því að varnaraðili hafi brotið gegn lögum um opinber innkaup í hinu kærða útboði, sbr. 2. mgr. 107. gr. og 1. mgr. 110. gr. laganna. Verður því að aflétta sjálfkrafa stöðvun útboðsins sem komst á með kæru í máli þessu.

Ákvörðunarorð:

Stöðvun útboðs varnaraðila, Vegagerðarinnar, auðkennt „Yfirlagnir á Austursvæði, 2019-2020, klæðning“ er aflétt.

Reykjavík, 17. maí 2019

Ásgerður Ragnarsdóttir

Auður Finnbogadóttir



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum