Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 437/2021 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 16. september 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 437/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21070015

 

ra […]

og barna hans

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 6. júlí 2021 kærði […], fd. […], ríkisborgari Víetnams (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 23. júní 2021, um að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Þá kærði kærandi fyrir hönd barna sinna, […], fd. […] og […], fd. […], ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 23. júní 2021, um að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að umsókn hans um dvalarleyfi á grundvelli 70. gr. laga um útlendinga verði samþykkt. Til vara er þess krafist að málinu verði vísað aftur til Útlendingastofnunar til frekari rannsóknar.

Kærandi krefst þess jafnframt að ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum barna hans verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 69. eða 1. mgr. 71. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að málum þeirra verði vísað aftur til Útlendingastofnunar til frekari rannsóknar og nýrrar meðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara hinn 21. nóvember 2019. Þá sótti kærandi um dvalarleyfi fyrir hönd barna sinna á grundvelli fjölskyldusameiningar þann sama daga. Með ákvörðunum Útlendingastofnunar, dags. 23. júní 2021, var umsóknunum synjað. Kærandi kærði ákvarðanirnar til kærunefndar útlendingamála hinn 6. júlí 2021. Greinargerðir kæranda bárust kærunefnd hinn 20. júlí 2021.

III.          Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að við vinnslu umsóknar kæranda hafi vaknað grunur um að til hjúskapar hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis hér á landi. Hafi Útlendingastofnun sent kæranda bréf hinn 18. febrúar 2021 þar sem rakin hefðu verið þau atriði sem bentu til þess gruns. Hefði lögmaður kæranda lagt fram greinargerð þann 3. mars 2021, þar sem fullyrðingum Útlendingastofnunar hafi verið hafnað.

Var það mat Útlendingastofnunar með vísan til gagna málsins að fyrir hendi væri rökstuddur grunur um að til hjúskapar kæranda og maka hennar hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis hér á landi, enda hefði ekki verið sýnt fram á annað svo óyggjandi væri, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Var umsókn kæranda því synjað. Þá var umsóknum barna hans jafnframt synjað, enda leiddu þau rétt sinn af umsókn kæranda.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til þess að hann og maki hafi verið skráð í hjúskap þann 2. ágúst 2019. Fyrstu efnislegu svör Útlendingastofnunar hafi verið send 18. febrúar 2021 eða um sjö mánuðum eftir að fullnægjandi gögn hefðu borist stofnuninni og 15 mánuðum eftir að umsóknin hafi verið lögð fram. Þá hafi verið um 19 mánuðir liðnir frá umsóknardegi við töku ákvörðunar og um 12 mánuðir frá því að fullbúin gögn hefðu verið lögð fram. Þá gerir kærandi athugasemdir við málsmeðferð stofnunarinnar, þ. á m. telur kærandi að svo virðist sem stofnunin hafi þegar lagt mat á fyrirliggjandi umsókn áður en gagnaöflun og rannsókn var lokið.

Kærandi byggir á því að ákvæði 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga sé undantekningarákvæði sem feli í sér mikla skerðingu á rétti fólks til einkalífs og við túlkun á ákvæðinu beri að beita þröngri lögskýringu og vernda einstaklinga gegn ómálefnalegri íhlutun stjórnvalda í réttindi þeirra. Af því leiði að stjórnvöldum beri skylda til að framkvæma eigið mat og tryggja að slíkt mat fari raunverulega fram í hverju tilviki. Þá beri einnig að horfa til hugtaksins „rökstuddur grunur“, sem vísi m.a. til þess að eitthvað sé stutt ástæðum eða rökum og vísar kærandi í því samhengi til úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 83/2019, þar sem fram komi að hinn rökstuddi grunur þurfi að beinast að stofnun hjúskaparins. Kærandi gerir athugasemdir við aðferðarfræði Útlendingastofnunar við mat á rökstuddum grun, sbr. 8. mgr. 70. gr. laganna. Af beinu orðalagi í niðurstöðukafla ákvörðunarinnar virðist sem Útlendingastofnun horfi nú til þess að í upptalningu í athugasemdum með ákvæðinu sé að finna dæmi með atriðum sem megi líta til við mat á því hvort rökstuddur grunur sé til staðar. Athygli veki að stofnunin tilgreini nú sérstaklega að ekki sé um tæmandi talningu að ræða en í fyrri ákvörðunum hafi hún byggt á því að í tilvitnuðum 11 liðum sé að finna tæmandi talningu á þeim atriðum sem skuli koma til skoðunar. Þá veki enn frekar athygli að í málinu sé aðeins eitt atriði af hinum tilteknu ellefu sem Útlendingastofnun byggi mat sitt á en önnur atriði sem tilgreind séu í hinni kærðu ákvörðun séu hvergi tilgreind í leiðbeiningum löggjafans. Í málinu virðist stofnunin einnig líta fram hjá öðrum atriðum sem styðji við frásögn kæranda og maka, þar sem það henti ekki niðurstöðu stofnunarinnar. Telur kærandi ljóst að ekki hafi farið fram sjálfstætt mat á umsókninni þar sem hver liður í umsókninni fái sjálfstætt vægi. Þá sé ljóst að tilgreining á tilteknum leiðbeiningum í lögskýringargögnum með ákvæðinu sé ekki tæmandi og aðeins í dæmaskyni. Sé því ekki málefnalegt að byggja nú á því að aðeins eitt efnisatriða eigi við og þá sérstaklega þegar ekki sé um meirihluta að ræða, rangfærslur séu ekki leiðréttar og horft sé fram hjá eðlilegum skýringum, auk þess sem slík aðferðarfræði skorti alla lagastoð.

Kærandi byggir á því að ekkert þeirra efnisatriða sem tilgreind séu í hinni kærðu ákvörðun hafi með stofnun hjúskaparins að gera, eins og áskilið sé í 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Þá sé ljóst að meirihluti tilgreindra efnisatriða hafi enga eða óverulega þýðingu í heildarmati og önnur atriði eigi sér eðlilegar skýringar. Í fyrsta lagi byggi Útlendingastofnun á því að samskipti maka kæranda við fyrrverandi eiginmann sinn staðfesti grunsemdir á að hjúskapur við kæranda sé til málamynda. Vísar kærandi til þess að maki hans og fyrrverandi eiginmaður hennar hafi verið gift í […] ár og eigi saman tvö börn á skólaaldri, þau hafi skilið að borði og sæng í nóvember 2017 og hefðu þá þegar slitið samvistum, sbr. framsetningu í hjónaskilnaðarbók. Verði ekki séð að þess sé getið í hinni kærðu ákvörðun en telja verði að þessi tenging hafi augljóslega áhrif á öll samskipti. Eðli máls samkvæmt hafi maki kæranda og fyrrverandi eiginmaður hennar enn samskipti sín á milli. Af fyrirliggjandi gögnum liggi jafnframt fyrir að sama dag og þau skildu að borði og sæng hafi verið lagt fram hjá sýslumanni samkomulag um fjárskipti þar sem maki kæranda yfirtaki íbúðalán og eignist 50% eignarhlut fyrrverandi eiginmanns í sameiginlegri fasteign þeirra. Sé það í samræmi við samkomulag um forsjá þar sem komi m.a. fram að börn skuli eiga lögheimili hjá móður fram til 18 ára aldurs. Vísar kærandi til þess að fyrirliggjandi sé yfirlýsing leigusala fyrrverandi eiginmanns maka að hann hafi leigt herbergi frá október 2019 til nóvember 2020 í […] en í hinni kærðu ákvörðun sé það gert grunsamlegt að hvergi komi fram í yfirlýsingunni hvað greitt hafi verið í leigu. Sé rétt að árétta að stofnunin hafi aldrei óskað upplýsinga um það enda komi það ekki málinu við hvernig greiðslum hafi verið háttað en um hafi verið að ræða vinagreiða. Sé fyrrverandi eiginmaður maka nú með skráð heimili að […] í Reykjavík og er því alfarið hafnað að fyrrverandi eiginmaður maka hafi átt heima með maka eftir hjúskaparslit. Þá hafi fyrrverandi eiginmaður maka haft aðgang að ökutæki maka til þess að geta keyrt börnin í tómstundir o.fl. Þá beri að horfa til þess að mat lögreglu byggi í reynd aðeins á líkindum auk þess sem bæði maki kæranda og fyrrverandi eiginmaður hennar tali litla íslensku og að lögregla hafi ekki verið með túlk þegar hún kom í tilvitnaða heimsókn. Að auki beri að hafa í huga áreiðanleika nágranna sem vitnis sé ekki meiri en svo að hann hafi ekki getað farið rétt með hve lengi maki kæranda hefði búið í fasteigninni en um tveimur árum hafi skeikað. Þá virðist byggt á því að maki kæranda og fyrrverandi eiginmaður eigi sameiginlega íbúð að […] og reynt að skapa þau hughrif að fjárhagsleg skipti þeirra hafi aðeins verið til málamynda en það sé efnislega rangt og ekki stutt neinum gögnum. Í því samhengi vilji kærandi árétta að fjárskipti við fyrrverandi eiginmann maka hafi tekið lengri tíma en gert var ráð fyrir í lok árs 2017 en fyrir því séu ýmsar ástæður. Samið hafi verið um að maki kæranda myndi yfirtaka eignarhlut í fasteign þeirra og yfirtaka íbúðalán og hafi maki þurft að standast greiðslumat vegna þess gernings. Þá liggi fyrir að maki kæranda hafi talið eignaskiptum lokið þegar við þinglýsingu skiptayfirlýsingar í nóvember 2020 en nú liggi fyrir að maki sé ein þinglýstur eigandi að umræddri fasteign og hafi verið frá 4. mars 2021. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar í máli 173/2021 en mati kæranda eigi sömu sjónarmið og þar birtist við í máli þessu. Vísar kærandi til þess að meira þurfi að koma til en þetta eina efnisatriði svo hægt sé að færa rök fyrir því að fyrir hendi sé rökstuddur grunur í skilningi 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga.

Í öðru lagi byggi stofnunin mat sitt á því efnisatriði að það séu samtals tvær millifærslur til maka kæranda, samtals að fjárhæð 2,4 m.kr., stuttu eftir að hún hafi gengið í hjúskap með kæranda. Fyrir liggi að um sé að ræða tvær millifærslur frá systkinum maka kæranda sem ætlað hafi verið sem trygging ef maki kæranda þyrfti á að halda við lok fjárskipta við fyrrverandi eiginmann, s.s. við kaup á 50% eignarhlut fyrrgreindar fasteignar. Sé um lán að ræða frá systkinum maka kæranda sem hafi ekkert að gera með kæranda eða fjölskyldu hans. Telji kærandi augljóst að framangreint hafi ekkert með umsókn hennar að gera eða gefi til kynna að hjúskapur hans og maka sé til málamynda. Í þriðja lagi virðist stofnunin gefa til kynna að það skorti upplýsingar um samskipti kæranda og maka eða að fáar myndir séu til af þeim saman en kærandi mótmæli því. Þá sé hvergi að finna nokkur fyrirmæli sem gefi til kynna að það þurfi einhvern tiltekinn fjölda mynda en í umsóknargögnum stofnunarinnar sé hvergi tilgreint að umsækjandi þurfi að leggja fram afrit af myndum eða samskiptasögu, hvorki við afhendingu umsóknar í upphafi eða síðar. Ætli Útlendingastofnun sér síðar að byggja á því að slík gögn skorti beri stjórnvaldinu að leiðbeina umsækjanda við afhendingu umsóknar um að varðveita slík gögn sérstaklega á meðan umsóknin er til meðferðar, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 3. mgr. 11. gr. laga um útlendinga. Vekur kærandi athygli á því að við mat stofnunarinnar virðist engu máli skipta að hann eigi hvorki vini né ættingja á Íslandi, hafi ekki áður sótt um dvalarleyfi á Íslandi, þau tali sama tungumál og tilheyri sama menningarheimi, þau séu á sama aldri og hafi dvalið saman í lengri tíma. Þá hafi stofnunin alfarið látið hjá líða að óska eftir upplýsingum um hvort þau þekki til einstakra atriða úr lífi hvors annars.

Loks byggir kærandi á því að Útlendingastofnun hafi ekki gætt að rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga. Þar sem um sé að ræða mjög íþyngjandi ákvörðun sem beinist að grundvallarmannréttindum um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu verði að gera ríkari kröfur til afgreiðslu stofnunarinnar en hin kærða ákvörðun beri með sér. Taki kærunefndin undir mat Útlendingastofnunar telur kærandi að honum hafi ekki verið gefið tækifæri á að sýna fram á annað með óyggjandi hætti. Hafi stofnunin ekki gætt að andmælarétti hans við meðferð málsins auk þess sem ekki verði annað ráðið en að stofnunin hafi þegar gert upp hug sinn þegar fyrirspurnarbréfið hafi verið ritað enda sé í engu horft til þeirra skýringa sem kærandi hafi komið á framfæri. Þá hafi málsmeðferð hjá stofnuninni dregist úr hófi og telja verði að slíkur dráttur á afgreiðslu málsins og þau áhrif sem það hafi á sambönd, sé ámælisverður og brot á 9. gr. stjórnsýslulaga, enda liggi engar upplýsingar fyrir um ástæður tafanna. Eigi slík töf á afgreiðslu málsins að leiða til ógildingar ákvörðunarinnar enda sé ótækt að láta kæranda gjalda fyrir þá ómálefnalegu töf sem hafi orðið á afgreiðslu málsins. Kærandi vísar jafnframt til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og áréttar að dvalarleyfi kæranda yrði ávallt tímabundið og stjórnvöld geti því hæglega gripið til annarra úrræða í kjölfar þess að dvalarleyfi hafi verið veitt, sé áframhaldandi grunur um málamyndahjúskap til staðar.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 70. gr. laga um útlendinga er kveðið á um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar. Í 1. ml. 8. mgr. 70. gr. laganna segir að sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis og ekki sé sýnt fram á annað svo að óyggjandi sé veiti það þá ekki rétt til dvalarleyfis. Í athugasemdum við 70. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. orðrétt:

„Ákvæðinu er ætlað að heimila synjun á veitingu leyfis ef hægt er að sýna fram á að til hjúskapar hafi verið stofnað í öðrum tilgangi en til samvistar, t.d. til að afla dvalarleyfis. Þegar metið er hvort grunur sé á málamyndahjúskap er m.a. litið til þess hvort aðilar hafi búið saman fyrir stofnun hjúskapar, aldursmunar, hvort þau tali tungumál hvors annars, þekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvors annars og hjúskaparsögu viðkomandi maka og hvort hún veki grunsemdir hvað þetta varðar. Við mat á aðstæðum sem þessum þarf þó að taka tillit til þess að mismunur getur verið á milli menningarheima hvað varðar hefðir og aðdraganda hjúskapar og þekkingu hjóna hvort á öðru við upphaf hjúskapar. Það að aðilar hafi ekki hist áður eða búið saman fyrir stofnun hjúskapar getur ekki verið eini grundvöllur þess að synja um veitingu leyfis á þessum grundvelli heldur verður fleira að koma til sem bendir til þess að um málamyndagerning sé að ræða. Auk þessara þátta getur skipt máli hvort viðkomandi útlendingur hafi áður sótt um dvöl í landinu á öðrum grundvelli, m.a. með umsókn um alþjóðlega vernd og að viðkomandi útlendingur hafi gengið í hjúskap stuttu eftir að þeirri umsókn hafi verið hafnað. Þá getur þurft að líta til þess hvort viðkomandi eigi ættingja hér á landi, maki hérlendis hafi verið giftur á Íslandi og skilið rétt eftir að maki hans eða hann sjálfur hafi öðlast sjálfstæð réttindi hér á landi, hversu oft ábyrgðaraðili hafi verið giftur hér á landi og hvort grunur er um að hann hafi fengið verulegar fjárhæðir sem gætu tengst málinu.“

Í framangreindum athugasemdum er vísað til atriða sem m.a. er unnt að líta til við mat á því hvort um rökstuddan grun sé að ræða í skilningi ákvæðisins. Hins vegar er ljóst að upptalning á þeim atriðum er koma til skoðunar er ekki tæmandi og gilda almennar sönnunarreglur í slíkum málum. Þannig er stjórnvöldum ótvírætt heimilt að líta til annarra atriða en nefnd eru í áðurnefndum lögskýringargögnum enda sé slíkt mat byggt á málefnalegum sjónarmiðum.

Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun var það mat Útlendingastofnunar að fyrir hendi væri rökstuddur grunur um að til hjúskapar kæranda og maka hennar hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla kæranda dvalarleyfis hér á landi. Þá hefði kærandi ekki sýnt fram á annað svo óyggjandi væri. Var kæranda því synjað um dvalarleyfi hér á landi, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Má ráða af ákvörðuninni að Útlendingastofnun byggi mat sitt á eftirfarandi atriðum. Í fyrsta lagi að maki kæranda og fyrrverandi eiginmaður hennar séu enn í nánum samvistum og búi mögulega saman að […], í öðru lagi að maki kæranda hafi fengið millifært inn á reikning sinn samtals hátt í 2,5 m. kr. nokkrum dögum eftir hjúskap og í þriðja lagi að framlagðar ljósmyndir af kæranda og maka séu teknar við fá tilefni þegar litið sé til um fjögurra mánaða samveru þeirra í Víetnam.

Eins og greinir í III. kafla úrskurðarins vaknaði grunur um að til hjúskapar hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis hér á landi við vinnslu dvalarleyfisumsóknar kæranda. Með bréfi, dags. 4. maí 2020, óskaði Útlendingastofnun eftir aðstoð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna gruns um brot á lögum um útlendinga, þ.e. að stofnunin hefði rökstuddan grun um að um mögulegan málamyndahjúskap væri að ræða milli kæranda og maka hans. Er í bréfinu nánar útlistuð þau atriði sem óskað var eftir að yrðu skoðuð. Í lögregluskýrslu, dags. 18. ágúst 2020, kemur fram að lögregla hafi farið að […] sem sé parhús á tveimur hæðum, samtengt […]. Fyrr um daginn hefði enginn svarað þegar lögregla knúði dyra en lögregla hafi rætt við íbúa í […]. Hafi hann upplýst lögreglu um að á annarri hæð hússins nr. […] byggju fjórir einstaklingar: Fullorðinn karlmaður, fullorðin kona og tvö börn. Þegar lögregla hafi knúið á dyr á svalahurðinni á annarri hæð hússins, seinna þann sama dag, hafi maki kæranda komið út og rætt við lögreglu. Hafi henni verið tjáð að grunur lægi fyrir um að hún væri enn í sambúð með fyrrverandi eiginmanni sínum og að lögregla vildi fá að kanna heimilisaðstæður til að kanna hvort það væri á rökum reist. Aðspurð hafi hún tjáð lögreglu að hún byggi þar ásamt börnum sínum tveimur. Á meðan samtalið hafi átt sér stað hafi lögregla séð inn um gluggann dökkhærðan karlmann, klæddan í gulan bol og gráar íþróttabuxur, ganga niður stiga á fyrstu hæð hússins. Hafi maki kæranda gefið lögreglu ófullnægjandi svör við því hver viðkomandi maður væri en veitt lögreglu heimild til að fara inn á heimilið en þegar inn var komið hafi karlmaðurinn í gula bolnum hvergi verið sjáanlegur. Inni í svefnherbergi maka kæranda hafi verið tvíbreitt rúm með þremur koddum og breiðri sæng og á veggnum hafi verið tvær innrammaðar ljósmyndir en önnur þeirra virst vera brúðkaupsmynd af maka kæranda og karlmanni. Aðspurð hafi maki tjáð lögreglu að maðurinn á myndinni væri […], þ.e. fyrrverandi eiginmaður sinn.

Vísar skýrsluhöfundur til þess að þegar lögregla hafi yfirgefið heimilið hafi hún séð fyrrgreinda manninn í gula bolnum vera að ganga til vesturs í átt að […] og hafi lögregla gefið sig á tal við hann. Aðspurður hafi hann kvaðst heita […] og gefið upp kennitölu sína en hann hefði ekki verið með skilríki meðferðis. Hafi hann í fyrstu neitað að hafa verið inni í […] þegar lögreglu bar að garði en breytt framburði sínum þegar honum hafi verið tjáð að lögregla hefði séð hann í húsinu. Hafi hann þá tjáð lögreglu að hann hafi verið að heimsækja son sinn og laga hjólið hans og aðspurður kvaðst hafa verið að fara heim til sín í […], íbúð […]. Vísar skýrsluhöfundur til þess að […] hafi verið að ganga niður göngustíg til suðurs þegar lögregla náði tali af honum en […] hafi verið í norðurátt. Þegar lögregla hafi upplýst hann um að hún þyrfti að fara með honum heim til hans til þess að sjá skilríki hafi hann tjáð lögreglu að hann væri ekki með lykil að íbúð sinni og hafi ekki getað gefið skýringu á því. Hafi […] tjáð lögreglu að hann byggi ekki í […] en hann kæmi stundum í heimsókn til að hitta son sinn. Hafi lögregla rætt aftur við […], nágranna maka kæranda, honum verið kynnt vitnaskylda og vitnaábyrgð. […] var sýnd ljósmynd af […] og hann spurður hvort hann þekkti viðkomandi. Hafi […] tjáð lögreglu að aðilinn á myndinni væri með fasta búsetu í […] og hefði búið þar síðan árið 2015 auk þess sem aðilinn hefði aðgengi að bifreið sem lagt væri fyrir utan […] og væri skráð í eigu maka kæranda. Kemur fram í niðurlagi skýrslunnar að það væri mat skýrsluhöfundar að maki kæranda og […] væru líklega enn í sambúð og að […] virtist enn búa í […]. Þá væri ekki hægt að sjá að svefnpláss væri fyrir hann annar staðar í fasteigninni en í herbergi maka kæranda, þar sem væri tvíbreitt rúm. Þá hefði framburður þeirra beggja verið ótrúverðugur og á reiki. Í skýrslunni kemur einnig fram að við athugun lögreglu á umræddri fasteign var að finna brúðkaupsmynd af maka kæranda og fyrrverandi eiginmanni hennar, hengda upp í svefnherbergi maka kæranda.

Maki kæranda og fyrrverandi eiginmaður hennar skildu að borði og sæng þann 27. nóvember 2017 og höfðu samkvæmt fyrirliggjandi hjónaskilnaðarbók þá þegar slitið samvistum. Í samningi um fjárskipti vegna skilnaðar, dags. 27. nóvember 2017, kemur fram að maki kæranda taki við 50% eignarhluta fyrrverandi eiginmanns síns vegna fasteignarinnar að […] og um leið taki hún ein við fasteignaláni á eigninni en aðrar skuldir fylgi hverri kennitölu fyrir sig. Þá kemur fram að maki kæranda eignist tilgreinda bifreið. Maki kæranda og fyrrverandi eiginmaður hennar skildu að lögum þann 13. ágúst 2018. Í skiptayfirlýsingu, dags. 27. nóvember 2020, kemur fram að kærandi og fyrrverandi eiginmaður lýsi því yfir að með samningi um fjárskipti, dags. 8. júlí 2020, hafi kærandi orðið ein eigandi að fasteigninni að […]. Var skiptayfirlýsingunni þinglýst 23. febrúar 2021. Í yfirliti frá Creditinfo fyrir fasteignina […], sem sótt var þann 24. febrúar 2021, kemur fram að kærandi og fyrrverandi eiginmaður hennar eigi hvort um sig 50% eignarhlut í fasteigninni en ekkert í fyrirliggjandi gögnum málsins bendir til þess að það hafi breyst. Kærandi byggir þó í greinargerð á því að maki sinn hafi ein átt eignina frá 4. mars 2021, þ.e. að hún hafi eignast eignina tæplega fjórum árum eftir ofangreinda skiptayfirlýsingu.

Að mati kærunefndar veitir allt framangreint vísbendingu um það að kærandi og fyrrverandi eiginmaður hennar séu enn í samvistum og búi saman í […]. Þá er jafnframt mat kærunefndar að fjárskiptasamningur þeirra hafi verið fyrst og fremst til málamynda en gögn málsins benda ekki til þess að skipti á fasteign þeirra hafi enn komið til framkvæmda, um fjórum árum eftir að umræddur samningur var gerður. Þótt það yrði lagt til grundvallar, í samræmi við staðhæfingu í greinargerð kæranda, að maki kæranda eigi nú ein fasteignina er ljóst að engin raunveruleg hreyfing varð á framkvæmd fjárskiptasamningsins fyrr en Útlendingastofnun hóf rannsókn á dvalarleyfisumsókn kæranda en af hálfu kæranda hafa ekki komið fram skýringar á því hvers vegna skiptin hafi dregist svo á langinn.

Þá er í framlögðu reikningsyfirliti maka kæranda að finna tvær millifærslur sem framkvæmdar voru með símgreiðslu, þann 7. ágúst 2019 að fjárhæð 1.216.400. kr. og þann 9. ágúst 2019 að fjárhæð 1.220.600. kr., eða skömmu eftir að maki og kærandi gengu í hjúskap, þ.e. hinn 2. ágúst 2019. Eins og að framan greinir er í lögskýringargögnum með ákvæði 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga m.a. vísað til þess að það hvort grunur sé um að ábyrgðaraðili, þ.e. maki eða annar nátengdur málinu, hafi fengið verulegar fjárhæðir sem gætu tengst málinu geti vakið rökstuddan grun um að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis. Af hálfu kæranda er á því byggt að umræddar greiðslur hafi verið lán frá fjölskyldu maka kæranda vegna uppgjörs hennar og fyrrverandi maka hennar vegna fjárskipta þeirra í kjölfar hjúskaparslita. Kærunefndin getur ekki fallist á þær skýringar. Er í því samhengi til þess að líta að umræddrar millifærslur voru framkvæmdar með símgreiðslum og er uppruni þeirra óþekktur. Ljóst er að millifærslurnar voru framkvæmdar örfáum dögum eftir að kærandi gekk í hjúskap með maka sínum en engar skýringar liggja fyrir um það hvers vegna fjölskylda maka kæranda hafi þá ákveðið að lána henni umrædda fjárhæð, enda var þá nokkuð um liðið frá því að hún og fyrrverandi maki hennar höfðu skilið að lögum þrátt fyrir að hafa ekki gert reka að því að ganga frá fjárskiptum sín á milli. Þá verður ekki framhjá því litið að maki kæranda og fyrrverandi maki hennar gengu síðan ekki frá fjárskiptunum fyrr en löngu eftir að maki kæranda tók á móti greiðslunum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það mat kærunefndar að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að til hjúskaparins hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Þá hefur að mati nefndarinnar ekki verið sýnt fram á svo óyggjandi sé að til hjúskaparins hafi verið stofnað í öðrum tilgangi en að afla dvalarleyfis. Samkvæmt framansögðu veitir hjúskapur kæranda og maka hennar því ekki rétt til dvalarleyfis vegna fjölskyldusameiningar, sbr. 69. og 70. gr. laga um útlendinga. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest. Þar sem börn kæranda byggja rétt sinn á umsókn hans verða þær ákvarðanir Útlendingastofnunar jafnframt staðfestar.

Vegna athugasemdar í greinargerð kæranda tekur kærunefnd fram að þegar 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga á við eru ekki vægari úrræði tiltæk en synjun á umsókn um dvalarleyfi. Þá er ljóst að Útlendingastofnun hefur víðtækar heimildir til gagnaöflunar á grundvelli 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga og 10. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Ber stofnuninni skylda til að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, en í því felst m.a. að stofnunin geti kallað eftir frekari gögnum, s.s. afritum af samskiptasögu og ljósmyndum. Á það sérstaklega við þegar grunur vaknar um að ákvæði 8. mgr. 70. gr. kunni að eiga við í máli umsækjanda um dvalarleyfi. Gerir kærunefnd því ekki athugasemd við gagnaöflun Útlendingastofnunar í málinu. Þá hefur kærunefnd endurskoðað ákvörðun Útlendingastofnunar og komist að sömu niðurstöðu.

Eins og áður greinir lagði kærandi fram dvalarleyfisumsóknir þann 19. nóvember 2019 fyrir sig og börn sín og tók Útlendingastofnun ákvörðun í málunum þann 23. júní 2021, eða um 19 mánuðum síðar. Þótt játa verði Útlendingastofnun ákveðið svigrúm til þess að afla gagna og framkvæma fullnægjandi rannsókn þegar stofnunin telur ákvæði 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga koma til álita í máli, er ljóst að málsmeðferðartími stofnunarinnar fór í bága við fyrirmæli 9. gr. stjórnsýslulaga um málshraða. Hins vegar lítur kærunefnd til þess að í stjórnsýslurétti teljast tafir á meðferð máls almennt ekki til annmarka sem leiði til ógildingar á ákvörðun nema sérstök lagafyrirmæli komi til, en slík lagafyrirmæli er ekki að finna í VIII. kafla laga um útlendinga. Að öðru leyti telur kærunefnd ekki tilefni til umfjöllunar um þau rök sem kærandi hefur fært fram við meðferð málsins hjá nefndinni.

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru staðfestar.

The decisions of the Directorate of Immigration are affirmed.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum